Hljómdiskinn "Jafnréttið er eina svarið" gaf ég út 2001. Svo gæti virzt samkvæmt nafni hans að þar hafi ég verið nákvæmlega á sömu línu og elítan í RÚV eða í pólitík nútímans, en ég fjallaði um þessi mál frá öllum hliðum.
Mér finnst alltaf skemmtilegast að fjalla um málefni sem ég er ósammála sjálfur, því þá fæ ég tækifæri til að grufla í þeim mjög rækilega og skoða margar hliðar.
Þessi diskur var gefinn út í tveimur útgáfum. Þó voru gerðir fleiri masterar, en master þýðir aðalfrumdiskur á íslenzku. Það þýðir það eintak sem fjölfaldað er eftir. Áður fyrr voru það sérstakar "edikssýruplattar" sem voru frumrit vínylhljómplatnanna. Áldiskar með sellulósanítrathúðun eru notaðir sem þessir aðaldiskar í hljómplötuframleiðslu. Hinsvegar voru mínir aðaldiskar (masterar) aðeins venjulegir hljómdiskar af CD gerð, enda vann ég þetta á hljómdiskaöldinni sem nú er að líða, CDR audio tæknin.
Þessvegna var auðvelt fyrir mig að búa til svona mastera, aðaldiska. Fyrir fyrstu opinberu hljómdiskana gerði ég alltaf nokkra aðaldiska sem ég svo valdi úr. Fyrir engan opinberan hljómdisk gerði ég eins marga óútgefna aðaldiska og fyrir hljómdiskinn "Jafnréttið er eina svarið", árið 2001. Þeir voru sem sagt yfir 20, en aðeins tvær útgáfur komu út. Yfirleitt er aðeins um eina gerð sem gefin er út, nema algengt var á tímum Bítlanna, eða frá 1960 til 1965 að út kæmu tvær gerðir af hverri hljómplötu, ein fyrir brezkan markað og hin fyrir bandarískan markað, stundum með ólíkum nöfnum, og ólíku lagavali, en oft sama titlinum en örlítið breyttu lagavali. Rolling Stones voru þannig líka.
Ástæðan fyrir því að ég púlaði við að gera yfir 20 aðaldiska fyrir þessa útgáfu var sú að ég var aldrei ánægður með útkomuna. Ég lagði sem sagt upp með hugmynd sem ég vann útfrá upphaflega sem gekk ekki upp og gat ekki gengið upp, ég lagði fyrir sjálfan mig listræna þraut sem var dæmd til að mistakast.
Ekki aðeins það, heldur var leiðin löng og flókin að markinu, frá því ég byrjaði að semja efnið og hvað ég valdi á plötuna, hljómdiskinn.
Næstum öll lögin sem komu út í þessari mynd voru samin 1996, nánar tiltekið í byrjun júnímánaðar 1996. Fyrstu dagana í júnímánuði 1996 samdi ég nokkur löng lög með flóknum textum. Síðan einhverra hluta vegna stytti ég þessa texta 8. júní 1996 og tróð sama lagboðanum við öll þessi lög, og byrjunin var:"Ég hef alltaf/aldrei/stundum elskað..." og þannig var ljóðmælandinn ekki sá sami.
Þetta var mjög skrýtið ferli og þar að auki var ég mjög óhamingjusamur á þessum tíma, þetta var árið sem Ingvar frændi dó og fleiri sem ég þekkti. Ég var sem sagt að vinna mig frá sorg og óhamingju með þessum lögum og textum.
Þegar ég mætti í hljóðver Fellahellis vorið 1998 lenti ég á alveg frábærum hljóðmanni sem var miklu færari en þeir Íslendingar sem höfðu tekið mig upp í þessu hljóðveri.
Ég pantaði fyrstu tímana í hljóðveri Fellahellis síðla árs 1995. Ég var þá of feiminn og óöruggur og mætti ekki í þessa pöntuðu tíma. Bauð ég Megasi hvort hann vildi nýta sér þá, en hann sagðist verða að þekka hljóðmennina sem hann ynni með.
Það var því í apríl 1996 sem Finnur Júlíusson tók mig fyrst upp í hljóðveri Fellahellis. Fyrst notaði ég umhverfisverndarlögin og eitthvað eftir Bob Dylan, ásamt einhverju sem var nýlegra, og samið þau ár, á þeim áratug, á níunni, eða tíunda áratugnum. Umhverfisverndarlögin voru yfirleitt frá níunda áratugnum, áttunni, þegar ég hafði verið táningur í menntaskóla og gagnfræðiskóla, uppfullur af vinstrikreddunum frá kennurunum.
Þessar upptökur frá apríl 1996 voru ekki góðar. Ég var svo stífur og stressaður að söngurinn kom ekki vel út. Ég lagði svo ofurríka áherzlu á að syngja skýrt og að hvert orð heyrðist að framburðurinn var ekki góður og allur flutningurinn heftur og kassalaga, ekki frjálslegur, þægilegur og flæðandi. Þar að auki voru tæknimálin í algjörum ólestri, og hljóðmaðurinn kunni ekkert á takkana.
Adam Wright, sem sá um tæknimálin 1998 sagði um þær upptökur á ensku:"Ég hefði ekki getað náð verra hljóði þótt ég hefði reynt það". (I couldn't have been able to capture a worse sound even if I'd tried).
Þannig að ekki sá ég fram á að vera ánægður með þessi lög þegar ég hljóðblandaði eitthvað af þessu snemma í maí 1996. Allt unnið fyrir gýg og það gerði ég mér grein fyrir. Jók það á óhamingju mína.
13. maí 1996 var ég svo aftur með bókaðan tíma. Ég tók upp ósköpin öll af íslenzkum dægurlögum sem ég söng inná segulbönd í hljóðveri Fellahellis. Að þessu sinni var ekkert eftir sjálfan mig. Ég vildi einfaldlega fá að heyra hvort mín lög væru verri en lög annarra, ég vildi fá að heyra útkomuna af frægum dægurlögum í mínum flutningi í góðu hljóðveri.
Þarna voru ýmis lög, nokkur eftir Bubba Morthens, nokkur sem Vilhjálmur Vilhjálmsson hafði sungið, eins og "Ég bið þig", í þýðingu Ómars Ragnarssonar, en ég bar mikla virðingu fyrir hans textum og geri enn, svo voru þarna lög eftir Oddgeir Kristjánsson, en suma texta hafði ég skrifað niður eins og mér heyrðist þeir vera og voru þeir því ekki alltaf réttir.
Þarna var eitt lag eftir Magnús Eiríksson, "Ó þú", og hitt og þetta annað af vinsælum slögurum. Hvernig var svo útkoman.
Hún var sæmileg, jafnvel nokkuð góð á köflum. Þarna voru nokkur lög sem ég flutti býsna vel, miðað við að vera einn með gítarinn. Þetta var frekar áheyrilegra en sá klunnalegi flutningur sem var frá aprílmánuði 1996.
Ég bjó til aðaldiska bæði af því sem ég tók upp í apríl og maí. Ég hlustaði á þá í maí, en fór ekki með þá í Myndbandavinnsluna til útgáfu. Eitthvað fannst mér ennþá skorta.
Í júnímánuði 1996 bætti ég við karlrembulögum við þann bunka sem ég var ánægður með. Þannig var ég kominn með 10 þannig lög tilbúin til upptöku. Þann 1. júlí 1996 var ein upptökulota helguð þessum lögum, næstum allt saman mikil rokklög.
Ég lét búa til spólu, eða hljóðblandaði hana sjálfur raunar. Síðan hlustaði ég á hana fram og aftur. Útkoman var nokkuð góð, en of hörð, fannst mér.
Þann 31. júlí 1996 var svo aftur upptökutími tilbúinn sem ég nýtti mér.
Ég sagðist vilja prófa eitthvað nýtt, sagði það við hljóðmanninn.
Hann lét einn hljóðnema hanga niður úr loftinu. Annar hljóðnemi var svo skemmra frá gítarnum. Öll lögin sem ég tók upp 1. júlí 1996 tók ég þarna upp aftur, og löturhægt að þessu sinni, með gítarinn rétt svo lauslega tifandi, lágt, en sönginn kröftugan og háan.
Útkoman var áhugaverð, en ekki það sem ég leitaði að.
Snemma í ágústmánuði 1996 tók ég svo upp aðeins meira, en það voru ekki lög eftir sjálfan mig heldur fleiri íslenzkir slagarar. Ekkert af þessu var notað.
Ég gerði harðari kröfur til sjálfs mín en svo að ég teldi þetta nógu gott. Hvorki var hljómurinn nógu góður né flutningurinn.
Í aprílmánuði 1997 tók ég svo upp meira, og aðallega umhverfisverndarlögin sem mér fannst ekki nógu vel hljórituð. Þó varð útkoman ekki skárri. Eitt lag var ég þó mjög ánægður með, "Einni þér ann ég", sem Vilhjálmur Vilhjálmsson hafði gert frægt, Tommy Roe gerði lagið en Ólafur Gaukur ljóðið.
Þarna loksins leyfði ég mér að syngja eins og ég vildi, með sérstökum og persónulegum áherzlum. Ég söng þetta lag eins og Megas söng "Ef þú smælar framaní heiminn."
Þetta lag var sungið með rámri röddu, öskrað á köflum en hvíslað á köflum. Ég var hæstánægður með útkomuna af þessu eina lagi, en hljóðmaðurinn ekki. Hann sagði mér að ég gæfi þetta út myndi enginn kaupa þetta því þetta væri svo hræðilega sungið. Ég var ekki sammála, því ég kunni að meta áherzlur Megasar í söng og Bob Dylans og fleiri slíkra söngvara.
Hljóðmaðurinn taldi ómögulegt að hljóðblanda þetta vel, en mér tókst það nú samt þannig að mér fannst útkoman góð.
Eftir þetta vann ég ekki í hljóðveri Fellahellis í tæpt ár.
Það var svo í janúar 1998 sem ég sneri aftur og af rælni. Ég vildi athuga hvort ég gæti tekið upp Sonnettu, lagið sem tengdist stúlku sem ég hafði verið hrifinn af.
Að þessu sinni fékk ég frábæra hvatningu og frábæran hljóðmann.
Nýr hljóðmaður var kominn til starfa í hljóðveri Fellahellis, frá Kanada og hét Adam Wright. Hann talaði bara ensku en við skildum hvor annan fullkomlega og hann hreifst af hverju einasta lagi sem ég söng í hljóðverinu, og hann kenndi mér margt.
Hann var sá fyrsti sem gerði þetta almennilega. Hann sagði mér nákvæmlega hversu nálægt ég ætti að vera hljóðnemanum í hverju einasta lagi eftir því hvort ég söng hátt eða lágt, sterkt eða mjúkt og veikt, nánast hvíslaði. Hann stillti líka hljóðnemann á réttan stað fyrir gítarinn og mixaði mjúkt þannig að bassahljómarnir komu sterkar fram í söng og gítarleik, einmitt það sem ég vildi. Hann lét mig syngja ofaná hljóðnemann ekki framaní hann. Sú tækni er sýnd á umslagi fyrsta hljómdisksins míns, frá 1998, þessu ári.
Ég var svo ánægður með útkomuna úr þessari upptöku frá janúar að ég ákvað að taka allt upp aftur, endurgera öll lögin sem ég hafði hljóðritað 1996 til 1997. Auk þess bætti ég við ósköpum af nýlegum lögum, alls um 100 lög, og var ég með þetta allt vel skráð niður í bækur, texta og röð laga. Alls voru þetta því um 10 hljómdiskar sem voru tilbúnir þarna í febrúar 1998, og margt sem ég hafði ekki hljóðritað áður, bara eftir að hljóðrita og hljóðblanda, en lögin voru samin og tilbúin.
Fyrsta upptakan var mestmegnis fyrir þetta eina lag, "Sonnettu". Ég tók firnamargar frekar langar tökur, en allt hljómaði það vel.
Öll umhverfisverndarlögin tók ég nokkuð vel upp, en vegna þess hversu mikið ég tók upp fór allt skipulag útum þúfur, og ég hafði ekki efni á að hljóðblanda allt þetta efni, sem var tekið upp frá janúar til maí 1998.
Ákvað ég að skipta umhverfisverndarlögunum á tvo diska, bætti við blúsum frá 1996 til 1997, og ryþmablúsum í rokkútsetningu með. Karlrembulögunum skipti ég á fjóra diska, bætti við blúsum sem flutu með, um femínisma, en þeir voru styttar útgáfur af miklu lengri blúsum, sem langflestir voru frá febrúar og marz 1997, en stuttar útgáfur frá febrúar og marz 1998, ég einfaldlega slepptu flestum erindum þegar ég tók þetta upp í hljóðverinu og bætti við munnhörpusólóum.
Auk þess voru þarna atómljóð sem rokklög voru samin við, undir heitinu:"Það og það", tíu stykki.
Blúsútgáfan af "Jafnréttið er eina svarið" var meðal þessara hljóðritana frá febrúar og marz 1998, ryþmablúsútgáfa að vísu. Til var önnur útgáfa með erindum og ekki blús, sem var þá aðeins til í demóútgáfu, eða útgáfum öllu heldur.
Síðan um haustið, í september tók ég upp meira. Það voru nýölsku hljómplöturnar þrjár sem fengu á sig fullmótaða mynd og eitthvað fleira.
Eins og áður sagði átti ég erfitt með að velja hvað myndi seljast bezt og of dýrt var að fara í gegnum efnið allt og hljóðblanda það.
Það kom mér mjög á óvart að lögin sem ég hafði notað til að hita upp, eftir Bob Dylan, hljómuðu útgáfuhæf, bara miklu betur en ég bjóst við. Í þeim var þetta sérstaka sem gerir hljóðritun góða, þagnir réttar, flutningur áhrifamikill, hljómurinn fínn. Ég hljóðblandaði þessi lög og eyddi litlum fjárhæðum í útgáfu um haustið. Salan var dræm en einhver. Árið eftir var hljómdiskurinn endurútgefinn og nýr diskur gefinn út með efni eftir mig:"Hið mikla samband", frá 1999. Þá komst meiri hreyfing á söluna. "Blóm, friður og ást" frá 2000 seldist líka eitthvað.
Það var ekki fyrr en 2001 sem ég gaf út disk sem seldist ekkert, eða næstum ekkert, það var "Jafnréttið er eina svarið". Það var líka lítið upplag, en hina hafði ég endurútgefið í 20-30 eintökum, og það smáseldist.
Umslagið er drungalegt og dökkt, á hljómdisknum "Jafnréttið er eina svarið". Sami lagboðinn er notaður í næstum öllum lögunum. Textarnir eru mjög ruglingslegir og ekki sannfærandi. Umslagið minnir á "Drög að sjálfsmorði" með Megasi, myrkur og aðeins listamaðurinn sýndur.
Undir lok ársins 2001 gaf ég út aðra útgáfu af þessum hljómdisk, einnig í mjög takmörkuðu upplagi. Sú útgáfa disksins seldist einnig dræmt, en samt eitthvað. Þar var ekki leikið á jazzgítar heldur skemmtara, hljómborð, og tilbreytingin meiri.
En þannig vill til að ég hef ákveðið að ef ég endurútgef þetta muni ég notast við annan aðaldisk, master og þá jafnvel með demóupptökum og öðrum lögum.
Ég samdi á þessu ári, 2001, ýmsa texta og ljóð sem ég var ekki samþykkur, en ég gerði það fyrir titilinn á verkinu, til að prófa mig áfram listrænt og þóknast öðrum. Þótt þessi lög hafi aðeins verið tekin upp sem demó eru þau ekki verri fyrir það, eða varla.
Í þeim hljóma ég eins og vinstrimaður.
Ef þessi útgáfa hljómdisksins selst betur og er fólki að skapi er mér alveg sama að syngja þessi lög á tónleikum og gera þau fræg. Tónlistarmaður verður að fara eftir viðtökunum og vonast til að efnið falli fólki í geð. Það er RÚV boðskapur sem er í langflestum dægurlögum nútímans. Sem betur fer á ég ýmis þannig lög, þótt ég hafi minna lagt áherzlu á þau, fyrir utan umhverfisverndarlögin, sem einnig eru í 100% RÚV stíl.
En allt kemur þetta kannski í ljós, ef ég hef efni á að endurútgefa þetta síðar og ef ég fæ kjark til þess. Ég hef verið í fríi frá tónlistarbransanum frá 2015, hef ekki komið fram á tónleikum síðan þá, og ekki gefið út hljómdisk síðan 2010. "Ísland fyrir útlendinga" frá því ári, 2010, seldist heldur ekki vel, en "Ísland skal aría griðland" frá 2009 seldist hinsvegar eitthvað og fékk verðskuldaða athygli, og var talsvert spilaður á X-inu.
Það er aldrei auðvelt að vita hvað fær athygli fjölmiðlafólks. Flest fær litla eða enga athygli og því er þetta oftast eintóm peningaeyðsla og tap að vera að gefa þetta út, og því hefur maður yfirleitt ekki efni á því.
En skrýtnu gripin og sjaldgæfu eru meira notuð á afgangslögunum, demóupptökunum. Það eru líka flóknari lög.
Þannig finnst mér bezta tónlistin vera. Þegar þetta er einsog málverk, og maður sér sífellt fleiri smáatriði við fleiri hlustanir, þá getur maður verið nokkuð ánægður með árangurinn.
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Nýjustu færslur
- Öfgar til vinstri kalla á öfga til hægri
- Það er sama hvað gerist, sjálfseyðing Vesturlanda er á sjálfs...
- Ekkert eða fátt breytt? Hlutverkaleikur? Inga Sæland í gervi ...
- Spænska veikin var af fuglaflensustofninum. Þessa sýkingu þar...
- Okkar vestræna þjóðfélag sem Nató-Kata og Nató-Þórdís Kolbrún...
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.12.): 5
- Sl. sólarhring: 84
- Sl. viku: 753
- Frá upphafi: 130038
Annað
- Innlit í dag: 5
- Innlit sl. viku: 585
- Gestir í dag: 5
- IP-tölur í dag: 5
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.