Friðryk - hljómplata frá 1981 með samnefndri hljómsveit, miklu betri hljómplata en margir halda og með friðarboðskap.

Eitt af því sem ég gerði áður en verkstæðið hans afa að Digranesheiði 8 var rifið 2021 var að reyna að gera við segulbandstækin sem ég á. Langt er síðan ég komst uppá lag með það að sameina tvö eða fleiri segulbandstæki í eitt. Það gerði ég af eftirfarandi ástæðum: Fyrir meira en 20 árum lenti ég í því að segulbandstæki sem tóku vel upp voru orðin svo léleg að ekki var hægt að gera við þau, því gangverkið var ekki hægt að laga.

Þetta þarf að útskýra betur.

Þeir sem þekkja það hvernig er að lagfæra hljómtæki vita að þau samanstanda af gangverki annarsvegar og svo rafeindahlutum hinsvegar.

Gangverk hljómtækja eru til dæmis reim í plötuspilara, mótor sem drífur plötuspilara áfram, stilliviðnám í útvarpstæki, gúmmíhjól í segulbandstæki sem nemur við driföxulinn, gormur í segulbandstæki sem þarf að vera rétt stilltur svo spólurnar hvorki krumpist né slitni af of miklu álagi, og þannig mætti lengi telja, því smáhlutirnir sem gangverkin samanstanda af eru fjölmargir, allt niður í stakar skrúfur og smáplaststykki eða málmstykki.

Rafeindahlutir hljómtækja eru staðsettir á svonefndum prentplötum, og þeir samanstanda af mögnurum og viðtækjum og ýmsu fleiru. Rafeindahlutirnir og hvernig þeir eru stilltir og samansettir ákvarðar hversu góðan hljóm maður fær úr hljómtækjunum. Þannig er hægt að breyta magnara í hljómtæki með því að fjarlægja viðnám og setja annað í staðinn. Þannig breytist tíðnin og tónjafnarinn breytist, sem stundum er breytanlegur með tökkum á tækjunum líka.

Snemma eignaðist ég Pioneer CT 760 segulbandstæki. Þetta voru tæki sem seldust ótrúlega mikið frá 1985 - 1988, enda voru þau ódýr og góð.

Þessi tæki hljóma mjög vel þegar þau eru ný, en það er galli í gangverkinu sem snemma kemur í ljós. Gallinn veldur því að næstum öll svona tæki nú til dags þurfa yfirleitt viðgerð.

Það er einkenni á Pioneer segulbandstækjum að þau eru með verri gangverk en rafeindahluti. Þessi sami galli er í þeim mörgum. Gallinn er þessi:

Spennuhjólið hægra megin er stillt á of mikinn þrýsting sem veldur því að snældurnar flækjast með tímanum.

Í einföldu snældutæki er einn driföxull og bandið fer frá vinstri til hægri. Til eru tæki sem snúa við snældum sjálfkrafa, en það eru óþarfar kennsluleiðbeiningar hér að fara líka að lýsa þeim í smáatriðum.

Þegar spóla er sett í þessi algengustu tæki og tónhausarnir vísa uppávið eiga þessar leiðbeiningar við.

Þá er einn útþurrkunartónhaus vinstramegin sem snertir snælduna, einn aflesturs og upptökuhaus í miðjunni og síðan hægra megin pláss fyrir gúmmíhjól og driföxul sem knýja bandið áfram mestmegnis.

Til að hjálpa til við að drífa bandið áfram er snuðandi afli beitt á hægra griphjólið, sem vindur uppá sig, á meðan hitt vindur af sér bandið.

Örlítinn gormsþrýstingur er hafður á vinstra griphjólinu til þess að losna við slaka í bandinu.

Framleiðendur segulbandstækja voru með sínar tiktúrur. Þannig voru sumir framleiðendur með meiri þrýsting á hægra hjólinu en aðrir.

Með tímanum verður gúmmíhjólið sem snertir driföxulinn mettað af járndíoxíði sem er í segulböndunum jafnan. Þetta veldur því að gúmmíhjólin skila tilgangi sínum verr. Það getur birzt í tvennskonar algengum bilunum. Í fyrsta lagi geta spólur orðið falskar eins og sagt er, þegar bandið fer að ganga á ójöfnum hraða, því mengunin á gúmmíhjólunum sem litar þau brún veldur því að togkrafturinn minnkar, því eiginleikar gúmmísins hætta að njóta sín í þessari mengun.

Önnur og algengari bilun er að þrýstingurinn frá snuðhjólinu hægra megin veldur því að bandið leitar til hliðanna. Gúmmí á stáli sem er nýtt heldur tónbandinu vel kyrru án þess að það leiti til og frá. Gúmmí mettað af smáögnum gerir það síður. Þrýstingurinn á bandið lætur það flakka rétt eins og bíl í hálku, sem ökumaðurinn missir stjórn á.

Ef þrýstingurinn er minnkaður með því að setja slakari gorm undir hægra hjólið, snuðhjólið, þá lagast þetta sjálfkrafa og böndin hætta að flækjast og krumpast.

Langalgengast var þó að keypt væru ný gúmmíhjól, það var gert á opinberu verkstæðunum á meðan hægt var að kaupa slík hjól, og það er enn hægt, þau eru framleidd af sjálfstæðum þjónustuaðilum, Kínverjar framleiða mikið af svona hlutum í japönsk tæki fyrri tíma.

En sem sagt, þessi Pioneer CT 760 tæki fóru að flækja oft spólur þegar þau voru orðin 5-10 ára, og ef maður kaupir svona notuð tæki getur maður lent á þannig bilun.

Annað vandamál er með gangverkin í þessum tækjum. Tannhjól eru notuð í stað gúmmíhjóla í griphjólunum hægramegin. Það veldur því að tónninn verður falskur og óhreinn, því þau eru ekki á ská heldur eru þau beintennt. Skátennt hjól eru lausnin, til að komast hjá urgi, sem einnig skapar annað vandamál, urgið hefur áhrif á tóngæðin og minnkar þau, því urginu fylgir titringum.

Að vísu er þetta ekki algilt að urg og titringur komi í svona beintennt tannhjól. Það gerist þó undir vissum kringumstæðum. Það gerist þegar plastið er af sérstakri tegund eins og í þessum tækjum og þrýstingurinn mikill.

Ég stillti það tæki sem ég átti þannig að ég fengi tæra upptöku, en tók eftir því að víbringurinn bjó til felskju. Við þetta varð ekki unað.

Í fyrsta sinn sem ég notaði gangverk úr einu tæki í annað var þegar ég lagaði Samsung boomboxið mitt með Akai gangverki frá tæki sem hafði verið framleitt um 1974. Það gerði ég 1988, fyrst, ef ég man rétt. Samsung boomboxið eignaðist ég 1985 þannig að þetta passar.

Það kann að hafa verið í kringum 1995 þegar ég bjó til eitt tæki úr tveimur með þessum hætti. Þá átti ég Lux segulbandstæki sem ég hafði keypt í Sportmarkaðnum, en mér fannst upptakan ekki góð í því tæki. Þessvegna fjarlægði ég prentborðið og rafeindahlutina og setti innvolsið úr Pioneer tækinu inní það.

Vel að merkja var afi minn meistari í öllu sem var svona, Jón Agnarsson vélvirki, og ég lærði bara af honum með því að sjá að hann gat breytt bílum að vild og næstum hverju sem var.

Hann átti teina með skrúfgangi og plaströr sem ég gat notað til þess að festa prentborðin. Það þýddi að ég varð að bora fyrir skrúfunum og bora svo fyrir tökkunum líka, og það gekk misvel að koma þessu öllu fyrir.

Næstum alltaf hefur mér tekizt þetta þannig að ég hef fengið tæki sem virka á eftir, en eitt vandamál situr maður oft uppi með, en það er að upptökutakkinn hættir að virka og tækið er annaðhvort fast á upptöku eða afspilun.

Ástæðurnar fyrir því eru þessar: Ákveðinn sleði er notaður eða skiptir, og vír eða gormur sem togar í sleðann til að skipta yfir í upptöku eða afspilun. Öll afstaða breytist þegar komið er nýtt prentborð í tækið. Stundum þarf að fjarlægja tengistykki og því verður upptökurofinn óvirkur. En aðeins þarf að fjarlægja einn gorm innanúr sleðanum til að festa tækið varanlega í upptöku eða afspilun, hvort heldur sem maður notar meira í viðkomandi tæki.

En til að gera langa sögu stutta þá náði ég miklu meiri leikni í þessu með tímanum, og átti auðvelt með þetta áður en verkstæðið hans afa var rifið 2021. Þannig var að ég notaði Akai CS 703D gangverk og Pioneer CT 760 rafeindaborð.

Ég fann eitt slíkt tæki hjá mér fyrir nokkrum dögum og athugaði hvort það virkaði vel. Jú, það virkaði, en var örlítið falskt. Með því að setja í það aftur upprunalega tónhausinn tókst mér að koma því í fullkomið lag. Of mikið viðnám var í þeim nýja sem ég hafði sett í það. Tónhausar hafa mismikið þrýstiviðnám eftir því sem bandið leikur um þá og eru sumir hærra stilltir en aðrir, ganga lengra inní snælduna.

En allt þetta er formáli að meginmáli þessa pistils.

Mér finnst skemmtilegast að hlusta á tónlist af segulbandstækjum, því ég hef breytt þeim og fengið þann óskahljóm úr þeim sem ég kýs.

Að þessu sinni fann ég hljómplötu sem ég hafði ekki hlustað á lengi, og sú hljómplata átti að vera aðalumfjöllunarefni þessa pistils.

Þetta er hljómplatan Friðryk með samnefndri hljómsveit frá 1981. Þessi hljómplata kom út árið 1981 hjá SG hljómplötum. Mér þykir svolítið vænt um þessa hljómplötu því hún er meðal þeirra fyrstu sem ég eignaðist.

Ég eignaðist fyrstu Crown græjurnar mínar í apríl 1984 þegar ég fékk þær í fermingargjöf. Með þeim var auðvelt að spila hljómplötur og ég fékk áhuga á að eignast þær.

SG hjómplötur voru með útsölur stundum á þessum árum í Ármúlanum, held ég, og þar var maður gapandi af undrun að sjá söngkonuna Elly Vilhjálms við afgreiðslu þarna með honum, seinna komst ég að því að hún var konan hans.

En ég er nokkuð viss um að ég keypti þessa hljómplötu þarna hjá SG hljómplötum sennilega sama ár og ég fermdist, 1984, enda mun hann hafa hætt með fyrirtækið þetta ár og ekki getur þetta því verið seinna.

Þessa hljómplötu átti ég án þess að spila hana í gegnum árin því mér fannst hún ekki áhugaverð. Lögin fannst mér ekki grípandi.

En eftir að hafa lagað þetta Pioneer hljómtæki og tekið hana uppá spólu nýlega fór ég að endurmeta þessa hljómplötu og kunna vel við hana.

Maður þarf aukinn þroska til að hlusta á sumar hljómplötur og meta þær að verðleikum.

Eins og nafnið gefur til kynna þá fjallar þessi hljómplata um frið. Textarnir eru margir eftir Kristján Hreinsmög, sem einnig var Kópavogsbúi eins og ég lengi.

Tónlistin er flókin og vandflokkuð. Hún er jazzskotið rokk sem á köflum breytist í nokkurskonar þungarokk eða þungarokkspönkblending nokkurskonar. Einnig eru fáeinar ballöður á plötunni í ljúfari kantinum og eitt lag eftir Sigurð Karlsson trummuleikara sem er synfónískt trommutónverk í örfáar mínútur, eitt samfellt og áheyrilegt trommusóló eftir hann.

Núna nýlega skildist mér að þessir piltar hefðu mátt fá talsvert mikið af þeirri athygli og vinsældum sem Bubbi Morthens hefur fengið, því hann hefur verið að semja sama lagið 1000 sinnum alla sína ævi, sem var gott fyrst, en er það ekki lengur.

Þessir ungu menn sem sömdu þessa tónlist notuðu fleiri hljóma en Bubbi Morthens gerði og uppbygging laga þeirra var flóknari. Það má segja að allir meðlimir Friðryks hafi verið hæfileikamenn. Nafnið Friðryk merkir annars friðar-ryk en er ekki mannsnafn þótt það minni á Friðrik, þetta er orðaleikur úr smiðju Kristjáns Hreinsmagar).

Ég hygg að hljómsveitarnafnið Friðryk sé einnig ádeila á geislavirkt úrfelli eftir gjöreyðingarstríðið sem allir hræddust í Kalda stríðinu. Teiknimyndasögur hafa verið samdar um duft sem gerir fólk friðsamt, býst ég við, og vísindaskáldsögur og kvikmyndir af því tagi einnig.

Uppáhaldslagið mitt á þessari plötu er lagið Myrkur, sem er tónsmíð trommuleikarans Ásgeirs Óskarssonar við ljóð Steins Steinarrs. Þetta er sannarlega snilldarleg tónsmíð sem tekur yfir nokkrar áttundir, og Pálmi Gunnarsson sýnir þarna að hann er afburðagóður söngvari eins og oft áður.

Þeir Ómar Óskarsson og Ásgeir Óskarsson eru víst ekki bræður, en störfuðu mikið saman, og Ómar Óskarsson er einnig einn af mínum uppáhaldstónlistarmaður, aðeins vegna þess að hann er höfundur plötunnar "Middle Class Man" frá 1974 sem mér finnst alveg í sérflokki.

En aftur að plötunni Friðryk frá 1981. Það sem ég held að trufli marga sem hlusta fyrst á hana er að tónlistin er þungarokksskotin, en í þungarokki er oft notazt við flókin grip og það voru fáir Íslendingar sem höfðu smekk fyrir þungarokki 1981. Þó minna sum lög á það sem EGO (hljómsveit sem Bubbi Morthens söng með), gerði, og jafnvel nokkur grípandi lög, eins og frægasta lagið, "Í kirkju", sem er eitt fárra laga sem Pálmi Gunnarsson hefur samið, eða orðið fræg eftir hann að minnsta kosti.

Eitt af því sem er skrýtið við plötuna Friðryk er að tónlistin er hörð en textarnir mjúkir. Erlendis syngja þungarokkarar oft um djöfladýrkun, Satan, pyntingar, ofbeldi og slíka myrka hluti, en hér eru skáldlegar pælingar um frið og kærleiksríkar.

Á þessum tímum Úkraínustríðsins og Gazavoðaverkanna verður þessi hljómplata enn meira við hæfi en oft áður.

Lagið Myrkur ber þó af. Ég hef sjálfur fengiðzt eitthvað við svona flóknar tónsmíðar, en varla eða ekki þar sem tónsviðið er svona vítt, því maður þarf upp í algera falsettu í hæstu tónunum.

Þegar maður verður þreyttur á hefðbundnum tónsmíðum verða svona lög kærkomin. Þessvegna hef ég fengið meiri áhuga á jazzi með tímanum, þar sem tónskrattinn er víða, diabolus í musica.

Þar eru ekki hefðbundnar leiðir.

Lagið Póker er sennilega frá þeim tíma þegar einhverjir hljómsveitarmeðlimir voru í þeirri hljómsveit.

Það sem einkennir þessa hljómplötu er líka að á henni eru lög eftir Tryggva og Pétur, sem minna eru þekktir sem lagasmiðir en undirleikarar og hljómsveitarmeðlimir.

Bubbi Morthens gleypti marga tónlistarmenn þegar hann varð frægur. Hann tók svo mikið pláss og svo mikla athygli að margir tónlistarmenn hættu að geta lifað af list sinni. Þannig voru eyðileggjandi áhrif pönksins og Bubba Morthens.

Þegar kóngar eins og Bubbi Morthens komst til valda hættir lýðræðið að virka og færri verða frægir, einvaldurinn og kóngurinn gleypir alla frægð þeirra.

Þessi hljómplata verður víst seint talin grípandi, en hún ætti skilið að fá virðingu sem vönduð hljómplata sem eldist vel eins og gamalt vín.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jónatan Karlsson

Eitt af mínum uppáhaldslögum af þessu (gamla) góða íslenska rokki, er frábært lag af Rokk í Reykjavík, sem sjá má á youtube, en þar er líklega um að ræða þessa ágætu umræddu sveit.

Þetta eru þeir Pálmi á bassa og söng, Björgvin Gísla og Tryggvi Hübner á gítara og Siggi Karls á trommum - Alveg frábært

Jónatan Karlsson, 21.1.2024 kl. 09:48

2 Smámynd: vaskibjorn

Gaman að þessu,er þér alveg sammála þetta var fanta góð hljómsveit og hörku spilarar.

vaskibjorn, 21.1.2024 kl. 12:31

3 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

Takk fyrir þetta. Það eru margir gullmolar á vinylplötum, maður þarf að gefa sér tíma í að hlusta vel. Já þessi plata fékk víst ágæta dóma en seldist ekki nógu vel samt.

Ingólfur Sigurðsson, 22.1.2024 kl. 01:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ingólfur Sigurðsson

Höfundur

Ingólfur Sigurðsson
Ingólfur Sigurðsson

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • 5
  • 4
  • 3
  • Image 004
  • Titilblað

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 67
  • Sl. sólarhring: 130
  • Sl. viku: 675
  • Frá upphafi: 133146

Annað

  • Innlit í dag: 46
  • Innlit sl. viku: 514
  • Gestir í dag: 44
  • IP-tölur í dag: 44

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Leita í fréttum mbl.is

Nýjustu myndböndin

Heilbrigðisráðherrann, helbrigðaráðherfan

Í hópnum finn ég hlýja barnatrú

Aldrei fellur auðmagnskerfið

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband