4.8.2024 | 00:21
Nálægðin við náttúruna er dýrmæt, og um það snýst verzlunarmannahelgin meðal annars
Fólk fer í útilegur um verzlunarmannahelgina og sefur í tjöldum. Ég er hér með stutta sögu um ömmu og afa. Þau fóru oft í útilegur á sumrin og ferðuðust um landið og ég oft með og aðrir krakkar í ættinni á mínum aldri.
Stundum kom það fyrir að afi var mjög upptekinn á verkstæðinu á sumrin þannig að ferðalög voru ekki möguleg nema stutt og fá þau sumur.
Það vildi nefnilega oft þannig til að hann tók að sér fá og stór verkefni frekar en mörg og lítil, það gaf oft betur af sér.
Þannig var að menn komu stundum með bíla til hans sem aðrir vildu ekki gera við. Hann tók að sér að gera upp bíla sem voru 75% ónýtir, ef menn borguðu vel fyrir það að koma þeim í lag.
Sumir gamlir menn og yngri tóku miklu ástfóstri við ökutæki sín og vildu ekki henda þeim, og það gátu verið bílar sem voru að ryðga niður og hrynja og sem fengu ekki skoðun vegna ryðskemmda, eða bílar með ónýtar vélar eða gírkassa.
Þeir feðgarnir gátu lagfært grindur undir bílum og soðið saman að nýju og svo ryðbætt og skipt um bretti og stóran hluta bílanna, oft með því að fá svipaða hluti á partasölum, eða með því að ryðbæta eða búa til frá grunni.
Þetta þýddi að sami bíllinn var í mánuð eða meira inni á verkstæðinu.
Afi og amma voru svo hrifin af því að vera í tjaldi, heyra fuglasönginn, elda mat á prímus og anda að sér góða loftinu að þau tjölduðu úti í garði þegar svona stóð á þegar var sumar eða viðraði til þess.
Ég man að eitt sinn vaknaði ég og sá að könguló var að skríða á mér eða svefnpokanum mínum, og var alltaf að finna skorkvikindi í tjöldunum. Þá gafst ég upp og vildi frekar vera einn í húsinu.
Þau áttu tvö tjöld. Annað var grátt og strigakennt og minna, en það var eldra. Ég held að amma hafi saumað það. Hún vann í Seglagerðinni þegar hún var fyrir sunnan og þau áttu eftir að ganga í hjónaband. Það var á stríðsárunum.
Amma kunni að sauma tjöld. Hún átti saumavél sem hún notaði mikið. En það var erfitt að sauma tjöld og hún gerði það held ég ekki eftir að þau fóru að búa og hún hætti að vinna þarna. Það þurfti mikið efni, og hún varð eftir sig í fingrunum.
Ég man að þetta litla og gamla tjald var ekki með neinum botni. Tjaldhælarnir héldu því föstu eins og hinu.
Þegar stóra tjaldið var bilað var litla tjaldið notað.
Stundum þurfti að þurrka stóra tjaldið þegar kom mygla í það út af raka. Þá var litla tjaldið notað.
Það kom líka fyrir að lítil göt komu á stóra tjaldið. Einhverntímann rifnaði út úr tjaldhælagötum. Ég held að amma hafi lagað þetta allt sjálf, en litla tjaldið var notað á meðan.
Stóra tjaldið var grænt og með botni að neðan. Það var keypt fullbúið einhverntímann.
Amma var ekki hrædd við köngulær eða skorkvikindi. Hún sagði að það væri ólánsmerki að drepa járnsmiði eða köngulær, og var alltaf róleg ef hún fann slík kvikindi, lét þau skríða uppá blað og henti þeim svo rólega út á tröppur eða út um gluggann.
Þó var hún stundum óhress með að fá stórar og frekar flugur inn, það voru fiskiflugur og þegar hún var að matreiða gat hún orðið æst og reið því hún vildi ekki að þær spilltu matnum.
Þá sagði hún oft:"Út með þig skömmin þín!". Amma var nú frekar feitlagin en hún gat samt verið hröð og lipur í hreyfingum þegar svona stóð á jafnvel þegar hún var orðið gömul.
Þá sá ég hana oft taka upp Morgunblað og reyna að berja flugurnar og oft náði hún þeim.
Það gleður mig að sjá að á verzlunarmannahelgunum heldur fólk útí náttúruna. Ég samdi lagið "Náttúran" árið 1988, og mér finnst það eitt dýpsta, dularfyllsta og margræðnasta lag sem ég hef búið til, eða ljóð. Slík náttúrudýrkun er hluti af því, en ekki allur boðskapurinn sem felst í því.
Þarna er mennskan, þarna er þetta jákvæða í fólki, að óska eftir að komast frá tækninni og borginni og út í náttúruna og skemmta sér þar, í útilegum.
Síðan eru það skemmtiatriðin, þar sem listamenn fá tækifæri til að sýna hæfileika sína. Allt er þetta hróssvert.
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 77
- Sl. sólarhring: 104
- Sl. viku: 742
- Frá upphafi: 127369
Annað
- Innlit í dag: 65
- Innlit sl. viku: 552
- Gestir í dag: 63
- IP-tölur í dag: 60
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Flott frásögn Ingólfur, -af veröld sem var.
Foreldrar mínir áttu tvö tjöld svipuð þessum sem amma þín og afi áttu, annað gult og blátt með botni hitt hvítt gamalt án botns og fimm börn. Með þessi tjöld var ferðast um landið í sumarfríinu á meðan við börnin entumst til, ég heltist fyrst úr lestinni enda kominn byggingavinnu á sumrin á þrettánda ári.
Mattildur mín átti svona gult og blátt tjald með botni þegar við kynntumst, svona Atlavík 84. Börnin okkar fóru svo með það tjald á Bræðsluna ca. 25 árum seinna og heyrðu sagt fyrir utan tjaldið, -vaaaaá var það ekki svona tjald sem Jim Morrison dó í, þau lifa á því enn þá.
Takk aftur fyrir hugvekjandi frásögn.
Magnús Sigurðsson, 4.8.2024 kl. 08:30
smá viðbót. Það sem mér finnst flottast við þessa frásögn hjá þér er verkstæðiþátturinn, hvernig bílar voru riðbættir og haldið á götunni eins og þeir væru dýrgripir.
Þetta var hægt á meðan að hæfileika verkmenn gátu selt kunnáttu sína, áður en skattlagning lagðist það þungt á vinnu að engin gat lengur borgað. Síðan þá færast bíla nær því að verða einnota eins og allt annað.
Magnús Sigurðsson, 4.8.2024 kl. 08:42
Takk fyrir Magnús, frábært að fá þetta. Svona athugasemdir frá þér sem kemur með enn fleiri minningar og styður við frásagnir, lítið eitt eldri en ég, þær gera pistilinn mun áhugaverðari. Já, margt af þessu er vissulega sameiginlegt með þjóðinni.
Enn kemur þetta inn á það sem Sjálfstæðisflokkurinn getur gert til að minnka ríkisbáknið og leyfa einyrkjum og litlum fyrirtækjum að vaxa og styrkjast.
Ingólfur Sigurðsson, 4.8.2024 kl. 14:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.