Íslenzkar, sígildar hljómplötur sem fjalla um andstöðuna gegn NATÓ. Meistaraverkið "Fráfærur" með Þokkabót.

Snjallir og skýrir pistlar Rúnars Kristjánssonar um hætturnar af NATÓ fyrir okkar þjóð og svo heimsatburðir skuggalegir hafa látið mig draga fram hljómplötur sem ég á gegn NATÓ. Þar finnst mér tvær hljómplötur eftirminnilegastar og sterkastar, fyrri plata Heimavarnarliðsins frá 1979, þar sem lagið "Ísland úr NATÓ og herinn á brott" er, grípandi og flott, sígilt, og svo "Fráfærur" með Þokkabót frá 1976. Fyrsta plata Utangarðsmanna frá 1980 er svo ómissandi í þennan hóp og "Plágan" með Bubba Morthens frá 1981, þarna greiddi hann skuld sína Vísnavinum og Herstöðvaandstæðingum sem hjálpuðu honum að ná árangri, hvöttu hann og leyfðu honum að spila á tónleikum með sér.

Listalíf vinstrimanna blómstraði um þetta leyti. Tónlistarhópurinn Heimvarnarliðið var til dæmis fjölmennur hópur og ekki hljómsveit í þeim skilningi sem við leggjum í orðið.

Ef við berum saman nýlegt 75 ára afmæli Nató á þessu ári sem ekki var mótmælt svo ég viti til, en fagnað af pólitíkusum,  og svo baráttufundinn gegn Nató í Háskólabíói 31. marz 1979, er 30 ár voru liðin frá inngöngu Íslands, sem var upphaf stofnunar sveitarinnar Heimvavarnarliðið, þá sér maður að andstaðan gegn NATÓ á þessu landi er ekki svipur hjá sjón.

Það er líka eftirtektarvert ef maður skoðar þann fjölbreytta hóp tónlistarfólks sem kom að gerð plötunnar frá 1979 að svo virðist sem almennt baráttuþrek gegn NATÓ hafi ríkt, og að mjög margir tónlistarmenn hafi verið á þessari línu.

En þennan pistil vil ég þó helga hljómplötunni Fráfærur með Þokkabót frá 1976.

Tónlistarlega vil ég flokka þessa plötu sem prog-rokk, eða nánar tiltekið þjóðlaga-prog-rokk, en á betri íslenzku myndi það kallað framsækið þjóðlagarokk.

Prog rock er enskt heiti sem lýsir sér í löngum tónsmíðum eða lagabútum sem hnýttar eru saman, og áttu Bítlarnir þátt í þessu með Sergeants Pepper frá 1967 og ýmsar hljómsveitir, eins og Beach Boys.

Framsækið rokk einkennist af blöndun margra stíla, koma þar inn í áhrif frá sígildri tónlist, jazzi, þjóðlagatónlistar, popps, rokks, sýrutónlistar og jafnvel fleiri stefnum.

Margt á þessari plötu Þokkabótar minnir á Genesis og Yes á þessum tíma. Platan er samsett af frekar stuttum lagbútum sem þó næstum allir koma inná andstöðuna gegn NATÓ.

Lagbútarnir hnýtast saman á snyrtilegan hátt, bæði tónlistarlega og textalega. Jafnvel söngraddirnar hnýtast saman á einkar heillandi hátt.

Þessi hljómplata hefur af mörgum fengið fullt hús stiga sem bezta verk hljómsveitarinnar, og er ég sammála því. Hún er meistaraverk þessi hljómskífa.

Bubbi Morthens var mjög klisjukenndur í þessum málum eins og oft á sínum ferli gagnvart flestu. Þannig söng hann einfalda slagara og slagorð einkenndu textana. Slíkt er oft vænlegt til vinsælda því það er grípandi og vekur athygli, en hinsvegar verður það oft flatt í ljósi tímans, sem upphrópun og háreysti, en ekki vönduð list.

Það er þó ljóðrænan sem bjargar Bubba frá því að fletjast alveg út, en lestur ljóðabóka er hans yndi eins og hann hefur oft sagt frá í viðtölum. Líkingamál er honum auðvelt.

Plötur Heimavarnarliðsins fara bil beggja á milli þess sem Bubbi samdi um þetta og Fráfæra Þokkabótar. Þær innihalda klisjur og slagara, en fjölbreytni er þar meiri en hjá Bubba, enda koma margir höfundar þar að.

Ég kynntist nafna mínum í heimahúsi hjá Bahaíum, Ingólfi Steinssyni, en hann var einn af aðalmönnunum í hljómsveitinni Þokkabót, ásamt Halldóri Gunnarssyni og fleirum. Ég lýsti aðdáun minni á hljómsveitinni og spurði hví þeir hefðu lagt upp laupana, en hann lagði ríka áherzlu á það að hljómsveitin hafi passað inní tíðarandann þá, en ekki síðar.

En mér fannst á honum að þeir hafi kunnað talsvert fyrir sér í hljóðfæraleik, jafnvel nótnalestri, og það heyrist einnig á plötum þeirra. Af svörum hans skildist mér einnig að þeir hafi hlustað á það sem var vinsælt í útlöndum á þeim tíma, eins og sennilega Genesis og Yes.

Ég er viss um að meistari Megas hafði áhrif á tónlistarmenn í þessa átt þegar hann kom fram. Hann naut aðdáunar annarra tónlistarmanna, hann var með allt niðurskrifað í nótum í hljóðverum.

Þegar plötuumslagið er skoðað kemur í ljós að mjög margir koma að því að semja lög og texta. Auk þessara tveggja eru Eggert Þorleifsson, Karl J. Sighvatsson, Leifur Hauksson og Sigurjón Sighvatsson skrifaðir fyrir lögum og textum og flutningi. Og enn fleiri koma að plötunni, eins og sveitin Diabolus in Musica, það fólk mun hafa verið hámenntað í tónlist.

Þegar vel er á plötuna hlustað dáist maður að raddsetningunni, hvernig röddum er fléttað saman. Ekki aðeins það, heldur eru raddir listamannanna merkilega líkar hver annarri. Minnir samt frekar á Kingston tríóið eða Peter, Paul og Mary og slíkar þjóðlagagrúppur en prog rokk hljómsveitir með raddsterka einsöngvara í sviðsljósinu.

Lagasmíðarnar eru engu að síður býsna flóknar, og langt frá því að vera einföld þjóðlagatónlist, eins og á fyrstu plötu hljómsveitarinnar.

Útvarpsmaðurinn Leifur Hauksson er nýlega látinn, en hann var einnig tónlistarmaður og leikari. Hans hlutverk á snilldarverkinu sem hér er til umfjöllunar er mjög stórt. Söngrödd hans nýtur sín víða, og hann er einnig skrifaður fyrir efninu.

Annar maður sem þekktur er úr öðrum geira, kvikmyndaframleiðandinn mikli Sigurjón Sighvatsson kom einnig við sögu á plötunni. Ekki heyri ég hann syngja þarna mikið, en hann mun hafa spilað á bassa og samið eitthvað. Bróðir hans var einnig í hljómsveitinni, sem lézt sviplega í bílslysi 1991, Karl J. Sighvatsson, meistari Hammondorgelsins.

Sannfæring þessara ungu manna er gríðarlega heillandi á plötunni. Reynt er að fara eftir öllum kveðskaparreglum með misjöfnum árangri, en að minnsta kosti skilar metnaðurinn hreint frábærum textum sem eru betri en textarnir hans Bubba oft, því þeir eru margslungnari og beittari jafnvel í ádeilunni gegn NATÓ.

Nýyrðið "þjóðvillingar" kemur fram á plötunni, og lýsir þeim sem svíkja landið í hendur NATÓ. Já, rétt eins og stór hluti Íslendinga villist á þjóðerni sínu, og telji sig Bandaríkjamenn, vegna menningaráhrifa Hollywood, spillandi með afbrigðum.

Þessi hljómplata er með því faglegasta sem maður getur heyrt. Hvergi eru textar klaufalegir, og skiptir engu þótt misvel sé skeytt um kveðskaparreglur, því setningar eru snjallar og beittar, gagnrýni hörð og ádeilan, og ljóðræn framsetning þó með bezta móti, ekki þvældar klisjur heldur yfirvegaðar.

Þó er tónlistin jafnvel enn betri. Hljóðfæraleikurinn er þjáll og þjálfaður, hljóðfærin leika í höndum þeirra, og lagasmíðar eru engar klisjur frekar en textar, heldur blanda frá ýmsum áttum.

Halldór Kiljan Laxness á reyndar einn texta og Jóhannes úr Kötlum annan, þannig að þeir bera sig saman við meistarana og læra af þeim, sem útskýrir gæði plötunnar einnig.

En þessi plata er eins og Sgt Peppers Lonely Hearts Club Band með Bítlunum. Hún er flókin og margsamsett úr lagabútum, og því er hún þannig að hún á enn erindi við fólk, eins og plötur Heimavarnarliðsins.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Kann að meta; örin sem breytir 0 í 1 er ekki virk hjá mér sökum óhliðni,eftir því sem mér sýnist.  

Helga Kristjánsdóttir, 16.5.2024 kl. 02:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ingólfur Sigurðsson

Höfundur

Ingólfur Sigurðsson
Ingólfur Sigurðsson

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • 5
  • 4
  • 3
  • Image 004
  • Titilblað

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.1.): 73
  • Sl. sólarhring: 82
  • Sl. viku: 667
  • Frá upphafi: 132023

Annað

  • Innlit í dag: 64
  • Innlit sl. viku: 556
  • Gestir í dag: 63
  • IP-tölur í dag: 60

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Leita í fréttum mbl.is

Nýjustu myndböndin

Heilbrigðisráðherrann, helbrigðaráðherfan

Í hópnum finn ég hlýja barnatrú

Aldrei fellur auðmagnskerfið

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband