Hefðbundin kvæði sem breyttu þjóðfélaginu fyrir 100 árum - liðin tíð?

Ég hef birt vel ort kvæði eftir sjálfan mig (tæknilega að minnsta kosti, um það er ég dómbær, eftir að hafa lært bragfræði og slíkt, en smekkur fólks er misjafn á innihaldi og hvort það skilur kvæði og meðtekur) hér á bloggi þessu og þau hafa einatt fengið mjög litla athygli og lestur. Ég er raunar vaxinn upp úr því að móðgast yfir slíku - en það er allavega ekki hvatning til að birta kveðskap nema sjaldan þegar maður telur sig tjá sig betur þannig.

Ég ólst upp við virðingu fyrir skáldskap. Sérstaklega vegna þess að ég þurfti að bera mig saman við þjóðskáldin til að hljóta náð og virðingu hjá mínum kennara í skáldskap, Ingvari Agnarssyni Hábraut 4, afabróður mínum.

Með því að lesa kvæði þjóðskáldanna og heyra sögurnar um þessi skáld lærði ég að orð væru dýrmæt og þyrfti að nota þau vel. Sérstaklega fannst mér áhugaverðar sögurnar um það þegar mikil skáld birtu kvæði í tímaritum fyrir 100 árum og meira en það, og þessi kvæði ollu straumhvörfum í þjóðfélaginu. Þau urðu umtöluð, fólk lærði þau utanað, og deildi um þau, til dæmis eftir stjórnmálaskoðunum.

Ég lærði að kvæði væru virðulegri tjáning en óbundið mál, ef þau væru rétt kveðin og sæmileg í alla staði. Sérstaklega lærði ég að kvæði væru vel til þess fallin að fylkja fólki saman um einhver mikilvæg málefni eins og þjóðerniskennd, uppbyggingu mannvirkja, heilbrigðismál, trúmál, ást og mannleg samskipti, eða hvaðeina annað mikilvægt.

En nú er svo komið að fólk er flest orðið ónæmt fyrir kvæðum og ljóðum. Ef fólk nennir að lesa slíkt, þá reynir það að botna í því sem tjáð er, en hefur lítið sem ekkert skynbragð á kveðandi eða fegurð málsins eða hvort það verður fyrir hughrifum frá æðri heimum eða ekki. Fólk sem hefur lagt á sig þjálfun við að yrkja rétt hefur lítið eða ekkert uppúr slíku puði, nema bros ef vísurnar eru fyndnar.

Sem betur fer eru til undantekningar, og hér er einn virkur vísnasmiður, Hallmundur Kristinsson, fyndnar og góðar vísur eftir hann, og rétt kveðnar, og Rúnar Kristjánsson hefur birt prýðileg kvæði, og vafalaust fleiri sem eru ekki eins iðnir við það, og ég get ekki talið upp í svipinn. Síðan er Ómar Ragnarsson þúsundþjalasmiður, sem yrkir þegar þannig liggur á honum, en hann er nú eins og Þorsteinn Eggertsson og ýmsir dægurlagahöfundar, og ég þar með talinn, ekki alltaf upptekinn af stuðlum, höfuðstöfum og rími.

En Ingvar Agnarsson frændi minn og afabróðir var mjög á móti atómljóðum og að sniðganga bragfræðireglurnar. Hann kallaði slík ljóð prósur, en vissi að prósi er ljóð sett upp eins og smásaga. Prósur væru því erindi í hálfbundnu eða óbundnu máli. Hann taldi sumt af þeim kveðskap boðlegan og sæmilegan, en sagði eitt sinn að "margir teldu að hefðbundinn kveðskapur væri eini alvöru kveðskapurinn", og vorum við eiginlega sammála um það.

"Menningin er hrunin", hefur Guðjón Hreinberg skrifað, og fólk sem vill endurvekja menninguna þarf að taka mark á þeim orðum og vita að þau eru sönn. Það er ekki hægt að ná árangri með því að miða við garðinn þar sem hann er lægstur, það þarf að setja markið hátt og stefna þangað.

Ég tel að það samfélag væri að sýna batamerki sem myndi gera greinarmun á vondum og góðum skáldskap, og launa góðum ljóðskáldum vel, og telja slíkt starf jafn mikilvægt og verklega vinnu eða inni á skrifstofu.

Nú er svo komið að út koma fjölmargar bækur á Íslandi, og alla jafna bækur af lakari gæðum en komu út fyrir 50 - 80 árum. Þannig hefur Jóhannes Ragnarsson frá Ólafsvík tjáð sig og er ég sammála honum. Hann er einnig hagyrðingur og oft mjög fyndinn þegar hann skrifar, eins og Sverrir Stormsker.

Orð eru ódýr segir í yfirskrift þessa pistils. Ég á við það að netið hefur gefið fólki offramboð af þekkingu, skoðunum og öllu mögulegu. Fólk rífst og rífur niður fullyrðingar, pólitískir andstæðingar ómerkja skoðanir andstæðinga sinna og einungis ríkir einstaklingar krefjast þess að orð sín verði ekki gerð ómerk af allskyns subbuskap, aðrir hafa ekki félagslega stöðu til þess eða fjármuni næga.

Einhvernveginn þarf þjóðfélagið að þróast uppúr þeim sporum, og vita að það er dýrmætt ef til er fólk í samtímanum sem kann að yrkja eins og Jónas Hallgrímsson, Einar Benediktsson eða Davíð Stefánsson. Þannig skáld eru að vísu ekki lengur til, en með því að gera kröfurnar aftur harðari til skálda er hægt að auka líkurnar á að slík skáld komi fram.

Það er vegna þess að svona skáld nenna ekki að leggja á sig harða vinnu við erfið kvæði ef þau fá hvorki laun né aðra þóknun fyrir kveðskap sinn, ef óbundinn kveðskapur er kallaður ljóð og jafnmerkilegur, en slíkur skáldskapur er ekkert annað en tjáning tilfinninga án hafta formanna, og það er ólíkt auðveldara.

Það sem hefðbundin kvæði kenna fólki er til dæmis að stilla skap sitt, því æst manneskja getur síður ort kvæði sem geymir heimspeki eða djúpa og margræða speki, því til þess þarf stóíska ró yfirleitt, nema kveðskapurinn liggi svo mjög fyrir fólki að það geti ort í hvaða skapi sem er, sem þekkist, en ég tel sjaldgæfara.

Það tel ég hollt fyrir börn og unglinga og raunar alla að læra kveðskap uppá íslenzka mátann, reglubundna hrynjandi og annað meðfylgjandi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Það eina sem ég veit um brag og kvæðagerð er eftirfarandi setning eftir Sveinbjörn Allsherjargoða Beinteinsson: "ljótt er að sjá fagra hugsun í tötrum."

Góðar stundir

Guðjón E. Hreinberg, 26.5.2023 kl. 12:29

2 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Smellti á "senda" áður en ég mundi að skjóta inn: Hvað með Eggert Ólafsson, og var hann myrtur?

https://is.wikipedia.org/wiki/Eggert_%C3%93lafsson

Guðjón E. Hreinberg, 26.5.2023 kl. 12:33

3 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

... sem minnir mig á bók eftir Helga Briem sem er Herúlum mikið yndi - Sjálfstæði Íslands 1809:

https://baekur.is/bok/aee9f8ca-b1d6-4bd2-9e36-ed1d3c8eb03e/0/10/Sjalfstaedi_Islands#page/n9/mode/2up

Guðjón E. Hreinberg, 26.5.2023 kl. 12:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ingólfur Sigurðsson

Höfundur

Ingólfur Sigurðsson
Ingólfur Sigurðsson

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • 5
  • 4
  • 3
  • Image 004
  • Titilblað

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.1.): 30
  • Sl. sólarhring: 51
  • Sl. viku: 605
  • Frá upphafi: 132936

Annað

  • Innlit í dag: 24
  • Innlit sl. viku: 440
  • Gestir í dag: 22
  • IP-tölur í dag: 22

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Leita í fréttum mbl.is

Nýjustu myndböndin

Heilbrigðisráðherrann, helbrigðaráðherfan

Í hópnum finn ég hlýja barnatrú

Aldrei fellur auðmagnskerfið

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband