26.2.2023 | 11:53
Biskupssonurinn Gói og presturinn Guðni Már sem voru mínir beztu rótarar árið 1999.
Skemmtiþátturinn hans Gísla Marteins á Rúv síðasta föstudag fjallaði ekki aðeins um uppgjör við kófið, tónlistaratriðið í upphafi þáttarins innihélt tvo menn sem ég þekki en þann þriðja sem ekki var þar vil ég einnig nefna sem tengist árinu 1999 þegar frægðarsól mín í tónlistinni reis hvað hæst.
Upphafsatriðið var kynning fyrir tónleika sem verða haldnir í Salnum í Kópavogi 4. marz næstkomandi, þar sem fram koma þeir Gói, Guðjón Davíð Karlsson leikari og Hallgrímur Ólafsson leikari, og Jón Ólafsson tónleikarmaður, undirleikari á píanó.
Atriðið minnti mig reyndar langmest á gömlu plöturnar með Ómari Ragnarssyni frá 1960 til 1975, þar sem hann syngur Gáttaþefsvísurnar og fleira við píanóundirleik.
En þetta eru þriðju tónleikarnir þar sem þeir flytja lög úr söngleikjum, og að sínu eigin vali auk þess. Vel seldist á hina tvo tónleikana þannig að þeir búast við góðri aðsókn þarna líka.
Ég held að árið 1999 hafi verið eina árið á mínum tónlistarferli sem ég hafði tvo lipra aðstoðarmenn við að koma mér á framfæri, og þessvegna var það ekki tilviljunum háð hvort ég kom fram á tónleikum á þessu ári, eða þeim sem hringdu í mig einstaka sinnum og báðu mig um að spila sem tónlistarmaður.
"Þeir fiska sem róa", segir orðtækið, og ég hef ekki verið nógu duglegur við að kynna mig á tónlistarsviðinu. Bubbi Morthens fór fyrstu árin sín og mörg ár eftir það hringinn í kringum landið að spila og syngja á gítar til að kynna sig fyrir fólkinu, eins og æfður stjórnmálamaður fyrir kosningar, og þótt mér finnist hann ekki bezti tónlistarmaður landsins er hann sá ákafasti og sá sem bezt hefur sinnt kynningarstarfinu fyrir sjálfan sig, sá sem mest hefur troðið sér áfram, án efa.
Ég hef yfirleitt í mesta lagi sungið einu sinni á ári ef einhver hefur hringt í mig. Ég bauð mig reyndar fram um að spila í barnaskólanum sem ég lærði í fyrst.
En þannig vildi til árið 1999 að ég hafði unnið í Miðbæjartrúboðinu í Austurstræti þar sem Jóna Hrönn Bolladóttir var yfirmanneskja, með öðrum sem voru reyndir í því starfi.
Guðni Már Harðarson var orðinn kunningi minn, sem nú er prestur í Lindakirkju í Kópavogi. Hann var nemandi í Kvennaskólanum í Reykjavík eins og Gói, og þeir tengdust líka þessu miðbæjartrúboði þá. Þá hafði ég gefið út einn hljómdisk og Guðni Már var aðalhvatamaðurinn að því að fá mig til að spila oft á tónleikum þetta ár, árið 1999.
Ég spilaði fjórum sinnum þetta ár með þá félagana sem rótara, þeir hringdu í menntaskóla og kynntu mig og mína tónlist.
Fyrst spilaði ég í KFUM húsinu við Holtaveg, það hefur verið í febrúar eða marz 1999. Það tókst glimrandi vel og stemmningin alveg prýðileg. Það kom mér kannski mest á óvart sjálfum því ég söng nýölsk lög á þessum tónleikum, frumflutti lagið: "Hvenær mun hér á Íslandi rísa stjörnusambandsstöð?", við frábærar undirtektir hinna kristnu og svo lagið "Frá stjörnunum berst lífið", einnig við frábærar viðtökur, en það er af óútgefnum hljóðdiski, þeim þriðja í röðinni um Nýalsmálefnin eftir mig, sem átti að koma út árið 2005, en ekki varð úr því.
Ég var ekki viss um það hvernig það tækist að kynna málefni Nýals fyrir þessu unga fólki sem var þar, úr því að þetta var innan kirkjunnar, sem dr. Helgi Pjeturss vissi að yrði ekki allt sammála boðskap sínum, en tók sénsinn og það smellpassaði. Það er stundum sagt að krádið (áheyrendur) skipti ekki öllu máli heldur hvernig tónlistarmaðurinn er upplagður. Ætli það hafi ekki komið þarna í ljós?
Ég tók þetta upp á talsegulband og hljómgæðin ekki mjög skýr, en það heyrist hversu mikið og vel er klappað og hversu flottur flutningurinn er, svona eitthvað.
Næst spilaði ég í Kvennaskólanum í Reykjavík seinna í marz 1999 og það gekk líka glimrandi vel. Þá spilaði ég einnig þessi nýölsku lög með grípandi viðlögum og krakkarnir tóku vel undir þótt þau væru að heyra þetta í fyrsta skipti.
Ég söng ekki á tónleikum sumarið 1999, og en um haustið söng ég í tveimur menntaskólum að auki, og þeir félagarnir undirbjuggu jarðveginn.
Báðir tónleikarnir sem eftir voru þetta ár, 1999, voru eftirminnilegir, á sitthvorn háttinn.
Í september 1999 hélt ég tónleika í Menntaskólanum í Kópavogi, ekki í tvo klukkutíma eins og ég hafði gert árin 1995 og 1997, heldur í tæpan klukkutíma og færri lög, en stemmningin var frábær, svo ekki sé meira sagt.
Þarna í skólanum hafði myndazt aðdáendakjarni sem þekkti lögin mín. Um leið og ég byrjaði að syngja var tekið undir og klappað og blístrað vel. Stemmningin var meiriháttar. Ég á þetta líka á segulbandi, og þótt tóngæðin séu afleit, þá heyrist hvað stemmningin var góð þarna og flutningurinn líka.
Ég var með gott lagaval á þessum tónleikum, og þau þekktu lögin sem ég flutti, mörg hver eða flest. Eitt lag var ég beðinn um að syngja margsinnis á þessum tónleikum, sem ég gerði ekki, "Húðflúr er frá Helvíti", en ég söng "Sumar í Helvíti", hins vegar.
Ég var nefnilega ekki viss um að ég myndi gefa út lagið "Húðflúr er frá Helvíti", á þessum tímapunkti. Ég gerði það nú samt, það kom ekki út fyrr en árið 2010, með gömlum upptökum frá árinu 2001, en lagið var samið árið 1996 og frumflutt á útvarpsstöðinni Aðalstöðin þann 22. nóvember 1996, tveimur dögum eftir að ég samdi það, vel að merkja. Þetta lag er á kristilega hljómdisknum "Kristur kemur", og ætti að vera til í Lucky Records á Laugaveginum, ef diskurinn er ekki uppseldur þar.
Í október 1999 spilaði ég í Fjölbraut í Breiðholti. Þeir tónleikar voru nokkuð vel sóttir, en miklu rólegri. Ég spilaði lög sem fólk þekkti ekki, af hljómdiski sem er alveg óútgefinn ennþá, en lögin voru mest samin á árunum 1995 til 1998, en ég var feiminn við flutninginn og söng ekki eins skýrt og á hinum þremur tónleikunum, enda söng ég langmest lög sem ég hafði aldrei sungið áður á tónleikum. Þegar ég þó söng lögin sem ég þekkti og fleiri, "Hvenær mun hér á Íslandi rísa stjörnusambandsstöð?" og fleira slíkt, þá var vel klappað og blístrað.
Síðustu tónleikarnir sem Guðni Már og Gói áttu þátt í að undirbúa voru einnig í KFUM húsinu á Holtavegi árið 2000.
Þar söng ég lagið "Smalastúlkan", lagið eftir mig við ljóð eftir Hannes Hafstein, og mig minnir að nokkur til viðbótar hafi ég flutt. Það var svo sem vel klappað, en ekki eins mikið og árið á undan að vísu.
Þetta lag er um fitufordóma, og fjallar um það þegar piltur snemma á 20. öldinni verður hrifinn af vel vaxinni smalastúlku sem hann hittir, og hefur Hannes Hafstein án efa samið þetta um sjálfan sig. Ég samdi lagið snemma á unglingsárunum og hélt alltaf mikið uppá það, enda er þetta gott og grípandi lag, en þetta er eina skiptið sem ég hef sungið það á tónleikum, og það er óútgefið ennþá - nema aðrir hafi gert lag við þetta ljóð og gefið út, sem ég veit ekki.
Hvað merkir listamannsnafnið Insol sem ég nota? Þetta er skammstöfun fyrir mig og aðilana sem ég vil að bæti ástandið á þessari jörð, Ingólfur Sigurðsson og lífstefnumannkynin er það sem listamannsnafnið mitt Insol stendur fyrir, en ég nota annað listamannsnafn undir teiknimyndasögur sem ég hef gert, Inqo, sem er að hluta til stæling á nafninu Franquin, sem bjó til sögurnar um Sval og félaga og aðrar frægar sögur. Fyrst skrifaði ég mig sem Anquin, en breytti því í Inqo, til að verða persónulegri með það nafn.
Jón Ólafsson úr Nýdanskri er gamall vinur og kunningi, og ég á honum talsvert mikið að þakka að ég lagði útí að gefa út mína fyrstu hljómdiska. Það hefði þó verið enn betra ef ég hefði þorað að fara í hljóðverið hans árið 1993 og hann hefði gefið það út, eins og hann vildi gera á þeim tíma. Ég tel nefnilega að hann hafi átt stóran þátt í því að gera Emelíönu Torrini að stórstjörnu árið 1994.
Tónlistarbransinn er spurning um sambönd og hópefli, kunningsskap og klíkuskap.
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 3
- Sl. sólarhring: 137
- Sl. viku: 611
- Frá upphafi: 133082
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 469
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.