Það er gott að endurmeta tónlistarmenn sem maður eitt sinn taldi lélega

Fyrst þegar ég heyrði í Bruce Springsteen fannst mér lítið til hans koma. Það var árið 1987 og ég var nemandi í MK. Skólabróðir minn kunni á hljómborð og sá hjá mér nótnabók (sem ég gaf einnig Bókasafni Kópavogs) með lögunum mínum, (frá árinu 1983 og 1984, Inqósöngvar I) og vildi fá mig í heimsókn með hana, sem ég þáði. Hann hafði heldur aldrei heyrt í Bob Dylan og var til í að ég kæmi með plötu með kappanum. Það gerði ég.

Honum fannst Bob Dylan ekkert spes, en hann hafði það af að spila lag eftir mig á hljómborð sem hann var með heima hjá sér. Það fannst honum heldur ekkert spes. Ég held að það hafi verið "Snjórinn", sem var samið 1983, eitt af mínum fyrstu, hugljúft og snoturt, en barnalegt.

Hinsvegar var hann forfallinn aðdáandi Bruce Springsteen og átti plötur með honum. Hann setti nokkrar á fóninn og við hlustuðum.

Nokkrum árum seinna eignaðist ég tónleikasafnið hans Bruce, og svo seinna fleiri plötur.

Eitt sinn fannst mér "Born in the USA" nokkuð góð plata.

Nú finnst mér fyrstu plöturnar hans tvær beztar, sem komu út árið 1973.

Ég var einmitt að taka fyrstu plötuna hans á spólu og spila yfir jólin. Já, ég er farinn að kunna að meta þessa tónlist.

"It's Hard to Be a Saint in the City" er betur flutt á sólóplötunni en hljómleikaplötunni.

Annars finnst mér þessi fyrstu lög heillandi hjá honum. Seinni lög eru einfaldari, staðlaðir slagaðar, iðnaðarrok.

Það má heyra það glöggt á fyrstu plötu Bruce Springsteen að hann er undir áhrifum frá Bob Dylan. Sérstaklega er eins og lagið "It's All Right Ma, (I'm Only Bleeding)" frá 1965 hafi verið fyrirmynd flestra laganna á fyrstu plötu Bruce Springsteen.

Formlega séð að minnsta kosti.

Dylan notaði innrím mikið í umræddu lagi, það gerir Bruce einnig á fyrstu plötunni sinni. Eiginlega kemur hann þarna fram sem fullmótað skáld, því textarnir hans er býsna góðir og langir, lögin oft meira en 5 mínútur.

Þó nær stæling Springsteens aðeins til formsins en ekki innihaldsins. Á meðan textar Dylans voru og eru dulir og margræðir, þá eru textar Springsteens beint úr daglega lífinu eins og til dæmis það sem Bubbi okkar er frægur fyrir.

En það sem er sérlega heillandi við flest hans verk er einlægnin. Maður heyrir að hann nýtur þess sem hann er að gera.

Raunar eignaðist ég "bootleg series" safn Bruce Springsteens fyrir nokkrum árum og það heitir "Tracks" og kom út 1998. Ég fann það á góðu verði í Góða hirðinum og hef hlustað mikið á það safn síðan. Það endurvakti áhuga minn á Bruce Springsteen gjörsamlega.

Það kemur nefnilega í ljós að Bruce Springsteen samdi miklu fleiri lög en komust á plöturnar hans. Sum þeirra eru jafn góð og þau sem voru gefin út, jafnvel betri. Þó má segja að flest þeirra séu frekar einhæf og í þessum "klassíska Bruce Springsteen" stíl, það er að segja öskrandi viðlag "arena rock", (eða Laugardalshallarstælarokk).

En ég er grúskari, og í þessu safni Bruce Springsteen eru líka viðkvæmar ballöður, og þjóðfélagsgagnrýni sem varla gefur eftir því harðasta frá Bob Dylan.

Gott dæmi er lagið "Dollhouse", sem þýðir dúkkuhús. "We're living in a dollhouse but our dollhouse, girl, is falling down."

Þarna gagnrýnir hann konuna sína fyrir að skipuleggja allt vel, en vanta uppá tilfinningar og kærleika.

Það sem dró mig að Bruce Springsteen var þetta, að hann hefur fleiri hliðar en hann gefur út á sínum sólóplötum. Þar lýsir hann gjarnan æsku sinni og lífi á persónulegum nótum. Það fannst mér sýndarmennska fyrst þegar ég heyrði í honum, því ég efaðist að hans eigið líf væri merkilegra en annarra, og því ekki þess vert að syngja um það svona mikið, svipað eins og Bubbi gerir mikið af, mjög mikið.

En þegar betur er að gáð eru fleiri hliðar á Bruce Springsteen, eins og að hann er þjóðfélagsgagnrýnandi eins og Bob Dylan.

Síðan er það söngstíll Springsteens sem er heillandi. Þar heyri ég þennan sameiginlega hljóm sem lærisveinar Woody Guthries hafa tileinkað sér. Sjálfstraust og karlmennska er hluti af þeim söngstíl. Einnig að fara útí hvaða málefni sem er, sem gætu verið áhugaverð og mikilvæg til umfjöllunar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Ég hafði mikla ánægju af Springsteen þegar ég var yngri, í dag þoli ég hann ekki. Hafði mikið dálæti á læv plötunni (þrír diskar) í mörg ár, en hvað sem okkur finnst um hann, þá er enginn vafi á að hann er afbragðs tónlistarmaður og framúrskarandi lagasmiður.

Bestu kveðjur

Guðjón E. Hreinberg, 30.12.2023 kl. 13:12

2 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

Sammála. Hann er fínn tónlistarmaður. Ekki með þeim albeztu, en þó enginn smágosi.

Beztu kveðjur.

Ingólfur Sigurðsson, 31.12.2023 kl. 01:32

3 Smámynd: Magnús Þór Hafsteinsson

Ingólfur, þú þarft að lesa sjálfsævisöguna Born to Run sem kom út nú fyrir jólin. 

Magnús Þór Hafsteinsson, 31.12.2023 kl. 01:35

4 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

Sæll Magnús Þór, takk fyrir að minna mig á það. Já, það stendur til að kaupa eitt eintak af henni. 

Beztu kveðjur.

Ingólfur Sigurðsson, 31.12.2023 kl. 01:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ingólfur Sigurðsson

Höfundur

Ingólfur Sigurðsson
Ingólfur Sigurðsson

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • 5
  • 4
  • 3
  • Image 004
  • Titilblað

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 185
  • Sl. sólarhring: 196
  • Sl. viku: 754
  • Frá upphafi: 127190

Annað

  • Innlit í dag: 114
  • Innlit sl. viku: 564
  • Gestir í dag: 104
  • IP-tölur í dag: 104

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Leita í fréttum mbl.is

Nýjustu myndböndin

Heilbrigðisráðherrann, helbrigðaráðherfan

Í hópnum finn ég hlýja barnatrú

Aldrei fellur auðmagnskerfið

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband