Þáttaröðin um Brigitte Bardot vekur upp pælingar um áhrif 20. aldarinnar á okkur öll

Nýalsstefnan er falleg að mörgu leyti, eins og hvernig í henni er boðað að allir fái að njóta sín. Maður spyr sig hvaða fólk hefur fengið að njóta sín bezt? Eru það þeir sem eru ríkastir og frægastir, eða getur farsældin verið fólgin í barnaláni, mörgum erfingjum og hamingju sem ekki er verið að bera á torg en hinir nánustu skynja?

Fólk sem les Nýala dr. Helga Pjeturss rekur sig á orðalag sem það skilur kannski ekki strax, eins og orðið samstilling. Það orð notar dr. Helgi mikið í bókum sínum, en hann á við kærleikann og þó miklu meira en bara kærleikann. Hann á við að fólk sé sammála, komi sér saman um grunngildi og vinni saman að einhverju takmarki. Hann á jafnvel við fleira en það, eins og að fólk láti af eigingirni og sjái hin stærri markmið.

Auðvitað má segja að dr. Helgi Pjeturss hafi búið til trúarbrögð, en Íslendingar eru bara ekki Ísraelsmenn eins og þeir voru til forna, eða aðrar þjóðir sem tóku á móti meisturum og með þrautseigju og trúnaði bjuggu til trúarbrögð. Það eru fylgjendurnir sem búa til trúarbrögðin ekki síður en leiðtoginn eða leiðtogarnir sem eru upphafsmennirnir, því án hinna þrautseigu fylgjenda verða engin trúarbrögð til.

Þó er auðvitað rétt að benda á að sjálfur vildi dr. Helgi láta kalla sig vísindamann, en hann gerði sér samt grein fyrir því að kenningar hans voru ósannanlegar, en viðleitni til vísinda í andlegum málum, og því notaði hann stundum það orðalag að fólk yrði að trúa á hann til að fá umbun.

Bara þetta eina orð um Íslendinga, samstilling, það segir meira en þúsund orð. Dr. Helgi talaði um það í ótalmörgum blaðagreinum og bókum að þjóðina okkar skorti samstillingu.

Við sjáum í nútímanum að enn er þetta þannig. Allir eða flestir eru á egótrippi, eða í sjálfhverfuferð um veröldina og lífið. Kristin trú sem var sameiginleg fyrri kynslóðum er eins og fjarlæg firra fyrir flesta og eitthvað ósannað - eins og andatrú eða hvaðeina annað af þessu tagi sem lýtur að trúmálum.

Dr. Helgi sagði að sambandið við önnur mannkyn sé það sem eigi að sameina fólk. Hann vildi að stjörnusambandsstöð yrði reist í Öskjuhlíðinni, og Perlan líkist raunar stjörnusambandsstöð í útliti, en er notuð í annað. Enda er áhugi fólks á andans málum og framlífi ekki eins mikill á okkar tímum og hann var í upphafi 20. aldarinnar.

Skoðanir mínar á femínisma eru talsvert mikið tilkomnar vegna mömmu, og ömmu, samanburðinum á þeim tveimur.

Síðan skoðar maður mannlífið og maður myndar sér skoðanir, dregur ályktanir.

Þarf maður að hafa ferðazt til annarra landa til þess? Nei.

Maður les heillandi lýsingar frá útlöndum, og svo aðrar síður heillandi sem lýsa jafnvel eymd sem er meiri en þekkist á okkar landi.

Það er svo merkilegt með mannssálina, undir þrýstingi og kúgun verður hún að demanti, en undir minni þrýstingi verður hún að krít eða ösku.

Já, það er sama efnið sem er í demanti og ösku, það er kolefni. Það er hinn mikli þrýstingur sem býr til hinn fallega og gljáandi demant, en það er bruni kolefnanna sem býr til öskuna.

