27.7.2023 | 01:28
Einokunaraðstaða risafyrirtækja og fákeppnin sem er víða
Oft er tal um verðbólgu afsökun fyrir annarskonar hækkunum, sem smyrja aukalagi ofaná milliliði og heildsala eða kaupmenn, sem gera útsöluverðið sífellt hærra, og að óþörfu.
Það sem er öðruvísi við verðbólguna núna eftir Covid-19 er að meira er um risafyrirtæki, og hér innanlands stærri keðjur. Að vísu var Sambandið til í gamla daga og var alræmt, SÍS, en hvorki það né laustengd félög sjálfstæðismanna voru eins og viðskiptaheimurinn í dag, þar sem "fagmennskan" er svo mikil að hún felur spillinguna, samanborið við Íslandsbankamál Birnu Einarsdóttur, þarf hún ekki að kvíða ellinni með spikfeitan starfslokasamning (eins og gert er ráð fyrir), þrátt fyrir óvinsældir almennings.
Þessi frétt hér fyrir neðan fjallar um að Spotify hafi hækkað verð áskriftarleiða. Ég er ekki hrifinn af þessum streymisveitum og vil frekar að fólk kaupi sér hljómplötur, spólur eða hljómdiska.
Risastór fyrirtæki geta fengið einokunarstöðu á fjölmörgum sviðum, og hafa nú þegar fengið fákeppnisstöðu sem deilt er með öðrum risum. Slíkt er algjörlega andstætt lögmálum frjálshyggjumanna um samkeppni og fjölbreytileika fyrir neytandann.
Afleiðingarnar eru flestar neikvæðar af fákeppni og einokun. Verð hækka, þjónusta versnar, samskiptin versna við neytendur, og vörugæðin rýrna, því aðhaldið skortir.
Um leið og reynt er að telja fólki trú um að fjórða iðnbyltingin sé jákvætt fyrirbæri er verið að læða að enn meiri einokun og fákeppni fyrir neytendur. Risafyrirtæki eins og Spotify komast upp með að hækka gjaldskrár, þegar ekki er mörgum slíkum fyrir að dreifa á markaðnum.
Margir eru grautfúlir útí bankana á Íslandi, Póstinn og allskonar fyrirtæki, sem hafa hrokazt og hreykzt upp, hækkað verð og gert þjónustuna alla lélegri, ef nokkra, með fjórðu iðnbyltingunni. Fyrir 20 árum voru oft pakkar tollfrjálsir hjá Póstinum. Nú gerist það ekki lengur, og allskyns geðveikum, óréttlátum gjöldum og gjaldflokkum er smurt ofaná, og þjónustan versnar á sama tíma. Þessi fyrirtæki hljóta að vera ömurlega rekin fyrst talað er um taprekstur hjá þeim, og þó eru viðskiptin búin að færast yfir á Netið miklu meira en áður. Maður skilur bara ekki gjaldhækkanir undir þeim kringumstæðum, maður hefði haldið að fyrirtækin græddu sem flyttu vörur til landsins og lækkandi gjöld gætu neytendur fengið í kjölfarið. Nei, því miður. Hvað er þá að? Getur einhver útskýrt það? Maður myndi EKKI skipta við svona fyrirtæki ef þau væru ekki í einokunaraðstöðu, eða fákeppnisstöðu.
Ríkið er handónýtt og skiptir sér ekkert af þessu, gerir ekkert gagn. Sjálfstæðisflokkurinn með sína stefnu gegn þessu er orðinn samdauna þeim ríkisbrjáluðu.
Víða úti í heimi eru verkföll og mótmæli. Allsherjarverkfalli var með naumindum afstýrt í Bandaríkjunum í gær eða fyrradag. Þetta sýnir að gremjan sýður í fólki útum allan heim út af nákvæmlega þessu sama sem ég er að fjalla um í þessum pistli, allskonar hækkunum og gjöldum, ekki bara fjandans verðbólgunni, og hún er ekki bara krónunni að kenna, eins og fróðir menn hafa rætt og ritað um.
Staðreyndin er sú að almenningur er settur í æ harðari spennitreyju og umsvifin verða minni, fjárráðin og frelsið til að tjá sig eða vera maður sjálfur. Geir Ágústsson hefur oft fjallað um ýmsa þætti þess býsna vel, og fleiri, vissulega.
Vinstriflokkar á Íslandi halla sér að kapítalistunum. Það gera sjálfstæðismenn enn meira en áður.
Ég ætla að spá því að miklar líkur séu á því að Flokkur fólksins nái 30% fylgi eftir tvö ár þegar kosið verður næst. Ég ætla ennfremur að spá því að Inga Sæland verði næsti forsætisráðherra, og þá verði Sjálfstæðisflokknum loksins gefið frí frá stjórnarsetu, og Bjarni Benediktsson hætti sem formaður Sjálfstæðisflokksins, og þar hefjist endurreisnarstarf sem muni taka að minnsta kosti 10 ár með nýjum formanni.
Auk þess ætla ég að spá því að Samfylkingin, Vinstri grænir og Viðreisn fái allir innan við 10%, nema kannski Samfylkingin.
Mér finnst líklegt að Sósíalistaflokkurinn fái 30%, og gleypi Vinstri græna með húð og hári. Viðreisn á sennilega eftir að sameinast Sjálfstæðisflokknum á ný, og jafnvel Miðflokkurinn að sameinast Sjálfstæðisflokknum og Framsókn.
Íslenzka þjóðfylkingin kemst loksins uppí 10% fylgi, ef allt fer vel og þjóðin fer að þroskast á næstunni, ef fólk er búið að fá nóg af þessu rugli spilltu flokkanna, fjórflokksins.
Píratar hafa átt sitt glæsilega skeið. Eru þeir meira en sýndarmennska og málfundafélag?
Spotify hækkar verð áskriftarleiða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (20.1.): 28
- Sl. sólarhring: 62
- Sl. viku: 603
- Frá upphafi: 132934
Annað
- Innlit í dag: 22
- Innlit sl. viku: 438
- Gestir í dag: 20
- IP-tölur í dag: 20
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.