26.8.2023 | 00:22
Á slóð Daltóna (eða Í fótspor Daltóna) - Lukku Láka bók frá 1961, óútgefin á íslenzku, bókagagnrýni.
Lukku Láka bækurnar eru Íslendingum að góðu kunnar og hafa verið vinsælar lengi. Þó finnst mér persónulega að þær bækur sem hafa verið að koma út eftir dauða höfundanna eftir aðra höfunda séu mun lakari en þær sem Morris og Goscinny sömdu saman, og það er víst almennt talið að þeirra samvinna hafi verið blómaskeið þessa langlífa bókaflokks og vinsæla.
Þegar Morris og Goscinny sömdu þessa bók saman höfðu þeir mjög gaman af vinnu sinni eins og sjá má af bókinni, sem er leikandi létt og brandararnir eðlilegir en ekki vandræðalegir eða neyddir fram. Bókin ber mest einkenni handritshöfundarins René Goscinnys, finnst mér, þótt hans sé hvergi getið, enda skrifaði Morris sig einn fyrir bókunum lengi vel, því var ekki breytt fyrr en síðar. Engu að síður var handritið alfarið eftir Goscinny og þess má sjá mjög glögg merki og ljós. Hans húmor var sérstakur og leiftrandi.
Meistari René Goscinny var af gyðingaættum, annað foreldrið pólskt og hitt úkraínskt, og er vert að geta þess hvílíka hæfileikamenn þessi lönd hafa getið af sér, til dæmis þennan teiknimyndasöguhöfund sem heimsfrægur er, en lézt fyrir aldur fram úr hjartaáfalli árið 1977, og varð mikið bakslag í öllum þeim myndasöguseríum sem hann hafði unnið að með því. Fyrstu myndasögur sínar teiknaði hann sjálfur, en þær voru ekki sérlega vel teiknaðar, þannig að hann varð ekki almennilega frægur fyrr en hann fór að láta aðra teikna fyrir sig, eða fór að vinna fyrir aðra teiknara, öllu heldur.
Í þessari bók er hundurinn Rattatti kynntur, án efa hugmynd Goscinnys. Hann er heimskasti hundur í heimi, þau orð eru oft notuð um hann. Rattatti er skrumskæling á þeim hundum sem Hollywood gerði vinsæla, sem beztu vini mannsins og skynsömustu vini mannsins. Því öllu snéri Goscinny uppí stólpagrín, því hundurinn Rattatti gerir um það bil ekkert rétt, er hundlatur og skilur nánast ekki neitt, en misskilur eiginlega allt, svo skemmtanagildi bókanna eykst mjög vegna þess.
Hann er kynntur sem vörn gegn því að Daltónar sleppi, en reynist fullkomlega gagnslaus sem slíkur, en þvælist sífellt fyrir og gerir allt flóknara og erfiðara, en fyndnara um leið fyrir lesendur bókanna.
Eini augljósi gallinn við Lukku Láka bækurnar er sá hversu líkar þær eru innbyrðis, þannig að maður getur orðið þreyttur á þeim. Endurtekningar á sömu stefjum og jafnvel bröndurum eru margar og þrotlausar næstum því.
Enda eru komnar út um það bil 80 bækur á frummálinu, frönsku. Ekki skrýtið að höfundarnir hafi endurtekið sig, en bækurnar eru enn góður söluvarningur og margar bókanna geyma gæði.
Fáeinar Lukku Láka bækur eru hreinasta snilld og bókmenntaafrek, til dæmis bókin Ríkisbubbinn Rattatti, sem kom út 1973 á frönsku en 1978 á íslenzku. Þar er fáránleika mannlífsins snilldarlega vel lýst. Fangelsishundurinn Rattatti erfir geysileg auðævi, næstum því heila borg. Bófaforinginn Jobbi Dalton mun erfa þetta ef hundurinn drepst, og því reynir hann stöðugt að lóga hundinum, sem aldrei tekst.
Það fyndna er að Rattatti misskilur allt eins og venjulega. Morðglampinn í augum Jobba Daltóns er túlkaður af hundinum sem ástúðlegt blik, og þar fram eftir götunum. Hundurinn hænist æ meira að Jobba Dalton eftir því sem hann er verri við hann, og í þankabúbblum kallar hundurinn Jobba Dalton ævinlega elskaðan húsbónda sinn.
Á slóð Daltóna, eða Í fótspor Daltóna, byrjar að lýsa svona samskiptum, en brandarar þeirrar bókar eru alls ekki eins djúpir og margræðir og í síðari bókum, eins og snilldarbókmenntaverkinu Ríkisbubbinn Rattatti.
Mikið pláss fer í að lýsa klaufsku og heimsku Daltónbræðranna sjálfra líka. Eiginlega finnst mér þetta fremur ómerkileg bók, því ekkert kemur á óvart í henni. Hún er samt skemmtileg, því gert er stólpagrín að öllu samfélaginu, og það hvernig fólk lætur þarna stjórnast af ástæðulausum ótta og heimsku á alltaf við, þetta eru bara mannlegir eiginleikar sem þarna eru ýktir og dregnir skýrt í ljós.
Daltónar eru langt frá því að vera fullkomnir eða stórsnjallir, en eins og oft í þessum bókum er það orðsporið af þeim sem hræðir fólk meira en allt annað.
Hugleysi almennings er helzti skotspónninn og það er mjög fyndið hvernig bæði teiknara og handritshöfundi tekst til. Virðulegasta fólk missir kjarkinn á svipstundu, flýr og verður hlýðið fyrir framan bófa eða byssu Lukku Láka.
Þetta var kannski mesta snilld Goscinnys. Hann var eins og Franquin, gerði grín að daglegum atburðum, snéri mannlegum ófullkomleika uppí háð.
Lukku Láki er hinsvegar harður eins og stál, og missir aldrei marks. Þótt hann lendi í ótal erfiðleikum í gegnum bókina sigrar hann að lokum með þrautseigjunni.
Daltónbræður hafa allir sérstaka persónuleika. Jobbi, dvergurinn er klókur að finna uppá einhverju, sem alltaf bregzt og er ófullkomið. Kobbi og Vibbi eru atkvæðalitlir, hlýða Jobba og koma með athugasemdir. Ibbi, sá lengsti hefur bara áhuga á að éta og fara aftur í fangelsið, en hlýðir Jobba líka og gerir ótal mistök eins og hundurinn Rattatti, enda greinilega mjög heimskur, en það eru þeir allir, mismikið.
Þessi bók er ómissandi í seríuna, vilji maður eiga allar bækurnar. Hún lýsir Rattatta, hvernig hann varð til. Bókin er ekki meðal þeirra beztu sem komu út, og þó er hún hluti af sígildu sögunum eftir Morris og Goscinny, og hafa má mjög gaman af henni, húmorinn í henni er ekta húmor eftir Goscinny, þann mikla húmorista og snilling.
Í sumum Lukku Láka bókum er nokkuð djúpur boðskapur um mannlegan breyzkleika og hvernig allt getur gengið á afturfótunum vegna lítilla mistaka eða ófullkomleika einstaklinganna.
Þessi bók er ekki þannig. Hún er hreint grín og hrein skemmtun. Samt dálítið meira, því hundurinn Rattatti speglar líka ákveðna eiginleika fólks, og fólk getur speglað sig í honum og Daltónum, eða Lukku Láka og aukapersónunum.
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.1.): 9
- Sl. sólarhring: 158
- Sl. viku: 709
- Frá upphafi: 133255
Annað
- Innlit í dag: 6
- Innlit sl. viku: 509
- Gestir í dag: 6
- IP-tölur í dag: 6
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.