3.6.2023 | 03:49
Bókagagnrýni:Steini sterki og Grímhildur góða, höfundur: Peyo. Setberg 1981, frönsk útgáfa 1963.
Ég fann þessa bók í Góða hirðinum nýlega og mér finnst rétt að fjalla um svona gott bókmenntaverk. Eitt sinn (á unglingsárunum) átti ég mikið safn af myndasögum, en árið 1993 gaf ég Bókasafni Kópavogs þær allar, þegar ég vildi verða tónlistarmaður og taldi myndasögurnar trufla mig og þá einbeitingu.
Í vikunni var mikil umfjöllun hér á blogginu hjá nokkrum bloggurum um gervigreind. Það vill þannig til að þessi bók fjallar um gervigreind.
Fyrir þá sem ekki þekkja þessar bækur er hér smá kynning. Steini sterkur er venjulegur drengur með ofurkrafta eins og Súpermann, og hann veit ekki af hverju, nema þegar hann kvefast, þá er hann án krafta sinna.
Í þessari bók kynnist hann gamalli konu sem reynist vélmenni. Misskilningur vaknar þegar hann kynnist líka Grímhildi góðu af holdi og blóði sem lítur alveg eins út, og eini munurinn á þeim er að sú sem er lifandi hefur púls en ekki vélmennið.
Einnig kynnist Steini sterki manninum sem bjó til vélmennið. Þegar vélmennið verður batteríislaust tekur skapari þess það til viðgerðar. Hann gerir mistök og setur einhverja víra vitlaust saman, og afleiðingin er sú að hið blíða vélmenni fer að tala unglingamál og bölva í gríð og erg, og það sem verra er, hið blíða vélmenni fyllist af afbrotafýsn, eigingirni og peningagræðgi, semsagt vélmennið sem áður var ljúft sem lamb breytist í auðróna.
Síðan snýst bókin um að reyna að handsama vélmennið grimma sem lítur út eins og Grímhildur góða. Að lokum tekst það, en vélmennið sleppur þó í bókarlokin og þannig endar bókin á klettasnös, (cliffhanger), þótt söguhetjurnar séu í lokamyndaboxinu að elta vélmennið og í þann mund að handsama það, eða kannski, það er haft óljóst.
Peyo var höfundur Strumpanna líka, þeirra heimsfrægu bóka sem hafa farið sigurför um heiminn, og hann bjó til barnalegar myndasögur fyrir börn, sem voru á sama tíma frumlegar og uppátækjasamar og óvenjulegar að einhverju leyti.
Svo virðist vera sem hann hafi búið til þessa bók til að skemmta sjálfum sér og búa til snjallt ævintýri, því bókin lýtur lögmálum hinnar saklausu fantasíu og blíðlyndu, og er því mjög hæf fyrir fólk á öllum aldri, og gott barnaefni. Í henni er samt efni sem fullorðnir hafa gaman af, eins og brandarar og snjall söguþráður og óvenjulegar persónur, eins og Steini sterki, en mjög venjulegur drengur með ofurkrafta er nokkuð áhugavert fyrirbæri.
En það sem er sérstök ástæða til að fjalla um er þó Grímhildur góða (eða grimma eins og hún verður síðar í sögunni), vélmennið. Það sem er nútímalegt við Grímhildi grimmu vélmenni er að hún er jafn gáfuð og fólk og lítur út eins og fólk er flest. Það er hægt að ruglast á henni og venjulegri manneskju. Gervigreind hefur ekki náð þessu enn á okkar tímum útlitslega og hegðunarlega, en það hlýtur þó að koma að því miðað við örar framfarirnar á þessu sviði.
Er það nokkuð fréttnæmt að skáld og listamenn séu framsýnir einstaklingar sem spá fyrir um framtíðina? Nei, kannski ekki endilega.
En ég vil þó benda á önnur atriði í þessari myndasögu sem er betri en einhver venjuleg afþreyingarbók. Sumar manneskjur af holdi og blóði eru nefnilega alveg eins takmarkaðar í hegðun og þankagangi og vélmennið, ef ekki ennþá takmarkaðri. Þetta vekur sömu spurningar og nú brenna á fólki um hvert þróun gervigreindar stefnir.
Einnig er það samskiptavandi fólksins sín á milli sem er bæði fyndinn og íhugunarverður. Vélmennið er þó fyrirsjáanlegra. Það er alvont eftir að það bilar og er rangt tengt en það er algott áður en sú breyting verður á því.
Þessi saga er fyndin og kannski búin til sem skemmtiefni eingöngu, en samt eru á bókinni heimspekilegar hliðar og tilvistarlegar spurningar í sögunni sem eru brýnar nú eins og þá.
Fólki er lýst næstum því alveg eins einhliða og vélmenninu, og það er kannski áleitnasti boðskapurinn í bókinni.
Ég er mjög heillaður af myndasögum fyrir það að komast snemma að kjarna málsins, að innihalda húmor, spennu og boðskap á 62 eða 46 blaðsíðum, sem er hefðbundnasta lengd belgískra myndasagna.
Eitt meginstef gengur í gegnum bókina, en það eru aldursfordómar hinna fullorðnu gegn Steina sterka og börnum almennt. Því eru fullorðnir sýndir eins heimskir og vélmennið í raun. Steini sterki er vissulega takmarkaður líka eins og önnur börn, og á erfitt með að tjá sig skipulega, þegar hann segir frá fer allt í belg og biðu og hann er ekki tekinn alvarlega fyrir vikið og rekinn út og sagt að leika sér annarsstaðar.
Steini sterki á þó góða vini meðal fullorðinna sem hjálpa honum þannig að allt fer vel að lokum eins og venjulega.
Kannski er megingallinn við myndasögur að þær verða of formúlukenndar. Sérstaklega finnst mér það vandi við Lukku Láka bækurnar, sem eru mjög margar, og hlýða sömu formúlunni einatt, eins og sögurnar um Andrés önd.
Þessar bækur eru ekki margar, 14 alls, og Peyo lauk aðeins við 7 bækur á meðan hann var á lífi, aðrir tóku við flokknum eftir hans dag. Vegna þess hversu fáar bækurnar eru er ekki hægt að kalla þær algera verksmiðjuframleiðslu.
Samt eru þær einfeldningslegar, en þannig var stíll Peyos, eins og í Strumpabókunum. Þetta eru ævintýri og það góða sigrar að lokum, ekki eins og í raunveruleikanum þar sem önnur lögmál gilda ekki síður.
Þessi bók finnst mér hafa boðskap sem á við nútímann úr því að hún fjallar svona um vélmenni, sem vekur upp spurningar, stórar og miklar.
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.1.): 4
- Sl. sólarhring: 39
- Sl. viku: 511
- Frá upphafi: 132949
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 390
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 3
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.