Eitt sinn eignaðist fólk á Íslandi 10 börn eða fleiri. Þá var barnadauði algengur. Þá var sagt manna á milli, að ekki væri að sýta það þótt sum börn yrðu að aumingjum, því ekki væri eins sterkt efnið í öllum. Þá var einnig sagt að börnin ættu að sjá um foreldrana þegar þeir yrðu farlama af elli.

Nú er það ríkið sem á að sjá um alla sem eiga bágt! Hvar er ábyrgð einstaklingsins?

Amma mín, Sigríður Tómasdóttir, hún ól mig upp frá því ég var nýfæddur og fram að 5 ára aldri miklu meira en mamma, því mamma var alltaf að djamma og vinna, og þau pabbi slitu samvistum áður en ég varð eins árs, og þekkti því pabba alltaf í fjarska. Þegar ég kynntist honum betur komst ég að því að hann er ekkert sérlega góður eða merkilegur miðað við marga aðra sem ég hef kynnst.

Já ömmu mína þekkti ég vel. Svo seinna gat ég myndað mér skoðanir á henni sem voru þroskaðri, með því að bera hana saman við aðra.

Hina ömmuna mína þekkti ég líka nokkuð vel, sem hét Fanney Gísladóttir Hagalín, systir Guðmundar Hagalíns, hins fræga rithöfundar.

Önnur kona reyndist mér líka mjög vel í bernsku minni, sem var gift bróður hans pabba, sem hét Ingólfur eins og ég, hún er enn á lífi og heitir Helga Guðmundsdóttir. Hún var eins og þessar gömlu húsmæður, alltaf að hugsa um fjölskylduna og heimilið, þótt hún ynni líka úti sem arkitekt, en með því að þau voru samhent í fjölskyldunni tókst henni bæði að sjá um heimilið og vinna úti.

Þegar ég var barn og unglingur þá þurfti ég oft að hlusta á rifrildin á milli mömmu og pabba bæði um mig og svo almennt um önnur mál sem þau gátu ekki verið sammála um, eins og stjórnmál, pabbi jafnaðarmaður, kaus Alþýðuflokkinn og mamma flakkandi á milli Kvennalistans og Sjálfstæðisflokksins.

Ég fékk oft að heyra þær skoðanir frá pabba að mamma væri ómöguleg vegna þess að afi hafi ekki rassskellt hana nóg eða alið hana nógu vel upp.

Þegar maður er barn og unglingur þá myndar maður sér ekki skoðanir á svona skætingi í foreldrum sínum. Stundum særir þetta mann svo mikið að þetta grætir mann þegar maður er krakki þó.

Síðan þegar maður kemst yfir tvítugt þá fer maður að sjá þetta í fjarlægð og bera foreldrana saman við annað fólk og þá myndast skoðanir sem verða kannski á endanum nokkuð raunsæjar og nærri lagi.

Stelpurnar á mínum aldri minntu mig meira á mömmu en ömmu hvað það varðaði að þær voru útflippaðar og óagaðar margar, en ekki ömmurnar mínar.

Ég kynntist reyndar báðum langömmum mínum smávegis í móðurættinni.

Ég var bara tæplega þriggja ára þegar Ragnheiður langamma mín dó, sem var mamma hennar Sigríðar ömmu.

Hún bjó í einu herbergi hjá Ingvari og Heiðu á þeim tíma. Ég man að ég settist á rúmið hennar og hún talaði við mig nokkur orð.

Ég man ekki nema brot af þessu, en einhver hughrif sitja enn í mér eftir að hafa talað við hana svona ungur.

Ingvar og Heiða snertu ekkert við herberginu hennar eftir að hún dó, nema Heiða þurrkaði rykið af og svoleiðis. Það var látið óhreyft á meðan húsið þeirra stóð uppi til 2006. Þannig að hluti af minningunum um hana Ragnheiði langömmu eru samsettar, því ég man eftir herherginu hennar sem ég kom inní eftir að hún dó, þegar ég var í heimsókn hjá Ingvari og Heiðu.

En ég man meira eftir hinni langömmunni, sem hét Guðlaug eins og mamma. Hún var hörð í andliti, hafði misst mörg börn sem höfðu verið skorin út úr henni, vegna lélegra ljósmæðra og vandræða með að fæða.

