Nú þarf ráðstefnu til að reyna að komast að því hversvegna fúsk og gallar eru við byggingu nýrra húsa. Áður fyrr varð fólk að treysta á sig sjálft.

Húsið sem afi reisti í Kópavogi að Digranesheiði 8 1946 til 1950 stóð til í 70 ár þar til það var rifið af bænum. Á öllum þeim tíma lak þakið aldrei, nema örlítið sem ég greini frá síðar í þessum pistli. Það sem meira var, sennilega var þakið aldrei lagað á þessum 70 árum!

Dagur B. Eggertsson var í fréttum nýlega vegna leka á glænýju þaki í Fossvogsskóla. Samkvæmt meðfylgjandi frétt og ráðstefnu um fúsk og galla í nýlegum byggingum er það ekkert einsdæmi sem gerðist með Fossvogsskóla.

"Nú er fúskað frá grunni og upp í rjáfur", bloggar Örn Gunnlaugsson við svipaða frétt, og "þetta var ekki stórmál áður þegar menn máttu vera að því að vanda sig." Það eru vel rituð orð og snjöll hjá honum.

Þakið á húsinu okkar var ryðgað síðustu árin og það má segja að það hafi verið slæmt, en það lak aldrei úr þakinu inní húsið, hvorki uppi né niðri. Það voru aðrar skemmdir á húsinu vegna viðhaldsleysis, og aðallega vegna stíflaðrar niðurfallsrennu, bæði á suðurhliðinni og norðurhliðinni.

Þakið var málað og húsið allt um það leyti sem ég fæddist, 1970. Þá voru fengnir mjög langir stigar til þess. Það var fyrst í grænum lit og hvítum, svo gulum og brúnum. En samkvæmt því sem ættingjar mínir hafa sagt mér muna þeir ekki eftir því að nokkrusinni hafi verið gert við þakið, og það hlýtur því að hafa verið mjög sterkt, og ekki síður frágangurinn hjá afa, með olíubornum þéttingum og öðru þar undir þegar húsið var byggt. Vandvirknin var aðalsmerki afa.

Húsið okkar sást víða að. Þakið átti sér merkilega sögu. Það kom nefnilega úr bragga eða bröggum upprunalega.

Ég gleymi aldrei sögu sem amma sagði börnum og barnabörnum. Það var nefnilega þannig árið 1950 þá kom sjálfur Hermann Jónasson, þáverandi landbúnaðarráðherra, áður forsætisráðherra að rukka fyrir þakið. Það þótti ömmu mikill heiður að fá ráðherrann í heimsókn á sunnudegi og hún að matreiða þegar hringt var dyrabjöllunni. Hermann Jónasson var talinn mikill kappi og glæsilegur af hægrimönnum þess tíma.

Stefna afa var einföld, að safna ekki peningum en þurfa ekki lán og standa í skilum. Þegar húsið var byggt þurfti þó lán. Langafi fór á fund Hannibals Valdimarssonar, en þar var skyldleiki til staðar fyrir norðan og fékk lán.  Hermann ráðherra mætti í heimsókn til að ganga frá einhverjum formsatriðum.

Bárujárn af bröggum var notað í þakplöturnar og það entist í þessi 70 ár. Þá var einhversstaðar verið að rífa bragga og það þótti tilvalið. Fyrst varð þó að slétta úr bárujárninu eitthvað, og ég held að afi hafi gert það.

Afi kunni allt þegar kom að því að smíða hús. Hann var nefnilega með einlægan áhuga á næstum öllu sem kom að verklegum framkvæmdum, ekki bara í sambandi við vélar og bíla.

Á þeim tíma var minna um verzlanir sem seldu sérhæfða hluti. Gott var að þekkja einhverja sem höfðu sambönd. Einn ráðherra sem fjölskyldufaðirinn var málkunnugur gat þannig bent á rétta aðila eða útvegað efni sjálfur. Býsna persónulegt og viðukunnanlegt samfélag, smátt og sveitalegt, en fátæktin var gríðarleg á Reykjavíkursvæðinu og fólksfjöldinn mikill, enda fluttu margir úr sveitunum þá eins og á öðrum tímum.

Efnið sem var notað í húsið kom þannig úr mörgum áttum á löngum tíma. Þakið var sett á einna síðast, árið 1950, og jafnvel byrjað á því 1949.

Mamma með sinn hræðsluáróður var alltaf hrædd um að húsið myndi hrynja í jarðskjálftum, enda timburgólf á efri hæðinni, en steingólf á neðri hæðinni. Á efri hæðinni var afi með verkstæði frá 1950 til 1965 aðallega, en síðan var efri hæðin notuð sem geymsla aðallega. Þar voru geymd níðþung verkfæri, risastór borvél sem afi smíðaði sjálfur, rennibekkur sem upphaflega var fótstiginn og kom frá Ströndum, en afi mixaði og setti við hann rafmagnsmótor og aðrar viðbætur, og þar voru fleiri þung verkfæri og varahlutir. Sennilega voru þarna á loftinu um 10 tonn, eða það hélt frændi minn á sínum tíma. Samt hrundi loftið aldrei í neinum jarðskjálftum, jafnvel ekki í suðurlandsskjálftanum 2000 sem var býsna stór og mikill.

Afi lýsti því að timbrið sem notað var í gólfið og loftið á neðri hæðinni var ótrúlega þykkt, risavaxnir drumbar og þeir voru fengnir úr skipi sem strandaði með farm, skömmu eftir seinna stríð, 1946. Það kostaði firna mikið.

Þannig voru húsin oft byggð á þeim tíma. Þó var húsið steypt að langmestu leyti, en í þremur herbergjum voru timburgólf, en steingólf í öllum öðrum herbergjum.

Gluggar láku aldrei á norðurhlið, vesturhlið eða austurhlið. Á suðurhliðinni voru hinsvegar gluggar sem láku þegar ég var yngri, en einungis í ákveðnum veðrum, þegar stormurinn stóð uppá þá og regnið buldi á þeim af ofurþunga um leið. Það var skipt um alla þessa glugga árið 2005 og þeir láku aldrei eftir það.

Þakið sjálft lak aldrei, nema allra síðustu árin á einum erfiðasta staðnum, yfir rafmagnstöflunni. Það var þó ekki fyrr en eftir að afi dó sem ég tók eftir því, og aðeins í sérstökum veðrum. Sem sagt, það gerðist þegar mikill og þungur snjór og klaki lágu á þakinu lengi og snjórinn fór að þiðna, en ekki í stormum og rigningarveðrum. Ég reddaði því með því að negla plastdúk þar yfir og þá fóru þessir örfáu dropar aðra leið og gerðu engan skaða, enda var þessi leki aldrei nema örfáir dropar og þá aðeins þegar mikill klaki og ís þiðnaði á þessum eina stað á þakinu, og aðeins eftir 2015, eftir að afi dó.

En ný hús voru byggð fyrir neðan okkur á árunum 1990 til 2000. Þau hús seldust dýrum dómum, á 100 milljónir á sínum tíma fullkláruð.

Erlendir verkamenn voru þar að störfum og fagmenn, auðmenn og stórfyrirtæki í þeim bransa.

Það var þessvegna undrunarefni að við sáum margsinnis að þökin láku og ár eftir ár verkamenn að gera við þau eftir að fólkið fluttist þar inn. Orðin um fúskið nú til dags sem rituð voru af öðrum en mér eru augljóslega því miður alltof sönn og rétt.

Afi var ekki lærður í því að byggja hús. Þó byggði hann sitt hús, verkstæðið og hjálpaði Ingvari bróður sínum við hús þeirra hjóna, sem var byggt á sama tíma að Hábraut 4.

Dagur B. Eggertsson hefur verið stöðugt í fréttum seinni árin vegna viðgerða á skólum og öðrum byggingum. Hann virðist telja að gamalt handverk sé einskisnýtt og þekking gömlu kynslóðanna, því hans fyrirmyndir eru erlendar stórborgir og allt aðflutt, mannafl, þekking og efni. Fólkið sem byggði úr torfi þurfti að treysta á sjálft sig og efni sem nærtækast var.

Á sama tíma og eldri borgarar og öryrkjar dragast aftur úr í launum og kjörum eru mýmargir baráttuhópar ungs fólks sem berjast fyrir kjörum og réttindum flóttamanna og þeirra sem flytjast til landsins frá útlöndum.

Mér þykir afar vænt um orð Guðjóns Hreinberg um hrun menningarinnar. Þau lýsa nefnilega svo mörgu, til dæmis þessu sem hér er lýst, þegar gömul þekking glatast og samtakamáttur og vinfengi við að byggja sér hús eða annað.

Mengun, stéttamunur, bil milli ríkra og fátækra, fúsk og gallar í nýlegum byggingum, þetta tengist allt. Af hverju þarf allt ungt fólk að trúa sömu skýringunum, Degi B. Eggertssyni og þannig fólki?


mbl.is Beint: „Fúsk“ og gallar í nýlegum byggingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurgeir Árnason

Því miður er of mikið fúsk í byggingarframkvæmdum,þó menn séu lærðir smiðir er hönnuninn fáránlega vitlaus,sumir smiðir eru fúskarar,erlendir smiðir er vinna hérlendis þekkja ekki íslenska veðráttu,þar rignir ekki lárétt eins og hérlendis.Get nefnd dæmi um fúsk er ég horfi á útum gluggann hjá mér nýbygging sem er timburhús ,sett var utaná það krossviður án rakavarnar í sumar og síðan er húsið óklætt og mikið hefur ringt síðan,gefur augaleið að krossviðurinn er búinn að draga í sig mikinn raka sem er hætt við að lokist inni þegar húsið verður loksins klætt ,er það ekki ávísun á myglu seinna meir.Það vantar allt eftirlit með framkvæmdum,frjálsræðið er að gera okkur óleik með verri byggingum.Eftirlitið vantar alveg frá sveitarfélögum eða ríkinu.

Sigurgeir Árnason, 25.1.2023 kl. 11:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ingólfur Sigurðsson

Höfundur

Ingólfur Sigurðsson
Ingólfur Sigurðsson

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • 5
  • 4
  • 3
  • Image 004
  • Titilblað

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.1.): 7
  • Sl. sólarhring: 82
  • Sl. viku: 611
  • Frá upphafi: 132064

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 505
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Leita í fréttum mbl.is

Nýjustu myndböndin

Heilbrigðisráðherrann, helbrigðaráðherfan

Í hópnum finn ég hlýja barnatrú

Aldrei fellur auðmagnskerfið

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband