24.12.2023 | 02:11
Skyggnzt um skapabrún á ljóðinu "Too Late/Foot of Pride", þriðja erindið til umfjöllunar.
Það er runninn upp aðfangadagur og ég óska lesendum að sjálfsögðu gleðilegra jóla. En mér finnst við hæfi að fjalla um þetta ljóð Dylans sem á uppruna sinn í gyðingdómi og kristni, núna þegar deilurnar eru svona harðar fyrir botni Miðjarðarhafs.
Margir týna sér í tilfinningasemi þegar kemur að þessum deilum. Kristnir menn, sem oftast eru hægrimenn standa með Ísrael. "Góða fólkið", menningarfólkið í vinstri flokkunum stendur með Palestínumönnum.
Eitt lag á plötunni "Infidels" fjallar algjörlega um þessa langvinnu og hræðilegu deilu, sem heitir "Neighborhood Bully".
Fyrir þá sem læra íslenzku er titill þessa pistils tilvitnun í skáldsögu.
Það sem er svo skemmtilegt við íslenzkuna, ef maður kann hana sæmilega, er að þá skilur maður hversu fyndnar og tvíræðar svona setningar eru.
Sköp eru örlög, en einnig er talað um kvenmannssköp. Því getur þessi setning haft ýmsar merkingar. Sá sem skyggnist um skapabrún getur verið að spá fyrir um örlög eða hafa rekkjað með dömu með slíkum afleiðingum.
En að þriðja erindi þessa kvæðis eða söngtexta Dylans.
Kynnt er til sögunnar ný persóna, sem höfundurinn nefnir dr. Silfurskeið. Nafnið segir fjölmargt. Í ensku eins og í íslenzku er til orðtækið að fæðast með silfurskeið í munninum, sem þýðir að fæðast inní forríka ætt, að vera kominn af auðugum foreldrum.
Sé allt með boðskap í kvæðinu, þá er boðskapurinn sá að dr. Silfurskeið sé forríkur maður af forríkum ættum.
Síðan kemur fram að hann komi úr "Alsælu danssalnum".
Ég tel ekki að Bob Dylan eigi við eiturlyfið alsælu. Það heiti held ég að hafi ekki verið mikið notað um MDMA, sem einnig er kallað Molly, fyrr en áratug seinna.
Reyndar er hægt að finna upplýsingar um að nafnið Ecstasy, alsæla hafi verið notað um þetta eiturlyf frá 1980. Þó held ég að það hafi orðið að enn meiri tízkubylgju áratug síðar, á tíunda áratugnum á dansstöðum, og var kallað E-pillan, eða danspillan líka.
Þannig að ekki er útilokað að Bob Dylan eigi hér við eiturlyfið alsælu. En ef ekki, þá er hann að lýsa einhverjum sem er á toppi félagslífspíramídans, einhverjum sem í dag myndi vera fastagestur á slúðursíðum DV eða Séð og heyrt.
Allavega þá er þessi dr. Silfurskeið ennþá meiri þorpari en glaumgosinn í erindinu á undan, því ríkt fólk ber jú meiri siðferðislega ábyrgð en fátækt, því það hefur eðlilega meiri áhrif á aðra, fær sjálfkrafa meiri eftirtekt og virðingu alla jafnan, því flestir láta eitthvað glepjast af ytri stöðu og virða slíkt fólk meira en fátæklingana.
Síðan kemur framhaldið.
Honum er lýst sem viðskiptajöfri á eftirlaunum. Þar með vitum við að hann er aldraður. Áfram halda lýsingarnar á þessum manni og sagt er að hann nærist á öllum sem hann snertir. Það kann að vera tilfinningalega eða fjárhagslega eða á enn fleiri sviðum.
Síðan er sagt að hann gefi fjárhæðir til kirkjunnar, og til vísindarannsókna. Einnig kemur fram að hann sé maður sem sé hættulegur, ("not someone you can play around with too much)".
Já, stórkostleg mannlýsing verð ég að segja. Þetta er maður sem er fullkomlega tvöfaldur í roðinu, þykist vera góðmennskan holdi klædd, en er fúlmenni og skúrkur. Þetta á sennilega við marga, en flestir eru svona þó aðeins að litlu leyti, en sumir talsvert mikið. Yfirborðsgóðmennska og dyggðaflöggun eru orð sem við þekkjum vel í nútímanum og skiljum vel yfir þetta.
Kvenpersóna er því næst kynnt. Hún heitir Rosetta Blake. Sagt er um hana að hún hafi verið beggja vegna við ána, stöðuvatnið. Það er að öllum líkindum ljóðmál yfir að leika einnig tveimur skjöldum eða sitja beggja vegna borðsins. Hún gæti því kallazt snobbuð vændiskona, sú sem er í þjónustu tveggja eða fleiri óvina.
Henni er lýst þannig að hún sé gróf í útliti en í góðu formi. Síðan kemur fram að hún gefi mönnum kókoshnetubrauð og kryddbollur í rúmið.
Mér sýnist allt þetta orðfæri lýsa hástéttarlíferni kókaínfíkla og fræga fólksins á þessum tíma.
Síðast í erindinu er sagt að maður þurfi ekki að óttast að sofa með höfuðið niðri á disknum. Ekki finn ég orðatiltæki á ensku sem hæfir þessu. Það getur verið að Dylan hafi reynt að lýsa saurlifnaði ríka fólksins svona, sem sofnar vímuefnasvefni innanum matföngin, og minnir þetta á síðustu tíma Rómverja og rómverska heimsveldisins, sem sagt fullkomin spilling.
Þá kemur viðlagið, fyrri útgáfan.
Því næst er það umbreytingin þegar þetta heitir "Foot of Pride" nokkrum dögum seinna hjá höfundinum.
Þá er þessi maður kominn með nýtt heiti, og heitir Red, eða Rauður. Sá litur er oft tengdur við skapofsa og suðræna heift.
Um þennan mann er sagt að honum hafi verið varpað niður úr Himnaríki og að hann sé viti sínu fjær. Sterkari lýsingar á fullkomnu fúlmenni eru varla til.
Einnig er sagt að hann eigi aðeins samskipti við fólk með peningum. Fullkomlega tilfinningalaus sem sagt, og metur manngildið einskis og fjárgildið til alls.
Svona lýsingar eru komnar frá sértrúarsöfnuðum og "frelsuðu" fólki þess tíma. Ég kannast við þetta sjálfur, ég hef kynnzt svona fólki.
Einnig er sagt að hann selji miða að flugslysum.
Já, með örfáum orðum tekst Bob Dylan að draga upp mynd af manni sem tekur þátt í samsærum á heimsvísu, og er valdur að dauða fjölmargra með því að valda flugslysum, til að losna við pólitíska óvini. Enn styrkir þetta þá skoðun að allt kvæðið byggist á fordæmingu á heiminum sem séð er frá sjónarhóli heittrúaðs manns sem gæti verið kristinn, eða eitthvað annað.
Frú Delíla er eign þessa manns er sagt, og að hún sé Filistíni, Fílistei, Palestínumaður, en orðið getur einnig þýtt andstæðingur menningar og lista í ensku. Efnishyggjumanneskja er einnig merking orðsins.
Svona tekst Bob Dylan að þryngja eitt orð með þvílíkri fyrirlitningu að það er ótrúlegt. (Sögnin að þryngja er mitt nýyrði, þýðir að gera eitthvað þrungið af einhverju, fullt af einhverju).
Hér verður það enn betur ljóst að Bob Dylan tekur algjörlega afstöðu með Ísrael á móti Palestínumönnum í þeirra hræðilegu deilu.
Fleira er markvert í þessum texta sem vert er að minnast á og útskýra svolítið betur. "Miss Delilah is his" stendur í textanum, eða að hún er hans eign. Hvort nákvæmlega sé átt við að hún sé bókstaflega ambátt hans er ekki fullkomlega ljóst, en að minnsta kosti er sú tilfinning gefin að þessir forríku menn séu fullir af mannfyrirlitningu og noti fólk eins og dauða hluti.
Þetta eina orð, filistei, hefur fleiri merkingar og upplýsir fleira. Hægt er að skilja það bókstaflega þannig að hún sé múslimakona, kannski frá olíuríki eins og Sádí Arabíu. Þannig mætti einnig draga þá ályktun að þessi Red, Rauður, sé olíubarón og múslimi, en það er ekki sagt berum orðum, einungis gefið lauslega í skyn, þannig að það er mögulegt en ekki fullvíst.
Undir lok erindisins kemur í ljós að hún er spákona eða miðill eða kuklari, og er hér vísað í enn eitt bannið í Biblíunni, gegn andatrú, spíritisma. Því má segja að allt þetta ljóð þræði algenga orðræðu "frelsaðra" einstaklinga á þessum tíma, og hvaða hópa þeir fordæmdu mest.
Þá kemur einnig fram að Dylan hefur breytt setningunni, nú verður sá eða sú sem ort er til að sætta sig við að sofa með höfuðið í gröfinni, ef viðkomandi vill umgangast þessi dálaglegu skötuhjú.
Sú setning er fullkomlega skiljanleg, og þýðir að sá sem þekkir svona ríkt og spillt fólk hætti lífinu, að samsæri og morð eða aftökur séu algengar í svona menningarkimum. Huggulegt eða þannig!!
Eins og sjá má er fyrirlitning á heiminum umfjöllunarefni þessa kvæðis. Enn fremur fær maður á tilfinninguna að Bob Dylan sé verið að vara við því að vestræni heimurinn sé að mótast eftir Palestínumönnum.
Burtséð frá deilu Palestínumanna og Ísraela um þetta landsvæði, þá er kvæðið fullt af siðfræði sem á alltaf vel við.
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Nýjustu færslur
- Syndafallið í Biblíunni - Aldingarðurinn Eden tilraunastofa, ...
- Líta femínistar í eigin barm? Er ástæða fyrir bakslaginu?
- Jahve er djöfullinn og hann stendur á bakvið öll stríð, og er...
- Sjálfstæðismenn þurfa að sinna menningarmálum meira
- Vinstrimenn ættu að skammast sín, en ekki hægrimenn. Mengun e...
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 87
- Sl. sólarhring: 97
- Sl. viku: 746
- Frá upphafi: 127289
Annað
- Innlit í dag: 55
- Innlit sl. viku: 558
- Gestir í dag: 45
- IP-tölur í dag: 45
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.