Ég er kallaður opinber persóna af sumum sem þekkja mig. Ég er þó vissulega ekki eins frægur og Bubbi Morthens eða Stefán Hilmarsson, eða Bríet, svo nokkur fræg nöfn í poppinu séu nefnd. Engu að síður er það svo að ef maður er að prófa að vera söngvari eða tónlistarmaður verður maður að sætta sig við að vera opinber persóna, lítt fræg eða mikið fræg. Sérstaklega á okkar tímum þegar framboðið er mikið af tónlistarmönnum og eina ráðið til að kynna sig er að setja tónlist á Netið hér og þar, ókeypis í fyrstu, en síðan ef maður verður eftirsóttur á tónleikum eða í partýjum eða gefur út diska eða plötur sem seljast (eða lögvarið efni á streymisveitu með niðurhalsgjaldi) þá getur maður alfarið farið út í það að selja aðgang að niðurhali og aðgangi að söng manns og flutningi eða lögum eftir mann sjálfan eða gjörningum, það er nú ýmislegt í gangi sem kallað er list.
Í fyrstu semur maður lög og texta held ég fyrir sjálfan sig, eins og pistla hér eða annarsstaðar. Síðan verður maður að velja úr það sem maður vill leyfa öðrum að heyra og njóta af.
Ég hef verið ósáttur við útlit mitt síðan ég fór að fá skalla eftir tvítugt og ekki er ég heldur sáttur við að vera orðinn gráskeggjaður að hluta, en maður er kominn yfir fimmtugt og svona er lífið.
Um 1995 hafði ég svo lélega sjálfsímynd og fullkomnunaráráttu að ég var of feiminn við stelpu sem ég hafði áhuga á, og sem sýndi mér áhuga, að það gekk miður en skyldi.
Ég var feiminn krakki í skóla. Í fyrsta sinn sem ég kom fram á tónleikum breytti það mér mikið, það var á Litlu jólunum í Digranesskóla 1985.
Það var svo skrýtið að feimnin fór af mér þegar ég byrjaði að syngja. Ég kunni lagið og textann hafði ég vélritaðan á gítarnum, og ég spilaði á hann flatan, enda hafði ég ekkert lært á gítar þá. Auk þess hafði ég reynt að læra textann utan að og þótt hann væri langur kunni ég hann nokkurnveginn.
Ædolkeppnin á Stöð 2 er áhugaverð. Ég hef lært af henni að sjálfstraust getur verið mikilvægara fyrir tónlistarmann en að kunna að semja lög og texta. Það hefur mildað þá óánægju mína að diskar mínir hafa ekki selzt nógu vel eða ég ekki grætt á þessu sem skyldi.
Ég á bara örfáa diska eftir heima hjá mér af því sem ég gaf út á sínum tíma og verð að leita að þeim ef einhver vill kaupa þá af mér, og sumir eru alveg uppseldir og ekkert eftir nema frumeintakið, Masterinn sem svo er nefndur, sem aðrir eru gerðir eftir.
Japís seldi diska eftir mig á sínum tíma, en sú búð er hætt. Lucky Records selja einhver eintök af þeim diskum sem ekki eru enn uppseldir. Smekkleysa var einnig með diska á sínum tíma.
Mínir diskar voru aldrei fjölfaldaðir nema í tugum eintaka hverju sinni og ég var alltaf útgefandinn.
Fyrsti diskurinn fékk þó dreifingu í Skífunni og líka númer 2 og 3, "Insol", 1998, nr 1., "Hið mikla samband", nr. 2, 1999, og "Blóm, friður og ást", nr. 3, 2000.
Svo hitti ég rokkarann landsfræga Pétur Kristjánsson og hann vildi dreifa þessu almennilega, og það var á þeim árum sem ég var að gefa út hinar plöturnar fram að fyrra hléi, það seinna stendur enn fyrir (útgáfuhlé það er að segja).
"Jafnréttið er eina svarið", 2001, "Við viljum jafnrétti", 2002, "Fyrri byggðir", 2002, ", "Við eigum að samstillast öll", 2003, og "Jafnréttið er framtíðin", 2003.
Vinstrimenn voru farnir að veita mér athygli á þeim árum, en samt var þeim ljóst að stuðningur minn við þá var ekki einhliða, þar sem innanum jafnréttislögin mín á þessum jafnréttisplötum voru karlrembulög, eins og "Aldrei skaltu elska hana", og fleiri.
Ég nefni Vinstri græna og aðra vinstrimenn, því hægrimenn hafa því miður ekki verið duglegir að stofna til tónleika eða vera með menningarlega sinnaða grasrót.
Ég gaf reyndar út 6 hljómdiska árin 2009 og 2010, sem eru þessir:"Það og það", 2009, (tekin upp 2008), "Ísland skal aría griðland", 2009, (tekin upp 2009), "Ég er laus undan losta og synd", 2010, (tekin upp 1999), "Kristur kemur", 2010, (tekin upp 2001), "Ein hjúskaparlög fyrir alla", 2010, (tekin upp 2008), "Ísland fyrir útlendinga", 2010, (tekin upp 2010).
Ég hef skrifað um það að ég hef kosið flokka bæði til hægri og vinstri. Þannig er tónlistin mín, bæði til hægri og vinstri.
Fyrst þegar ég fékk kosningarétt kaus ég Sjálfstæðisflokkinn. Það hefur verið 1991. Þá var það vegna áhrifa frá Stormskersguðspjöllum og mínu fólki á mínu heimili. Ef ég hefði kosið (verið með kosningarétt) sem unglingur hefði ég kannski kosið Alþýðuflokkinn, jafnvel Alþýðubandalagið, eða flokk Alberts, eða jafnvel Kvennalistann.
Ég kaus Vinstri græna strax og þeir buðu fram 1999, því ég var svo ánægður með að loksins var kominn umhverfisverndarflokkur sem ég lengi hafði beðið eftir og talið mjög nauðsynlegan.
Ég man að ég kaus Frjálslynda flokkinn nokkrum sinnum. Eftir það hef ég haft æ minni trú á pólitík og kosið sitt og hvað upp á grín og varla fundið neitt fyrir mig til að kjósa.
Nú eru tveir flokkar sem ég hef haft mikið álit á rústaðir eftir að hafa verið í þessari hrikalegu stjórn sjálfseyðileggingar.
Annar þeirra er eiginlega horfinn, og jafnvel dyggustu stuðningsmenn segja að hann eigi aldrei aftur eftir að dafna.
Hinn er MJÖG rýr skuggi þess sem hann áður var.
Ég hef í seinni tíð næstum haft áhyggjur af því hvernig það yrði ef ég yrði eins frægur og Bubbi Morthens eða Bríet eða þessi stóru nöfn, það myndi setja mikla pressu á mann.
Nei, maður græðir ekki á tónlist á Íslandi. Ef maður vill verða moldríkur fer maður í annað starf. Maður er að þessu út af ást á listinni, maður finnur sig knúinn til þess.
Ég kann fæst laganna minna. Til að læra þau reyni ég stundum að æfa mig, og tek þær æfingjar gjarnan upp.
Sumir hér á blogginu hafa beðið mig um að kaupa diska með tónlistinni minni. Ég fann eintak af "Það og það", og get selt þann disk ef fólk vill, og á einhver eintök af nokkrum öðrum.
Það eru þó ekki mörg eintök. Ég vil einnig benda á Lucky Records á Laugaveginum.
Ef áhugi margra vaknar á að kaupa þetta sem vinylhljómplötur þá vil ég gjarnan gefa þetta þannig út.
En hér hef ég sett inn fáein tóndæmi, og þá getur fólk ákveðið sig hvort það hafi virkilega gaman af þessu eða ekki.
Annars fann ég DVD diskasafn í Góða hirðinum nýlega sem heitir Life-8. Það var tónleikaröð sem haldin var í G8 ríkjunum í júlí 2005.
Tónleikarnir voru haldnir til minningar um Live-aid tónleikana 1985 og enn til að græða fé fyrir sveltandi börn.
Skemmst er frá því að segja að þarna spiluðu margir af heimsfrægustu tónlistarmönnum jarðarinnar.
Ég fór að bera saman í huganum upptökurnar mínar frá mínum æfingum einn með gítarinn og svo þessa heimsfrægu tónlistarmenn á þessum risastóru tónleikum.
Ég fór að velta því fyrir mér að ef til vill myndi ég ekki vera feiminn að spila fyrir milljónir áheyrenda og áhorfenda frekar en á Litlu jólunum í Digranesskóla árið 1985.
Maður annaðhvort gleymir áhorfendum eða fer á taugum. Annað hvort sigrar sviðsskrekkurinn mann algerlega, eða maður gleymir sér og klárar lagið - eða lögin - sem maður ætlar að spila, eða ákveður á staðnum að spila.
En ég verð að segja að mér leiddist að hlusta á þessa DVD diska og spilaði aðeins örfá lög. Ekki mínir uppáhaldstónlistarmenn nema í fáum tilfellum, og líka langt frá því að vera í sínu bezta formi á þessum tónleikum.
Ég veit það svo sem vel að oftast hef ég verið illa æfður á tónleikum, sungið alltof lágt í hljóðnemann, verið feiminn og sungið óskýrt, og þessvegna þetta ekki komið nógu vel út.
Þó má segja að nokkrum sinnum hafi mikið verið klappað og blístrað, sérstaklega þegar ég var í MK og ég eignaðist þéttan aðdáendakjarna meðal samnemenda minna þar í skólanum.
Allt getur gerzt ef maður gefur út tónlist eða kemur fram á tónleikum. Allt í einu geta vinsældir komið - og þó kannski aldrei, það er líka möguleiki.
En þetta er eins og með þessa bloggpistla. Ef örfáir lesa og hafa gaman að, þá er það nóg.
Bubbi Morthens er landsfrægur vegna þess að hann er ekki síðri markaðsmaður en tónlistarmaður. Hann hefur spilað útum allt land, og hann fékk stuðning kommanna og femínistanna þegar hann byrjaði.
Hann er kannski albezti markaðsmaðurinn á íslenzkum tónlistarmarkaði, sá sem kann að kynna sig og semja lög sem fjöldinn grípur. Allavega eru margir með meiri hæfileika en hann, eða jafn mikla.
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 60
- Sl. sólarhring: 103
- Sl. viku: 725
- Frá upphafi: 127352
Annað
- Innlit í dag: 49
- Innlit sl. viku: 536
- Gestir í dag: 47
- IP-tölur í dag: 45
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.