Myndasögukynning á sögu eftir mig: Maggi spæjarameistari númer eitt: Taugastríðið við Hrólf taugatrekkjara.

Skólaljóðin í bláu kápunni þekkja margir. Þar voru þjóðskáldin kynnt og nokkur ljóða þeirra. Ekki þurfti mín kynslóð að læra mörg ljóð utanað, en ég heyrði að eldra fólk hefði lært talsvert utanað af ljóðum. Það er eitthvað sem þyrfti aftur að bæta úr fyrir krakka í skóla nú sem eiga erfitt með lesskilning, því ljóð sem eru vel gerð gera miklar kröfur til barna um lesskilning og að skilja óvenjulega orðaröð eða ljóðmál, svo dæmi sé tekið.

Ég var tólf ára og á þrettánda ári þegar ég fór að fá áhuga á ljóðagerð og tónlist, fór að semja sjálfur. Ég byrjaði að dútla við myndasögur ellefu ára, og myndlistin kom því á undan hjá mér, en margir listamenn hafa sömu sögu að segja, að myndlistin hafi komið fyrst.

Þegar ég var ofvirkur krakki með athyglibrest í barnaskóla sem notaði hvert tækifæri til að fylgjast ekki með í tímum var til dæmis eitt sem ég gerði. Ég krotaði í Skólaljóðin og umbreytti andlitum á þjóðskáldunum.

Eitt skáldið var Magnús Stefánsson, sem notaði skáldanafnið Örn Arnarson. Skrípamyndin af honum breyttist í teiknimyndasögupersónu eftir sjálfan mig, sem hét og heitir Maggi spæjarameistari.

Það hefur tekið mig óratíma að koma saman fyrstu bókinni um þennan meistara, en hún er loksins um það bil tilbúin, eftir að hafa verið í smíðum í 41 ár, eða frá 1983.

Já, vegna þess að þetta hefur verið eins og með gamla Ford, hreyfzt mjög lítið í gegnum árin.

Ég gerði litla mynd árið 1983 sem var eftirmynd af krotinu í skólaljóðin, og páraði eitt nafn við þessa einföldu teikningu, "Maggi spæjarameistari" skrifaði ég, og hafði aðeins óljósa hugmynd um hvernig þessi persóna ætti að vera. Andlit og nafn, þannig var þetta í upphafi. Síðar sama ár, eða 1983 skrifaði ég nokkur orð í stílabók, sem drög að sögu, sem kannski yrði teiknuð síðar.

Þannig beið þessi litla mynd fram til ársins 1985. Þá gerði ég innsíðuforsíðu (titilsíðu) á bók sem var sett í salt í fjölmörg ár, eða allt fram til ársins 2020, hvorki meira né minna.

Forsíðan er fremst á kápunni. Titilsíða bókar eða innsíðuforsíða er næsta blaðsíða á eftir. Oft eru slíkar síður einungis texti. Í myndasögum hefur tíðkazt að þar sé einnig mynd. Þannig var þetta einnig hjá mér.

Þessi blaðsíða er nú orðin krumpuð og varð þannig fyrir löngu, eftir að hafa velkzt og þvælzt um laus blöð og hitt og þetta í herberginu mínu. Þó hef ég slétt úr henni og er hún gjaldgeng í bókina, enda betur teiknuð en það sem ég hef gert eftir 2020, megnið af bókinni, sem verður einnig að duga.

Fyrsta bókin um Magga spæjarameistara á að heita:"Taugastríðið við Hrólf taugatrekkjara."

Sögusviðið er Chicago í Bandaríkjunum snemma á tuttugustu öldinni, rétt eins og í Samma og Kobbabókunum. Bannárin, millistríðsárin.

Þessar bækur eru kýmnisögur eins og bækurnar um Viggó viðutan. Þetta er sögupersóna mín, sem er mjög fyndin, og ég veit ekki um neina aðra svona sögupersónu, myndasögupersónu, sem er alveg eins, eða svipuð.

Eins og í mörgum myndasögum gengur þetta útá að gera grín að aðalsögupersónunni, Magga spæjarameistara, sem hefur mjög háar hugmyndir um sjálfan sig og glottir eins og Jókerinn í öðrum myndasögum.

Samt held ég að fyrirmynd mín hafi alls ekki verið Jókerinn, því ég held að óhætt sé að fullyrða að ég hafi ekki þekkt þá sögupersónu árin 1983 eða 1985. Þá þekkti ég bandarískar myndasögur ekkert fyrir utan Mikka mús og Andrés önd, Disneyverksmiðjuna.

Ég veit ekki hvaðan ég fékk útlit Magga spæjarameistara. Nema hvað, að á þeim árum tókst mér með einum svip teiknaðrar persónu að draga fram persónueinkenni ákveðinnar týpu eða manngerðar, og þurftu engin orð að fylgja, myndirnar nægðu, en þann hæfileika hef ég misst, enda farið úr þjálfun.

Engu að síður eru myndirnar í myndasögunni trúverðugar og fyndnar, virka nokkuð vel, þótt uppá bakgrunninn skorti mikið af smáatriðum.

Jókerinn kemur úr DC kýmnimyndasögunum bandarísku, og birtist fyrst í Batman myndasögublaði 25. apríl 1940. Gosinn er nafn hans á íslenzku, eins og í spilunum, eða Hirðfíflið, eða Fíflið, Trúðurinn.

Bill Finger, Bob Kane og Jerry Robinson eru höfundar þessara sagna. Ég man alls ekki til þess að ég hafi séð eða lesið þær sögur sem krakki eða unglingur, og man heldur ekki eftir myndasögum eða bíómyndum sem ég kynntist þá um þessar persónur.

Ég átti mjög auðvelt með að skrumskæla raunverulegar persónur og gera myndasögufígúrur úr viðkomandi, þurfti hreinlega engar fyrirmyndir af myndasögutaginu til þess, en það kom einnig fyrir líka.

Eitt sinn var ég iðinn við myndasögugerð. Reyndar vann ég duglega við nokkrar Gorróbækur á árunum 2020 til 2022, en eftir það hafa afköstin verið mjög lítil.

Ég hef gripið í þessa bók með löngum millibilum síðustu ár, frá 2020. Samhenginu hef ég þó haldið. Þetta er bráðfyndin og góð bók, þótt teikningarnar séu lélegar, en hafa þó skemmtanagildi, því enn hef ég þann hæfileika að ná fram tilfinningum í teikningar, þótt hlutföllin séu afleitlega léleg og bakgrunnurinn fátæklegur. Einnig vantar mikið uppá samfellu, svipmót breytast eftir myndum. Ég væri alveg til í að betri teiknari eða teiknarar myndu endurgera þessar myndasögur mínar, ef þær seljast eitthvað og verða gefnar út, sem kannski er mögulegt.

Þessi bók er ekki nema 46 blaðsíður og myndir eru fremur stórar og sagan því ekki löng. Hún er þó hnitmiðuð og hefur skemmtanagildi.

Skemmtanagildið felst í því að aðalpersónan er mjög viðfelldin, sympatísk eins og maður segir á ísl-ensku slettumáli. Segja má að allir geti fundið sig í Magga spæjarameistara. Hann er alltaf að reyna að verða ríkur á spæjarastörfum, en það gengur alltaf jafn illa. Verkefni hans eru oftast að ná köttum niður úr trjám eða aðstoða fordekraðar og forríkar eiginkonur við fánýt verkefni, þótt hann dreymi um að hjálpa ríkisstjórninni eða auðkýfingum.

Það sem er svo brjálæðislega fyndið við svona sögur er hvað þetta er sígilt. Brostnir draumar og mannlegur breyzkleiki, þetta er alltaf jafn fyndið.

Um Gorróbækurnar hef ég fjallað áður og ætla að fjalla meira um þær síðar. Þar eru dýpri pælingar um samfélagsmál og flóknar vísanir í menninguna í ýmsar áttir. En jafnvel þar er hægt að finna helling af húmor, sem er þó oft kolsvartur eða grár, sé betur að gáð.

Húmorinn í bókunum um Magga spæjarameistara er hinsvegar laufléttur þannig að hann er hægt að fatta af hvaða barni sem er og fólki á öllum aldri. Vonandi tekst mér að vinna meira við þetta, vonandi nenni ég því. Tilgangsleysi lífsins veldur mér oft sinnuleysi og áhugaleysi að gera nokkurn skapaðan hlut, því maður fær engin laun fyrir það, enga þóknun, og allt virðist tilgangslaust, og fyllir mann af þunglyndi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ingólfur Sigurðsson

Höfundur

Ingólfur Sigurðsson
Ingólfur Sigurðsson

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • 5
  • 4
  • 3
  • Image 004
  • Titilblað

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.1.): 2
  • Sl. sólarhring: 139
  • Sl. viku: 715
  • Frá upphafi: 133621

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 556
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Leita í fréttum mbl.is

Nýjustu myndböndin

Heilbrigðisráðherrann, helbrigðaráðherfan

Í hópnum finn ég hlýja barnatrú

Aldrei fellur auðmagnskerfið

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband