"I'd Have You Anytime" er fyrsta lagið á "All Things Must Pass", fyrstu sólóplötu Bítilsins George Harrison frá 1970, en hún er talin bezta sólóplata sem nokkur Bítill hefur sent frá sér, eða í hópi beztu sólóplatna Bítlanna, það er smekksatriði.
Það má fullyrða að þetta lag sé stórmerkilegt, og að það hafi gefið George Harrison sjálfstraust sem lagasmiður og að gefa út fyrstu sólóplötuna. Það má einnig telja víst að þetta lag hafi endurræst tónlistarferil Bob Dylans eftir mótorhjólaslysið árið 1966, sem gerði hann óvígan í nokkra mánuði, auk hjónabandsins og krafna eiginkonunnar Söru um að hann hætti að dópa og lifa sukksömu glamúrlíferni sem ábyggilega innihélt lauslæti.
Það er til saga um það hvernig þetta lag varð til, og hún hljómar sennilega. Dylanfræðingar svonefndir eru sannfærðir um að lagið hafi verið samið í nóvember 1968, og til er demóupptaka sem virðist staðfesta það. Auk þess hafa tónlistarmennirnir tjáð sig um það. Á þakkargjörðarhátíðinni í nóvember 1968 þegar þeir sömdu lagið voru þeir báðir kvæntir, Pattie Boyd og George Harrison komu til Dylans og Söru á þeirra heimili.
George Harrison var farinn að verða þreyttur á samstarfinu við hina Bítlana þegar þetta gerðist. Paul og John sýndu honum ekki nægilega virðingu sem jafnoki þeirra á lagasmíðasviðinu, og deilurnar á milli Bítlanna urðu harkalegri. Á þessu eina ári höfðu þeir unnið firnamikið, tekið upp Hvíta albúmið í heild sinni, tvær plötur, og svo einnig unnið að Let It Be verkefninu, sem bæði var tekið upp á myndbönd og hljóðbönd. Bítlarnir voru því mjög þreyttir og brestir komnir í samstarfið og vinskapinn.
Dylan höfðu þeir kynnzt árið 1964 þegar hann kom þeim uppá að reykja marijúana, og það hafði áhrif á sköpunargáfu þeirra en þó ekki síður dulspekilegir, þungir og súrealískir textar hans, sem tóku við af baráttusöngvunum árið 1964.
Allir Bítlarnir mynduðu eitthvað samband við Bob Dylan, Paul McCartney þó kannski minnst og sízt, enda tvíburar báðir og skilja að þeir eru stórveldi í tónlist hvor á sinn hátt.
Ringo Starr trommaði með Bob Dylan, til dæmis á "Shot of Love" frá 1981.
John Lennon bar ómælda virðingu fyrir honum, og frægt er þegar Lennon birtist í myndinni "Eat the Document" 1972, með Bob Dylan, en það myndskeið var tekið upp 27. maí 1966 þegar þeir voru báðir skakkir í limósínu á tónleikaferð.
Auk þess gerði John Lennon grín að Dylan í nokkrum lögum, til dæmis "Serve Yourself" sem hann samdi 1979 sem svar við "Gotta Serve Somebody" eftir Bob Dylan, en í því lagi boðar John Lennon trúleysi, og að fólk eigi bara að trúa á sig sjálft en engan guð.
George Harrison er sá eini af Bítlunum sem vingaðist við Bob Dylan að nokkru ráði, og hjálpaði það þeim að stofna Travelling Wilburies árið 1988 og slá í gegn með nokkrum öðrum frægum poppurum sem máttu muna sinn fífil fegri.
Samkvæmt viðtölum vildi Bob Dylan taka líf sitt til róttækrar endurskoðunar árið 1966. Þá var hann orðinn fjölskyldufaðir og fannst líf rokkstjörnunnar ekki jafn heillandi og áður. Jafnvel varð hann fráhverfur því að semja lög.
George Harrison kenndi honum nokkur ný grip á gítarinn þegar þeir hittust þarna árið 1968. Svo virðist sem Bob Dylan hafi þá fengið áhuga á tónlistinni að nýju, og ákveðið að gera ástarplötu um konuna sína, í sveitasöngvastíl, en hún kom út 1969. Það ár vildi Bob Dylan gera plötu með Rolling Stones og Bítlunum, en Mick Jagger og Paul McCartney munu hafa stoppað það af, og talið það vafasamt fyrir ímyndina og ferilinn kannski, ef útkoman yrði "Óbítlaleg" og "Óstónsleg"?
Ég vil benda á auðmýktina og fyrirgefninguna sem finnst í þessu lagi, "I'd Have You Anytime". Bæði má flokka það sem trúarlag og ástarlag.
En Paul McCartney hefur verið undir mjög miklum áhrifum frá þessu lagi. Á plötunni "Band on The Run" frá 1973 er lagið "Let Me Roll It", og þar tekur hann eina línu úr þessu lagi eftir Bob Dylan og George Harrison og notar sem undirstöðu textans í sínu lagi.
Það er raunar mjög áberandi að þetta lag eftir Paul McCartney virðist frekar samið um John Lennon en Lindu McCartney, og stormasamt samband félaganna á þessum tíma. Raunar eins og oft í lögum eftir Paul McCartney blandar hann saman rómantík og ást til konu og vinskap þeirra Lennons. Þannig svaraði hann fyrir sig á Ram 1971 og á Wild Life frá 1971 einnig, en Lennon var mjög bitur í orðavali í laginu "How Do You Sleep?" á plötunni Imagine frá 1971, og Paul McCartney svaraði á þennan hátt.
Lagið "I'd Have You Anytime" sýnir hæfileika bæði Bob Dylans og George Harrisons.
Það voru því mörgum vonbrigði þegar upptökulota með Bob Dylan og George Harrison frá 1. maí 1970 reyndist innihalda gamla og þvælda slagara en ekki nema örfá ný lög. Þeir djömmuðu saman en unnu enga ærlega vinnu. Þessi upptökulota kom svo út í sjóræningjaútgáfum næstu árin og áratugina í misslæmum tóngæðum.
En tónleikarnir fyrir Bangladesh árið 1971 voru betur heppnaðir hjá þeim báðum og öðrum sem þar komu fram. Þar söng Bob Dylan af innlifun, sem hann hafði ekki gert að margra mati lengi. Þó ræsti hann feril sinn ekki fyrr en 1973, og fyrsta stóra tónleikaferðalagið hans byrjaði 1974.
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (4.2.): 84
- Sl. sólarhring: 106
- Sl. viku: 882
- Frá upphafi: 134817
Annað
- Innlit í dag: 67
- Innlit sl. viku: 592
- Gestir í dag: 61
- IP-tölur í dag: 61
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.