8.8.2023 | 03:08
Helgi Björnsson er hinn íslenzki Mick Jagger
RÚV fagnaði 35 ára afmæli hljómsveitar Helga Björnssonar, Síðan skein sól með þætti um hana í gær. Mitt listamannsnafn í tónlistinni minnir á þetta hljómsveitarnafn, en það hefur þá alveg verið ómeðvitað ef ég var að stæla það, en ég notaði mitt listamannsnafn fyrst opinberlega 1991, en hafði búið það til nokkrum árum áður, Insol, sem þýðir Ingólfur Sigurðsson og lífstefnumannkynin.
Sviðsframkoman hjá Helga er aldeilis frábær og það finnst mér hans mesti hæfileiki. Lögin eru líka býsna góð en textarnir fullþunnir, þótt í þeim séu nokkrir góðir sprettir.
Þetta var skemmtilegur þáttur í gær og farið vel og vandlega yfir feril þessarar merkilegu hljómsveitar. Það væri gaman ef fleiri hljómsveitir og tónlistarmenn fengju svona góða þætti um sig.
RÚV hefur verið að sýna þætti um Rolling Stones, og margir taktar hjá Helga minna á hann, enda er Mick Jagger einn þekktasti rokkari í heimi, og að stórum hluta út af sviðsframkomunni eins og hjá Helga. Mér hefur aldrei fundizt rokkið hjá Rolling Stones nægilega gott, ekki frekar en hjá SSsól, þótt báðar hljómsveitirnar eigi grípandi lög sem hægt er að dilla sér eftir. Ég er reyndar fyrir allskonar rokk, en ekki sýndarmennskurokk með þunnum textum. Ég hef lítið heillast af hljómsveitum á Íslandi síðastliðin 30 ár.
Led Zeppelin finnst mér góð þungarokkshljómsveit, en ekki Deep Purple. Munurinn er textarnir, þeir eru góðir hjá Led Zeppelin, ekki hjá Deep Purple.
En í fyrsta og eina skiptið sem ég fór á tónleika þar sem Helgi Björnsson söng var 17. júní 1985. Þar komu fram Grafík, Gypsy, Mezzoforte og Megas, en með honum spiluðu nokkrir tónlistarmenn. Þessir tónleikar voru eftirminnilegir vegna þess að Grafík átti að vera aðalhljómsveitin ásamt Mezzoforte, en langmest var klappað fyrir Megasi. Þegar tónleikunum var lokið klöppuðu áheyrendur í kannski 10 mínútur og kölluðu taktfast:"Megas! Megas! Megas!" Hann var þá farinn heim og var með ákveðna dagskrá sem hann lengdi ekki. Hinsvegar kom Helgi Björnsson fram á sviðið hálfspældur, og tók aukalög. Þá sagði hann þessa setningu sem lýsti gremju hans: "Gott að eiga svona gamla og góða menn eins og Bubba og Megas!" Já, Megas var aðalstjarna þessara tónleika.
Þá urðu menn heimsfrægir á Íslandi, og lýðurinn trylltist algerlega. Laugardalshöllin var troðfull af unglingum á mínum aldri. Ég var með lítið segulbandstæki og tók upp dagskrá Megasar. Lítið heyrðist í honum vegna þess að fólk talaði í kringum mig á sjálfum tónleikunum, en það sem heyrist er gott, því Megas var í þrumustuði og bandið frábært með honum.
Fyrsta lagið sem hann tók var "Grísalappalísa" í hægri jazzútsetningu, þar sem Jens Hansson fór hamförum á saxófóninn, og þetta var frábær útgáfa af laginu, í alvöru sveiflutakti. Þar á eftir tók hann "Hann á afmæli", (17. júní), um Jón Sigurðsson, lag sem kom ekki út fyrr en 2011 loksins. Það lag þekkti ég ekkert og heyrði aðeins daufan óm í gegnum rosalegan kliðinn í fólkinu, og það heyrist á bandinu, en ég tók yfir sumt, því ég var oft að færa frá einu segulbandstæki yfir á annað, og þá rýrnuðu gæðin enn meira.
Næst tók Megas "Fatlafól" eða "Krókódílamanninn", ég held að fleiri hafi ekki lögin með honum verið, en þetta var þrusurokk sem unglingarnir fíluðu í tætlur.
Hinar hljómsveitirnar náðu ekki upp sömu stemmningu og Megas, rokkið hans Helga Björns var ekki svona hart og hrátt og kröftugt eins og hjá Megasi.
Ég hef aldrei sungið á sömu tónleikum og Helgi Björnsson, en einmitt á Myrkramessunni 1991 þá flutti ég lag og Todmobil með Andreu Gylfadóttur kom fram á sömu tónleikum, en það er ein af þessum hljómsveitum sem urðu vinsælar á þeim árum.
Það er þó merkilegt að alnafni minn, sem er jafngamall og ég er trommuleikari hjá SSsól og auk þess tók ég upp aðra hljóðversplötu mína sem kom út í hljóðveri Hafþórs Guðmundssonar í nóvember 1999, "Hið mikla samband." Hljóðver hans nefndist September. Hafþór Guðmundsson sem átti þetta hljóðver og rak hafði einmitt líka verið að spila með þeirri hljómsveit og fleiri hljómsveitum.
Þegar ég ákvað að gefa út plötuna "Hið mikla samband" 1999 má segja að ákveðið ferli hafi verið á bakvið það. Fyrstu lögin voru samin 1996, og allan þennan tíma bættust við ný lög og einnig fleiri útgáfur af sömu lögunum, mislangar, með mismunandi og breyttum texta eða útsetningum eða lagboðum jafnvel.
Ég bjó til ýmis demó 1998 heima en mér fannst þau ekki nógu góð. Í upphafi ársins 1999 tók ég líka upp meira heima, en ákvað að nota það ekki.
Einfaldar útgáfur af lögunum voru notaðar, svipaðar þessum sem ég tók upp í Fellahelli snemma árs 1998 og svo um haustið 1998, þegar ný lög bættust við, og voru tekin upp alveg fersk þá um haustið.
Upphaflega ætlaði ég að nota þetta sem var tekið upp á ADAT tækið í Fellahelli, en þegar ég hlustaði á það í fyrstu lotunni (sessioninni) hjá Hafþóri í desember 1999 fannst mér það ekki nógu gott, ákvað að taka upp örfáar útgáfur hjá honum til vara. Upptökur fóru fram 18. nóvember 1999, 20. nóvember 1999 og 22. nóvember 1999. Efnið var nú ekki mikið, en þær tökur voru notaðar og gefnar út.
Síðan var hljóðverið bókað næstu vikurnar þannig að erfitt var að finna tíma til að hljóðblanda, en það tókst þó rétt fyrir jólin, og hljómdiskurinn gefinn út rétt fyrir jólin 1999 og komst í Japis og einhverjar fleiri búðir, Skífuna og fleiri. Ég var svo heppinn að hitta mjög drífandi og jákvæðan mann í Japis sem bauðst til að hjálpa mér að dreifa þessu í Skífuna og víðar, það var rokkarinn landsfrægi Pétur Kristjánsson, sem vann við plötuútgáfu og dreifingu hjá Japis um þetta leyti.
Ég passa ekki mjög vel inní hinn íslenzka rokkbransa því ég kann oft ekki textana og syng þá af textablaðinu og er feiminn. Einungis frá 1991 til 1997 kunni ég alla textana mína utanað, en síðan tók við annar lagalisti sem ég kunni ekki, lög um sársaukafull ástarsambönd og slíkt.
Lögin frá 1991 til 1997 voru umhverfisverndarprógrammið mitt eins og ég nefndi þetta oft, "Njóla í Ránar sal", "Visthrun", "Björgunarlag", og fleiri slík, frá unglingsárunum, öll samin frá 1983 til 1990. Þá var ég feiminn og þetta var boðskapur sem ég taldi að allir gætu tekið undir og skilið. Auk þess voru þetta grípandi lög og fólk kunni vel að meta þau, meðal minna kunningja í skólanum og á þessum unglingaböllum.
Megas var ótrúlega góður árið 1985. Þá var hann fertugur og betri en nokkur annar rokkari á Íslandi.
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (8.1.): 9
- Sl. sólarhring: 169
- Sl. viku: 716
- Frá upphafi: 131922
Annað
- Innlit í dag: 5
- Innlit sl. viku: 593
- Gestir í dag: 5
- IP-tölur í dag: 5
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.