Luxman K-100

Ég var að henda segulbandstæki af gerðinni Luxman K-100. Ég hef safnað of mörgum svona tækjum í gegnum tíðina og er að fækka þeim sem eru lélegust. Önnur rásin var hægt að virka vegna galla í prentbrettinu. Að öðru leyti hljómaði það vel, þegar í því heyrðist og það spilaði. Ég hafði gert við bilun í drifkerfinu, með því að skipta um gúmmíhjól sem snerti dráttarteininn, til vinstri.

Ég hafði gaman af því að læra hvernig magnarinn virkar í þessum Luxman tækjum með því að prófa mig áfram með því að fjarlægja viðnám og setja önnur í staðinn með lóðningu. Já, það kom í ljós að mögnunin í þessum Luxman tækjum er býsna frábrugðin því sem algengast er, að minnsta kosti sumir kimar hennar og afleiður til að ná fram ákveðnum blæbrigðum tónanna og mögnunarinnar.

Allir sem hafa gert við svona tæki, unnið á rafeindaverkstæðum, vita hvernig þessi tæki þróuðust frá 1968 til 1990, eða á þeim tíma sem snældur voru vinsælastar.

Vökvalausir þéttar voru mikið notaðir sérstaklega eftir 1980, og þá ekki sízt í því skyni að ná fram blæbrigðum í Dolby-C suðeyðingarkerfinu, sem var algengt á þeim árum, næstu tíu árin eða svo þar á eftir.

Jafnvel hin dýrari tæki urðu staðlaðri eftir 1985, til að láta þau kosta minna. Dolby einingarnar voru framleiddar smærri og seldar frá sérfyrirtækjum, en í upphafi voru þær sértækari og framleiddar af þeim sem gerðu tækin sjálf, og það var miklu dýrarar. Vegna breytinga á gengi yensins í Japan uppúr 1980 fóru framleiðendur að tapa og leita leiða til sparnaðar. Það kom niður á gæðunum.

En vökvalausir þéttar af ákveðinni tegund eru sérlega hentugir til að þétta burt tíðni sem lítið kemur við Dolby suðeyðingunni.

Suð í mögnurum er mest í hátíðninni. Þessvegna er virkni Dolby suðeyðingar mest í hátíðni. Vökvalausir þéttar gegna þarna miklu hlutverki.

Í þessu Luxman tæki, K-100, fór mögnunin sjálf einnig fram með takmörkuðum hætti og voru vökvalausir þéttar notaðir til að ná fram hátíðni einnig í formagnara spilunar og upptöku. Þannig er hægt að ná fram minna suði, en samt verður hljómurinn ögn flatari.

Það er hægt að sökkva sér mjög djúpt í þetta og maður getur hannað sín eigin segulbandstæki ef maður hefur varahlutina við hendina og allt sem þarf. En úr því að þau eru ekki framleidd lengur nema í litlu magni er hentugt að nota varahluti úr eldri tækjum.

Þeir sem elska analog hljóminn kjósa bæði plötuspilara og segulbandstæki, og allar græjur með analog tækni, ekki þeirri stafrænu.

Ég á því miður talsvert eftir þar til ég hef tekið nógu vel til hjá mér. Þessi tæki seljast bara alls ekki nógu vel á Íslandi, og ef maður ætlaði að selja á erlendum síðum þyrfti maður að bíða lengi eftir að einhver biti á öngulinn, og ábyrgð fylgir því að pakka þessu vel inn.

Ég myndi vilja starfa við að gera við svona tæki, en verkstæði eru langflest hætt störfum, rafeindaverkstæði, og menn eru bara að gaufa við þetta fyrir sjálfa sig, mestmegnis að minnsta kosti, því Kína hefur breytt öllu, og þar eru örsmáar einingar, og tækjunum bara hent núorðið.

Segultæki bila talsvert en það sem er krefjandi þannig er líka áhugavert, og skemmtilegt að finna að maður ræður við að gera við slík tæki eftir að hafa öðlazt reynslu með því að taka þau sundur og setja saman í langan tíma, og eftir að hafa lært eitthvað í Iðnskólanum í rafeindavirkjun, eins og ég hef gert, þótt ég starfi ekki við þetta og hafi aldrei gert.

