7.8.2023 | 01:08
Emanuel Swedenborg, bókin "Himinn og Hel", og fleira.
Ef maður les þessa bók af gaumgæfni verður manni fljótt ljóst að lýsingarnar á Helvíti eiga við um vestræna menningu að miklu leyti.
Höfundurinn lýsir því hvernig djöflarnir í Víti lifa í sjálfsblekkingu, þar sem rangt er þeim rétt og rétt er þeim rangt, og þeir skynja allt á hvolfi við það sem er í Himnaríki, og því steypi þeir (þau) sér niður í Helju.
Ranghugmyndir, geðveiki, hvernig (húmanískt) samfélagið telur fólki trú um tóma vitleysu, og vitleysan verður haldreipið sem fólk lifir fyrir. Peningar, völd, trúin á efnisheiminn og ekkert andlegt eða yfirnáttúrulegt, þetta einkennir samfélög á helstefnubrautinni, eins og vestræn menning er og verður æ meira.
Hér eru fáeinar tilvitnanir í bókina:
"Allir vita að heiðingjar jafnt og kristnir menn lifa siðrænu lífi, og margir af þeim betra lífi en kristnir."
"Að hinir heiðnu jafnt og hinir kristnu frelsist, getur hver séð, sem þekkir hvað það er sem myndar himnaríki í manninum; því himnaríki er hið innra með manninum, og þeir sem hafa himnaríki innra með sér fara til himna."
Náungakærleikurinn er það sem Emanuel Swedenborg metur dýrmætast af öllu og að elska Guð, sem hann telur Sannleikann, að öll sannindi komi frá Guði. Ég get tekið undir það. Þetta er mikil og mannbætandi speki sem er því miður á undanhaldi í nútímanum.
Í Ásatrú er gert ráð fyrir hefndarskyldunni, en þar er þó einnig kærleikur, bróðurþel og slíkt. Guðirnir eru fyrirmynd í kærleika og gæzku en tröllin víti til varnaðar fyrir grimmd og heimsku. Svipað og í Ásatrú er í Tórunni Lögmálið, auga fyrir auga og tönn fyrir tönn. Þó lætur hinn trúaði Guð hefna fyrir sig, en samt skal gjalda keisaranum það sem keisarans er, svo gert er ráð fyrir mannlegu réttarfari einnig.
Hefndarskyldan innan Ásatrúarinnar byggist á reglum þeirra guða sem eru guðir reglna og laga, og Týr er auðvitað æðstur þeirra.
Án hefndar hættir samfélagið að virka, því þá verður óréttlætið löglegt. Nokkuð sem einkennir nútímann. Þó er gert ráð fyrir fyrirgefningu í Ásatrú. Það er þannig að fólki er í sjálfsvald sett hvenær réttlætinu er fullnægt, með mannvígum eða fébótum eða hvoru tveggja, en í góðu samfélagi kemst á slík sátt.
Í þessum pistli ætla ég ekki að bera saman krossfestingu Krists og hina frægu dvöl Óðins á Aski Yggdrasils, en það væri fróðlegt að fjalla um það síðar í sérstökum pistli, eða fleiri en einum. Óðinn er nefnilega aðalguðinn í Ásatrú eins og Jesús Kristur er sá sem skiptir einna mestu máli í kristninni. Eða öllu heldur, sú tegund af Ásatrú sem við þekkjum úr Eddunum okkar gerir Óðin valdamestan innan Ásatrúarinnar.
Það er ýmislegt rangt í bók Swedenborgs, en það er líka fjölmargt rangt í Biblíunni, viljandi eða óviljandi. Ekki veit ég hvort rétt sé að nefna eitthvað af því hér.
En kærleikurinn er umfjöllunarefnið hér, og fyrirgefningin. Náungakærleikurinn er stórt og mikið atriði og kannski tekst flestum að tileinka sér hann, en upp að hversu miklu marki, og leyfir samfélagið það? Nei, ekki endilega þegar kapítalismi og gróðahyggja er fyrir mestu, samkvæmt almenningsálitinu.
Samkvæmt bók Swedenborgs er sumum ætlað að fara til Helvítis og öðrum ætlað að fara til Himnaríkis, og samkvæmt skipunum eða vilja Drottins, að því er virðist. Því ber þetta keim af fyrirhugunarkenningu Kalvíns, sem er nú umdeild svo sem og ekki talin rétt af nema sumum, og verk Kalvíns mjög umdeild í mannkynssögunni.
Þó er eins og Swedenborg geri ráð fyrir frjálsum vilja mannsins og fjallar um hann, og þetta svigrúm er kannski ástæðan fyrir því að hann ritaði bækur sínar, til að hvetja fólk til að velja rétt og bæta sig, bæta ráð sitt.
Algóður og alvitur guð veit hvert hver og ein manneskja fer. Í Ásatrúnni er þessi almáttugi guð Týr, ég er um það bil alveg viss um það, oft nefndur hinn almáttki Ás einnig.
Það er hægt að misskilja söguna um Tý sem setti höndina í gin úlfsins. Sumum finnst hún ekki lýsa almætti og alvizku Týs, en það er misskilningur.
Sannleikurinn er sá að hvert mannkyn, hvert mannsbarn sér Tý með sínum eigin augum. Einar Pálsson skrifaði í bókum sínum að hægri höndin hafi verið kvenhöndin, sem Týr missi í kjaft úlfsins. Einnig komst hann að þessari niðurstöðu, að Týr hafi jafngilt Jahve, Jehóva, innan kristninnar.
Þar af leiðandi væri feðraveldið ríkjandi en ekki jafnréttið, því kvenhönd Týs væri í Helju, en síðan í Ragnarökum yrði jafnrétti komið á, þegar Helvíti myndi opnast með femínismanum.
Þannig er það hringrásin sem oft gildir innan heiðinna trúarbragða.
En í Ásatrúnni velur hver og einn sér goð til að trúa á, guð eða gyðju. Þar af kemur kærleikurinn og mátturinn, en einnig tyftunin, ef svo ber undir, eða frá tröllum, jötnum eða þursum.
Samfélögin voru mjög vel skipulögð til forna, og Hannes Hólmsteinn Gissurason hefur fjallað um það í merkilegum pistlum hvernig lýðræðið átti uppruna sinn innan norrænna og germanskra samfélaga. Ég er honum algjörlega sammála um það.
Hvernig förum við þá með þennan arf þegar við töpum fyrir þeim sem fjölga sér meira en innfæddir íbúar Norðurlandanna?
Við því er kannski ekkert auðvelt svar. Breytingar eru að verða, og kannski er Vesturlöndum ætlað að tapa fyrir Miðausturlöndum, Asíu og Afríku.
Ef femínisminn er Satan, þá er það ljóst að slíkt tap er óhjákvæmilegt, með útrýmingu þeirra sem aðhyllast slíkt.
Við erum tröllabeita. Ekki mun ég útskýra það nánar.
En kærleikann má finna í flestum trúarbrögðum. Það fer eftir hverjum og einum hversu mikið er af kærleika. Stundum myndast þvergirðingar í (ó)menningunni sem stöðva flæði ástar og kærleika, stundum eru þær sýnilegar en ekki alltaf.
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (8.1.): 36
- Sl. sólarhring: 70
- Sl. viku: 743
- Frá upphafi: 131949
Annað
- Innlit í dag: 24
- Innlit sl. viku: 612
- Gestir í dag: 21
- IP-tölur í dag: 19
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Fróðlegur pistill hjá þér Ingólfur. Sterkustu pólitísku straumar nú á vesturlöndum einkennast af ofríki og andhælisskap (rangsnúningur) sem er andstætt eðli mannsins. Ég geri mér ekki grein fyrir hvenær viðsnúningur í þessum efnum verður en ég sé þennan ágang sem nýlendustefnu heimsveldisins sem senn mun líða undir lok.
Helgi Viðar Hilmarsson, 7.8.2023 kl. 16:00
Þakka þér fyrir innlitið og góða athugasemd Helgi Viðar. Já, nýlendustefna heimsveldis, það má nota það orðalag. Verst er að við þegnarnir innan þessa heimsveldis þurfum að líða og gjalda fyrir græðgina í þeim sem stjórna. Vonandi að hægt verði að milda þau erfiðu atvik sem trúarbrögðin spá fyrir um í slíku ástandi.
Ingólfur Sigurðsson, 8.8.2023 kl. 11:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.