Það var dýrmætt að kynnast henni. Í henni mættist landslagið, bæði mýktin og harkan í sömu konunni.

Hún heklaði og saumaði mikið. Hún heklaði mjög falleg sjöl, silimjúk, og klúta og margt fleira, í fallegum litum.

Það var kona sem lét aldrei veikindi eða erfiðleika stöðva sig.

Allar þessar gömlu konur, langömmurnar tvær sem ég kynntist og svo ömmurnar tvær, þær voru af allt öðru "kalíberi" en yngri konur sem ég hef kynnzt - með auðvitað nokkrum undantekningum að vísu - eins og eru á öllum reglum.

Ég var auðvitað of ungur til að kynnast þeim náið, en ég heyrði af því seinna að þær hefðu verið miklar tungumálamanneskjur, og jafnvel langafarnir mínir báðir. Þetta fólk hlustaði á "Íslenzkt mál" í útvarpinu og passaði að tala gott og rétt mál, og vandaði um við afkomendur og aðra sem ekki töluðu rétt!

Afi minn Jón lærði talsvert af föður sínum. Hann varð snemma blindur og sjóndapur þar á undan, en fram að þrítugu og fertugu á meðan hann gat lesið þá las hann allt sem hann komst í og hafði frábæra námshæfileika.

Þannig var það með Agnar langafa minn, sem var faðir Jóns afa, að hann lærði vélfræði, og eitthvað í eðlisfræði og efnafræði bara í sjálfsnámi og eitthvað nám var í sveitunum hjá prestunum reyndar líka.

Þetta gamla fólk skildi ekki hvað ég var latur við námið og vildi bara vera frægur tónlistarmaður!

Þegar ég fullyrði það núna, ekki lengur barn, að öll íslenzka þjóðin sé óuppalin, þá er nokkuð til í því.

Maður les um að skólarnir séu í algjöru rugli, og maður er varla hissa á því.

Pabbi sakaði Jón afa um að hafa ekki alið mömmu nógu vel upp, vegna skorts á aga.

En pabbi er ekki fullkominn heldur.

Þetta er flóknara en svo að hægt sé að skella skuldinni á fyrstu kynslóðina á mölinni, afa og ömmu og fólk af þeirra kynslóð.

Fyrirmyndirnar komu frá útlöndum.

Það er verið að sýna þáttaröð um Brigitte Bardot á RÚV. Hún var í miklu uppáhaldi hjá mömmu.

Svona áhrifavaldar höfðu mikil áhrif á kynslóð mömmu og allar hinar á eftir, það er að segja áhrifavaldar sem verða að teljast uppreisnarseggir gegn kristilegum gildum og þessu sem hafði tíðkazt þar á undan.

Það er því rangt að segja að foreldrarnir ráði öllu um uppeldi barna sinna. Hollywoodmenningin stjórnaði næstum jafn miklu og gerir enn.

Núna getur fólk horft til baka og sagt að það hefði átt að banna sjónvarpið, kvikmyndahúsin, krárnar og hvaðeina sem var siðspillandi, en það er gott að vera vitur eftirá, þannig er þetta alltaf. Núna er þetta búið og gert og menningin komin á allt annan stað, afleiðingarnar orðnar augljósar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ingólfur Sigurðsson

Höfundur

Ingólfur Sigurðsson
Ingólfur Sigurðsson

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • 5
  • 4
  • 3
  • Image 004
  • Titilblað

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.11.): 35
  • Sl. sólarhring: 64
  • Sl. viku: 791
  • Frá upphafi: 125813

Annað

  • Innlit í dag: 27
  • Innlit sl. viku: 569
  • Gestir í dag: 23
  • IP-tölur í dag: 22

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Leita í fréttum mbl.is

Nýjustu myndböndin

Heilbrigðisráðherrann, helbrigðaráðherfan

Í hópnum finn ég hlýja barnatrú

Aldrei fellur auðmagnskerfið

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband