10.10.2023 | 02:56
Um flókna tilurð lagsins Jokerman eftir Bob Dylan, þó ekki túlkun á kvæðinu að þessu sinni, tengsl við nútímaatburði.
Ég hef gaman af að túlka kvæði eins og til dæmis David Weir hefur gert býsna vel á ensku, það er að segja söngtexta Dylans, sem hann túlkar á vefsíðu sinni sem venjuleg kvæði, og gengur vel, þótt hann leggi út frá þeim á of kristilegan hátt, eða svo finnst mörgum sem gagnrýna túlkanir hans á ensku.
Ég er ekki með túlkun á textanum við Jokerman á reiðum höndum, kem kannski síðar með ljóðskýringar við það merkilega verk. Þó má segja að þessi pistill minn sé nokkurskonar inngangur að skilningi á verkinu, því ég kem með nokkra fróðleiksmola sem hjálpa til við að skilja verkið betur.
Jokerman er upphafslag plötunnar "Infidels" eftir Bob Dylan frá 1983. Það orð getur þýtt "Villutrúarmenn", "Trúleysingjar" eða "Ótraustsverðugur einstaklingur". Fidelity er þó traust, og tel ég infidel komið af þeim rótum, en orðið hefur trúarlega merkingu nær eingöngu, í algengustu notkuninni.
Umfjöllun mín um þessa hljómplötu Bob Dylans er ekki úr lausu lofti gripin, núna þegar átök Palestínu og Ísraels magnast enn á ný, og að þessu sinni með grófum hætti, því það var talið af mjög mörgum að hann hefði sæzt við gyðingatrúna sína með plötunni, sem hann var fæddur inní, þar sem hann er af gyðingaættum, kemur úr þannig fjölskyldu, en hefur sýnt þeirri trú mismikinn áhuga á ævi sinni, og stundum ekkert viljað með hana hafa. Það er þó ljóst að á þessu tímabili hneigðist hann eitthvað til gyðingatrúarinnar.
Allt sem Bob Dylan gaf út á þessum tíma skiptir mig mjög miklu máli, því ég var að uppgötva hann á þessum tíma, þegar jafnaldrar mínir lágu yfir Wham og Duran Duran.
Það má því segja að ég hafi velt fyrir mér dularfullum vísunum þessarar plötu fyrir mér nær alla mína ævi. Öðru máli gegnir um "Empire Burlesque", frá 1985, á yfirborðinu er hún auðskilin, en fjallar þó um Armageddon þegar betur er að gáð, eins og ég fjallaði um í pistli fyrir ári síðan, eða einhverntímann fyrir allnokkru. "Knocked Out Loaded" frá 1986 var hinsvegar gerð til að klára plötusamning, og hefur tæplega dýpri merkingu en safn misgóðra laga bæði eftir Dylan og aðra.
Í viðtali sem Bob Dylan veitti blaðamanni einum fimm mánuði eftir útgáfu plötunnar, sem var 27. október 1983, og viðtalið hefur þá birzt í marz 1984 samkvæmt því, kemur ýmislegt fram, upplýsingar sem meistari Dylan gefur blaðamanninum. Rétt er að taka það fram að Bob Dylan er frægur fyrir það að gefa sjaldan færi á viðtölum við sig.
Í umræddu viðtali var hann spurður að því hversvegna hann hefði kallað plötuna:"Trúleysingjar". Hann svaraði að upphaflega hafi hann viljað kallað hana "Surviving in a Ruthless World", sem á íslenzku myndi kallast: "Að lifa af í grimmum heimi," en síðan hafi hann hætt við þá nafngift þar sem margar plötur á undan hafi byrjað á stafnum "S" og hann hafi viljað rjúfa þá hefð.
Í frekari svörum hans kemur þó fram að hann fyrirlítur fólk almennt og telur það trúleysingja, hvort sem það er frá sjónarhóli gyðings, kristins manns eða tónlistarmanns. Það má túlka útúr því að hann spyr hvort fólk hefði viljað að hann hefði kallað plötuna "Skepnur", "(Animals)". "Hvað vill fólk að maður kalli það?" spyr hann. Af þessum svörum er það alveg ljóst að það er trúmaðurinn Bob Dylan sem svona lýsir samtíma sínum, sem syndurum og trúleysingjum.
Fleira merkilegt má segja um plötuumslagið. Í staðinn fyrir að birta texta á nærbuxnablaðinu, (þessu sem umlykur plötuna sjálfa og verndar fyrir ryki og rispum), þá birtir hann þar mynd af sjálfum sér tekna í Ísrael af fyrrverandi eiginkonu sinni, Söru.
Umrædd mynd á nærbuxnablaðinu er tekin á Ólífufjallinu fyrir utan Jerúsalem, og krýpur þar Bob Dylan og tekur upp stein, eða er í þann mund að gera það.
Á plötunni er einnig hið mjög svo umdeilda lag "Neighborhood Bully", sem eiginlega allir túlka sem stuðningsyfirlýsingu í garð Ísraels í deilu þeirri við Palestínumenn. Hafa mjög margir verið á móti því lagi, en hlynntir flestum öðrum lögum plötunnar.
Lag sem komst ekki á plötuna en var þó tekið upp fyrir hana fjallar um gyðingahjónin Júlíus og Ethel Rosenberg, sem voru tekin af lífi fyrir njósnir, og er það frægt mál og umtalað.
Annað umdeilt lag á plötunni er "Union Sundown", (Sólarlag verkalýðsfélaganna), þar sem Bob Dylan kemur fram með stæka þjóðerniskennd, að hann vilji ekki sjá erlenda framleiðslu í Ameríku, að Bandaríkjamenn eigi að framleiða fyrir sig sjálfir. Þetta er sami boðskapur og Donald Trump kom fram með, og Joe Biden og demókratar eru andvígir, því þeir vilja frekar alþjóðavæðinguna.
"Man of Peace" er nú kannski merkilegasta lag plötunnar, þar sem hann gagnrýnir friðarhreyfinguna grimmt og húmanismann, að Satan komi oft fram sem húmanistinn mesti, og standi þar einatt á bakvið, þar sem er mannúð og mannréttindi vinstrimanna og jafnaðarmanna, að Guð einn sé góður má lesa útúr þeim texta, eins og var boðskapur Jesú Krists, þótt ekki sé það sagt alveg svo berum orðum í textanum, en þó gefið skýrt í skyn, vissulega.
Af allri þessari upptalningu má merkja það að þarna sættist Bob Dylan við sínar gyðinglegu rætur og umfaðmaði gyðingdóminn, að svo miklu leyti sem honum var unnt, þar sem hann er flókinn persónuleiki, og efagjarn í eðli sínu, gleypir helzt ekkert hrátt, og sízt það sem kemur frá fjölskyldunni eða hans nánast umhverfi, kannski. Það sama má kannski segja um mig og fleiri svo sem.
Um leið og hann missti hina kristnu trú öðlaðist hann trú feðra sinna, gyðingdóminn, en á næstu plötu er hann orðinn fullkomlega veraldlegur, að mestu leyti, að vísu.
Hvað um það, lagið Jokerman er að öllum líkindum elzta lag plötunnar. Bob Dylan sagði það sjálfur að það hefði orðið til eftir svipaðar pælingar og birtust í "Carribean Wind", sem var hljóðritað 1980 og 1981.
Þó má leiða að því líkum að í grunninn hafi það verið samið svo snemma sem 1977 eða jafnvel 1976. Það vita Dylanfræðingar að hljómplatan "Street Legal" frá 1978, sem var samin sumarið 1977 á búgarði að mestu leyti, fjallar um Tarot-spil að miklu leyti.
Þessi lína er úr Jokerman, útgáfu sem ekki var notuð og er eldri:
"So drunk, standing in the middle of the street
Directing traffic with a small dog at your feet."
Þetta er eiginlega mjög svo í samræmi við Fíflið í Tarotspilunum, eða Trúðinn.
Ég ætla ekki að rekja atriði textann frá atriði til atriðis. Það yrði of mikið af smáatriðum til að fjalla um.
Hinsvegar er þetta vegvísir að því að skilja hvernig Dylan býr til texta. Hann raðar saman atriðum eins og púsluspilum, ekki endilega í rökréttri röð.
Sumir hafa talið þetta lag vera um Ronald Reagan, sem þá var forseti Bandaríkjanna. Það er ekki fullkomlega ljóst. Kvæðið er margslungið og flókið. Það er einnig fullt af Biblíutilvitnunum. Kannski fer ég seinna útí að reyna að túlka það almennilega.
Þetta nægir að sinni, til að vísa fólki á áhrifin sem Dylan varð fyrir þegar hann samdi plötuna.
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Nýjustu færslur
- Syndafallið í Biblíunni - Aldingarðurinn Eden tilraunastofa, ...
- Líta femínistar í eigin barm? Er ástæða fyrir bakslaginu?
- Jahve er djöfullinn og hann stendur á bakvið öll stríð, og er...
- Sjálfstæðismenn þurfa að sinna menningarmálum meira
- Vinstrimenn ættu að skammast sín, en ekki hægrimenn. Mengun e...
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 80
- Sl. sólarhring: 99
- Sl. viku: 739
- Frá upphafi: 127282
Annað
- Innlit í dag: 49
- Innlit sl. viku: 552
- Gestir í dag: 41
- IP-tölur í dag: 41
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.