30.9.2024 | 17:55
Sagan á bakvið lagið "Aldrei skaltu elska hana", frá 1996.
Ég var ekki farinn að gefa út tónlist á þessum tíma, það gerðist 1998, með diski sem inniheldur 11 ábreiður, lög eftir Bob Dylan á ensku, og svo eitt Bítlalag, "She Loves You".
En árið 1996 var ég farinn að taka upp í Fellahelli. Það voru í upphafi lögin um umhverfisvernd, 10 stykki, sem áttu að koma út. Nema hvað að upptökurnar skiluðu ekki því sem ég vildi, 15. apríl 1996, 23. apríl 1996 og 30. apríl 1996.
Ég er mjög kröfuharður á þetta. Bæði fannst mér vanta uppá hljóminn og eins fannst mér vanta uppá eitthvað í flutningnum.
Í sumum tilfellum var hvert umhverfisverndarlag eftir mig sungið inn á ADAT bandið meira en 10 sinnum, og 10-20 tökur eru þá til af hverju lagi, en það dugði samt ekki til. Ég var því orðinn gramur og vildi árangur strax. Mér fannst útkoman úr hljóðverinu í Fellahelli ekki vera neitt skárri en úr mínu hljóðveri í herberginu mínu.
Fyrsta daginn sem ég hljóðritaði í Fellahelli, 15. apríl 1996, notaði ég upphitunarlög eftir Bob Dylan. Þessi upphitunarlög tók ég aftur upp 1998 í Fellahelli, og þau voru gefin út á fyrstu plötunni. Kanadamaðurinn Adam Wright var þá fyrir framan takkana í hljóðverinu og þá náði ég því sem ég leitaði að, hljóð sem virkar eins og hjá stórstjörnunum í poppinu, hann náði því fyrir mig.
Aftur var upptökulota í Fellahelli þann 13. maí 1996. Þá tók ég aðra nálgun á þetta og þá tók ég upp ósköpin öll af slögurum eftir aðra, næstum 20 stykki. "Ég bið þig", sem Vilhjálmur Vilhjálmsson söng, við texta Ómars Ragnarssonar, "Stál og hnífur" eftir Bubba Morthens, "Þar sem fyrrum", eftir Oddgeir Kristjánsson, "Dagný" eftir Sigfús Halldórsson, "Ó þú" eftir Magnús Eiríksson, og mörg fleiri.
Útkoman var ekki slæm, en samt ekki endilega eitthvað sem ég vildi gefa út.
Það sem eftir lifði af maímánuði 1996 var mér erfiður tími. Ég hafði eyrnabólgu og kvaldist mjög þess vegna, og svo hafði ég misst nána ættingja og stelpu sem ég þekkti úr Menntaskólanum í Kópavogi, og allt tók þetta á og ég syrgði þetta fólk, og var virkilega langt niðri.
Auk þess var ég farinn að halda að kannski væru það draumórar útí loftið að ég myndi verða fræg poppstjarna. Þesskonar efi var mér ekki að skapi, en hann vaknaði vegna þess að ég gerði strangar kröfur til mín, og útkoman úr Fellahelli var ekki þannig að það væri á við beztu söngvara landsins, og lagasmíðarnar mínar heldur ekki endilega neitt sem ég taldi að allir myndu kaupa.
Vissulega var ég með allskonar verkefni í gangi. Bæði voru til plötur um ástina og svo um gagnrýni á femínismann. Þetta allt vildi ég gefa út, en ég átti erfitt með að velja lög eftir sjálfan mig sem væru verðug að læra þau. Auðveldast var að gleyma þeim nýkomnu.
En 8. júní 1996 samdi ég nokkur lög sem mér fannst standa uppúr. Þau sem sagt voru mjög einarðleg, í því sem sumir myndu kalla kvenhatur, en auðvitað er það einföldun og ekki endilega eina rétta skýringin.
Það var heitt þennan dag, mikið sólskin. Það var bíll í portinu á bakvið verkstæðið, skúrinn. Ég settist inní þennan bíl með stílabók og penna. Þar skrifaði ég niður textana. Klukkan var um eitt, rétt eftir hádegið. Það tók mig innan við klukkutíma að pára niður nokkra texta, og ég var fljótur að því.
Suma daga leið mér vel og þá skrifaði ég eitthvað um ástina eða annað jákvætt. Þennan dag leið mér ekki vel. Þetta var afmælisdagur Ingvars frænda sem hafði dáið 23. maí 1996. Ég hugsaði mikið um það mótlæti sem hann hafði mætt í lífinu, og hvernig Nýalsstefnan var ekki viðurkennd í þjóðfélaginu. Ég hugsaði einnig um allt það mótlæti sem ég hafði mætt í lífinu. Ég hugsaði um sperrta femínistana sem boðuðu eld og brennistein yfir karlkynið og menninguna, fortíðina, feðraveldið.
Sem mótvægi við sperrta femínista sem þóktust allt vita og mega og geta, þá samdi ég nokkur andfemínísk lög og texta, og reyndi að hafa þá eins ýkta og ég gat, þetta átti að vera "ultimatum", endanleg afgreiðsla á femínismanum!
"Kúgaðu allar konur", "Allar konur elska ofbeldi," Ég hef aldrei elskað stelpur", "Aldrei skaltu elska hana". Þetta voru textarnir fjórir sem mynduðu grunninn. Síðan sama dag sá ég eftir öllu saman og skrifaði umbreytta texta:"Ég hef alltaf elskað stelpur", "Bannað er að berja hana", "Kúgaðu alla karla", og fleiri í þeim dúr. Þessir textar gengu við sömu lagboðana.
Ég fór strax inní herbergið mitt að taka þetta upp, og þá hefur klukkan verið um tvö, og þá bætti ég við fleiri textum og lögum og tók mikið upp þennan dag. Aðfaranótt þessa dags var ég einnig að taka upp, fram undir morgun.
En gleðileg kveðja gat orðið súrsæt fyrir mig þegar fyrir var reiði í minni sál og óhamingja út af öðrum ástæðum, eins og andláti tveggja eldri frænda og einnar vinkonu.
Konan hans Ingvars var Aðalheiður, og systir ömmu. Því voru það bræður sem kvæntust systrum.
En þrátt fyrir að ég hafi kunnað vel við Heiðu, konuna hans Ingvars að nokkru leyti, þá líkaði mér ekki við hana að öllu leyti.
Hjónabönd eru stundum svona, að makinn þarf að sætta sig við ofbeldi. Ingvar frændi var beittur ofbeldi af Heiðu konunni sinni, en það var andlegt. Þó var það tvíbent, því hún var líka góð kona og vel kristin, en hún gat verið köld í viðmóti og hvassyrt, og stóð fast á sinni sannfæringu sem ekki var nýölsk.
Heiða frænka var spíritisti og kristinnar trúar. Þau ræddu oft um þessi mál. Samtalstækni hennar var á þá lund að hún afneitaði ekki Nýalskenningunni beint, heldur fór hún útí allt það góða í Biblíunni sem var henni kært og hjartfólgið, og lét líta út fyrir að það væri æðra Nýalsstefnunni. Það var hennar barnatrú sem stjórnaði henni.
Hjón eiga oft í valdabaráttu sín á milli. Þetta var slíkt dæmi. Andleg togstreita.
Ég fyrirgaf henni ekki að standa ekki nóg með manni sínum. Fyrir mér var Nýalsstefnan eina vonin fyrir Íslendinga og allt mannkynið, og því fannst mér það ófyrirgefanlegt af frænku minni að halda fast í þessa gömlu og úreltu trú, kristnina.
Ég samdi lagið "Aldrei skaltu elska hana" nokkuð á þessa lund. Ég var að tala þetta inní sjálfan mig, að verða aldrei kúgaður eiginmaður, að ef ég myndi eignast konu skyldi ég stjórna henni en hún ekki mér.
Næsta upptökulota í Fellahelli var 1. júlí 1996. Þá tók ég upp í fyrsta sinn þessi nýju lög og nokkur í viðbót eldri af sama tagi. Það var eins og þegar Bob Dylan tók upp "Like A Rolling Stone", 30 árum fyrr rúmlega. Í því lagi er einnig kvenhatur og nóg af því.
List er fyrir mér allskonar. Með þessu lagi og öðrum svipuðum var ég líka að mótmæla þeirri kennslu sem ég fékk í bragfræði hjá Ingvari frænda.
Hann sagði að maður ætti aldrei að yrkja um neitt neikvætt, bara um það sem var fallegt. Þetta stangaðist á við það sem ég lærði hjá Megasi, en hann vildi fagna mannlífinu í ljótleika og fegurð til jafns, og vildi gjarnan draga uppúr sálardjúpunum það sem aðrir vildu fela.
Í þessu var ég sammála Megasi. Þarna hafði ég sett saman kvæði sem voru framúrskarandi í ljótleika sínum og því fagnaði ég og var montinn og stoltur af þeim.
Mér finnst tíminn hafa sannað að þessi verk voru tímamótaverk. Femínisminn hefur orðið harðari, og því standast þau tímans tönn og eru áminning. Þau áttu alltaf að vera þetta, minnisvarði um hataðar skoðanir, eitthvað fært í letur sem sumir vildu fela, en allt þarf að koma uppá yfirborðið og vera aðgengilegt til gagnrýni og skoðunar. Fólk getur ekki þroskast nema það sjálft kynni sér málin.
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (25.12.): 108
- Sl. sólarhring: 150
- Sl. viku: 772
- Frá upphafi: 130357
Annað
- Innlit í dag: 71
- Innlit sl. viku: 578
- Gestir í dag: 69
- IP-tölur í dag: 69
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.