Eitt sinn var línuleg dagskrá í sjónvarpinu það sem unglingar höfðu mestan áhuga á. Síðan komu tölvurnar og símarnir.

Þó var sú tíð einnig eitt sinn að unglingar höfðu mest yndi af því að hlusta á hljómplötur og hljóðsnældur. Þar áður var bóklestur það sem heillaði fólk mest á öllum aldri. Enn eru bækur snobbfyrirbæri, en við Íslendingar kaupum bækur til að lesa örfáar línur í, og henda síðar þegar nýjar koma á markaðinn, nema sumir, sem enn lesa þær spjaldanna á milli.

Eftir að pólitísk rétthugsun fór að verða kúgandi afl í Hollywood missti ég áhugann á sjónvarpsefni, horfi ekki lengur á sjónvarp nema fréttir, og varla mikið meira. Ég hef þó ekki áhuga á að vera skrollandi í símum allan sólarhringinn.

Mér finnst það góð dægradvöl að hlusta á hljómplötur. Síðan er mikið efni eftir sjálfan mig sem ég get hlustað á, því ég þekki það ekki sjálfur. Ef maður semur mikið af tónlist gleymir maður henni aftur, og ný verkefni taka við næsta dag. Magnið er svo mikið sem ég hef hljóðritað og samið að ég kemst aldrei yfir það að hlusta á þetta allt. Síðan er að færa allt af blöðum yfir á tölvur.

Það er búið að gefa út svo mikið af bókum að maður nennir varla að lesa þær lengur. Fólk er löngu hætt að hafa dómgreind. Það veit ekki hvað er gott og hvað er vont. Það kaupir lélegar bækur og snobbliðið telur fólki trú um að þær séu góðar. Þetta gerir mann afhuga bókum og menningunni yfirleitt. Þessu mannkyni okkar jafnvel.

Ég efast um að ég gefi út aftur tónlist eftir sjálfan mig. Ég er að þessu til að græða og til að græða feitt, en mér virðist fólk ekki hafa áhuga á minni tónlist í stórum hópum.

Sá sem hefur þolað hatur lýðsins ætti einnig að þola ást og dýrkun lýðsins. Það þarf sama styrkinn til að þola hvort tveggja, býst ég við.

Listamaður sem græðir ekki á list sinni nennir ekki lengur að gefa út. Þetta er nefnilega vinna eins og annað, og vinna sem ekki gefur af sér breytist í hobbý, og jafnvel þannig að maður hættir að nenna að semja, sinna listinni, ef maður fær ekki næga athygli og græðir ekki peninga á list sinni.

En aldrei að segja aldrei. Aðstæður breytast. Það sem einu sinni var ekki í tízku getur komizt í tízku síðar.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Hæ!  gat ekki sofið sá þig hér,er að bíðs eftir að 1 sona minna fari í sumarleyfi hans Var að fá appel sem dóttir mín er hætt að nota og er algjör TOSSI í notkun hans. Gæti verið að skrifin mín hér sem hélt að hefði þurrkast út komi fram,en þúert svo klár og skilur alla líka gamlingja.mb.kveðju.

Helga Kristjánsdóttir, 13.6.2024 kl. 05:58

2 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Já datt í hug það er sjónvarp með áfðstu segulbandi sem virkar ekki,kannski þú viljir sjá hvort þú gætir meikað það fyrir borgun.

Helga Kristjánsdóttir, 13.6.2024 kl. 06:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ingólfur Sigurðsson

Höfundur

Ingólfur Sigurðsson
Ingólfur Sigurðsson

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • 5
  • 4
  • 3
  • Image 004
  • Titilblað

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 77
  • Sl. sólarhring: 78
  • Sl. viku: 857
  • Frá upphafi: 130029

Annað

  • Innlit í dag: 60
  • Innlit sl. viku: 649
  • Gestir í dag: 52
  • IP-tölur í dag: 52

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Leita í fréttum mbl.is

Nýjustu myndböndin

Heilbrigðisráðherrann, helbrigðaráðherfan

Í hópnum finn ég hlýja barnatrú

Aldrei fellur auðmagnskerfið

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband