Nýskráningar rafbíla voru 42% 2023, núna aðeins 13%. Eru rafbílar aðeins tízkubóla sem hverfur alveg? Var afi minn Jón Agnarsson á undan tímanum sem taldi díselbíla framtíðina? Nýskráningar díselbíla eru nú mestar, 34%.

"Óframkvæmanlegt að flýta fyrir útfösun benzín- og díselbíla", og samt er það á stefnuskránni.

Þetta kom fram í kvöldfréttunum á Stöð 2 í gær, 28. júní 2024. Er þetta úr viðtali sem var tekið við Runólf Ólafsson framkvæmdastjóra Félags íslenzkra bifreiðaeigenda.

Það var tvennt ef ekki fleira sem vakti mikla athygli mína við þessa frétt. Í fyrsta lagi að á fyrstu mánuðum ársins 2024 dróst sala rafbíla verulega saman, og voru aðeins um 13% nýskráðra bíla. Hinsvegar fjölgaði nýskráningum díselbíla, en þær eru á toppnum, með 34% allra nýskráninga.

Afi minn, Jón Agnarsson sem lézt 2015 var sérfræðingur í díselvélum. Hann vann afrek sem talið er næstum einstakt meðal vélvirkja, að breyta benzínvél í díselvél, en það afrek vann hann árið 1961, á GMC vél úr hertrukki. Hann taldi díselvélarnar bezta kostinn.

Þessi bloggpistill er einnig til að viðurkenna að Gunnar Rögnvaldsson hefur ritað í þessa átt, að rafbílar séu ekki framtíðarfyrirbæri.

41% bíla á Íslandi eru benzínbílar ennþá en 39% díselbílar. Þar af leiðandi eru bílar sem nota jarðefnaeldsneyti í algjörum meirihluta á okkar landi, og þyrfti að breyta því.

Rafmagnsbílar eru einungis 8.4% og aðrir (tvinnbílar sennilega helzt) 11.6%.

Það kom einnig fram í fréttinni að vinsældir rafbíla virðast helzt hafa verið vegna skattaívilnana ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur, en þær voru afnumdar flestar um síðustu áramót, og þó enn í tíð hennar ríkisstjórnar!!! Ekki meðmæli með rafbílavæðingunni og sorglegt til þess að hugsa að í ríkisstjórn Vinstri grænna skuli slíkt hafa verið gert!!!

Á verkstæðinu hans að Digranesheiði 8 ræddu þeir Agnar og afi oft um þungaskattinn sem lagðist á díselbílana, sem urðu þyngri með slíkum vélum. Þeir voru ekki hrifnir af sköttum skiljanlega.

Um áramótin kom 5% vörugjald á rafbíla og nýtt kílómetragjald á þá einnig. Eins og sagt er, vinstristjórnirnar sýna það með verkum sínum að þær eru algerar skattastjórnir, sama hvort Sjálfstæðisflokkurinn tekur þátt í þeim eða ekki, enda er hann varla lengur hreinræktaður hægriflokkur eins og margoft hefur komið fram hjá mér og öðrum.

Eftir að maður sér þessar tölur verður það ljóst að áhugi manna á rafbílum virðist þá ekki aðallega vera endilega út af grænum umhverfisverndaráherzlum heldur ívilnunum frá ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur, sem þó voru einnig aflagðar að einhverju leyti í tíð hennar ríkisstjórnar, sem enn stendur, að vísu.

Eins og sá sem rætt var við benti á eru miklar og áberandi þversagnir í því sem tölurnar sýna annarsvegar og svo hinsvegar í því sem stjórnvöld ætla sér að gera til að reyna að losna við benzínbíla og díselbíla.

Já, þessi ríkisstjórn er með loftslagsaðgerðaáætlun þar sem aðgerðum var fjölgað úr 48 í 150, hvorki meira né minna!!!

Ein þeirra er að banna nýskráningu benzínbíla og díselbíla. Þau vilja flýta því banni, setja það á 2028 í stað 2030.

En rétt eins og kemur fram í þessari frétt er það ekki samkvæmt vilja landsmanna, eða þannig hljóta tölurnar að vera túlkaðar.

Þetta er rétt eins og með Borgarlínuna. Hún liggur fyrir samþykkt, en enn er hún óráðshjal Dags B. Eggertssonar og aðdáenda hans. Eins og Bjarni Benediktsson hefur fjallað um kostar hún miklu meira en gert var ráð fyrir, og því er reynt að fresta henni.

Guðlaugur Þ. Þórðarson heldur þó fast í sínar áætlanir.

Því var oft haldið fram þegar menn fjölluðu um ólíka ráðherra og verk þeirra sem stefndu í ólíkar áttir í þessari spannvíðu ríkisstjórn, að ríkisstjórnin væri ekki eins og ein synfóníuhljómsveit sem væri að spila sama tónverkið í Hörpu, heldur hellingur af einleikurum sem allir væru að þykjast mestir og beztir, gerandi sitt bezta með því að leika einleik, og úr því yrði slík ósamræmishljómkviða að ekki mikil unun væri á það að hlýða.

"Það er engin stjórn í landinu", skrifaði einn af okkar góðu bloggurum.

Má það til sanns vegar færa.

Ég vona að grænar umhverfislausnir finnist, rafbílar eða annað.

Með þessum pistli verð ég þó að viðurkenna að það lítur út fyrir að ýmsir sem gagnrýnt hafa þær aðferðir sem hafa verið notaðar hafi margt til síns máls.

Skömm er að því að verkstæðið hans afa að Digranesheiði 8 í Kópavogi skyldi ekki hafa verið gert að safni. Þar var einn álbíll sem þeir feðgar smíðuðu frá grunni, sennilega var það fyrsti álbíllinn á Íslandi og kannski fyrsti íslenzki bíllinn, sem var smíðaður frá grunni á þessu landi.

Á verkstæðinu voru líka fjölmörg verkfæri sem afi annaðhvort bjó alveg til frá grunni eða endurhannaði og breytti, og bætti við og gerði fullkomnari.

Fyrir þá fjölmörgu krakka og unglinga sem læra verkiðnir hefði verið mjög fróðlegt fyrir þau að læra skapandi aðferðir við að bjarga sér við viðgerðir á þessu verkstæði hans afa, sem hefði ekki átt að rífa.

Þarna hefði einnig verið hægt að kenna hvernig verkmenntir færðust frá sveitunum yfir til Stórreykjavíkursvæðisins, þekking fólksins sem flutti á mölina varð Reykjavík og nágrenni að gagni og kenna þarf hvernig fólk í gamla daga, eins og afi á fyrri hluta 20. aldarinnar lærði að smíða og hanna hluti án þess að nota nein rafverkfæri fyrir norðan á æskuheimili sínu.

Allt er þetta mjög fróðlegt og hluti af sögunni. Nokkuð sem þarf að kenna og láta ekki niður falla.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rúnar Már Bragason

Díselbíll er það besta sem ég hef átt af þeim fáum bíl sem átt um ævina. Helsti gallinn er að þeir eru lengi að hitna svo stuttar vegalengdir á vetrum eru óhagkvæmar. Hisn vegar lengri vegalengdir alger draumur og þá á bensínvélin engan séns.

Rafbílar, eins og þeir eru framleiddir í dag, eru alltof mengandi og því engin framtíð í þeim.Til að framleiða rafhlöðurnar þarf svo mikið hráefni af jarðvegi, ólíkt eldsneytisbílum. Hvernig raforku er síðan aflað í flestum löndum er mengandi. Betra að halda sig við eldsneytisbílanna.

Styð algerlega það sem Gunnar segir: rafbílar eru ekki framtíðin.

Rúnar Már Bragason, 30.6.2024 kl. 02:58

2 Smámynd: Haraldur G Borgfjörð

Hvað haldið þið að það séu margir sem kaupa annann rafmagnsbíl þegar sá gamli er genginn úr sér eða ónýtur? 

Haraldur G Borgfjörð, 30.6.2024 kl. 10:28

3 Smámynd: Jóhann Elíasson

Góð spurning Haraldur.......

Jóhann Elíasson, 30.6.2024 kl. 12:06

4 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

Gunnar Rögnvaldsson hefur haft rétt fyrir sér eins og svo oft áður, og afi líka. 

Já, sumir segja að Gulli ætti að fara í Samfylkinguna og Þórdís Kolbrún...

Ingólfur Sigurðsson, 30.6.2024 kl. 19:25

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Um bloggið

Ingólfur Sigurðsson

Höfundur

Ingólfur Sigurðsson
Ingólfur Sigurðsson

Færsluflokkar

Júlí 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30 31      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.7.): 12
  • Sl. sólarhring: 68
  • Sl. viku: 519
  • Frá upphafi: 112259

Annað

  • Innlit í dag: 11
  • Innlit sl. viku: 363
  • Gestir í dag: 11
  • IP-tölur í dag: 11

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband