Bókagagnrýni:Vélmenni í veiðihug, Svalur og félagar 20, eftir Tome og Janry, gefin út 1985 á íslenzku, sama ár á frönsku.

Við sem erum kröfuharðir lesendur Svals og Vals bóka sættum okkur ekki við hvaða höfunda sem er. Langflestir telja Franquin meistara þessara bóka og aðra lakari. Hjá mjög mörgum er höfundaparið Tome og Janry í þriðja sæti á eftir Fournier og Franquin í því fyrsta.

"Vélmenni í veiðihug" frá 1985 eftir Tome og Janry tel ég þeirra beztu bók, eða með þeim beztu. Ástæðan er sú að boðskapurinn er framtíðarspá: Það er ekki bara gervigreindin sem er að útrýma mannkyninu heldur femínisminn miklu frekar. Vélrún er tákngervingur alls þessa vonda, Harmageddon, heimsendis af völdum femínisma og gervigreindar.

Janry heitir fullu nafni Jean Richards Geurts og hefur notið jafnvel meiri frægðar og vinsælda fyrir "Litla Sval", sem teiknari.

Tome hét fullu nafni Philippe Vandervelde, fæddur 24. febrúar 1957 og lézt 5. október 2019. Hann var handritshöfundur aðallega.

Oft er sérstakur maður í teiknimyndasögubransanum litari, sá sem bætir við litum. Sá er sinnti þessu fyrir Tome og Janry hét Stuf, Stéphane de Becker, en hann lézt 22. júlí 2015 úr hjartaáfalli, og dró það mikið úr afköstum teymisins.

Tome, handritshöfundurinn tók andlát þessa vinar og samstarfsmanns sérstaklega nærri sér og afköst hans urðu mjög lítil síðustu árin. Hann dó einnig úr hjartaáfalli þann 5. október 2019. Eftir lifir teiknarinn, Janry, Jean Richard Geurts.

Sögurnar eftir Tome og Janry finnst mér síður góðar en eftir ýmsa aðra höfunda því með þeim kom inn gáski og barnaskapur sem hefur fylgt þeim æ síðan, sérstaklega í teikningum. Þó er þetta ekki alveg rétt, því eiginlega má segja að þau einkenni hafi verið til staðar frá upphafi, en í mismiklum mæli.

Robert Velter sem skapaði Sval og íkornann Pésa var sjálfur hótelþjónn á unglingsárum sínum í Lundúnum og þekkti því sögusviðið vel. Það var 21. apríl 1938 sem hann skapaði Sval og íkornann Pésa nokkru síðar.

Teikningar hans og sögur eru mjög í stíl við bandarískar myndasögur, og næstum alveg stæling á þeim, fyrir utan einhver frönsk sérkenni sem fylgdu þeim.

Jijé, Joseph Gillain tók við af Rob Vel í seinni heimsstyrjöldinni sem höfundur Svals og Vals, því Rob Vel varð að senda myndirnar í pósti frá París til Marcinelle í Vallóníu í Belgíu til útgáfu. Í stríðinu varð það svo erfitt, að Jijé tók við, sem var staddur í Belgíu, og hafði mikla hæfileika.

Jijé var mjög drátthagur og jafnvígur á marga stíla teikninga og málverka eða mynda. Það var hann sem bjó til persónuna Val, sem var sveimhugi og ævintýramaður frá upphafi, en Svalur jarðbundnari persónuleiki, eins og Rob Vel skildi við hann.

Valur er blaðamaður frá byrjun, utan við sig og klaufskur jafnvel. Teiknimyndasöguhetjur voru hafðar að háði og spotti frá upphafi, við skulum ekki gleyma því, þannig að ekki var nýtt að þær væru ekki teknar alvarlega eða hátíðlega.

Algengt er að höfundar "steli" persónum sínum frá öðrum höfundum, eða verði fyrir mjög miklum áhrifum frá öðrum, þannig að nánast má tala um stælingu, skrumskælingu eða háð.

Þannig var Valur skrumskæling á Degi í myndasögunum Blondie, eða Ljóska, en þær birtust í Morgunblaðinu um langt árabil, eftir bandaríska höfundinn Chic Young.

Hann heitir Dagwood Bumstead á frummálinu, eða Dagviður Rónastaðgengill, eða eitthvað þesslegt.

Jijé gerðist meistari yngri teiknara á eftirstríðsárunum, og við hann er kenndur Marcinelle skólinn, eftir staðsetningunni í Belgíu. André Franquin var meðal nemanda hans.

Hann tók við sögunum og kom sögunum í hæstu hæðir vinsælda og gæða. Hann er talinn meðal mestu meistara þessa listforms, en það má tala um teiknimyndasöguhöfunda sem rithöfunda, eina tegund rithöfunda, og má kalla þá myndarithöfunda.

En aftur að Tome og Janry. Þegar Fournier var rekinn árið 1980 voru tvö teymi ráðin til reynslu, Tome og Janry og svo Nic og Cauvin. Tome og Janry voru ráðnir.

Jean Dupuis stofnaði fyrirtækið 1922, en synir hans tóku við því árið 1952 þegar hann lézt, þeir Charles og Paul Dupuis.

Bæði André Franquin og lesendur kusu frekar Tome og Janry en Nic og Cauvin. Ég er ekki endilega alveg sammála þeirra skoðun, og tel Nic og Cauvin hafa verið betri höfunda.

Upphaflega teiknuðu þeir báðir og gerðu sögur, en þetta var síðasta bókin sem Tome teiknaði einnig. Tome and Janry voru listamannsnöfn sem þeir tóku upp til að gera grín að Tomma og Jenna sögunum vinsælu.

Handrit Tomes eru nokkuð góð, mörg hver. Myndirnar hafa einhverja kosti, en óraunsæið er of mikið fyrir minn smekk. Með þessum höfundum urðu myndirnar enn líkari skrípamyndum en áður og barnalegri.

Hinsvegar er það alveg rétt að meira líf er í þessum myndum en þeim sem Franquin gerði eða þá Nic. Það er þó á kostnað raunsæis, en Franquin, meistarinn mikli, sameinaði þetta tvennt og svo gífurlega mikinn húmor þar að auki, þannig að hann var sjaldgæfur hæfileikamaður á þessu sviði.

Persónulega finnst mér Vélrún betur teiknuð en nokkur manneskja í meðförum Janrys. Hann virðist haldinn mikilli mannfyrirlitningu ef dæma má af teikningum hans.

Vélrún er hinsvegar falleg og fullkomin útlitslega séð, og minnir mjög á Marilyn Monroe, kvikmyndaleikkonuna og kyntáknið mikla, en óendanlega grimm, eins og vélmenni eru oft í skáldsögum.

Manneskjur í teikningum Janrys eru fáránlegar í hverri einustu mynd. Hlutföllin eru röng og ýkt. Augun of stór, lappir of litlar, og svo framvegis. Litir eru ekki eins fjölbreytilegir eins og hjá Fournier og Franquin, eða Nic.

Ein persóna er þó betur teiknuð í myndum Janrys en annarra sem hafa teiknað hann, en það er fyllibyttan í Sveppaborg, herra Þamban, en það passar við að Janry sé mannhatari ljóst eða leynt og sýni það í verkum sínum, þótt frægur sé fyrir þau, að vísu.

Teikningarnar af herra Þamban á blaðsíðu 29 í þessari bók eru alveg óborganlegar. Rauðþrútin augun, bogið bakið, rautt nefið, sígarettan, og loftbólurnar yfir honum sem tákna vímu, þarna er eymd fíkilsins vel lýst. Þarna missir herra Þamban sígarettuglóð í bendzín sem lekið hefur úr bifreið, og sprenging verður, en hann lifir hana af. Raunar er fullkomlega fáránlegt að herra Þamban líti alltaf eins út og sé lifandi eftir að hafa verið dauðadrukkinn frá 1950, þegar Franquin skapaði hann. Þannig eru nú margar sögur, þar stendur tíminn í stað, en ekki í veruleikanum.

Ég er ekki aðdáandi teikninga Janrys, síður en svo. Þarna finnst mér óheillaþróun hafa byrjað í þessum bókaflokki. Janry tók ákveðna þætti úr teikningum Fourniers og Franquins og ýkti þá uppúr öllu valdi.

Stíll hans seldi bækurnar, en Franquin var alltaf með annan fótinn í veruleikanum og hinn í fantasíunni. Til að lýsa teiknistíl Janrys mætti segja að hann hafi eina tá í veruleikanum en restina af skrokknum í fantasíuheiminum.

Þrátt fyrir allt verða sannir aðdáendur Svals og Vals bókanna að sætta sig við höfunda sem þeim líkar síður við. Þannig má segja að framþróun hafi haldizt áfram með þessum höfundum, sem einnig mætti kalla afturþróun að einhverju leyti.

Þó er það merkilegt að Tome og Janry tókst að sneiða hjá pólitíkinni að mestu leyti. Þeir níddu niður persónur en ekki pólitík eða stefnur. En þeir níddu niður persónur á lúmskan og hefðbundinn hátt, fyllibyttur og bófa, en í myndunum alla, með of miklum skrípahætti sem segja má að ómennski manneskjurnar í bókunum, sem mér finnst ekki gott.

Samúðin með fólki en dýrum og náttúru þó alveg sérstaklega er alltaf augljós í öllum verkum Franquins, og jafnvel Fourniers, en hans teikningar eru þó vélrænni einhvernveginn.

Þessi bók er eiginlega sú bók sem er hverfipunktur einkenna höfundanna, spurning um mennsku og vélrænu, eða virðingu fyrir mennsku eða ekki.

Þessi bók er ágætis afþreying. Það má hún eiga. Það má hinsvegar með réttu deila mjög um gæði hennar eða góð uppeldisáhrif.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Ég las bara bækurnar um Gormdýrið - Spirillen - fannst hann kúl, sérstaklega bókin þar sem eitt gormdýrið fæddist svart.

Guðjón E. Hreinberg, 11.6.2023 kl. 13:01

2 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Gleymdi að minnast á meistara Zorglúbb, aðal vætt núverandi stjórnamála :D

Guðjón E. Hreinberg, 11.6.2023 kl. 13:02

3 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

Já takk fyrir þetta Guðjón. Þú ert með á nótunum. Bókin þar sem eitt gormdýrið fæddist svart er Gormahreiðrið, sem kom út 1957 á frönsku en 1978 á íslenzku, bók númer 2 á íslenzku. Merkilegt er það að svörtu gormdýrin eru grimm en þau gulu blíð, svona svipað og alþýðuhugmyndin er um fólk, englar hvítir en djöflar svartir, það er sígilt myndmál. 

Já, ég gæti skrifað mikið og margt um Zorglúbb. Höfundurinn missti vitið við að framleiða hann og skapa, fékk alvarlegt taugaáfall 1962 þegar hann var að vinna að bókinni Neyðarkall frá Bretzelborg, sem átti upphaflega að vera um Zorglúbb, en ritstjórinn setti þvert nei við því, og Franquin varð að vinna hana frá grunni uppá nýtt. Það var of mikið fyrir taugakerfi snillingsins Franquins, og afköst hans minnkuðu mikið í kjölfarið. Eftir síðasta taugaáfallið sem hann fékk 1982 vann hann nánast ekkert þar til hann dó úr hjartaáfalli 1997.

Zorglúbb er já mögulega vættur nútímastjórnmála. Franquin sem var umhverfisverndarsinni og kommúnisti var einnig mikill húmanisti og góður maður. Um 1959 fékk hann þráhyggju fyrir því að einræði væri að hefjast aftur á jörðinni - eða einhverskonar fasismi sem hann gat ekki útskýrt - og hann skapaði persónuna Zorglúbb. 

Tvær stórar og miklar bækur gerði hann á undraskömmum tíma 1959 til 1960. Z fyrir Zorglúbb og Með kveðju frá Z. Síðan var sköpunargáfa hans kæfð, þegar útgefandinn bannaði honum að skrifa meira um Zorglúbb, og vildi fá venjulegt barnaefni.

Franquin var einn af þessum listamönnum sem ekkert þýddi að banna eða setja stólinn fyrir dyrnar, þá hætti hann bara. 

Franquin hafði spámannsgáfu. Zorgblúbb dáleiðir heimsbyggðina í þessum bókum. Fyrirmyndin að honum gæti verið Stalín, Hitler, Mússólíni eða Maó, en útkoman minnir jafnvel meira á 1984 eftir George Orwell.

Zorglúbb notaði tæknina til að dáleiða fólk, rafeindatæki. Það gerðu ekki aðrir einræðisherra nákvæmlega þannig. 

Notar elítan tölvur til að dáleiða okkur í dag?

Ingólfur Sigurðsson, 11.6.2023 kl. 18:54

4 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Sambland af p-pillunni og sjónvarpstíðni - mjög einfalt - ná stjórn á kvenþjóðinni sem síðan elur börnin "eftir uppskriftum" og temur karlpenínginn á sama hátt og í gegnum aldirnar.

... og enginn samsæragreindandi sér í gegnum plottið.

Guðjón E. Hreinberg, 16.6.2023 kl. 00:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ingólfur Sigurðsson

Höfundur

Ingólfur Sigurðsson
Ingólfur Sigurðsson

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • 5
  • 4
  • 3
  • Image 004
  • Titilblað

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 159
  • Sl. sólarhring: 195
  • Sl. viku: 728
  • Frá upphafi: 127164

Annað

  • Innlit í dag: 94
  • Innlit sl. viku: 544
  • Gestir í dag: 88
  • IP-tölur í dag: 88

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Leita í fréttum mbl.is

Nýjustu myndböndin

Heilbrigðisráðherrann, helbrigðaráðherfan

Í hópnum finn ég hlýja barnatrú

Aldrei fellur auðmagnskerfið

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband