28.7.2023 | 00:10
Plötugagnrýni:Cat Stevens/Yusuf Islam - An Other Cup, 2006.
Ég held mikið uppá tónlist Cat Stevens frá sjöunda og áttunda áratugnum. Þar er hann með þeim betri. Tæplega 30 ár liðu þar til hann gaf næst út tónlist, eftir að hafa snúizt til islamstrúar 1977, en síðasta platan fyrir hlé kom út 1978.
Þetta er fyrsta hljómplatan hans með tónlist eftir að hann snérist til islamstrúar. Árið 1995 gaf hann þó út barnaplötu með islömskum bænum, og trúarlegu efni, "The Life of the Last Prophet," og fleiri slíkar islamskar trúboðsplötur fylgdu í kjölfarið þar á eftir, með upplestri, bænum og slíku.
Heyra má á þessari plötu að gamli krafturinn kraumar í honum, en nær í engu lagi uppá yfirborðið, því í öllum lögunum hljómar hann ekki eins og hvæsandi köttur eða urrandi ljón, eins og þegar hann var yngri, heldur eins og latur heimilisköttur sem er malandi og mjálmandi, sem reynir að sannfæra hlustendur um að kærleikurinn sé aðalmálið í islam. Erfitt er að greina á milli þess í sumum laganna hvort hann syngur til guðs eða konu eða beggja.
Þetta er þægileg hljómplata áheyrnar, góð bakgrunnstónlist. Það er þægilegt að hlusta á þetta þegar maður er annað að gera. Lögin eru áreynslulaus og textarnir líka.
Ég varð reyndar fyrir vonbrigðum með þessa plötu, mér fannst hún of venjuleg. Á gömlu Cat Stevens plötunum var alltaf einhver lífsháski og spenna, en ekki þarna. Laglínurnar eru nokkuð vel samdar, en útsetningarnar eru of hóflegar og bældar, áhuginn ekki til staðar, heldur áhugi til að sýna að hann geti þetta enn, og vonin um að sumt vestrænt fólk hætti að hatast útí þessi trúarbrögð og snúist til þeirra.
"Don't Let Me Be Misunderstood", sem er ekki eftir hann sker sig svolítið úr, en boðskapurinn er augljós, með trúarlega tilvísun sem allir ættu að skilja eftir 11. september og atburðina þá. Þetta lag er örlítið kraftmeira en hin lögin og maður kannast við það, þannig að það er sæmilega grípandi, en þó er þetta ekki bezta útgáfan af þessu lagi, útsetningin er of bæld og deyfðarleg til þess, eins og söngurinn.
Annars eru hin lögin ekkert rosalega grípandi. Það vantar hittara á plötuna, en Cat Stevens kunni að búa til góða hittara á yngri árum. Það virðist eitt af því sem trúin tók frá honum, og sannfæringuna.
Samt er svolítið gaman að þessari plötu, sérstaklega ef maður er mikill aðdáandi Cat Stevens, því rauður þráður í gegnum allar hans plötur er leit að guði, leit að trú og von, og sumt í textunum er kunnuglegt, þótt trúarvissan og sannfæringin geri þetta býsna þvælt og óspennandi eitthvað.
Ég myndi gefa plötunni þrjár stjörnur af fimm mögulegum. Hæfileikarnir eru til staðar og lögin eru nokkuð vel samin, enda góður lagasmiður á ferðinni, en mikið vantar uppá að þetta sé eitthvað að nálgast hans beztu verk að gæðum.
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 39
- Sl. sólarhring: 89
- Sl. viku: 704
- Frá upphafi: 127331
Annað
- Innlit í dag: 31
- Innlit sl. viku: 518
- Gestir í dag: 30
- IP-tölur í dag: 29
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.