Þegar Jón afi minn lagði nýjar pípulagnir í húsið á þremur hæðum næstum einn á tíræðisaldri, 2009-2014.

Móðurafi minn, hann Jón Agnarsson var ekki lærður pípulagningamaður, en það var eitt af mörgu sem hann var góður í samt. Hann var lærður vélvirki frá Þingeyri og Vélstjóraskólanum í Reykjavík, frá hinni landsfrægu vélsmiðju Guðmundar J. Sigurðssonar á Þingeyri, þar sem Ólafur, afi Ólafs Ragnars forseta var einnig að vinna, og þeir afi kynntust og urðu nokkuð góðir vinir.

Rennismíði var hluti af náminu og var hann af rennismiðum talinn mjög fær, hefur mér verið sagt, og allir hlutirnir sem hann sérsmíðaði eru til marks um það.

Á fyrri hluta 20. aldarinnar þegar duglegir menn voru að flytja úr sveitunum á mölina var það dugnaður, nám og oft óvenjulegir hæfileikar sem skáru úr um það hverjir náðu árangri og hverjir sátu eftir í sveitinni, og þurfti dugnað og hæfileika til þess einnig. Afi minn blómstraði í Reykjavík og það gerði Ingvar bróðir hans einnig.

Jón afi var eins og margir á þessum tíma, hann vildi gera allt sjálfur og vera sjálfstæður, í stað þess að kaupa vinnuna af öðrum, þegar kom að viðhaldi á bílunum og húsinu að minnsta kosti.

Í dag þarf sérfræðinga í allt. Í þá daga var menntunarstigið lægra hjá þjóðinni og því var eftirspurn eftir svona mönnum sem voru altmúligmenn.

Vel að merkja má útskýra þetta með því að Jón afi þekkti allskonar iðnaðarmenn og sérfræðinga sem bæði hjálpuðu honum og gáfu vinnuna eða leiðbeindu honum og kenndu, og í staðinn urðu þeir viðskiptavinir eða fengu afslátt hjá honum.

Mér skilst að þegar hann byggði húsið að Digranesheiði 8 1946-1950 þá hafi ýmsir sérfræðingar hjálpað, píparar, rafvirkjar, múrarar, en þó aðeins lauslega og sem vinir og kunningjar, hann sá um þetta allt sjálfur að mestu leyti, en eitthvað störfuðu þó vinir og kunningjar með honum, sem voru sérmenntaðir í þessum fögum.

Kópavogur var svo strjálbýll á þeim tíma, enda hann meðal frumbyggjanna, að hann þekkti víst eiginlega alla iðnaðarmenn í bænum, og þarna um 1950 voru það tíðindi þegar hann opnaði verkstæðið.

En þannig var það 2008, Hrunárið, að þá uppgötvaðist að skipta þurfti um pípulagnir í húsinu, leka varð vart í kjallaranum.

Afi var fæddur 1916, og því var hann 92 þegar þetta gerðist. Þá var hann farinn að vinna minna á verkstæðinu, en samt vann hann eitthvað eiginlega fram að andlátinu.

Nú er það svolítið sérstakt að maður sem er kominn yfir nírætt skuli taka það að sér að skipta um pípulögn í húsinu sínu. En þeir fundu það út feðgarnir að þetta myndi kosta of mikið, nokkrar milljónir, ef sérfræðingar yrðu fengnir í þetta. Þá var sonur hans að mestu farinn að sjá um verkstæðið, og afi bauð sig fram að vinna þetta erfiða verk.

Hér þarf að taka það fram og minna á hvernig pípalagnir voru í húsum áður fyrr. Þær voru semsagt í gólfunum og milli veggja en ekki inni í húsunum eins og nú, í mjóum pípum, og svolítið milli veggja og undir gólfum.

Þetta þýddi sem sagt að hann þurfti að rifja upp og muna hvar gömlu rörin voru, og hann þurfti að aftengja þau á réttum stöðum og tengja ný rör á réttum stöðum og skipuleggja allt húsið uppá nýtt hvað þetta varðaði.

Já, þeir feðgarnir töluðu um "nýja kerfið" og "gamla kerfið". Afi sá um þetta að langmestu leyti sjálfur, fram til 2014, þegar hann var orðinn 98 ára. Hann fékk hjartaáfall númer 2 árið 2013, og vann minna eftir það, en þá var hann að mestu leyti búinn að klára verkið. Tvö herbergi voru eftir, og þau voru aldrei kláruð, gamla kerfið var alltaf notað þar.

Ég man vel eftir æskuheimilinu í smáatriðum. Ég man eftir miðstöðvarkerfinu í kjallaranum.

Þar hafði áður verið olíukynding og kolakynding þar áður. Árið 1974 kom hitaveitan og margt breyttist.

Afi var sjálflærður arkitekt ásamt öðru. Hann teiknaði allt húsið og líka húsið hans Ingvars Agnarssonar, sem var bróðir hans, að Hábraut 4.

Ekki var að sjá að þessi hús væru neitt verr hönnuð en þau sem útlærðir arkitektar hönnuðu. Þau entust þar til bæjarstarfsmenn sem hata sjálfstæð vinnubrögð og sjálfstætt fólk ákváðu að láta rífa þau.

Eitt sinn man ég eftir því að sjóðandi heitt vatn fyllti ganginn sem var í miðju húsinu, og lá frá anddyrinu að klósettinu, en herbergi lágu út frá honum, svefnherbergið, stofan, tvö barnaherbergi og eldhúsið, og baðherbergið við endann austanmegin.

Þetta mun hafa gerzt áður eftir að amma dó, kannski 1987. Þá var það rör sem bilaði í baðherberginu og þeir feðgarnir lagfærðu það.

Einnig hafði verið skipt um rör að vasknum. Að öðru leyti held ég að upprunaleg pípulögn hafi verið í húsinu, frá 1950 til 2009, þegar afi byrjaði að skipta um rörin.

Það er margt merkilegt í þessari sögu um þetta afrek sem afi vann.

Til dæmis er það merkilegt að afi skuli hafa haft þetta stálminni, að muna NÁKVÆMLEGA hvar gömlu rörin voru, og hann hafði dugnaðinn að bora og rífa upp gólfin til að tengja og aftengja rörin. Reyndar komu menn að hjálpa til þess stundum, að brjóta upp gólfin og steypa yfir aftur. Þetta var gert á nokkrum árum og í áföngum.

Annað er merkilegt við þetta, en það er skiplagshæfileikinn sem afi hafði alveg fullkomlega óskertan, þarna á tíræðisaldri, kominn yfir nírætt! Ekki allir leika það eftir.

Já, hann ákvað sem sagt hvar ætti að byrja að skipta um rör þannig að næstum allan tímann yrði hiti á húsinu, og aðeins tekinn hitinn af stutt í einu og þá helzt yfir sumartímann, og þá aðeins í fáeinum herbergjum í einu.

Þetta útheimti verkfræðikunnáttu og skipulagshæfni.

Það skal hér tekið fram að hann hafði búið til sína eigin snittvél.

Hvað er snittvél spyrja ófróðir?

Það er vél þar sem rör eru snittuð. Að snitta rör er að búa til skrúfgang á þau.

Einnig þarf að taka hér fram að afi hafði búið til sína eigin sög fyrir löng rör af þessu tagi, og hann hafði búið til tvær stórar borvélar að auki, og breytt nokkrum smærri borvélum.

Með sérsmíðuðu söginni gat hann stytt rör eftir hentugleika.

Með snittvélinni bjó hann til skrúfganga.

Snittvélin var til frá því ég mundi eftir mér og var geymd í kjallaranum.

Snittvélina bjó hann til úr gírkassa úr gömlum Skoda-bíl og rafmagnsmótor sem hann sauð fastan við hana, með drifreimum, en með gírkassanum gat hann stjórnað hraðanum.

Þetta allt festi hann á sterklega járnplötu sem notuð var sem borð sem vélin hvíldi á og sauð fjórar lappir undir, gerðar úr járnrörum, stórum og sterklegum, sem náðu niður á gólf og héldu vélinni uppi.

Allt þetta þurfti síðan að smyrja svo snittunin gengi vel fyrir sig.

Ég fylgdist með honum gera þetta og hann bað mig um viðvik einstaka sinnum, sem voru nú frekar ómerkileg, eins og að hlaupa niður í kjallara til að sækja hitt og þetta sem hann hafði geymt þar, eða halda við eitthvað sem hann var að festa, þegar á þurfti að halda og fleiri hendur þurfti.

Öll skipulagning var hans og að skríða eftir gólfum, merkja fyrir, bora og breyta til og frá á ýmsan hátt, og svo allt hitt.

Ég man eftir nokkrum atriðum frá þessari vinnu hans í húsinu við að skipta um lagnir.

Hann talaði um hné og beygjur, nöfn yfir allskonar rör, krossar og tengingar af ýmsu tagi.

Ég man eftir því að stundum lenti hann í vandræðum þegar eitthvað passaði ekki fullkomlega og þurfti að kaupa ný stykki og skipuleggja uppá nýtt.

Já, þannig er þetta með pípulagnir, allt þarf að passa nákvæmlega saman og þrýstingurinn má ekki vera mikill á rörin til að þau bili ekki, þetta þarf að liggja rétt og allt í réttum stærðum og hvergi má leki vera.

Þegar við bættist að það útheimti aukavinnu að tengja ofnana til og frá eftir öllum kúnstarinnar reglum til að láta ekki gamla kerfið aftengjast alveg, þá var þetta mikið verkfræðiafrek hjá honum.

Þó dáðist ég mest að honum að skríða eftir gólfunum á loftinu svonefnda, efstu hæðinni, sem notuð var sem geymsla fyrir verkfæri að mestu leyti.

Þar voru nefnilega hillur og rekkar fyrir varahluti, allt troðfullt af dóti og plássið mjög, mjög lítið.

Ég fékk innilokunarkennd þegar ég var að taka myndir af þessu öllu áður en húsið var rifið. Það gerði ég samt, reyndi að taka samvizkusamlega ljósmyndir af öllu, og þessu sem hann vann við einnig og var erfitt og sérstakt afrek.

Sumsstaðar voru þrengslin slík að ekki var hægt að lyfta sér upp nema örlítið skríðandi á bringunni, en með vasaljósi var hægt að skoða holur í gólfinu, sem var einnig loftið í húsinu, aðalhæðinni fyrir neðan. Þarna lagði hann rör og breytti þeim eins og annarsstaðar.

Ég man að ég var feginn að hann bað mig ekki um hjálp við erfiðustu verkin. Enda hafði hann lítið álit á mér sem hjálparmanni á verkstæðinu, sagði að ég væri latur og fylgdist helzt aldrei með leiðbeiningum, og hefði engan áhuga á þessu. Hann sagði að bezt væri að sleppa við að fá aðstoð frá þannig fólki og var ekkert að skafa af því, en ég lýsi þessu eins og þetta var, og ég var honum alls ekkert sár fyrir þessa hreinskilni, því hann gerði kröfur, og ég mat það við hann að tala með þessum hætti, þetta var bara alveg rétt hjá honum og ég vissi það.

Þó vissi hann að ég var sæmilega sterkur, þegar ég nennti í sérverkefni, og hann vissi að mér þótti lúmskt gaman að því að taka á og fá smá tilbreytingu, ef það var nógu sjaldan.

Það mat hann líka við mig og virti það við mig, að ég hætti ekki við verk sem voru erfið, heldur lauk við þau, og var það helzt vandamál ef áhuginn var farinn að minnka og þetta tók of langan tíma - það var að mínu mati það sem var farið að taka klukkustund, að þá vann ég verkin ekki eins vel.

Afi var eins og skipstjóri á stóru fleyi. Þannig upplifði ég húsið. Hann bar ábyrgð á því og þekkti hvern krók og kima. Margt bilaði á löngum tíma, en hann var ekki að fá sérfræðinga, heldur sérfræðingaálit, og það voru allt menn sem hann þekkti vel og voru góðir vinir og kunningjar.

Í dag er það þannig að oft er bið og erlendir eða innlendir verkamenn vinna misjafnlega vel verkin.

Gæðin eru misjöfn. Sumt er mjög illa unnið og annað mjög vel unnið. Allt þar á milli auðvitað líka.

Afi var nú líka þannig að hann vildi helzt aldrei viðurkenna að neitt væri ómögulegt. Að minnsta kosti ef það var ekki hátæknidót sem hann hafði ekki lært inná.

Þessi hefðbundna verkfræði, bílar, vélar, allskonar tæki sem ekki voru af allra nýjustu gerð, þetta fannst honum auðvelt. Jafnvel kom það fyrir, að eitthvað sem var ófáanlegt frá Japan eða Ameríku í bíla, hann gat stundum búið það til í rennibekknum.

Það sem er kannski dýrmætast við þessa sögu, það er ábyrgðartilfinningin sem afi hafði, að hægt var að treysta á hann.

Hversu margir ungir menn eru svona í dag? Hversu margir alast upp við þessar kröfur eins og faðir hans gerði til hans?

Þetta er spurning um uppeldi.

Afi vildi sjá um hlutina sjálfur, hann treysti sér bezt til þess, og svo þessum mönnum sem hann vissi að voru mjög færir á sínu sviði og voru vinir hans eða kunningjar úr svipuðum greinum.

En þar sem hann ólst upp á Ströndum, þar var mjög langt í næstu bæi. Það var lítil skemma við bæinn, þar sem faðir hans var með verkfæri, öll handknúin, borvél sem snúið var með höndunum, rennibekk sem knúinn var með fótafli, og ýmis önnur verkfæri, án rafmagns.

Hversu órafjarri þessum aðstæðum erum við í dag? Ekki er nóg með að vinnan sé komin á hendur hámenntaðra sérfræðinga, heldur er hún komin úr landi!

Varahlutir eru keyptir frá Kína!!!

Vesturlönd eru svo úrkynjuð að framleiðslan er að hverfa frá Vesturlöndum!!!

Kínverjar, Indverjar og fleiri þjóðir, yfirtaka.

Þessi grein er orðin lengri en hún átti að verða, en það getur verið gaman að fjalla um þetta.

Mér finnst alltaf eins og hnignun hafi orðið á okkar samfélagi og Vesturlöndum öllum.  Gott er að rifja upp við hvaða aðstæður fólk náði að verða beztu útgáfurnar af sjálfu sér, þegar lífsbjörgin var erfið, fyrr á tímum.

 

 


mbl.is Heitavatnslaust á stóru svæði: Þetta þarftu að vita
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Flott frásögn Ingólfur, -af alltmugligtmann.

Eins og þú kemur inn á þá er sérfræðin búin að yfirtaka margt og jafnvel flestar ákvarðanir teknar af fólki sem aldrei hefur gert, eða hefur þurft að gera hlutina.

Þar að auki er mikið af þekkingu mannsins komið í tæki og ef þau bila þá stengur hann uppi með fákunnandi hendur. 

Þú ert að skrá sögu sem ekki verður skráð af sérfræðingum, og þó svo að fáir hafi áhuga á að gefa hana út þá á hún fullt erindi.

Þakka þér fyrir pistilinn og koma efni hans frá þér á áhugaverðan máta.

Magnús Sigurðsson, 20.8.2024 kl. 06:32

2 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

Takk fyrir Magnús. Ég er nú einmitt farinn að komast á þá skoðun að vegna þess að þetta er saga alþýðunnar þá sé rétt að stefna að því að hún verði gefin út. 

Ykkar hvatning er dýrmæt, takk.

Ingólfur Sigurðsson, 20.8.2024 kl. 13:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ingólfur Sigurðsson

Höfundur

Ingólfur Sigurðsson
Ingólfur Sigurðsson

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • 5
  • 4
  • 3
  • Image 004
  • Titilblað

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 4
  • Sl. sólarhring: 95
  • Sl. viku: 784
  • Frá upphafi: 129956

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 593
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Leita í fréttum mbl.is

Nýjustu myndböndin

Heilbrigðisráðherrann, helbrigðaráðherfan

Í hópnum finn ég hlýja barnatrú

Aldrei fellur auðmagnskerfið

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband