4.4.2024 | 01:27
Hvað er forsetalegt?
Það er áhugavert að byrja á bókum - eða handritum, en erfiðara að ljúka við þannig að maður sé sáttur. Ég hef minnzt á bók sem ég eiginlega kláraði 2017 en var samt aldrei fullkomlega ánægður með, taldi hana ekki búna. Ég vildi nefnilega láta hana í hendurnar á öðrum höfundi, til að ljúka við þar sem mér fannst mig skorta þekkingu.
Ég kallaði hana "Leyndarmál frægðarinnar", eftir frægu lagi Bubba Morthens frá 1984.
Margt er gott við þessa bók, en hafi maður fullkomnunaráráttu er maður aldrei sáttur við það sem maður reynir að setja saman. Þekking mín á tónlistarsögunni er léleg þegar kemur að öllum smáatriðum og því veit ég hvað mætti betur fara.
Ég vildi fjalla um þetta mjög vel, en er of latur til að nenna að vanda mig yfirleitt, eða að fara í heimildavinnu, og finn mér alltaf eitthvað að gera, hvort sem það er ómerkilegt eða ekki, og því er ég ekki duglegastur í að hnýta endahnúta og fullkomna.
Ástæðan fyrir því að ég fjalli um þetta óútgefna handrit hér er að boðskapurinn sem ég komst að rímar við forsetakosningarnar núna og þennan mikla fjölda frambjóðenda. Ég var nefnilega að velta því fyrir mér þegar ég var að skrifa þetta óútgefna handrit hversvegna svona margir tónlistarmenn eru til í dag sem njóta lítilla vinsælda, og hvað mætti lesa út úr því almennt, miðað við fáa sem voru frægir eitt sinn.
En ég fjallaði um Bítlana í einum kafla og Bob Dylan í öðrum, enda allir þeir tónlistarmenn stórir og áhrifaríkir, bæði á mig og flesta.
Egóismi er nokkurskonar spegilbrot sem ég nota í gegnum allt verkið, ég spyr mig hvort tónlistarmenn séu reknir áfram af egóisma meira en aðrir, eins og sumir héldu fram. Alla vega heyrði ég það hjá sumu eldra fólki að allir listamenn væru óalandi og óferjandi, eigingjarnir andskotar og sjálfhverfir, bara ónytjungar, líka þeir frægu. Sem betur fer hefur þessi skoðun aldrei verið mjög útbreidd, en talsvert þó.
Maður notar ýmis sjónarhorn til að komast að niðurstöðu.
Síðustu kaflarnir fjalla um nútímann, upplausnina í nútímanum.
Bókin mín óútgefna fjallar um það hvernig tónlistin endurspeglar menninguna og ástand eða hugarástand fólks hverju sinni.
Hvernig var byrjun tónlistarinnar? Tónlist frummanna, hvernig var hún?
Dýrin nota hljóð til tjáskipta.
Þannig að áður en frummennirnir höfðu þróað tal höfðu þeir þróað tónlist, tjáskipti með hljóðum án samtala. Það má teljast alveg fullvíst.
Síðan einhverjum hundruðum þúsunda ára síðar eru komin þróuð trúarbrögð, og þau eru notuð sem afsökun til að kúga lýðinn.
Þá höfum við það sem er andstæða nútímatónlistar, sem er alþýðulist að allmiklu leyti. Barrokkið kom upp 1600 - 1750, og orðið kemur úr portúgölsku, þýðir perla með óreglulegri lögun, eða ofhlaðin tónlist þar sem laglínan gjarnan týnist.
Nútíminn er fullur af upplausn. Eitt sinn var tónlist aðeins leikin við hirðina hjá kóngum og í kirkjum. Að vísu hlýtur fólk alltaf að hafa sungið, en þá var slíkt oft tengt við Djöfulinn, sem holdlegur unaður, alþýðulist.
Ef maður fer aftur til hins heiðna tíma í Evrópu þá kemst maður að því að þá var tónlist hluti af því sem tengdist töfrum og helgihaldi í hofum og hörgum. Bard þýðir söngvaskáld, þetta enska orð hefur einnig íslenzka samsvörun, sem er barði, listamaður eða kveðandi.
Talað var um að gala galdur í norrænni heiðni, og það styður nákvæmlega þessa túlkun.
Vissulega er það rétt hjá fræðimönnum að Ásatrú var farin að vera hnignandi trú við landnám Íslands, að því leytinu til að sennilega var hin óttablandna lotning á undanhaldi fyrir guðum og gyðjum, og þó til staðar, og átti eftir að fylgja Íslendingum, jafnvel á meðan þeir voru kristnir, en þá sem eitthvað bannhelgt fyrirbæri.
Engu að síður má fullyrða það með vissu, að sú lotning sem fólk sýndi tónlist í kirkjunum var arfur frá heiðninni. Ég hef lesið mikið um heiðni, og eitt sem má vera viss um, er að skilin á milli kaþólskrar kristni og heiðinna germanskra trúarbragða eru ekki jafn skýr og sumir halda. Helgisiðir héldust, guðir urðu að dýrðlingum, einkennin erfðust yfir á dýrðlingana, orðtiltæki, sögur um heilaga menn, ævintýri, barnasögur, þjóðsagnir, þetta umbreyttist. Klaustur voru til í heiðnum sið, þar sem einsetufólk í heiðnum trúarbrögðum hafði verið til, og hörgarnir nokkurskonar klaustur, eða bókasöfn heiðna tímans.
En miðstýringin var ekki eins mikil í Ásatrúnni og kristninni, fólk var ekki hrætt eins mikið með Helvítisvistinni og refsingum. Þessvegna munu guðirnir sjálfir hafa ákveðið að láta fólkið verða kristið, og þeir munu hafa litið á það sem siðbót, því þeir sjálfir gáfust upp á mönnunum, sem höfðu orðið afhuga heiðninni, Ásatrúnni og Vanatrúnni.
En eitt sinn var tónlistin notuð sem kúgunartæki. Við höfum ekki heimildir langt aftur í tímann, en getum gizkað á með sæmilegri vissu að þannig hafi þetta verið aftur í grárri forneskju.
Á tímum kirkjunnar í Evrópu var þetta þannig alveg pottþétt. Þekking í tónlist og færni gerði tónlistarmenn að hástéttarmönnum. Þó urðu tónlistarmenn ekki alltaf ríkir, en virtir oft.
Um leið og tölvur eru eign barna og unglinga, fólks á öllum aldri, og þegar þær eru notaðar í stað hljóðvera áður, þá er auðveldara að gefa út eigið efni á netinu.
Bítlaæðið er merkilegt menningarfyrirbæri. Sérstaklega unglingsstelpur misstu meðvitund og æptu úr sér raddirnar af dýrkun. Bítlarnir voru tignaðir sem guðir í mannheimum.
Í handritinu mínu kom ég inná þetta.
Ég lít á mannkynssöguna sem syndafall frá upphafi til enda. Eða það lýtur þyngdaraflinu. Fólk fellur til jarðar, andinn fellur til jarðar.
Ég hef eitthvað lesið eftir Emanuel Swedenborg. Hann er gott dæmi um rammlega kristinn heimspeking sem lýsti hugtakinu synd þannig að það festist í manni og verður manni hugstætt.
Swedenborg ritaði um Stórmanninn. Hann sagði að Himnaríki allt væri Guð sjálfur eða í mynd Guðs og að Helja öll væri í mynd Djöfulsins eða Andkrists.
Ég er forvitinn, og ég las þetta mér til skilnings. Það sem manni fyrst þykir óskiljanleg þvæla verður skiljanlegt þegar maður les betur og lengra, eins og rit Swedenborgs.
Þannig má lesa það útúr ritum Swedenborgs að Helja sé samansafn framliðinna einstaklinga sem láta stjórnast af egóismanum einum saman. Þar þykist hver vera mestur og hver höndin er upp á móti annarri, og Biblían ekki heilagri en bullið úr næsta manni.
Hinsvegar er Himnaríki andstæðan. Þar þekkja allir Biblíuna og elska hana eins og Guð og næsta mann, náungann. Þetta meikar sens og er skynsamlegt og rökfræðilega rétt, þótt ótrúlegt megi virðast.
Það er nefnilega þannig að ef maður hlustar á það sem sannkristnir segja og ef maður er ekki of kristilega þenkjandi finnst maður frelsunartal og frelsaratal órökrétt og eitthvað sem aðeins bilað fólk lætur útúr sér.
Swedenborg er allt annað mál.
Þetta verður skiljanlegt hjá honum.
Við vitum það alveg hvernig góð samfélög eru, þar sem kærleikur er ríkjandi og þar sem fólk fer eftir sameiginlegum reglum.
Þessvegna finnst mér frambjóðandi eins og Arnar Þór vera góður frambjóðandi og sýna embættinu virðingu, en ekki þeir sem gera það aðeins til að fá athygli og gera grín að því.
Sennilega er mannkynssagan ekki beint fall niður á við, heldur stöðug jójóganga á milli Himnaríkis og Helju.
En niðurstaða mín í bókinni "Leyndarmál frægðarinnar" er sú, að mannkynssagan stefnir að sífellt meiri satanisma og egóisma. Við erum að missa samstöðuna og heilagleikann, í staðinn kemur egóisminn.
Bítlarnir opna dyrnar, Presley gerði það líka og Bubbi Morthens, en talan er 666, tala mannsins.
Kúgun og einveldi er viðhaldið þegar ytri skilyrði eru hörð, þegar fólkið er svo þjáð og hungrað að það sættir sig við kúgara, ef þeir með svipuhöggum og ofbeldi koma á skipulagi.
Tónlistarkonan Laufey, sem er hálfasísk er mjög merkilegt tímanna tákn, því hún kemur fram með poppaða jazztónlist sem minnir á tónlistina um 1930 - 1950, en bara í miklu betri hljómi. Hún er virkilega fær tónlistarkona og ég tel mig vera aðdáenda hennar, en það sem er svo merkilegt við hana er að hún opnar glugga og dyr til fortíðarinnar aðallega en ekki til framtíðar aukinnar tölvutónlistar, og það finnst mér svo gott og mannbætandi.
Þar sem hæfileikar fá að njóta sín þar erum við ekki að tala um upplausn heldur að fólk njóti raunverulegra hæfileika, eins og hún.
En þegar sumir tónlistarmenn - og aðrir listamenn - slá í gegn er það augljóslega hið egócentríska og sataníska vald sem þar brýzt fram og sem á eftir að gegnsýra alþýðuna áratugina þar á eftir. Laufey held ég að sé ekki þannig, heldur himneskur sendiboði góðmennsku og hæfileika. Enda engin vantþörf á í samtímanum.
Jazztónlistin var að vísu upphaflega tengd "diabolus in musica", ómstríðum tónbilum og nýjungagirni sem bryti upp allt fegurðarskyn.
En Jón Múli Árnason til dæmis samdi fallegar poppjazzlaglínur einsog Laufey og bræddi þetta tvennt saman? Bræðingur, fusion? Ekki kannski alveg, heldur poppjazz, myndi ég segja frekar, lagrænn jazz, ekki framúrstefnujazz.
Ég kynntist tónlistarmanninum Eyjólfi Þorleifssyni 2011, og fór þá að veita jazzinum meiri athygli.
En jazzinn hentaði mér ekki vel, því ég týndi mér í honum. Mér fannst of freistandi að búa til ólagræn verk.
Sú niðurstaða sem ég fann 2017 er ekki eina niðurstaðan við þeirri spurningu hvert leyndarmál frægðarinnar er. Þó er sú niðurstaða gild, svo langt sem hún nær.
Niðurstaðan er þessi:
Í mörgum tilfellum dýrkar fólk listamenn í eigingjörnum tilgangi, ef listamennirnir standa fyrir lægri siðferðisstaðal en samfélagið allt (eða foreldrar, virðulegri einstaklingar þjóðfélagsins og harðari), þótt ekki sé nema að litlu leyti.
Svo dæmi sé tekið er fíkniefnaneyzla gott dæmi um þetta.
Tónlistarmaður getur þannig verið dyr sem opnast fyrir fjöldann að lögleiðingu fíkniefna, húðflúra og líkamsskrauts, eða lauslætis eins og á hippatímanum.
Nú er forsetaembættið notað á sama hátt, til að afhelga það, og gera það að leikvelli fyrir alla sem vilja láta á sér bera.
En niðurstaðan í óútgefnu bókinni minni frá 2017 er ekki endilega alltaf rétt og algild. Menningin stefnir ekki þráðbeint niðurávið til Heljar án hlykkja og króka fram og til baka og jafnvel uppávið öðruhvoru. Það sé ég af nýju tónlistarfólki sem ég lít upp til, Laufey er gott dæmi.
Hvernig er hægt að rökstyðja að margir vilji nota Bessastaði sem leikvöll fyrir egóið sitt? Tja, ég held að það komi vel í ljós með orðum og verkum.
Jón Gnarr þolir ekki mannanafnanefnd.
Þótt hún geti farið í taugarnar á mörgum, þá er hún að minnsta kosti hluti af menningunni.
Ef við missum beygingar, að kenna okkur við föður og annað, og loks alveg íslenzkuna, þá höfum við næstum misst öll okkar sérkenni sem Íslendingar.
Þessvegna get ég ekki sagt að Jón Gnarr sé forsetalegur að þola ekki ýmislegt sem virðulegur forseti ætti að standa með og telja mikilvægt.
Sumir tala um að forsetinn eigi að vera forseti allra. Jú, er það ekki augljóst? En föðurímynd má vera virðuleg og harðneskjuleg, eitthvað sem litið er upp til og sem lengi er verið að læra hvernig er og hvernig hægt er að fara eftir sem bezt.
Þannig forseti getur verið forseti allra, ef hver hönd er ekki upp á móti annarri. Fólk verður að koma sér saman um eitthvað í stað þess að allir segi: "Ég má, ég get, ég vil..."
Þetta verður spennandi. Útkoman mun sýna hvernig þroskastig þjóðarinnar er að þessu sinni.
Flestir vilja sjá Baldur á Bessastöðum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Nýjustu færslur
- Líta femínistar í eigin barm? Er ástæða fyrir bakslaginu?
- Jahve er djöfullinn og hann stendur á bakvið öll stríð, og er...
- Sjálfstæðismenn þurfa að sinna menningarmálum meira
- Vinstrimenn ættu að skammast sín, en ekki hægrimenn. Mengun e...
- Dyrfjöllin að Hábraut 4 í Kópavogi - í bernskuupplifun minni
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 179
- Sl. sólarhring: 198
- Sl. viku: 748
- Frá upphafi: 127184
Annað
- Innlit í dag: 109
- Innlit sl. viku: 559
- Gestir í dag: 101
- IP-tölur í dag: 101
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.