Merkilegar og fróðlegar pælingar um vinnustaðamenningu sem eiga alltaf við, á Vísi, vefsíðunni

Á vefsíðunni Vísir er merkileg frétt um vinnustaðamenningu og viðtal við Sigríði Indriðadóttur framkvæmdastjóra Saga Competence. Mér þykir að vísu verra að fyrirtækið þurfi að heita ensku nafni (saga er líka enska, vel að merkja), hvers hún er framkvæmdastjóri (framkvæmdastýra öllu heldur myndi ég orða það), en það sem konan segir er allrar athygli vert í fréttinni og geri ég það hér að umfjöllunarefni.

Vil ég taka það fram hér í upphafi að í svona tilfelli eins og oft áður þegar Íslendingar gefa fyrirtækjum útlent nöfn heppnast það misjafnlega vel. Þannig verður það að segjast eins og er að Saga Competence finnst mér afleitlega slæm samsetning á ensku, vegna þess að orðið saga hefur allt önnur blæbrigði merkingarlega séð en á íslenzku. Sennilega á nafnið á fyrirtækinu að þýða "Söguleg hæfni" eða "Hæfni á sögulegan mælikvarða", en saga á ensku þýðir miklu frekar fornsaga en saga yfirleitt, og Íslendingasögurnar eru nefndar "saga" á ensku, eitthvað sem er fornt og ævagamalt. Þessvegna finnst mér þessi samsetning bjánaleg, því "fornsöguleg hæfni" er það sem enskumælandi fólk held ég að lesi miklu frekar út úr þessu, og það er sérlega furðuleg nafngift og undarleg.

En hvað um það. Í flestum tilfellum ættum við að nota íslenzku þegar fyrirtækjum er gefið nafn.

En það er vit í því sem Sigríður Indriðadóttir segir, heldur betur, í þessu viðtali.

Hún býr til hugtakið "þögli herinn", um fólk sem segir fátt í vinnunni, en er hinn þögli meirihluti, eins og við segjum yfirleitt. Í viðtalinu lýsir hún því hvernig hún vilji fá þennan þögla meirihluta í lið með sér til að bæta vinnustaðamenninguna á Íslandi og ræða saman um vandamál, í staðinn fyrir að þegja þau í hel. Mér finnst vit í þessu og ég fagna þessu.

Hugtakið "fýlustjórnun" kemur þarna fyrir, baknag og undirróðursstarfsemi, og svo meðvirkni.

Orðið endurgjöf hefur fest sig í sessi yfir "feedback" á ensku, og notkunin á orðinu endurgjöf í viðtalinu veldur því að mig grunar að hún hafi lært þessi fræði frá enskumælandi fræðimönnum, að minnsta kosti að hluta til. Það er vegna þess að orðið "feedback" (endurgjöf, endurfæðsla, bakfæðsla) er svo gríðarlega mikið notað í ensku fræðimannamáli, í sumum geirum.

Ég hef vissar áhyggjur af því að reynt er að gera mannleg samskipti vélræn og banna öll frávik, en samt getur þetta verið hollt að fækka þeim hnökrum sem verða á samskiptum á vinnustöðum.

Orðið valdefling er einnig notað í þessu viðtali. Hún vill valdefla fólkið sem fer í fýlu og gerir með sér þegjandi samkomulag um að hafa andúð á stjórnendum eða kerfi, skipulagi eða reglum sem farið er eftir.

Já, þetta er nú erfitt í framkvæmd, því fólk á vinnustöðum vill hafa sitt frelsi, og þetta er ekkert nýtt, að reynt sé að koma böndum á ólgu og bylgjur sem fara gegn valdinu.

Dr. Helgi Pjeturss bjó til hugtakið samstilling, og það lýsir því sem hún er að reyna að koma á.

Kínverja virði ég mikið og asíska menningu, því þar finnst mér miklu meiri samstilling en hér hjá okkur á Vesturlöndum.

Samstilling þýðir líka að nauðsynlegt er að kúga minnihlutahópa, en Kínverjar eru frægir fyrir þetta, því þar er sterk miðstýring kommúnistaflokksins, eins og langflestir vita.

En fyrir vikið tekst Kínverjum að ná til sín æ stærri bita af köku alþjóðaviðskiptanna, og þannig er að í alþjóðlegu samstarfi eru Bandaríkin að dragast aftur úr og Evrópa en Kínverjar, Kórea, Indland og fleiri svæði sem áður voru svæði fátæktar að taka fram úr. BRICS veldið er heldur betur að sækja í sig veðrið en Vesturlönd að tapa samkeppninni.

Ég hef ekki langa starfsreynslu en einhverja starfsreynslu hef ég nú samt og hef áhuga á þessu, á vinnustaðamenningu, því hún snertir svo marga þætti félagslegra samskipta sem eru mikilvægir og merkilegir. Eins og kemur fram í þessu ágæta viðtali við Sigríði Indriðadóttir er hægt að leysa marga hnúta í fjölskyldum og ástarmálum með sömu lögmálum og gilda á vinnustöðum, það er að segja, að koma því upp á yfirborðið sem er að krauma undir niðri og veldur vandræðum og samskiptaörðugleikum.

En þetta er nokkuð sem þarf að gera mörg áhlaup á, þetta er eilífðarverkefni, þetta hefur verið reynt áður, og litlir sigrar vinnast, en svo þarf alltaf að reyna aftur, slípa samskiptin meira, betur, og nýir hnökrar koma í ljós seinna, sem ekki eru endilega nú til staðar. Það er vegna þess að nýjar áherzlur birtast í samfélagsumræðunni, og fólk finnur sér ný atriði til að deila um, og sem stjórna fólki að allmiklu leyti.

En það er eitt sem mér finnst hún ekki gera sér nógu góða grein fyrir. Hún talar um að "örfáir einstaklingar komist upp með að stuða aðra, virða ekki reglur, valta yfir fólk, eða að háværi meirihlutinn veður yfir minnihlutann", það sem hún er í raun að lýsa er það að í mörgum fyrirtækjum eru stjórnendur fyrirtækjanna ekki í takti við vilja fólksins sem vinnur á gólfinu eins og sagt er, og þá þurfa stjórnendurnir að stíga niður úr sínum fílabeinsturni, ekki að venjulega fólkið þurfi að breyta sér, eða það finnst mér vanta inní þessar pælingar, sem eru fullar af réttum atriðum líka.

Jú, hún kemur inná þetta líka í viðtalinu. Þar stendur á einum stað:"Stundum eru það jafnvel stjórnendurnir sjálfir sem eru vandamálið..."

Hún talar um að "virkja þögla herinn".

Svo mikið er víst að þetta er hvorki einfalt né auðvelt. Ég held að það sé misjafnt hverjum er um að kenna. Á fjölmennum vinnustöðum er marglaga andrúmsloft, þar sem fólkið í lægri lögum fyrirtækjanna myndar mér sér sín samskipti, skoðanir, vinahópa og goggunarröð. Því er það meiriháttar verkefni að koma böndum á allt sem þar á sér stað.

Það var kostur við verkstæðið hans afa, að Digranesheiði 8, að þeir feðgarnir, afi og sonur hans unnu saman tveir eftir fyrstu 10-20 árin, en þá voru fleiri þar að vinna, ekki sízt sem lærlingar. Þegar tveir menn vinna saman sem virða hvor annan og þekkja hvor annan eru meiri mögulegar á góðri samvinnu, þar sem fátt fer á milli mála og samskiptareglur eru skýrar og fólk sammála um þær.

Ég hef í pistlum mínum oft viðrað þá skoðun að konur komi ekki með neitt nýtt og betra inní vinnustaðamenninguna á Íslandi eða víðar. En ég er tilbúinn að skipta um skoðun alltaf, vona ég, því ég les og hlusta af athygli, og veg það og met sem ég læri nýtt.

Þannig er með þetta viðtal og þessa frétt á Vísi, vefsíðunni, að mér finnst þarna nokkuð svið sem mér finnst konur jafnvel hafa meiri hæfileika á en karlar, en það eru félagsleg samskipti, og að vilja koma á jafnræði á milli fólks og hópa.

Þessi pistill minn sýnir það vonandi flestum að ég er tilbúinn að endurskoða það sem ég hef haldið fram, ég er tilbúinn að efast og hrósa þeim sem eiga það skilið, eða ég reyni að vera þannig að minnsta kosti.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ingólfur Sigurðsson

Höfundur

Ingólfur Sigurðsson
Ingólfur Sigurðsson

Færsluflokkar

Júlí 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30 31      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.7.): 46
  • Sl. sólarhring: 69
  • Sl. viku: 465
  • Frá upphafi: 112541

Annað

  • Innlit í dag: 32
  • Innlit sl. viku: 325
  • Gestir í dag: 29
  • IP-tölur í dag: 29

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband