8.8.2024 | 00:16
Tvær hæfileikakonur
Sunna Sæmundsdóttir er byrjuð í fréttunum á Stöð 2. Það minnir mig á hrósgrein sem ég ætlaði að skrifa en hef frestað um hana og Lindu Blöndal, sem var á Hringbraut, er núna á RÚV.
Margir hér hafa fjallað um það að fréttamennskan í dag er rýrari og lélegri en hún var, yfirborðskenndari. Ég hef einnig skrifað þannig pistla.
Hér er sem sagt pistill sem er mótvægi, þar sem ég í einlægni bendi á tvær konur sem ég tel að hafi sýnt ákveðna tilburði til að skara fram úr.
Í báðum tilfellum eru þær ekki lengur í þeim störfum þar sem hæfileikar þeirra nutu sín. Engu að síður, hrósið stendur, og ég man um hvað ég ætlaði að fjalla á sínum tíma.
Víglínan hét þáttur á Stöð 2, og var það einhverskonar eftiröpun á Silfri Egils held ég. Heimir Már Pétursson var aðalumsjónarmaður þáttarins. Margt sem hann gerði það gerði hann vel. Ég hafði gagn og gaman af mörgum þáttum hans. Þó fannst mér hann of vinstrisinnaður mörgum sinnum, eins og Egill var líka í Silfrinu, en það sýndi sig þó í mismunandi spurningum hjá þeim. Báðir áttu þó góða spretti í þessum þáttum, sérstaklega þó Egill, en beztu sprettina fyrir Hrun.
Hvað sem því líður, þá sá Sunna Sæmundsdóttir um nokkra þætti af Víglínunni fyrir fáeinum árum. Þann þátt mætti endurvekja.
Ég man að dömur höfðu tekið yfir Silfrið þá á RÚV. Þessvegna var ég í fyrstu fúll að fá Sunnu í Víglínuna og var fyrir fram ákveðinn í því að hún myndi klúðra þessu eins og dömurnar Silfrinu á RÚV hafa ævinlega gert.
Engu að síður leyfði ég henni að njóta vafans og horfði á þættina frá byrjun til enda eins og þegar Heimir Már var með þá. Og viti menn. Hún kom mér skemmtilega á óvart!
Spurningar hennar voru beittar og þekking hennar mjög góð á málefnunum! Hún lét stundum aðspurða fá þá óþvegið með nærgöngulum spurningum sem hittu í mark í erfiðum málum! Lét sér hvergi bregða og brá ekki svip, mjög fagleg kona, gáfuð og klár sem vissi nákvæmlega hvað hún var að gera og hvernig hún ætti að leika á viðmælendur sína þó án þess að fara nokkrusinni yfir strikið! Ég dáðist að henni. Því miður var Víglínan lögð niður skömmu síðar. Þá átti Stöð 2 í kröggum held ég.
Á Hringbraut hét fréttaþátturinn fyrst 21 og síðan Fréttavaktin.
Linda Blöndal var þar framarlega alveg frá upphafi held ég, með Sigmundi Erni Rúnarssyni og nokkrum öðrum. Allir vita að Sigmundur Ernir Rúnarsson er einn allra mesti ESB sinni landsins og það fer hvorki framhjá þeim sem lesa pistla hans né heldur fór það fram hjá þeim sem hlustuðu á þessa fréttatíma. Hann kom mér ekki á óvart. Beztur var hann í menningarþáttum sínum á þeirri stöð, þar hefur hann þekkingu og yndi af viðfangsefninu eins og Egill Helgason.
Verð nú að segja að Linda Blöndal skaraði ekki fram úr í fyrstu fannst mér og hún vakti heldur ekki athygli mína fyrr en síðar. Flestar spurningar hennar eru venjulegar og ekki beittar eða merkilegar.
Engu að síður man ég það að þau höfðu metnað. Eftir að þátturinn kom breyttur í loftið undir nafninu Fréttavaktin þá skánaði hann og varð býsna góður eftir það, svona í heildina að minnsta kosti.
Fréttavaktin var styttri og hnitmiðaðri. Þau unnu kannski heimavinnuna betur eða eitthvað, en ég man að þá fannst mér Linda Blöndal koma vel út, og með öðruvísi spurningar en Sigmundur Ernir. Mér fannst hún minna á Egil Helgason á köflum, koma með spurningar sem komu á óvart, reyna að láta viðmælandann koma með eitthvað nýtt, eins og Egill gerði í Silfrinu þegar það var gott en ekki lélegt.
En merkilegt er það, að einmitt þegar Hringbraut var orðin nokkuð góð stöð þá varð hún gjaldþrota og hætti. Leiðinlegt í raun, en Fréttablaðið fannst mér alltaf leiðinlegra, öfgafyllra í ESB áróðri sínum en Hringbraut.
Nú er Linda Blöndal orðin að óbreyttum fréttamanni á RÚV og ekki skarar hún þar fram úr. Eðli starfsins er þannig. Heldur fær Sunna á Stöð 2 ekki tækifæri sem almenn fréttakona til að sýna dirfsku og hugkvæmni sem spyrill.
En Linda Blöndal gæti sennilega híft Silfrið upp úr algjörum ömurleika og meðalmennsku þeirra umsjónarmanna sem sjá um það núna án Egils.
Langflestir fréttamenn eru allir á yfirborðinu. Spurningar eru fyrirsjáanlegar. Þær eru jafnvel kurteisilegar eins og í drottningarviðtölum þannig að fólkið sem er spurt svarar letilega og vélrænt. Áhorfendur græða ekki, þeir verða syfjaðir.
Til að hæfileikar fái að blómstra þarf rýmið að vera til staðar og frelsið til að sýna hæfileika viðkomandi.
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (26.12.): 50
- Sl. sólarhring: 66
- Sl. viku: 770
- Frá upphafi: 130436
Annað
- Innlit í dag: 41
- Innlit sl. viku: 574
- Gestir í dag: 37
- IP-tölur í dag: 35
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.