Enn um plötuna "Infidels" eftir Bob Dylan og fleira, sérstaklega fyrsta lagið.

Ég hef verið að laga Onkyo TA 2330 segulbandstæki sem ég á, eða fá úr því betri hljóm öllu heldur með. Þetta tæki keypti ég held ég í Sportmarkaðnum fyrir alllöngu, 20 árum eða svo. Oft þarf að skipta um reimar og smyrja.

Ég hef verið að taka upp á snældur Jokerman til að auka bassaupptökuna, fyrsta lagið á "Infidels" frá 1983 eftir Dylan. Enn er ég að lesa tvær bækur um tónlist, "Surviving In A Ruthless World", um Infidels eftir Dylan, og "Born to Run", ævisaga Bruce Springsteen í skemmtilegri þýðingu Magnúsar Þórs Hafsteinssonar.

Þessa færslu langar mig að hafa um lagið "Jokerman" aðallega, en margt annað vekur áhuga minn.

Eftir að hafa lesið allmikið í ævisögu Springsteen finnst mér rétt það sem menn hafa sagt, að hann er sagnamaður, og minnir á Woody Guthrie og bókina "Bound for Glory", sem er sjálfsævisöguleg skáldsaga og ævisaga í bland, sem hefur hlotið allmikið lof. Hún kom út fyrst árið 1943.

Heillandi er að lesa hvernig Springsteen lýsir ævi sinni. Maður nefnilega upplifir þetta venjulega og sammannlega í ævisögunni, og getur skilið hann betur, en hann var einn af þessum tónlistarmönnum sem ég hlustaði á ungur en náði ekki að tengjast sál hans þannig að ég skildi hann og innlifði mig í verk hans á sama hátt og til dæmis Dylans og Megasar, og nokkurra annarra.

Annað er mjög merkilegt við bókina "Fæddur til að flýja (eða hlaupa)." Það er að Bruce Springsteen hefur notað svo margt í ævi sinni til að herðast og keppast að markmiðinu og ekki gefizt upp, sem sagt, að hann hefur unnið fyrir frægð sinni með þrautseigjunni auk hæfileikanna.

Takk Magnús, þetta er fróðleg bók.

Þau eru mörg segulbandstækin sem ég hef safnað sem eru orðin útboruð því ég hef sett aukaleg stilliviðnám í þau. Ég er að spá í að láta einhver fjúka á haugana, og vil kannski taka til, og þarf því að vita hvað af þessu er skást og virkilega gott. En jafnvel tæki sem líta ekki vel út geta hljómað frábærlega vel, eftir að maður hefur lóðað viðnám og þetta rétta við, sem bæta hljóminn.

Einnig er það svo að ef gúmmíhjól og aðrir vélahlutir virka vel skiptir engu hvort eitthvað útvortis sé brotið eða laskað, ef tækið hljómar frábærlega er það fyrir mestu, ekki útlitið.

Flatur hljómur eða flöt tónjöfnun var nokkuð sem framleiðendur hljómtækja kepptust nokkuð eftir sérstaklega eftir 1980.

Til að skilja þetta þarf maður svolítið að skilja þróun hljómtækja og hvað HIFI stóð fyrir upphaflega.

Snemma á 20. öldinni voru notaðir dýnamískir hljóðnemar aðallega, eða kraftrænir. Þeir eru sennilega algengastir enn. Þeir eru eins uppbyggðir og hátalarar að mestu leyti, ein þynna sem verður vör við titring hljóðbylgna, sem sendir rafskilaboð, þar sem þynnan víbrar og er föst við vafning af vírum, einangruðum eins og í spennubreyti, í sívalningi utan um segulstál, eins og í hátalara.

Munurinn er sá að kraftrænn, dýnamískur hljóðnemi, er byggður með mjög næmu plastbyrði og fíngerðu sem víravafið hvílir á, eða á öðru efni, sem titrar við minnsta hljóm, en hátalarar þurfa sterkari sívalning til að víbra á, svo þeir springi ekki af kraftinum sem þeir gefa frá sér.

Hvað sem því líður þá eru eiginlega allir kraftrænir, dýnamískir hljóðnemar takmörkunum háðir. Þeir gefa jafnan frá sér nokkuð annan hljóm en samþjappaðir/þétta (condenser), hljóðnemar, eða rafrænir hljóðnemar.

Kraftrænir hljóðnemar voru fundnir upp á 19. öldinni, en þeir rafrænu snemma á þeirri 20., en urðu ekki algengir fyrr en talsvert síðar, eða eftir miðja 20. öldina.

Lo-Fi hljómurinn svonefndi var algengur á upptökum fram til um það bil 1950, en Hi-Fi hljómurinn fór að verða til eftir það, sem er skilgreindur suðfrír hljómur þar sem öll tíðnin fær að njóta sín sem fór getur heyrt, eða næstum því. Lo-Fi stendur fyrir lág-gæði og Hi-Fi há-gæði (í hljóm).

Segulbandstækjaframleiðendur voru því að keppast um sem mest Hi-Fi gæði, en nú er þetta orðið öðruvísi, því fólk hlustar mikið á þetta í tölvum eða heddfónum, höfuðtólum. Þar er reynt að hafa gæðin sem mest að vísu einnig, en upplifunin af því að hlusta á tónlist úr þykkum og stórum hátölurum er að vísu önnur.

Flöt tónjöfnun býður uppá lítið suð, því það kemur helzt í hliðrænum tækjum þar sem hátíðnin er ýkt og mögnuð, en það er umhverfissuðið sem veldur því, og ýmis aukahljóð sem við heyrum ekki endilega svo vel án mögnunar tækjanna.

Stafræn mögnun hefur boðið uppá suðfríari tónjöfnun og magnara, en það hljóð er oft kallað sterílíserað og ónáttúrulegt, eða sótthreinsað. Það byggist á því að endurskapa aðeins hluta náttúrulegs hljóðs, en sleppa öðru, eins og suðinu. Það kemur öðruvísi út.

Allavega, öll þessi heimilissegulbandstæki sem eru algeng byggjast á analogue, hliðrænni tækni. Hitt er aðeins fyrir spekúlanta og sérvitringa með býsna rúm fjárráð. Það hafa víst verið framleidd stafræn segulbandstæki af ýmsum lítt þekktum tegundum, og DAT (smáar, stafrænar spólur) náði allnokkurri útbreiðslu og einnig ADAT, (stafrænar hljómsnældur sem líta út eins og myndbandsspólur) en ekki þannig að það ryddi burt snældum af hliðrænu tegundinni. Nú er slíkt einnig orðið fátítt vegna netbyltingarinnar, að tölvur eru látnar spila þetta eða símar.

Fyrsta græjan mín var Crown SHC 6100, sem ég fékk í fermingargjöf. Nokkrum árum síðar eignaðist ég Crown SHC 5500, vönduðustu tegundina, sem ég keypti í Sportmarkaðnum.

Crown SHC 6100 var á markaðnum frá 1981 til 1984, og selt með SHC 6200 og SHC 6300 og fleiri tegundum. Crown SHC 5500 var á markaðnum frá 1977 til 1980, og þótti mjög vönduð græja og var sú dýrasta frá þeim.

Hugmyndin á bakvið Crown SHC 5500 var að almennur neytandi fengi bæði að hljóðrita tónlist og hlusta á tónlist sem nálgaðist hljóðverin rándýru. Það gerði Crown fyrirtækið með öðrum hætti en aðrir framleiðendur, sem sóttust eftir flatri tónjöfnun.

Jafnvel í Crown SHC 6100 mátti heyra dýpri bassahljóm en í mörgum öðrum hljómtækjum. Það var þó ekki fyrr en ég fór að taka upp með hljóðnema mína eigin tónlist sem metnaður minn vaknaði í þessu efni.

Segulbandstæki hefðbundin hljóðrita og afspila hliðrænt eins og ég kom inná fyrr í þessum pistli. Sú tækni þýðir að reynt er að hljóðrita ALLT sem heyrist, öll umhverfishljóð, og skila því eins nákvæmlega til baka og hægt er. Stafræna tæknin gengur útá annað, að búa til gervihljóð sem er fullkomið og suðfrítt. Smekkurinn er misjafnt hvort fólki líkar vel við það.

90% af öllum segulbandstækjum frá 1968 til 2000, þegar þau fóru að detta út af markaðnum, eru þannig gerð að þau hafa afspilunina frekar þannig að bassinn er ýktur, en upptakan er ekki sem sterkust á því tíðnisviði. Þetta var sennilega gert til að spólur sem keyptar voru af opinberum hljómplötuútgáfufyrirtækjum hljómuðu vel.

Jafnvægi verður þó að nást, og var einnig keppt að því.

Til dæmis, ef almennur kaupandi keypti Bítlaplötu á snældu, vildi hann að sitt einkasegulbandstæki spilaði af henni vel, og að hún hljómaði ekki mikið síður vel en hljómplata frá sama tíma.

Öll segulbandstæki sem taka upp hafa að minnsta kosti tvær hljómjöfnunarrásir, aðra við upptöku og þá seinni við afspilun. Stundum er að vísu sama rafrásin notuð, að næstum öllu leyti. Það var þó sérlega algengt fram til 1982, þegar skiptarnir fóru að detta út. Það voru sleðar, þar sem skipt var úr upptöku í afspilun.

Af því að tækin hafa tvær hljómjöfnunarrásir (misjafnlega afstilltar á hvorn veg) þá er hægt að breyta tónjöfnun bæði með upptöku og afspilun.

Framleiðendur vissu að fólk vildi að afspilunin væri góð. Því var áherzla lögð á að afspilun skilaði nokkuð góðum bassahljómi og allri tíðninni. Fólk notaði þessi snældutæki síður til að taka upp heima, en það varð þó algengara upp úr 1978, þegar hljómkröfurnar fóru að aukast og gæði hljóðsnældanna sjálfra sem óáteknar voru seldar.

Einmitt um svipað leyti fóru því framleiðendur að bæta við Dolby suðeyðingarmöguleika í þessi tæki. Upphaflega var notað Dolby-B kerfið, sem var einfalt, miðað við Dolby-A kerfið, sem var notað í upptökuverum, var flóknara og ekki fyrir almenn heimilistæki.

Dolby C þóttu beztu tækin uppúr 1981, en það var algengt að slík tækni væri notuð til 1988, þegar fleiri tegundir af Dolby suðeyðingu bættust við, eins og Pro, HX og fleira.

En aftur að Crown SHC 5500. Þetta er nokkuð sérstakt tæki miðað við markaðinn á þeim tíma. Sem sé, upptakan gefur góða bassadýpt, en minni áherzla er lögð á miðtíðni og hátíðni. Þetta er af sérstökum ástæðum sem ég get rakið hér á eftir, því ég hef átt mörg svona tæki og rannsakað þau vel, haldið mikið uppá þau.

Crown SHC er með formögnun í plötuspilara sem gefur mjög víða jöfnun, og svo aftur í kraftmagnara, mikill styrkur í djúpriðum, 80hz og jafnvel neðar. Plötuspilarinn er með frábærum formagnara, sem gefur svo mikið "búst" eða aukastyrk frá 50-150hz að það heyrist, og allt verður flottara fyrir vikið, og þetta var fyrir tíma "boomboxanna", sem unglingarnir gengu með á herðunum og varð tízkubylgja uppúr 1980, og rapparar og fleiri hafa notað.

Á sama tíma er tónjafnarinn sjálfur mjög sérstakur í þessu Crown tæki eins og mörgum. Það er að segja, BASS takkinn tekur ekki við sér fyrren nálægt í botni, en þá verður styrkurinn líka mjög mikill. Miðtíðnin verður þá útundan. Sé BASS takkinn lágt stilltur heyrist þó miðtíðnin vel.

Þannig að spólur foruppteknar frá útgefendum hljóma nokkuð vel, en bassinn kemur ekki frá formagnara afspilunarsegulbandsins heldur meira frá tónjafnaranum sem er notaður fyrir plötuspilara og útvarp einnig.

Þetta leiðir til þess að þegar tækið tekur upp þarf upptakan að innihalda aukalegan bassa, þar sem afspilunin inniheldur minni bassa en venjulegt er.

Sem aftur leiðir til þess að spólur uppteknar í Crown SHC 5500 hljóma öðruvísi en í flestum hljómtækjum, eða með meiri bassa.

Segja má að ég hafi orðið tónlistarmaður einnig vegna þess að ég hreifst af þeim hljómi sem ég fékk, hann var ekki flatur heldur víður. Jafnvel úr snældum, og ekki sízt. Það var Crown fyrirtækinu að þakka og þessari sjaldgæfu og sérstöku hönnun, eða meðal annars að minnsta kosti, þótt fleiri þættir hafi einnig komið til, einsog klapp á tónleikum, grúpppíur og athygli frá jafnöldrum og hrós.

En nú að laginu "Jokerman" eftir Bob Dylan.

Í bókinni "Að lifa af í ruddalegum heimi" eftir Terry Gans kemur margt nýtt og merkilegt fram.

Hann fjallar nákvæmlega um hvert einasta lag á plötunni og rannsóknarvinna hans var frábærlega góð.

Það kemur í ljós eftir lestur á bókinni að lagið "Jokerman" er fyrsta lagið sem Bob Dylan tók upp stafrænt og fullkomlega með þeirri tækni, þannig að hann gat leikið sér meira í hljóðverinu, eins og Bítlarnir gerðu löngu fyrr, en ekki hann.

Þannig að upptakan sem birtist á plötunni er samsett, og svo mjög samsett að engin hljóðritun er til af laginu eins og það heyrist á plötunni, heldur aðeins bútar þess lags sem heyrist á plötunni. Enn fremur, þá breytti Dylan jafnvel textanum eftir að upptökunum lauk í maí 1983, og hann tók röddina upp aftur og aftur og aftur, með breyttum texta, æ ofaní æ.

Þá loksins var þessu skeytt saman. Það er að segja, ekki allur söngurinn var tekinn upp aftur, bútar frá upptökunum í apríl 1983 voru notaðir, en margar breytingar gerðar.

Dylan hafði svo sem tekið upp hljóðfæri aðskilin, að sjálfsögðu áður, en aldrei í svona púsluspili áður.

Þannig að þegar hann var kominn með texta hljóðritaðan sem hann var ánægður með, í júní 1983, þá var bætt við hljóðfærum aftur, sömu hljóðfæraleikarar notaðir. Yfirbreiðsla er gott orð yfir overdub á ensku, orðið sem notað er yfir þetta. Nýjar upptökur eru breiddar eða lagðar yfir þær gömlu.

Hlusti maður á upptökurnar frá apríl 1983 að Jokerman heyrir maður því brot af laginu, en yfirleitt voru lögin oft tekin upp.

Bob Dylan er svo sem frægur fyrir að hafa langoftast tekið upp "læf" í hljóðverinu, eða lifandi, með hljóðfæraleikurum í öðrum klefum, og notazt við fremur fáar tökur. Þarna er hin stóra undantekning. Þetta náði hámarki með "Empire Burlesque" 1985, en hún fékk vonda gagnrýni fyrir að vera of vönduð og hljóðblönduð, yfirpródúseruð, og með alltof mikið af effektum og hljómborðum, (hljóðgervlum).

Frá og með 1992 og plötunni "Good As I Been To You" fór hann aftur í einfaldari og lífrænni upptökutækni og hefur haldið sig við hana.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ingólfur Sigurðsson

Höfundur

Ingólfur Sigurðsson
Ingólfur Sigurðsson

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • 5
  • 4
  • 3
  • Image 004
  • Titilblað

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 3
  • Sl. sólarhring: 144
  • Sl. viku: 740
  • Frá upphafi: 127436

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 531
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Leita í fréttum mbl.is

Nýjustu myndböndin

Heilbrigðisráðherrann, helbrigðaráðherfan

Í hópnum finn ég hlýja barnatrú

Aldrei fellur auðmagnskerfið

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband