26.9.2024 | 00:46
Blústónlist er mjög skemmtilegt að spila, með öðrum aðallega, sem kunna vel til verka
Stundum hef ég farið á Músíktilraunir sem áhorfandi. Þannig var það 2012. Það var í marzmánuði og þá gerðist það að í hléinu gaf sig á tal við mig ungur maður sem sagðist heita Daníel, og að hann þekkti einn frænda minn í gegnum ömmu sína. Já, ég sagðist hafa heyrt um hann og vissi til hans. Hann sagði að þeir strákarnir þrír væru að fara að spila eftir hlé.
Ungi maðurinn sagðist vita að ég væri tónlistarmaður og vildi að ég gæfi sér álit mitt á hljómsveitinni sinni sem héti Bakkus. Ég sagðist til í það og skyldi tala við þá eftir tónleikana.
Eftir að Músíktilraunakvöldinu lauk spjallaði ég betur við hann og hina tvo. Ég sagði að ég hafi kunnað vel að meta þetta rokk sem þeir spiluðu.
Danni var ekki lengi að bjóða mér að hlusta á þá strákana í æfingahúsnæði í Bíldshöfðahverfinu. Hann bætti því einnig við sem vakti enn meiri áhuga hjá mér, að hann vildi fá mig til að spila og syngja lög með hljómsveitinni. Þetta leizt mér alveg prýðilega á, og við ákváðum að hittast næst þegar æfing yrði. Ég mætti þangað á tilsettum tíma með texta og lög sem ég kunni eftir mig.
Þetta ár áttum við eftir að hittast mjög oft í þessu æfingahúsnæði í Bíldshöfðanum. Þegar á leið mætti ég með vídíókameru og tók æfingar upp til að vega og meta hvað væri bezt.
Danni vildi að við færum í stúdíó og gæfum út plötu og myndum spila á pöbbum.
Það varð ekki úr því, en næstum því.
Nýlega var ég að horfa á myndbönd og myndefni sem ég tók upp á þessum æfingum. Þótt hljómgæðin séu ekki mjög góð er ég býsna ánægður með útkomuna, tónlistarlega séð.
Við spiluðum alveg fram í desember 2012. Einhverra hluta vegna hættum við þá. Það gerðist eins og svo oft með hljómsveitir, eins og fyrir tilviljun. Þannig var að einn strákanna hafði ekki tíma í æfingar, fór til útlanda ef ég man rétt, og svo bara datt þetta upp fyrir sig eftir það og við nenntum ekki aftur.
Danni tók mestu ástfóstri við eitt lag eftir mig sem heitir "Kúgaðu allar konur". Ég vildi ekki móðga áheyrendur, og því prófuðum við lagið undir öðrum textum sem ég hafði gert við laglínuna, "Kúgaðu alla karla" og "Bannað er að berja hana".
Hinsvegar fannst mér skemmtilegast að spila blús með þeim. Ég kynnti fyrir þeim næstum 10 blúsa eftir sjálfan mig og mér fannst þeir hljóma miklu betur með strákunum en mér einum. "Nýr blús um ástandið", "Hvers vegna velur maðurinn aðeins það ranga?" , "Alls staðar er eymdin", "Ástandið", "Hvar er jafnrétti?" og fleiri slíkir.
Danni átti stóran þátt í útsetningunum og allir strákarnir þrír. Mér finnst gott að ég á þessar upptökur, ég myndi vilja leggja þær til grundvallar ef seinna verður reynt að spila þessi lög með hljómsveitum.
Blúsarnir fannst mér gæðast lífi í meðförum piltanna. Kannski má segja að þeir hafi átt næstum jafn mikið í þeim tónsmíðum og ég eftir breytingarnar, en textarnir áfram eftir mig frá orði til orðs.
Sumt af þessu hljómar sem pönk, annað sem rokk, eða popp eða blús.
Það varð minniháttar ágreiningur í hljómsveitinni okkar - eins og verður í næstum öllum hljómsveitum - sem varð kannski til þess að við hættum að spila saman fyrr en ella, en ég veit það samt ekki, kannski voru ástæðurnar aðrar, að trommarinn þurfti að ferðast, og síðan að Danni varð líka upptekinn við launað starf sem hann var byrjaður í.
Málið var að ég var orðinn pirraður á því að syngja alltaf lagið "Kúgaðu allar konur", og vildi prófa og æfa önnur lög. Það gerðum við.
En þeir voru hinsvegar held ég þreyttir á öllum þessum blúsum mínum, sem þeim fannst of langir og langdregnir.
Hægt er að safna saman um það bil 10 lögum sem hljóma vel af þessari vinnu. Þau eru að vísu flest í mjög slæmum hljómgæðum þannig að textinn heyrist ekki, en við rokkum feitt í mörgum lögum, heldur betur.
Þeir byrjuðu nokkrum árum seinna að spila á pöbbum án mín, en þeir gáfu víst aldrei út disk.
Ég vildi skrifa þennan pistil til minningar um Danna, sem lézt fyrir tæpum tveimur árum, kannski vegna Covid-19 sprautu, en það er ekki víst, en einhver veira var það sem varð honum að bana. Mjög sorglegt.
Einnig vildi ég halda því til haga að þessi tónlist sem við bjuggum til saman var góð. Ekki fullkomin eða fullæfð, en samt átti alveg mjög góða möguleika á að verða eitthvað merkilegt.
Eitt lag eftir mig sagði hann að minnti sig á "Strawberry Fields Forever", sýrutónlist, "Þróun verri staða", heitir það, af Fyrri byggðir frá 2002. Ég var ánægður að heyra þetta, því ég er Bítlaaðdáandi og kom inn þannig áhrifum í þetta lag viljandi þegar ég samdi það.
Málið er að ég hef sjaldan spilað með hljómsveitum. Þetta var það lengsta sem ég hef spilað í hljómsveit, í nokkra mánuði.
Fyrst var það 1986. Ég held að þeir hafi kallað sig "New Wave". Þannig var að ég spilaði á Litlu jólunum í Digranesskóla í desember 1985. Það vakti mikla lukku. Ég var fenginn til að semja lag og texta fyrir árshátíð þegar útskriftin yrði í apríl eða maí. "Stóri skólasöngurinn" hét það lag, nokkuð flókið.
Ég sagðist vilja fá hljómsveit, og mér var sagt að þarna væri hljómsveit í skólanum. Síðan æfðum við þetta lag eftir mig.
Strákunum fannst það alltof, alltof flókið, alltof mörg grip, 15 stykki eða svo, og lagið tók 7-10 mínútur áður en tempóið var gert hraðara.
Sem sagt, strákarnir endursömdu lagið eftir mig, fækkuðu gripunum um allan helming og gerðu lagið hraðara, og slepptu einhverjum erindum. Þannig náðist það í 4 mínútur og allir voru sáttir. Þetta eina lag æfðum við í hljómsveitinni "New Wave". Gítarleikarinn heitir Sigurður, ég hitti hann í Söngskólanum í Reykjavík mörgum árum seinna.
Eitt annað lag spilaði ég einn á útskriftinni eftir mig, "Lítill kveðjusöngur", heitir það. Það var spilað sem trúbador.
Síðan liðu mjög mörg ár þangað til ég spilaði aftur með hljómsveit.
Þannig var að síðla árs 1997 var það Steinn Skaptason sem kynnti sig fyrir mér, og hljómsveit hans sem heitir Blóðtaktur. Þeir voru að æfa í vesturbæ Kópavogs. Þær æfingar með þeim urðu að vísu ekki margar.
Það var tvisvar í janúar 1998, um sama leyti og ég var að taka upp mína fyrstu plötu.
Við byrjuðum á að taka lög eftir Megas, það var ekki hljóðritað. Hann vissi að ég er Megasaraðdáandi og það er hann líka.
Seinni æfingin með þeim fannst mér áhugaverðari. Þá æfðum við tvö lög eftir mig, "En sérð þú ekki eymdina?" og "Endalokin séð í nýju ljósi".
Annað lagið var hreinn blús og hitt lagið var hreint pönk eða rokk.
Útkoman var alveg viðunandi.
Ég setti bæði þessi lög á diskinn "Jafnréttið er framtíðin", sem kom út 2003, upptökurnar voru fengnar af snældu sem Steinn Skaptason tók upp í þessum æfingum.
Ég man nú ekki hversvegna við héldum ekki áfram með þessar æfingar. Ég var upptekinn við annað og einhvernveginn varð ekki meira úr þessu.
Síðan var það ekki fyrr en 2012 sem ég spilaði með hljómsveitinni Bakkus.
Það sem ég gerði með þeirri hljómsveit var langmerkilegast, enda mest vinna lögð í það allt saman. Menn verða að vera þolinmóðir og halda áfram að æfa býsna mikið áður en útkoman verður virkilega góð.
Það sem var skemmtilegt í samstarfinu sem ég átti við Danna og hina tvo var að hann var fljótur að heyra það á mínum lögum hvernig átti að útsetja þau, hvort þau voru rokk, popp, blús, sækadelía, ballöður eða eitthvað annað.
Danni var nefnilega fróður um tónlist og hafði hlustað á allskonar tónlist. Einnig var hann góður á gítar, kunni mörg grip og var ekki lengi að finna fílinginn í laginu, hvað það bauð uppá.
En það eru til mjög margir góðir tónlistarmenn á Íslandi.
Eitt sinn sagði Danni og gagnrýndi mig, að þeir væru alltaf að "elta texta".
Það er einhver bezta lýsing á minni tónlist sem ég hef heyrt.
Bob Dylan hefur fengið svipaða gagnrýni og hann hefur rekið gítarleikara og aðra úr sínum hljómsveitum vegna þess að hann er trúbador í eðli sínu, og hinir þurfa að laga sig að honum, en hann ekki að þeim. Það er svolítill galli við tónlistarmenn sem byrja sem trúbadorar, þeir vilja hafa hlutina á ákveðinn hátt.
Bubbi Morthens er undantekning á þessu. Það er ábyggilega að hluta til vegna þess að hann er lesblindur og lærir því alla sína texta utanað. Þannig starfa flestir í tónlist, hafa textana stutta og tónsmíðar og flutning aðalmálið.
Ég er ljóðskáld, og því er textinn aðalmálið, og tónlistin þarf að mótast utanum ljóðið, eða textann. Það getur tekið á taugarnar fyrir tónlistarmenn, sem vilja meira frelsi til að móta það sem þeir eru að gera.
Reyndar sögðu strákarnir að lögin mín væru jafn góð og hjá öðrum, en að það væri erfitt að vinna með þau, því oft væru þau löng, eða með of mörgum og flóknum gripum eða takti sem væri undarlegur.
En það sem ég tók upp á þessum æfingum, það er ævinlega góður vitnisburður um hæfileika þessara stráka, en Danni átti mest í þessum útsetningum, og bætti við gítarköflum sem lyftu lögunum á hærra plan, og gerðu þau að meiri alvörulögum, en ekki bara grunnum að lögum, eins og þetta er oft hjá mér.
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Nýjustu færslur
- Hvernig ætti að vera hægt að bjarga bandarísku þjóðinni undan...
- Er Samfylkingin lengra til hægri en Sjálfstæðisflokkurinn? Rá...
- Áfengisdrykkja tengist sjálfstæði einstaklinganna, manndómsví...
- Þeir flokkar sem nú eru í ríkisstjórn verða að hjálpa landbún...
- Í þessari frétt endurspeglast elítuviðhorf wóksins og svo frj...
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 110
- Sl. sólarhring: 148
- Sl. viku: 718
- Frá upphafi: 133189
Annað
- Innlit í dag: 67
- Innlit sl. viku: 535
- Gestir í dag: 61
- IP-tölur í dag: 61
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Mjög skemmtileg og góð færsla. Ég spila ekki á hljóðfæri (gutlaði aðeins á trommur í gamla daga) en ég hlusta mikið á allskonar tónlist en einhver skemmtilegasta tónlist sem ég hlusta á er blústónlist og sérstaklega finnst mér mikið til um hversu mikið hlutverk tilfinningarnar fá í blúsnum.......
Jóhann Elíasson, 26.9.2024 kl. 09:05
Takk fyrir það. Og enn einusinni má minnast á Bubba Morthens. Blúsinn hans á Ísbjarnarblús er ekki annað en ryþmablús sem er miklu skyldari rokki. Bubbi er því ekki bezti blúsari landsins, langt frá því, og skreytir sig með lánuðum fjöðrum. Megas er miklu betri blúsari en hann, eins og sést á Plastpokablús og Útumholtoghólablús, til dæmis.
Eða Magnús Eiríksson, Braggablús er einn bezti blús sem íslenzkur tónlistarmaður hefur samið og flutt.
Takk fyrir innleggið, kveðjur.
Ingólfur Sigurðsson, 26.9.2024 kl. 14:34
Ég skildi aldrei hver vegna platan hét "ísbjarnarblús" því þar var ekki að finna neinn almennilegan blús. Ég er algerlega sammála þér með hann Magnús Eiríksson, maðurinn er algjör snillingur og Braggablús er tær snilld.....
Jóhann Elíasson, 26.9.2024 kl. 16:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.