24.5.2023 | 19:41
Hvort maður nennir eða nennir ekki að gera við hljómtæki og slíkt.
Mér hefur oft tekizt að laga rafeindatæki sem ég hef eignazt. Þetta nám í Iðnskólanum haustið 1996 nýttist mér vel, þótt ég hafi ekki lokið því og ég hafi aðeins lært þar eina önn. Ég var búinn að læra nóg í sjálfsnámi fyrir með því að prófa mig áfram, enda auðvelt að kaupa segulbandstæki og aðrar græjur í Sportmarkaðnum við Skipholt og var fyrirrennari Góða hirðisins. Úrvalið af græjum og raftækjum var miklu meira þá en það er nú, segulbandstækjum að minnsta kosti.
Miðbæjar radíó er nú hætt, en þar var gríðarlegt úrval af öllum varahlutum í hljómtæki, sjónvörp og hvaðeina. Femínisminn hefur tekið yfir og hefðbundin karlastörf á útleið, eða þá að konur taka þau yfir.
Annars hafa Kínverjar tekið yfir rafeindamarkaðinn að mjög miklu leyti. Rafeindaborð eru orðin smærri, erfiðara að greina á milli viðnáma, transistora (þrífætla) og díóða (tvískautninga), og þétta.
Japanir voru snillingar í rafeindatækninni um 1980, en þeir lentu í fjármálakrísum og fóru að láta Kóreumenn framleiða fyrir sig og Taiwani. Með tímanum náðu önnur lönd því forskoti sem Japanir höfðu, sérstaklega Kóreumenn og Kínverjar, en Bandaríkjamenn hafa um langt árabil og áratugum saman staðið einna fremst í hönnun og uppfinningum, sem Japanir, Kínverjar og fleiri hafa keypt af þeim einkaleyfi eða stolið uppfinningum.
Undantekningin er auðvitað Apple fyrirtækið í Bandaríkjunum og Microsoft, sem hafa gætt sinna einkaleyfa sérlega vel. Iðnfyrirtæki eru svosem fleiri þannig í Bandaríkjunum.
Mitt áhugamál í þessum viðgerðum á rafeindatækjum hefur alltaf verið segulbandstæki, einfaldlega vegna þess að þau eru svo krefjandi, og hægt að fá enn betri hljóm útúr þeim en nokkrum öðrum tækjum, ef maður kann að stilla þau rétt, laga þau rétt, breyta þeim rétt og kaupa beztu tækin.
Þó eftir að ég eignaðist Macintosh tölvur hefur það einnig verið mitt áhugamál að halda þeim við og nota þær, og vita hverjar eru beztar fyrir ýmis verkefni. Ég hef svosem líka átt PC tölvur, en úr því ég hef safnað hinni gerðinni og gert við hana meira hef ég sérhæft mig í henni.
En eitt af því sem tilheyrir þessu er að eiga fylgihluti, eins og diskadrif. Eitt sinn voru öll utanáliggjandi diskadrif SCSI tengd, ef þau voru ekki af floppy tegundum, disklingadrif. Síðan urðu þau USB eða Firewire og nú Thunderbolt eða USB.
Ég á eitt drif sem mér finnst einstaklega pirrandi. Það hefur margsinnis bilað og erfitt að gera við það. Það var hannað í Kína um 2005, og er þess eðlis að ég verð að henda hluta af því en vil nota hluta þess.
Fyrir nokkrum árum bilaði það, og ég gat lagað það með því að lóða nýja þétta við það. Sem sagt, pínulitlir þéttar voru notaðir eins og í tölvum. Stærðin á þessu er ekki nema 0.1 centimeter þannig að það er hryllilega erfitt að lóða þetta úr og lagfæra. Tölustafirnir á þessu eru svo smáir að maður þarf að nota stækkunargler til að vita stærðina. Algengast er í dag að fólk hendi svona tækjum, og jafnvel viðgerðarmenn veigra sér við að reyna að laga slíkt. Ég nenni vissulega mjög sjaldan að koma nálægt svona örtækjum, en þetta diskadrif lítur bara svo fallega út, málmhulstur og margt vandlega gert.
Hvernig vissi ég að þetta var bilað? Maður tengir þetta við tölvuna, CD rom diskurinn snýst, en kemur ekki upp á skjáinn. Augljóst var að rafeindaborðið væri bilað.
Það vill nú þannig til að þegar maður hefur lagað svona hluti í áraraðir hefur maður ágæta reynslu og veit þessvegna hvernig svona tæki bila og hvort fýsilegt sé að reyna að laga þau eða ekki.
Sama lögmál gildir við svona rafeindaborð og gilti áður fyrr þegar þau voru stærri og auðveldara var að skipta um hluti. Sem sagt, þéttar bila frekar en þrístandar, eða tvískautnungar. Þrístandar bila helzt ef þeir yfirkeyrast sem gerist yfirleitt aldrei í lokaðri rafrás, nema of há spenna sé sett inní kerfið eða tekin út, eða ef þeir ofhitna eða verða of gamlir og bila þannig.
Síðan er það annað með bilaða þétta sem gildir nú eins og áður. Þeir bila yfirleitt aldrei nema rafrásin sjálf sé illa hönnuð, það er að segja, ef yfirstandandi álag á þá er of mikið yfir lengri tíma, þá ofmettast þeir og hætta að þétta. Áður fyrr mátti sjá það á þeim stundum inni í rásunum, þeir gátu orðið þrútnir og jafnvel brúnir að lit eða slímugir eftir að hafa smitað frá sér vökva.
Mig grunaði strax að bilunin í rafrásinni væri af þessari tegund, því hún leit vel út, ekkert utanaðkomandi hnjask, og þá benti það til þess að rásin sjálf hefði verið illa hönnuð og ekki varið einingar í sér nógu vel með hæfilega litlu álagi á alla íhlutina.
Made in China og ártalið 2005 fannst mér staðfesta þetta, því þá var mjög algengt að kínverskir hlutir væru mjög lélegir.
Svo gizkaði ég á að þéttar nálægt stórum fjölliðum væru ónýtir, og með því að tengja aðra stærri sömu stærðar í staðinn tókst mér að laga græjuna. Þannig entist hún í nokkur ár.
Nú er sama bilun aftur komin fram. Helzt hefur mér dottið í hug að nota kassann og annað rafeindaborð. Þegar ég bjó hjá afa mínum notaði ég skrúfstykkið og var vanur að mixa slíkt frá einu tæki til annars. Hann var mér auk þess hvatning, því ekkert fannst honum ómögulegt, eða næstum ekkert.
Ég vil ljúka þessum pistli á að segja að hnignun hefur orðið í þessum efnum, þar sem rafeindabúðum hefur fækkað sem selja rafeindahluti, þetta er orðið of smágert til að fólk nenni að gera við þetta, og þessvegna er hvatningin á endurnýtingahagkerfinu ekki nægileg, og fólk hendir of mörgu í stað þess að kunna að gera við eða vilja nota sömu græjurnar.
Eins og á svo mörgum sviðum er gróðafíknin orðin allsráðandi, og það er ömurlegt. Tækin eru höfð svo smágerð að erfitt er að laga þau, og varahlutir enn vandfengnari en áður.
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (11.1.): 48
- Sl. sólarhring: 49
- Sl. viku: 551
- Frá upphafi: 132123
Annað
- Innlit í dag: 41
- Innlit sl. viku: 443
- Gestir í dag: 38
- IP-tölur í dag: 37
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Var búin að skrifa hér að ég ánafnaði þer myndbandstæki sem sjónvarp er áfast við.Fór að gá hvaða tegund það væri; Sá ég að börn mín höfðu greinilega fargað því. Nokkuð sem þau voru stöðugtþáþá að gera.
Helga Kristjánsdóttir, 25.5.2023 kl. 01:16
Fá mig til að gera.kveðja.
Helga Kristjánsdóttir, 25.5.2023 kl. 01:17
Þakka þér fyrir hugulsemina Helga, ég vona að þú hafir gaman af pistlunum.
Ingólfur Sigurðsson, 25.5.2023 kl. 01:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.