25.12.2023 | 01:14
Fjórða erindi "Too Late/Foot of Pride" eftir Bob Dylan, mín túlkun.
Það er eins og að grafa eftir gulli að skýra út ljóð eða söngtexta sem eru torskildir og mikils metnir af þúsundum aðdáenda, eins og þessi. Því er þetta einnig jólagjöf fyrir bókmenntaunnendur, og tónlistarunnendur, en þannig eru víst langflestir Íslendingar.
Erindið byrjar á því að sögumaðurinn segist ætla að skipuleggja hitting eða fund með einhverjum sem muni segja furðulega hluti sem sú eða sá sem ort er til muni halda að opni dyr, og kenni að opna dyr Himnaríkis. En síðan kemur, "nei, ekki í alvöru".
Þetta erindi hljómar eins og Dylan hafi búið það til út frá hljómfallinu, spunnið það á staðnum, því samhengið er rofið og laustengt. Ég hef spunnið hundruð þannig laga fyrir framan hljóðnemann, langflest óútgefin, 99%, enda mikið drasl sem verður til þannig, ekki dýrmæt lög, en gullkorn innanum samt.
Að finna merkingu í þessu erindi er í erfiðara lagi. Það er þó hægt að lesa út úr þessum orðum að kannski sé sögumaður að bjóðast til að fara með þeirri eða þeim sem til er ort til spákonu eða spámanns eða miðils eða völvu. Þó kemur línan:"No, not really", sem segir að allt er þetta í hálfkæringi, eða þannig mætti túlka þetta.
Svo kemur framhaldið:"Meira eins og að brjálast af því að bera byrði sem aldrei átti að verða þín."
Þessi setning er eins og margt hjá Dylan býsna órökrétt framhald af því sem komið er.
Að öllum líkindum er þó verið að vitna í dulspeki og ýmsar tegundir af spíritisma og endurholdgunarkenninga, sem náðu miklum vinsældum á fyrri hluta 20. aldarinnar. Þar var mikið ritað og rætt um endurholdun, og að manneskjur væru í sumum lífum að bera of þungar byrðar fyrir hvert líf.
Hvort Bob Dylan er að gera grín að endurholdgunarkenningum og Búddisma er ekki ljóst, en það er alveg mögulegt að túlka þetta þannig, miðað við það að í fyrri erindum virðist hann gagnrýna islam og margt fleira sem ekki er í samræmi við kristnina.
Sumar línur í þessu erindi eiga þó áreiðanlega við dulspekikenningar af þessu tagi, sem ekki tengjast islam heldur vestrænu kukli. Orðið "dyr" eða "hurð" er algengt í slíkum fræðum, talað er um dyr skynjunar og dyr uppljómunar og margt fleira af því taginu.
Þannig að kannski er Bob Dylan hreinlega að gera grín að 68-kynslóðinni, sem hann tilheyrir þó að margra mati, og er jafnvel tákngervingur fyrir. En þess ber þó að geta að þegar jafnaldrar hans sökktu sér á kaf í hassreykingar og LSD notkun árið 1968 þá hætti hann eiturlyfjanotkun og eignaðist börn með konu sinni, Söru, og gaf út kántríplötuna "John Wesley Harding", þannig að ekki er hægt að niðurnjörva Bob Dylan svo auðveldlega eða flokka hann eins og marga aðra.
Þetta með "secret things" bendir í sömu átt, þannig að ég held að mín túlkun sé rétt. Allt þetta erindi er nokkurskonar gagnrýni á þennan þátt vestrænnar menningar, sem er í andstöðu við Biblíuna, kuklið og allt það.
Síðan kemur í erindinu:"Frá sviðinu koma þau með skelli og kvein, og vændiskona mun láta hattinn ganga, og safna eitt hundrað dollurum og segja:"Jæja strákar, takk fyrir það". Þau vilja ná í alla þessa peninga með syndsamlegum hætti, byggja stóra kastala til að læra í, og syngja "Amazing Grace" alla leið til swissnesku bankanna."
Þetta er nokkurskonar staðfesting á því sem ég hef ritað hér á undan. Þessar lýsingar minna þó kannski meira á cirkusa, hringleikahús tatara, og annarra, og þannig leikflokka.
Það sem þessar línur gera er þó að bæta við heildarmyndina, þannig að nútímanum er líkt við trúðaleikhús, geðveikrahæli eða hringleikahús. Margir hafa lýst pólitík nútímans þannig, og það er kannski að verða tilfinning sífellt fleiri einstaklinga eftir því sem eldri og furðulegri forsetar koma fram í Bandaríkjunum, til dæmis, og þolmörk lýðræðisins eru prófuð útum allan heim með allskonar árangri og fólk er mjög ósammála um árangurinn af því og hvað er bezta stjórnarformið, einræði, jafnaðarfasismi eða lýgræði, eða eitthvað annað, eins og til dæmis kommúnismi eða kvenræði, eða stelræði, fjárræði, klerkveldi, kerfisræði, fáræði, elíturæði eða eitthvað annað.
Erindið er svipað í "Foot of Pride", en ekki nákvæmlega eins samt.
Þar er fjallað um að "þau" velji mann fyrir sennilega konuna sem ort er til, og að hún leiki fíflið og læri að ganga í gegnum lokaðar dyr.
Þetta er í raun sama sögusviðið, verið að gera grín að töframönnum og leikhúsflokkum, circusum og trúgirni fólks.
Hér er það þó skýrara að fólk sem trúir á slíkt er hreinlega kallað fífl í þessu erindi. "(You'll play the fool)".
Einnig er búið að breyta uppröðun orðanna, þannig að þetta er upptalning, vantar aðeins orðið "learn", læra, og því skiljanlegra, að töframenn fá gesti úr salnum til að gera þessa ótrúlegu hluti. Því er þessi útgáfa ljóðsins öll miklu skýrari, og sögusviðið fastmótað eins og í kvikmynd eða sjónvarpsmynd.
Fjallað er um að þessir töframenn reyni að ná vatni út úr steinum.
Þetta gæti verið óljós tilvitnun í Biblíuna, þegar Kristur er sagður hafa breytt vatni í vín, og ýjað að því að þarna sé verið að reyna að leika slíkt eftir.
Hér er þó talað um stóra háskóla sem byggðir eru fyrir þessa peninga, og því ljóðmálið allt skýrara.
Ýmsar fleiri útgáfur af textanum eru til.
Þar kemur fram að með þessu syndafé séu gerð út mikil fyrirtæki þar sem tilraunir fara fram, kannski líftæknitilraunir eins og hjá Kára Stefánssyni eða Bill Gates og annarra.
Þar kemur einnig fram "bölvuð hlið Paradísar", og með blótsyrðinu er syndin gefin til kynna og kannski hræsnin.
"Sumir þeirra þjófar" í circusinum.
"How to go crazy from á carrying a burden". Hvernig á að brjálast á því að bera byrði.
(Hvernig fólk á að brjálast af lífsbyrðinni).
Þrátt fyrir að margt sé tilviljanakennt og óljóst í þessu erindi, og greinilega spunnið á staðnum, fyrir framan hljóðnemann, þá er myndin nokkuð skýr.
Eftir því sem meira er lesið og ritskýrt af þessu hlýtur maður að sannfærast betur að þótt þetta sé ekki kristilegur lofsöngur eða sálmur, þá er ljóðmálið fengið úr þessum sértrúarsöfnuðum, þar sem trúarofsinn er mikill. Þó er orðfærið veraldlegt að stóru leyti, eins og Bob Dylan hafi skammazt sín fyrir að viðurkenna það að enn væri hann undir áhrifavaldi kristninnar.
Boðskapurinn er alveg fullljós og fer ekkert framhjá manni. Kannski er hann úreltur, því sumt af þessu þorir fólk ekki lengur að leggja áherzlu á í sértrúarsöfnuðum eða Þjóðkirkjunni, já, enn síður í Þjóðkirkjunni, sem nú næstum alveg lýtur femínismanum.
Ég er alls ekki endilega sammála Bob Dylan að svona kukl sé gagnrýnivert. Einnig finnst mér margt gjörsamlega úrelt í þessu kvæði, og eiga við löngu liðna tíma. Svona circusar eru orðnir sjaldgæfir, það er að segja, fyrr á tímum voru þeir talsvert í tízku á Vesturlöndum, og tóku pláss, en margt annað hefur nú tekið meira rými í menningunni og vekur meiri athygli, og því er þessi gagnrýni Bob Dylans mjög gamaldags.
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (25.12.): 112
- Sl. sólarhring: 149
- Sl. viku: 776
- Frá upphafi: 130361
Annað
- Innlit í dag: 75
- Innlit sl. viku: 582
- Gestir í dag: 72
- IP-tölur í dag: 72
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.