Leyndardómur frægðarinnar, þrælslundin sem er dýrkuð

Aðeins þegar mér finnst knýjandi að skrifa um eitthvað efni geri ég tilraun til að koma því í bókarform - þótt ekki hafi ég farið með neitt handrit til útgefanda - en 2017 lauk ég næstum við bókina:"Leyndarmál frægðarinnar", tilvitnun í frægt lag eftir Bubba Morthens frá 1984 og Das Kapital.

Kannski fátt merkilegt við það, nema ég er stoltur af þessari óútgefnu bók. Þar komst ég að þeirri niðurstöðu sem mörgum kemur á óvart - að leyndarmál frægðarinnar er að skara ekki fram úr, heldur einmitt þvert á móti að skapa ekki minnimáttarkennd hjá þjóðinni, sem er uppfull af minnimáttarkennd.

Minnimáttarkenndin er lykillinn að sálarlífi íslenzku þjóðarinnar, og leyndardómur "lýðræðisins" (sem er ekki til og hefur aldrei verið til nema í hugum kenningasmiða sem lifa í draumaheimi útópíanna, eða staðleysanna)", þess vegna virkar lýðræðið aldrei, því það er ekki frjálst og upplýst fólk sem kýs eða tekur afstöðu, heldur strengjabrúður sem eru að þóknast bergmálshellinum sínum eða eigendum nærri eða fjarri.

Ég væri ekki að vitna í óútgefið handrit eftir mig sem ég hef ekki farið með til útgefanda, því ég hef litla trú á að slík bók yrði gróðalind fyrir mig eða útgefandann, hef litla trú á að hún seldist í bílförmum, nema af því að innihald bókarinnar (handritsins) útskýrir margt í nútímanum, í þessum forsetakosningum nánar til tekið.

Það er þetta með minnimáttarkenndina sem ég vil koma að.

Í stað þess að koma með athugasemd við merkilegan og góðan pistil Magnúsar Sigurðssonar bloggara bý ég til minn eigin pistil um þetta, svo ég hafi tækifæri til að útskýra þetta betur.

En í nýjum pistli hans kemur einmitt fram þessi mikilvæga spurning, hvers vegna eru allir efstu frambjóðendurnir nokkurskonar and-frelsishetjur og and-sjálfstæðishetjur?

Allt einhverskonar taglhnýtingar erlends valds, hvort sem það er ESB, WEF, USA eða eitthvað annað.

Arnar Þór er hinsvegar allt öðruvísi og það er Ástþór Magnússon líka, en þeir eru ekki í toppsætunum, og þó hefur Ástþór kannski fengið ögn kurteislegri viðtökur núna, fólk er farið að taka hann alvarlega, en af flestum var hann kannski talinn trúður hér áður fyrr, en nú er hann farinn að eiga raunverulegan samhljóm sem rímar við samtímann, sem kallar á einhvern eins og hann, friðarhöfðingja og boðbera sáttar á milli þjóða og manna.

En allar þessar Davosdúkkulísur og drengir, þetta er fólkið sem við höldum að passi svo vel í embættið, af því að svona fólk stjórnar erlendum þjóðum (nema þegar Trump var við völd).

Þótt margsinnis sé reynt að berja því inní hausinn á okkur Íslendingum að forsetinn hafi ekki völd, þá berum við embættið alltaf saman við forseta Bandaríkjanna eða aðra erlenda þjóðhöfðingja með völd, og það fólk sem fer fyrir erlendum þjóðum er oft og einatt Davosdúkkulísur og Davosdrengir, fólk sem talar eins og YFIRSTÉTT, ELÍTA. Fólk sem veit betur og fyrirlítur okkur hin. (En þykist ekki gera það).

Ég hef lært mikið af mínu eigin lífi og reynslu minni í tónlistarbransanum. Ég hef tekið eftir viðbrögðum fólks á tónleikum við ólíkum lagasmíðum og textum, ellegar þá mismunandi sviðsframkomu hjá mér, þegar ég hef verið feiminn eða ekki feiminn.

Fyrst þegar ég kom fram á tónleikum, í Digranesskóla á Litlu jólunum árið 1985, þá fékk ég beztu viðtökurnar á ferlinum.

Síðan 30 árum seinna söng ég nákvæmlega sama lagið aftur á tónleikum sem Svavar Knútur og fleiri skipulögðu, á vegum Acoustic Melodica Festival, en það var í ágústmánuði 2015. Þá hafði ég ekki flutt lagið aftur á öllum þessum 30 árum frá því það hafði verið frumflutt, skömmu eftir að það var samið í desember 1985.

En ég hélt að kannski fengi ég mikið klapp og blístur fyrir lagið, sem heitir"Myrkur á morgun", eða eitthvað álíka. Nei, þá fékk ég áberandi lélegar undirtektir, og þó hafði ég lagt það á mig fyrir þessa tónleika 2015 að læra þetta lag utanað og önnur lög. Nei, það var skvaldrað og fólk hafði alls ekki áhuga á þessu lagi þá. Vel að merkja, 80-90% af öllum þar inni voru enskumælandi fólk, ekki Íslendingar, og það hafði kannski eitthvað að segja.

Reynslan af þessu var mér efniviður í bókina "Leyndarmál frægðarinnar" 2017, sem ég er farinn að halda að ætti að koma út, því hún á erindi við fólk og gæti kennt því eitthvað.

Ég var ekki neinskonar barnastjarna árið 1985 í Digranesskóla á Litlu jólunum. Ég var félagslega útundan eins og ég hef alltaf verið og svo feiminn, en þegar ég steig á sviðið hvarf mér öll feimnin og ég naut þess sem ég var að gera.

Þetta var ástarljóð undir rós, en textinn svo dularfullur að enginn skilur hann enn til fullnustu, og jafnvel varla ég sjálfur.

En það voru aðeins þrír strengir í gítarnum og ég kunni ekkert á gítarinn. Allir strengirnir voru vitlaust stilltir og ég náði þó lagi með því að þenja strengina með því að þrýsta á þverböndin með því að búa til mín eigin grip, en aldrei tvisvar á sama hátt.

Til að gera þessa makalausu uppákomu ennþá einstakari, furðulegri og ótrúlegri var klæðnaður minn valinn af mér sjálfum og var mjög sérstakur, en ég fór í gamla og stagbætta dúnúlpu sem var eiginlega ónýt, og fiðrið farið að vella út þar sem saumarnir voru ónýtir. Hafði ég gert við hana sjálfur með límbandi frá afa, og hélt límbandið henni saman, að svo miklu leyti sem hægt var. Ég átti víst úlpu sem var nýrri, en ég vildi ekki bæta við áhyggjum af þessu, og greip gamla úlpu til að losna við þá umræðu, um klæðaburð og hvað væri fullkomið í þeim efnum.

Auk þess fór ég í vaðstígvélum. Það var reyndar kalt og snjór úti, held ég.

En allar konurnar í ættinni urðu alveg æfar af hneykslun útí mig, að ég skyldi ekki leita til þeirra að fá einhvern fínan klæðnað. Því var búið að spá að ég yrði púaður af sviðinu af þessum fínu frúm, sem gerðist reyndar ekki, og alls ekki raunar.

En af hverju fór ég svona klæddur?

Þetta hjálpaði mér til að losna við feimnina og ótta við höfnun. Með því að fara svo langt yfir öll velsæmismörk og strik fannst mér ég vera í skjóli undan fólki sem þóttist vita allt bezt um klæðnað á fínum samkomum.

Ég hugsaði sem svo, að tónlistin skipti öllu máli, ekki útlitið, ekki fatnaður.

Nú, það vissu allir í skólanum að ég var allur í listum. Ég var þekktur fyrir myndasögugerð, smásögur og ljóð.

En það sem kom öllum á óvart var að ég skyldi HALDA LAGI, og að ég skyldi SYNGJA SKÝRT, og lagið fallegt, melódískt, textinn fullkomlega óskiljanlegur og langur, mikil þula og undarleg, sem sé, einhverskonar sambland af Björk, Bob Dylan, Bubba Morthens, Bjartmari, Herði Torfa, Megasi og pönki, þjóðlagatónlist, rokki og poppi... og einhverju rappi þessvegna.

Einnig það sem kom öllum á óvart var að fólk fann á mér og heyrði að ég naut mín í botn í sviðsljósinu, ég var loksins ekki feiminn lengur, ég kunni textann og lagið, og gat sungið, en ekki spilað á gítar nema með þessum furðulega hætti, sem reyndar virkaði alveg, því það er hægt að spila á gítar á fleiri en einn hátt. Bara að einhverjir tónar komi út sem passa sæmilega við sönginn, það dugar.

Þetta var mjög skrýtið. Þarna var ég einn feimnasti strákurinn í skólanum og sá eini sem og fyrsti sem kom fram sem trúbador af nemendunum, með 10 mínútna langa og óskiljanlega þulu og eintóna, undir sæmilega fallegri melódíu, sem kannski mátti túlka sem ástarljóð og lag til stelpu í skólanum sem ég kannaðist við og vildi, og kannski ekki.

Sem sé, þetta var mjög skrýtið og sérkennilegt, og eiginlega of ótrúlegt til að geta verið satt. Því miður var þetta ekki tekið upp á myndband, það hefði verið sérkennilegt og gríðarlegt klappið og blístrið komið í ljós frá nemendunum í skólanum eftir lagið og svo þessi sérkennilegi flutningur minn á eigin lagi og texta.

Ég hef lýst því áður að það var sprengja þegar ég spilaði lagið og lauk við það. Það var grafarþögn í þessar 10 mínútur sem ég spilaði lagið, og það liðu kannski fáeinar mínútur þar til ég var kominn af sviðinu, en brátt tók við ærandi hávaði, því salurinn var pakkfullur af krökkum, og blístrið, klappið og öskrið heyrðist þannig að maður lamaðist af undrun.

Allt var þetta eins og í vímu, bæði að flytja lagið og svo á eftir.

Reyndar hef ég séð í Gettu betur á RÚV og Skrekk, að unglingar eru hrifnæmir og öskra og blístra þegar samnemar þeirra koma fram, þannig að kannski var þetta ósköp venjulegt miðað við hegðun unglinga.

En samt held ég að ég hafi tryllt salinn meira en ég hef séð nokkrusinni á Skrekk eða Gettu betur. Það voru engar ýkjur, að ég komst ekki inn á meðal nemendanna eftir þetta atriði, sem átti bara að gera eina stelpu ástfangna af mér reyndar, sú var pælingin.

Litlu jólin voru haldin í nokkrum samliggjandi kennslustofum.

Sviðið var ekki stórt, ég held að nokkur kennsluborð hafi verið sett saman, hlið við hlið, rönd við rönd og þarna var vissulega eitthvað hljóðkerfi. Svo fór maður út af sviðinu, í áttina að glugganum sem var nálægt hurðinni út. Þar mætti manni þvaga af öskrandi krökkum.

Skafti Þ. Halldórsson sem var umsjónarkennari kom mér til bjargar. Hann ýtti þeim einhvernveginn frá og ég man ekki hvað hann sagði, eitthvað í þessa áttina:"Stjarnan okkar þarf líka frið", róið ykkur nú niður, það er komið að næsta atriði.

En allavega, þetta var sama veturinn og ég átti að útskrifast úr Digranesskóla, Samræmdu prófin voru um vorið, og ég náði þeim, náði prófum þegar ég nennti, annars ekki.

En eftir þetta var litið á mig af virðingu eins og ég væri fræg poppstjarna.

Ég var fenginn til að búa til lag og ljóð um útskriftarárganginn minn, sem ég gerði, og það var flutt á ballinu 1986. Ég var einnig fenginn til að gefa bókasafninu í skólanum ljóðin mín eða söngtextana, en ég vélritaði eitt hefti sem var rúmlega 100 síður og heftaði saman, og það þótti óvenjulegt að nemandi kynni að yrkja hefðbundið og líka að búa til atómljóð, en ég átti frænda, bróðir hans afa, sem hafði kennt mér bragfræðina nokkrum árum áður, Ingvar Agnarsson, bróðir hans afa, sem var sjálfur skáld ásamt því að vera forstjóri Barðans og mikill Nýalssinni.

En ég hef pælt í þessu. Af hverju sýnir fólk minni tónlist engan áhuga núna þegar ég kann miklu betur á gítar?

Ég skrifaði um það og margt fleira í bókinni óútgefnu, "Leyndarmál frægðarinnar" frá 2017.

Ég gaf þessum krökkum sjálfstraust í desember 1985. Ég var einhvernveginn einn af þeim, og auk þess á sama tíma hæfileikalaus og þó með einhverja svolitla hæfileika, en alveg óæfður.

Í öll þessi ár sem ég spilaði á Melodica tónleikum Svavars Knúts frá 2009 til 2015 fékk ég fremur dræmar viðtökur, enda meirihlutinn útlendir gestir, tónlistarfólk sem hlustaði hvert á annað, og ég var utanaðkomandi furðuvera í þeirra hópi, kynnti lögin mín á lélegri ensku en söng jafnan á íslenzku, og var með flest á blöðum, kunni ekki textana. Nema 2015, í síðasta skiptið sem ég söng þarna. Þá kunni ég efnið, en það breytti engu, masið var jafn mikið og áhuginn takmarkaður.

Eins og ég var kynntur "Íslenzkur furðufugl og utangarðsmaður í íslenzkri tónlist, öndergránd öndergránd."

Nei, það vakti ekki lukku.

Ég skrifaði um það í þessari bók að ákveðið mynstur má rekja í gegnum tónlistarsöguna. Sem sé, tónlistin endurspeglar þróun menningarinnar, hvað fólkið vill hverju sinni, hvernig ástand menningarinnar er hverju sinni.

Eitt sinn var tónlist aðeins fyrir hámenninguna. Það var þegar klassísku tónskáldin voru uppá sitt bezta. Það var þegar kirkjan stjórnaði fólkinu og feðraveldið.

Það var þegar Mozart og fleiri voru uppá sitt bezta. Undrabörn sem fengu athygli fyrir hæfileika sína. Sverrir Stormsker var undrabarn eins og Mozart, en of seint uppi og á röngu landi, of fámennu, fullu af fólki að deyja úr minnimáttarkennd.

Ég rakti það í þessari bók að tónlist varð til út frá tjáningu dýranna, sem annaðhvort í makaleit eða út af öðrum tjáskiptum gefa frá sér hljóð, fuglar syngja, svín rýta og svo framvegis. Tónlistin kom á undan tungumálinu. Hljóð af margvíslegu tagi komu á undan skipulagðri tónlist.

Sumir halda að Bítlarnir hafi aðeins orðið frægir vegna hæfileika sinna. Auðvitað var þetta ekki þannig.

90% af gæðum Bítlanna kemur út af vinnu og fullkomnunaráráttu. Bítlarnir skildu ekki eftir sig aukalög í miklu magni. Eftir að Lennon og McCartney slitu samstarfi sínu minnkuðu bæði afköst þeirra og gæði. Þeir bættu hvor annan upp. Snillingar kannski, en ekki sízt vegna þrýstings og pressu utanfrá.

En mest um vert er þó þetta, að bylting Bítlanna, sem aldrei verður ofmetin, því hún var bylting, og einnig í menningarsögulegu tilliti, hún hafði margþættar afleiðingar og orsakir hennar voru einnig margvíslegar.

Það verður að taka sögu Bítlanna saman við sögu Bob Dylans og mannréttindabaráttunnar. Þetta er allt órjúfanleg heild í sama vefnaði.

Bítlarnir voru átrúnaðargoð táningsstelpna alveg sérstaklega, eins og Elvis hafði verið áður.

Bítlarnir voru persónur, þeir voru ekki skapaðir af plötuútgefendum eða markaðsfræðingum, þegar voru alvöru menn, alvöru strákar.

Þeir sömdu eigin lög og gerðu það hratt, vel og örugglega eins og fagmenn. Eins og Bob Dylan voru þeir merki um nýja tíma, ofurhetjur, bæði tónskáld og söngvarar í sömu persónunum.

En saga Bítlanna er einnig saga 20. aldarinnar. Saga okkar vestrænu menningar fjallar um að upphefja egóið, einstaklinginn. Bítlarnir voru partur af þeirri þróun.

Snillingar.

Þróunin miðaði samt að því að upphefja hæfileikaleysið og það hversdagslega, og það ómerkilega og lélega.

Ekki fyrr en með Netinu náði sú þróun hámarki, því rapp og slík tónlist er ekkert annað en talað og ropað hrokabull sem nær árangri fyrir það eitt að fólk úr minnihlutahópum sem nær fjöldafylgi er þar í forsvari.

Ég var dýrkaður 1985 því þá var reynsluleysi mitt dýrkað. Þau fundu sig sjálf í mér. Hver sem er hefði getað dottið inná sviðið með einhverja tóna og bulltexta, því ég fullyrði að enginn skildi eitt einasta orð í þessum skrýtna texta, hvað þá fékk merkingu í hann, ef eitthvað heyrðist af því sem ég söng, sem ég efast reyndar um. Þó var textinn góður og er enn góður, sem súrrealískt ljóð eins og það sem Bob Dylan orti snilldarlega um árið 1965, þegar hann var á hátindi frægðar sinnar.

Að skilja fólk er ekki auðvelt eða að útskýra hegðun fólks. Það verður ekki gert í stuttu máli. Því er allur þessi langi texti hér að ofan aðeins formáli að því sem ég er að reyna að fjalla um í þessum pistli, en formáli sem þó skýrir ýmislegt út um leyndarmál frægðarinnar, að vísu, varpar ljósi á umfjöllunarefnið.

Ef 90% þjóðarinnar kysi Ástþór Magnússon sem næsta forseta myndi 90% þjóðarinnar komast í hræðilega sjálfsmyndarkrísu.

Ekki bara það. Nákvæmlega það sama myndi gerast ef Arnar Þór Jónsson fengi 90% atkvæða, eins og hann á skilið, fyrir að vera sjálfstæðishetja, sterkur persónuleiki, þroskaður og vel máli farinn, forsetalegur á alla lund.

Málið er þetta, að bókin mín útskýrir þetta allt.

Þessvegna varð George W. Bush forseti Bandaríkjanna.

Þessvegna varð Donald Trump forseti Bandaríkjanna.

Þessvegna varð Joe Biden forseti Bandaríkjanna.

Lýðræðið verður brandari eftir nokkrar kynslóðir. Fólk fer að láta stjórnast af minnimáttarkennd sinni frekar en nokkru öðru.

Fólk kýs Slubba Slen, en í Lukku Láka bókinni "Allt í sóma í Oklahóma" er hann kosinn borgarstjóri öllum að óvörum, eins og Jón Gnarr, en Slubbi Slen er talinn trúður fram að því, einfaldur og heimskur maður, sem ekkert erindi á í stjórnmálin. Þó kjósa hann flestir í gríni, því hann ógnar þeim ekki, er aðeins aðhlátursefni flestra.

Og hann reynist skárri borgarstjóri en flestir raunar. Því hann er ekki fullur af egóisma eins og næstum allir hinir heldur hefur skítsæmilega ráðgjafa sér til aðstoðar sem reynast skárri en engir.

Því bókin fjallar líka um alla hina egóistana sem níða skóna af sambræðrum sínum til að komast til valda, en gera lítið úr sjálfum sér og öðrum fyrir vikið.

Ástþór Magnússon er dæmi um forseta sem myndi STJÓRNA og LEIÐA, ekki vera trúður.

Konurnar sem stjórna landinu núna líta ekki út fyrir að vera trúðar. En hvað eru þær annað í eftirdragi erlendra stríðshauka og valdasamsteypa?

En fólkið í landinu í dag er svo einfalt, að það verður að spegla sjálft sig í forsetanum sem hlýtur mestar vinsældir. Forsetinn verður að vera sambland af þrælslund almennings og svo fagmennsku á yfirborðinu, sem felur þá þrælslund og undirgefni við Satan.

Við sjáum okkur sjálf í forsetanum. Hann verður að spegla fjöldann, ekki spekingana örfáu, ekki stjórnvitringana sem hafa mesta hæfileika til að hjálpa, stjórna og koma á friði, heldur hina sem leiða okkur útí næsta drullupoll á mestum hraða.

 


mbl.is Kveðst engar kvittanir hafa fengið frá Höllu Hrund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Góður Ingólfur, -án þess að vita þá held ég að leyndarmál frægðarinnar tengist takti tímans.

Það er svo ótrúlega margt sem þótti gáfa á síðustu öld sem telst til ógæfu á þessari og er jafnvel búið að markaðsvæða sem vandamál, t.d. bara ofvirkur strákur.

Eitt sem þótti t.d. hallærislegt á þeirri síðustu var að mikla sig af peningum, nú eru það peningarnir sem blífa og þeim meira sem þú hefur af þeim í kringum þig þeim hærra ertu metinn.

Takk fyrir pistilinn sem er svo yfirgripsmikill að það væri leikandi hægt að skrifa langloku í athugasemd.

Magnús Sigurðsson, 28.5.2024 kl. 06:23

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Ingólfur.

Tek undir með Magnúsi, þú náðir mér algjörlega og sagðir margt.

Ég hefði samt viljað fá að vita af hverju Joe Biden varð forseti en verð víst að bíða eftir Leyndarmáli frægðarinnar.

Verð samt að láta eitt gullkorn fylgja með; "Þróunin miðaði samt að því að upphefja hæfileikaleysið og það hversdagslega, og það ómerkilega og lélega.".

Þess Lilju vildu margir kveðið hafa.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 28.5.2024 kl. 07:29

3 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

Takk fyrir innlitið og skemmtilegar og góðar athugasemdir félagar. Þið eruð báðir af Austurlandi þykist ég vita.

Magnús, takk fyrir þinn pistil um þetta, hann kom mér á sporið. Og Ómar, ég hef verið að lesa eftir þig undanfarið einnig, og margt sem maður er mjög sammála, annað síður, eins og gengur.

Já í svona pælingum er sumt rétt en annað ekki.

Magnús, þú færð bara innblástur í eigin pistla af þessu. Hér er svo mikið af allskonar atriðum og farið út um víðan völl að hægt er að bæta um betur og spinna út frá.

Sumt af þessu held ég að sé rétt, eins og að vandvirkni, hæfileikar, heiðarleiki, allskonar svona kostir, þetta vegur ekki lengur endilega þyngst.

Já, takk enn fyrir hrósið og að taka þátt í að spinna áhugaverðar pælingar áfram.

Ingólfur Sigurðsson, 28.5.2024 kl. 15:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ingólfur Sigurðsson

Höfundur

Ingólfur Sigurðsson
Ingólfur Sigurðsson

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • 5
  • 4
  • 3
  • Image 004
  • Titilblað

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 35
  • Sl. sólarhring: 124
  • Sl. viku: 643
  • Frá upphafi: 133114

Annað

  • Innlit í dag: 25
  • Innlit sl. viku: 493
  • Gestir í dag: 24
  • IP-tölur í dag: 24

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Leita í fréttum mbl.is

Nýjustu myndböndin

Heilbrigðisráðherrann, helbrigðaráðherfan

Í hópnum finn ég hlýja barnatrú

Aldrei fellur auðmagnskerfið

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband