3.12.2023 | 02:00
Hvernig er hægt að hjálpa fleirum til geðheilbrigði og almennrar vellíðunar og hreysti?
Stutt er á milli geðheilbrigði og geðveiki, stundum er það að mestu leyti getan eða viljinn, nennan, til að vinna (launaða, opinbera vinnu samkvæmt skilgreiningum skólakerfisins) sem sker úr um þetta. Rétt eins og aðeins er hægt að treysta þeim sem segjast fæddir í röngum líkama, en ekki þeim sem hafa fordóma gegn þeim.
Páll Vilhjálmsson hefur bloggað um það að honum finnist það ótrúlegt að fólk geti talið sig hafa fæðzt í röngum líkama, og að nóg sé að fullyrða það til að það sé tekið gilt, og þeir einstaklingar séu ekki geðveikir fyrir vikið. Einnig hefur hann bloggað um geðveikt fólk, og þegar til þess er vísað sem veikra einstaklinga finnst mér það alltaf jafn einkennilegt og rangt, eins og þegar þeir sem telja sig hafa fæðzt í röngum líkama telja það móðgun við sig að telja það geðveiki að upplifa tilveruna þannig.
Fordómar gegn geðveiku fólki eru meiri en fordómar gegn hinseginfólki, það hafa kannanir sýnt. Því vantar meiri umræðu og skilning. Einnig er það skrýtið að bóluefnaandstæðingar mæta líka meiri fordómum en þeir sem áður töldust til hefðbundinna minnihlutahópa, útlendingar, litaðir, samkynhneigðir, osfv.
Ég var orðinn 50 ára þegar æskuheimili mitt var rifið, Digranesheiði 8, það var 2021. Þar hafði ég lifað í þeim draumórum að ég myndi verða frægur poppari, ef ég bara tæki upp meira af lögum eftir mig. Þar var ég með hljóðver í herberginu mínu.
Síðan eftir að ég fluttist þaðan hef ég smám saman gert mér það ljóst að ég hef lifað í lygi og sjálfsblekkingu, það er að segja, ég verð sennilega aldrei frægur poppari og get sennilega aldrei lifað á listinni. Ég fór að blogga því ég saknaði afa og ömmu og þeirra hægriskoðana og fannst ég finna þær á þessu bloggi.
Ég hef verið öryrki síðan 1996 þegar ég fékk þá skilgreiningu að ég væri með ofsóknarbjálæðisgeðklofa. Ég hef svo sem ekki alltaf verið sáttur við það, og trúað mismikið á að það sé rétt. Mamma hefur verið dugleg við að segja að þetta sé ekki rétt, en hún er nú jafnvel með enn minni jarðtengingu en ég, og samt er hún ekki geðklofi opinberlega, heldur kennari á eftirlaunum. Mörg vandræði í hennar lífi hafa þó verið til þess að sumir í fjölskyldunni hafa kallað hana geðveika, en það er hún ekki sátt við.
Geðveiki er ekki það sama og að vera heimskur. Það er heldur ekki það sama og að vera ofbeldisfullur. Fordómar samfélagsins eru algengir í þessa veruna þarsem einföldum staðalímyndum er slegið saman sem fengnar eru úr bíómyndum eða kerlingabókum og kjaftasögum allra alda.
Ég man nokkuð vel samtöl við fólk sem mér finnst áhugaverð og kenna mér eitthvað. Þannig get ég munað ævilangt samtöl sem ég átti einusinni við fólk, ef ég hef áhuga á því sem rætt er. Samt held ég að ég gleymi flestu einsog aðrir.
Þannig get ég til dæmis rifjað upp það sem okkur fór á milli, geðlækninum sem kom mér á örorku og mér 1996. Ég man ekki hvað hann heitir eða hét en markverðustu bútunum man ég eftir.
Ég hafði og hef áhuga á Nýalsstefnunni, sem sumir telja spíritisma, en er ekki spíritismi alveg. Ég man að ég spurði hann: "Eru allir andlegir hæfileikar þá geðveiki?" "Nei, svaraði hann, það fer eftir mörgum atriðum."
Eitt af því sem sannfærði hann um að ég væri geðveikur var viðhorf mitt til kvenna. Ég sagði honum að ég teldi þær geimverur sem ætluðu að ná tökum á jörðinni og væru undir stjórn geimvera. Þetta var eftir taugaáfallið sem ég fékk 1991 út af ástarsorg, sem ég kallaði "Sumar í Helvíti", og ég sagði honum frá ofskynjununum frá því tímabili. Mér skildist þó á honum að fyrst ég datt úr skólakerfinu og hafi ekki tollað í vinnu neinsstaðar væri það þetta atriði sem hæfði skilgreiningunni geðveiki frekar en ofskynjanir eða stakar ranghugmyndir eða flóknar. Maður mætti jú hafa skrýtnar skoðanir án þess að vera talinn geðveikur, því það væru fordómar að telja skrýtnar skoðanir einar og sér sönnun um geðveiki.
En þetta snýst um að geta treyst fólki. Ofsóknaræðið felst í því að geta ekki treyst fólki, og væntanlega á sinn þátt í því að ég er líka tortrygginn útí Big Pharma og allt það. Vel að merkja er það eitt og sér ekki nein sönnun um geðveiki heldur. Nema ef maður getur ekki unnið eða tollað í námi útaf einhverju og þetta bætist við þá fær maður þessa löggildingu sem öryrki.
Hér á blogginu hittir maður marga yndislega einfeldninga sem eru troðfullir af fordómum í bak og fyrir. Mér finnst það alltaf frekar skemmtilegt, jafnvel þegar þeir beinast að geðveiki.
En auðvitað er sannleikurinn sá að hvert þjóðfélag hefur sína skilgreiningu á geðveiki.
Fyrir nokkrum árum fór ég að sjá þetta alveg í nýju ljósi.
Það gekk svo vel á verkstæðinu hjá afa að fram yfir tvítugt gaf hann mér ríflega vasapeninga og það nægði mér. Síðan var gatan grafin í sundur að verkstæðinu árið 1993 og stóðu þær framkvæmdir yfir í næstum heilt ár, eða fram á sumarið 1994. Afi sagðist ekki hafa efni á því að láta mig hafa vasapening lengur. Það sumar fór ég í bæjarvinnuna, og var einusinni rekinn fyrir að rífast við yfirmanninn (yfirkonuna, flokksstjórann). Ástæðan var einföld, ég sagðist ekki taka við fyrirskipunum frá kvenmanni, sem auk þess væri yngri en ég. Þá var klukkan um rétt eftir hádegi og þetta var í júní 1994. Þó hringdi hún skömmu eftir að ég hafði þrammað heim í þungu skapi, en hún var flokkstjóri, og bað mig afsökunar og sagði að ég væri aftur ráðinn, ef ég gæti fyrirgefið henni og tekið afsökunarbeiðnina gilda, sem ég gerði. Eftir það gekk vinnan vel og ég vann út ágústmánuð 1994. Enda veitti hún mér athygli og hrós og ég var hörkuduglegur fyrir. Hún kunni á mig.
En árið 1995 nennti ég ekki að vinna neinsstaðar eða sækja um. Þá sagði afi mér að sækja um styrk hjá féló, sem ég gerði fúll og ekki hrifinn.
Ég fékk þar vasapening í nokkra mánuði, eða það var alveg í ár, til 1996. Þá var mér tjáð af konu, sem ég held að hafi heitið María, að ungir menn sem væru þannig með framfærslustyrk væru settir sjálfkrafa á örorku, eða það væri stefnan hjá bænum. Ég sætti mig við það og geðlæknirinn var ekki lengi að finna það út að ég væri með ofsóknarbrjálæðisgeðklofa.
En ég fór að setja þetta í samhengi nokkuð seinna. Ég hafði birt ljóð í skólablaðinu um bitrar tilfinningar til stúlkna og kvenna og sungið þannig lög opinberlega.
Ég fór að átta mig á því að þetta væri hluti af alþjóðasamsæri femínista um að kúga karlkynið. Ég skrifaði handrit, brot af bókum og jafnvel stutt rit í fullri lengd um þetta og svipuð málefni, allt óútgefið, samsærin gegn karlkyninu og Vesturlandabúum og margt fleira áhugavert.
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Nýjustu færslur
- Gamanvísur, ljóð frá 14. apríl 1983 - æskuverk - dægurlagatexti
- Gróðahyggjan hefur náð til Kína og þar er hún komin á stera. ...
- Eitt glæsilegasta afrek Bjarna Benediktssonar var að leyfa hv...
- Finnst mér Rembrandt leynast víða, ljóð frá 8. febrúar 1988
- Umhverfisvernd VERÐUR að hafa meiri áhrif, stöðva hamfarahlýnun!
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (15.1.): 19
- Sl. sólarhring: 36
- Sl. viku: 507
- Frá upphafi: 132457
Annað
- Innlit í dag: 11
- Innlit sl. viku: 394
- Gestir í dag: 10
- IP-tölur í dag: 10
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Það eru áhugaverð samsæri í gangi, gagnvart karlmönnum. Sérstaklega ef þeir eru hvítir. Kristnir eru líka undir óvenjulegum árásum þessi misserin.
En það er erfitt að fá fólk til að trúa því á meðan fjölmiðlum er bannað að greina frá því.
Loncexter, 3.12.2023 kl. 08:56
Þakka þér fyrir þessa opinskáu sjálfskoðun þína, sem skýtur að mínu mati mörgu samferðafólki okkar ref fyrir rass á þessum síðustu og óumdeilanlega biluðu tímum, því jafnvel margt okkar fremsta afburðafólk hefur gengið hamingjusamt í gegnum allt líf þeirra, án þess að fatta nokkurntíma rassgat, fremur en kjúklingur í búi eða loðna í torfu.
Spurningin er því líklega enn hvort betra sé að vera lifandi hundur eða dautt ljón?
Jónatan Karlsson, 3.12.2023 kl. 10:49
Öll siðmenning er búin til af konum og karlaveldið hefur aldrei verið til.
Þetta er auðveldlega sannað.
Guðjón E. Hreinberg, 3.12.2023 kl. 12:15
Takk fyrir þennan einlæga pistil Ingólfur, það eru ekki allir sem þora að fjalla með þessum hætti um sjálfa sig. Mér sýnist femínistar stefna á alræði kvenna en munu nú aldrei ná þvi marki.
Helgi Viðar Hilmarsson, 3.12.2023 kl. 18:49
Ég held að þú hafir á réttu að standa Loncexter. Stalínstíminn er nú og hér. Takk fyrir ágæta athugasemd,
Ingólfur Sigurðsson, 3.12.2023 kl. 20:43
Ef karlaveldið var aldrei til Guðjón og ef feðraveldið var aldrei til, við hvað eru þá konur að berjast sem segjast berjast gegn feðraveldinu? Eigin ímyndunum?
Ingólfur Sigurðsson, 3.12.2023 kl. 20:45
Já Helgi Viðar, nákvæmlega hittir í mark. Þetta kemur fram í Friggjarblótinu og Genesis. Þrátt fyrir uppreisn Evu hefur hún ekki náð takmarkinu og mun aldrei ná þótt það kosti endalausar fórnir. Þannig er syndin.
Ingólfur Sigurðsson, 3.12.2023 kl. 20:47
Takk fyrir þetta Jónatan. Ég hef kannski lært eitthvað af Bubba Morthens. Hann er opinskár. Það kostar sársauka að fletta ofanaf sárum en menn eins og Bubbi hafa sýnt að velgengnin byggist kannski á hreinskilni.
Það er til allskonar gagnrýni á skrif manns. Sumir segja að maður sé á flótta undan sjálfum sér ef maður fjallar aldrei um sjálfan sig. Svo eru sumir að segja fólk sjálfhverft sem gerir of mikið af því.
Ingólfur Sigurðsson, 3.12.2023 kl. 20:53
Femínistar eru ekki konur, heldur Marxistar sem þykjast vera konur, og þær berjast ekki gegn feðraveldinu heldur gegn konum sem elska (og virkja) karlmenn. Þannig virkar Dialektík.
Bestu kveðjur.
Guðjón E. Hreinberg, 3.12.2023 kl. 22:28
Takk fyrir gott svar Guðjón. Já, ég tek undir þetta.
Beztu kveðjur sömuleiðis.
Ingólfur Sigurðsson, 4.12.2023 kl. 03:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.