Tónlistarsnillingurinn Robbie Robertson mun aldrei gleymast, mikið og gott efni liggur eftir hann

Robbie Robertson var ágætur vinur Bob Dylans og vann með honum á hátindi frægðar hans frá 1965 til 1974. Hann átti stóran þátt í að fínstilla þá tónlist sem Bob Dylan varð frægastur fyrir á þessum árum sem gítarleikari hans, að vísu með löngu hléi, frá 1968 til 1973. En áhrifin sem hann hafði á tónleikaferðirnar 1965, 1966 og 1974 voru ómælanlega mikil. Bob Dylan var púaður niður af þjóðlagatónlistarnördunum 1965 fyrir að fara úr kommúnistaádeilusöngvum yfir í popp og rokk, skorið á línur til að láta hann þagna á sviði og slíkt, en í staðinn varð hann rokkhetja á pari við stærstu rokkhetjur þess tíma. Stíll hans einkenndist af öskri í léleg hljóðkerfi sumarið 1965 til 1966, en hann öskraði ekki bull eins og sumir aðrir heldur vandaða söngtexta og alvöru ljóð eftir sjálfan sig og gerbreytti tónlistinni, alvöru list komst í tízku, og furðufuglar eins og Andy Warhol nutu enn meiri athygli fyrir vikið. Vegna þess hversu hrátt rokkið var á þeim tíma og hljóðkerfin léleg var þetta frumpönk, en Rolling Stones auðvitað meðal helztu frumkvöðla þeirrar stefnu.

Hver tónlistarmaður myndar stíl sinn og ímynd meðal annars með "sándi", eða "kennihljómi". Kennihljómar Bob Dylans hafa verið margir, því hann er kamelljón sem hefur leikið með mörgum hljómlistarmönnum á ferlinum. Haukarnir (The Hawks) sem urðu the Band um 1968 spiluðu vandaða þjóðlagatónlist og rokkabillý og tónlist sem tilheyrði fleiri stefnum. Þeir spiluðu allir á mörg hljóðfæri og voru færir í því.

Þeir fóru að gefa út eigin tónlist 1968, og samvinnan við Bob Dylan sem kennara þeirra skilaði þessum frábæra árangri, og Robbie Robertson samdi flest lögin þeirra, og reyndist með hæfileikaríkustu lagasmiðum í poppinu, en vandvirkni var einkenni hans frekar en fjöldaframleiðsla. Bob Dylan var nokkurskonar gúrú þeirra og almennur gúrú í Bandaríkjunum og víðar, og er enn.

Robbie Robertson gaf út nokkrar sólóplötur sem allar fengu góða dóma, en langur tími leið oft á milli þeirra og þær eru ekki nema 5 talsins ásamt hljóðrásarplötum fyrir kvikmyndir.

Helzta framlag hans til tónlistarheimsins er án efa viðvera hans í hljómsveitinni "The Band", sem aðalmaðurinn í þeirri hljómsveit og höfundur flestra laganna þeirra.

The Band er talin ein bezta og sérkennilegasta hippahljómsveitin, með tímalausa arfleifð tónlistar sem stenzt ásókn tízkubylgna, vegna þess að hún kom úr sálardjúpi Ameríku sjálfrar, frá því fyrir daga Cólumbusar. Robbie Robertson samdi dulræna texta sem jafnast á við hin beztu ljóð, og inní textana fléttuðust goðsagnir indíána Ameríku, enda var hann af indíánaættum Norður Ameríku sjálfur og tók þátt í þannig baráttu.

Margt annað gefur The Band sérstöðu, til dæmis notkun fiðlunnar og þannig gamaldags hljóðfæra sem voru notuð á nýlendutímanum og í willta westrinu í Bandaríkjunum.

Auk þess voru þarna fleiri góðir lagasmiðir, sem fylgdu þeim stíl sem Robbie Robertson mótaði. Um 1971 hnignaði hljómsveitinni vegna innbyrðis deilna og vímuefnanotkunar sem var algeng meðal tónlistarmanna um þær mundir.

Robbie Robertson var sakaður um einræðistilburði innan hljómsveitarinnar og ekki að ósekju reyndar, en hæfileikamaðurinn Richard Manuel framdi sjálfsmorð 1986, en hann lenti í alkahólisma miklum en hafði sýnt einstaka hæfileika á fyrstu plötunum til lagasmíða, en þeir hæfileikar virtust fara til spillis með sigri vímuefnanna á honum. Rick Danko fór sömu leið of snemma og áttu vímuefni sennilega stóran þátt í andláti hans fyrir tímann einnig, þótt hjartabilun hafi verið um kennt og opinber ástæða. Einnig hann var mjög góður lagasmiður sem aðeins í upphafi ferils hljómsveitarinnar blómstraði en ekki síðar. Að vísu gaf hann út eina sólóplötu 1977 sem fékk þokkalegar viðtökur, og hann gat út í samstarfi við aðra nokkrar vellukkaðar plötur til viðbótar, tónleikaplötur til dæmis.

Fleiri miklir hæfileikamenn voru í The Band, en nú eru þeir langflestir komnir yfir móðuna miklu og sukkið hefur án efa átt mikinn þátt í því.

Robbie Robertson hafði áhrif á mig í átt að náttúruvernd, einhverja dulræna hæfileika hafði hann og miðilshæfileika eins og Bob Dylan, og það skynjaði ég; þótt textar hans fjalli ekki mikið um "græna" umhverfisvernd, slagorð vinstrisinnanna sem ég tileinkaði mér ungur og fór að syngja um dægurlög, þá má segja að sumar vísanir hans í textunum hans komi úr menningarheimi indíána Norður Ameríku, frumbyggjanna þar, þannig að fólk stillist ósjálfrátt til þeirra áhrifa, virðingu fyrir náttúrunni, samkenndar með náttúrunni.

Sem slíkur má segja að Robbie Robertson sé hetja frumbyggja Ameríku, og fánaberi þeirrar menningar, einn af mörgum, en áhrifamikill sem slíkur á síðari hluta 20. aldarinnar.

En hann var líka alþjóðleg popphetja.

Þegar ég var í Menntaskólanum í Kópavogi varð hippamenningin endurreist meðal minna jafnaldra með Jet Black Joe og slíkum hljómsveitum. Þá fór maður að hlusta enn meira á tónlist frá Bítlatímanum og síðar, þótt einnig hafi þær hljómplötur verið mikið spilaðar á æskuheimilinu.

Kannski er hippamenningin sígild, kannski mun hún vakna til lífsins reglulega. Það gerðist einnig fyrir nokkrum árum að unglingar fóru að klæðast slíkum fötum og hlusta á þannig tónlist aftur í stað þess allra nýjasta.


mbl.is Robbie Robertson látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Elíasson

Árið 2019, var gefin út tveggja plötu albúm í tilefni að 50 ára afmæli The Band.  Ég eignaðist þetta albúm og það sem kom mér mest á óvart var hversu mikill metnaður var í útgáfunni.  Sem dæmi má nefna að önnur platan er að mestu leiti LIVE upptaka frá tónlistarhátíðinni í Woodstock árið 1969, þetta er alveg ótrúleg upptaka maður hefði alveg eins verið að hlusta á hljómsveitina flytja "stúdíó" upptökur af þessum lögum svo góðir spilarar voru þessir menn.  Ég á því miður aðeins eina af sólóplötum Robbie Robertson, enn það er ekki nokkur vafi á því að hann var ein af RISUM rokksins en vegna þess að hann var aldrei að eltast við vinsældalistana, þá fékk hann ekki þá athygli sem hann átti skilið að fá og því miður mög vanmetinn.....

Jóhann Elíasson, 10.8.2023 kl. 11:57

2 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

Algjörlega rétt hjá þér Jóhann, hann var einn af þessum metnaðarfullu snillingum sem seldi sig ekki fyrir gróða og vinsældalista, og þó alltaf virtur og vinsæll tónlistarmaður. Það er nú líka meira en að segja það að halda hljómsveit saman í mörg ár á tímum hippanna, þær sprungu oft og hættu að vinna saman. The Band kom að vísu aftur saman eftir að hann hætti í hljómsveitinni, en missti sjarmann og aðalmanninn. Þeir gáfu þó út þónokkuð góðar plötur eftir það.

The Night They Drove Old Dixie Down er til dæmis snilldarlag, sem sýnir þrælastríðið í alveg nýju ljósi, það eru bara snillingar sem geta slíkt. Hann var sakaður um að standa gegn negrunum og með þrælahaldi út af því lagi, en þær skammir tolldu ekki við hann, enda bara mikill listamaður sem fór ótroðnar slóðir.

Já, maður getur spilað þessar plötur aftur og aftur, þær eru vandaðar, frábærar.

Takk fyrir góða athugasemd.

Ingólfur Sigurðsson, 10.8.2023 kl. 13:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ingólfur Sigurðsson

Höfundur

Ingólfur Sigurðsson
Ingólfur Sigurðsson

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • 5
  • 4
  • 3
  • Image 004
  • Titilblað

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.1.): 117
  • Sl. sólarhring: 118
  • Sl. viku: 960
  • Frá upphafi: 131570

Annað

  • Innlit í dag: 111
  • Innlit sl. viku: 745
  • Gestir í dag: 102
  • IP-tölur í dag: 100

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Leita í fréttum mbl.is

Nýjustu myndböndin

Heilbrigðisráðherrann, helbrigðaráðherfan

Í hópnum finn ég hlýja barnatrú

Aldrei fellur auðmagnskerfið

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband