18.1.2023 | 01:47
Viðmið okkar og fyrri kynslóða
Ég hef talsvert oft velt fyrir mér grunnhugtökum í mannlegu eðli. Til dæmis: Hvað gerir fólk gott eða vont eða hamingjusamt eða sorgmætt?
Ég komst að niðurstöðu fyrir margt löngu. Ég bar saman kynslóðir, mína kynslóð, yngri kynslóðir, eldri kynslóðir og það er nú hægt að búa til kenningar úr slíkum athugunum.
Ein grunnspurningin er: Hvað er gæðzka og hvað gerir fólk gott og hvað ekki?
Getum við fallizt á hvað góðmennskan er og hver einkenni hennar eru?
Getum við fallizt á að eigingirni sé tengd vonzku og að óeigingirnin sé tengd góðmennskunni? Þetta eru aldagamlar skilgreiningar sem hafa fylgt mannkyninu lengi og ýmsum trúarbrögðum og siðfræðikenningum tengdum þeim.
Ég komst að þeirri merkilegu niðurstöðu að fólkið af kynslóð afa og ömmu ætti til mest af náungakærleika, fórnfýsi og allskonar dyggðum, af því fólki sem ég kynntist í lifanda lífi. Einnig kynntist ég langafa mínum örlítið og langömmu í móðurættinni, en meira hef ég myndað mér skoðun á þeim með því að heyra frásagnir um þau, frásagnir þeirra sem mér eldri eru eða hafa verið.
Góðmennskan er tengd því hverju við búumst við af lífinu, hvort okkur finnist við skulda öðrum eitthvað eða hvort okkur finnst að aðrir skuldi okkur eitthvað. Það er beint samband á milli þess að vera þakklátur og gjafmildur. Þeir sem eru með sál sína fulla af þeirri tilfinningu að aðrir skuldi sér eru sennilega líklegri til að lenda í fjárhagslegum skuldum, eða það finnst mér líklegt.
Ég komst að þeirri einföldu niðurstöðu fyrir margt löngu, að börn sem alast upp við hæfilegan aga og hæfilegt mótlæti séu líklegri til að vera þakklát almennt og raunsæi þegar fólk veldur sársauka og vonbrigðum eða ýmsar kringumstæður.
Nokkur atriði hjálpuðu mér við þetta.
Í bókinni Yrkja, sem er afmælisrit Vigdísar Finnbogadóttur fyrrverandi forseta, gefin út 1990 er ein slík ritgerð, sem fjallar um rannsóknarniðurstöður í uppeldisfræði sem þar sem þetta kemur í ljós:
1) Börn sem alast upp við aga og kærleika leiðast minnst útí afbrot og standa sig bezt í skólakerfinu.
2) Börn sem alast upp við ofbeldi en kærleika í bland verða annaðhvort afburðafólk eða leiðast á villigötur.
3) Börn sem alast upp við agaleysi og einnig skort á kærleika og áhuga lenda langflest í vímuefnum, afbrotum og gengur illa í skólakerfinu.
Þessi niðurstaða kemur sumum á óvart. En ég fór að hugsa um kynslóð ömmu og afa og bera saman kringumstæðurnar í uppeldinu þar og svo kringumstæður yngri kynslóða.
Þriðja atriðið á sennilega frekar við um nútímafólk og nútímabörn heldur en önnur atriði í þessari rannsókn. Vissulega eru flóknar uppeldisaðferðir til staðar núna og ástúð er til staðar í uppeldinu. En kannski upplifa börnin slíkt sem skort á aga, það er að segja ef mótlætið er allt fjarlægt, þá kemur upp sjálfhverfan, eigingirnin, sem oft er rót neikvæðra kennda og atvika síðar.
Börn sem alast upp við að hjálpa foreldrum sínum allt bernskuskeiðið eru sennilega frekar líkleg til að halda áfram að vera vinnusöm alla ævi.
Börn sem alast upp í skólakerfinu eins og í nútímasamfélaginu skynja kannski ómeðvitað að engum þyki vænt um þau nema upp að ákveðnu marki, ef reglur og aga skortir, að þau séu vélar en ekki manneskjur. Eitt af einkennum nútímans er að skólakerfinu er treyst fyrir uppeldi barna býsna snemma, séu leikskólarnir teknir með.
Þannig að ég myndaði mér skoðun á góðmennskunni og hvað hún væri eftir að hafa meðtekið svona kenningar og velt fyrir mér kynslóðamuninum sem er augljós.
Einnig spila trúarbrögðin mikilvæga rullu, eða mikilvægt hlutverk. Ef maður er til dæmis kristinnar trúar er það hluti af siðfræðilegri innrætingu að maður eigi að vera kærleiksríkur og góður. Ef maður er ekki alinn upp við kristilega siðfræði eða eitthvað sambærilegt er það undir manni sjálfum komið hvort manni finnst slík siðfræði bull eða einhversverð.
Pabbi sagði mér eitt sinn að á misjöfnu þrifust börnin bezt. Mamma var ósammála þessu, en ég skil hans viðhorf. Hann átti við með þessu að til einskis væri að hafa börnin í bómull, að þau yrðu að takast á við erfiðleikana sjálf, byrja snemma að vinna, lenda í ástarsorg og hvaðeina, það væri óhjákvæmilegt.
Í dag er kennurum bannað að beita sér og dæmi eru jafnvel um að nemendurnir beiti kennara sína ofbeldi, eins ótrúlegt og það hljómar.
Nútíminn er fullur af vandamálum og flækjum. Vímuefnanotkun eykst og Píratar vilja lögleiða vímuefni og fleiri. Það er ákveðin uppgjöf gagnvart vandanum.
Ég komst að þeirri niðurstöðu að foreldrar geta aldrei alið upp fullkomin börn, vegna þess að þjóðfélagið sjálft í heild sinni kemur með áhrif að utan sem skipta sennilega jafn miklu máli.
Tökum einfalt dæmi. Ef foreldrar reyna að gera barn sitt vinnusamt og bannar því að ánetjast einhverju sem er neikvætt, vill ekki gefa því óþarfa eða slíkt, þá gengur það ekki upp ef spillandi áhrif koma að utan. Fyrr eða seinna finnur barnið yfirleitt alltaf leið til að brjóta reglurnar, hvort sem þær byggjast á trúarbrögðum og speki þeirra eða siðum og hefðum eða landsins lögum. Foreldrið er dæmt til að tapa, ef næstum allir í þjóðfélaginu spila ekki með í því að koma sér saman um viðmið sem búa til góðan einstakling. Þetta kallaði dr. Helgi Pjeturss samstillingu. Um hana er hægt að rita ótalmargt, en það er of flókið að fara útí hana hér, hún hefur of margar hliðar og þætti sem tengjast öllum sviðum heimsins svo að segja og tilverunnar.
Það má víst alveg fullyrða það með vissu að samfélag af vestrænni tegund er búið að missa tökin og stjórnleysi og upplausn blasa við. Umhverfismálin sýna það, vaxandi mengun, fólksfækkun sumsstaðar, fólksfækkun annarsstaðar, vaxandi glæpatíðni víða, óheyrileg skuldasöfnun ríkja, upplausn í trúmálum og menningu, barátta kynjanna, ástin milli kvenna og karla á í vök að verjast, rómantíkin og virðingin á milli fólks, hnignun í siðfræði og fræðigreinum... þetta eru augljós merki um upplausn í samfélaginu sem blasir við og merkin sýna það og sanna að þetta eru alvöru vandamál en ekki bara svartsýniraus eða bölsýni.
Þó eru til jákvæð öfl, álfar, huldufólk, guðir, gyðjur, eða almáttugur guð, sé maður eingyðistrúar. Ég held að rangt sé að afneita slíkum fyrirbærum sem oft hafa hjálpað og gert gagn.
En svo er það nútímafólkið sem margt trúir því að allt gerist þetta í sál mannsins og að maður geti sefað sjálfan sig og aðra til að koma sér í lag og samfélaginu. Þá er maður farinn að tigna sjálfan sig sem guð, mætti segja, og jafnvel er Búddatrúin þannig.
Það er hægt að stíga útúr hringekjunni og staldra við, en erfiðara er að hjálpa öðrum að gera það sama.
Maður á að halda fast í þá trú og skoðun að guðir og gyðjur séu til, álfar, huldufólk og allskonar fyrirbæri menningarinnar íslenzku.
Þegar allt kemur til alls höfum við forskrift að því hvernig fólk lifði af í gegnum aldirnar. Það eina sem við þurfum að gera er að læra af fyrri kynslóðum, tala við eldra fólk og bera þeirra lífssýn saman við nútímann.
Æðruleysisbænin kennir manni líka að sætta sig við að næstum allt geti verið í rugli. Kvíðinn getur gert það að verkum að maður kemur ekki nógu miklu í verk.
Það er svo merkilegt að kynslóð ömmu og afa vann sannkölluð kraftaverk og þrekvirki, með því að fólk bældi sjálft sig og þrælaði sér út í vinnu. Það er einmitt það sem nútímakenningar reyna að brjóta niður mjög oft. Auk þess var þjóðerniskenndin trúaratriði fyrir fólkið sem var ungt fyrir 100 árum, eða eitthvað sem mjög fáir efuðust um, og kristin trú næstum óhjákvæmileg fyrir alla, og siðvenjur í kringum hana.
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (26.1.): 5
- Sl. sólarhring: 90
- Sl. viku: 718
- Frá upphafi: 133624
Annað
- Innlit í dag: 4
- Innlit sl. viku: 558
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Afar góð og nauðsynleg hugvekja. Hvar týndum við þræðinum????????
Jóhann Elíasson, 18.1.2023 kl. 14:16
Áhrifamiðlar eru of ríkjandi í lífi fólksins í dag t.d. eru nútíma símanotkun óæskileg fyrir bæði börn og fullorðna, á vissan hátt byrjaði það með kvikmyndum sem eru því miður innihaldsríkar af drápum og glæpum til þess að myndu spennu hjá áhorfandanum. Ef til vill er byssu gleði Bandaríkjanna tilkomin vegna áhorfs ungmenna á glæpamyndum. Enginn bók virðist ná hæstu sölu nema hún sé glæpasaga.Símanotkun barna og fullorðinna er orðið vandamál,tölvuleikir byggjast upp á að mynda spennu með drápum,eru ekki öfgarnar orðnar dálítið miklar í nútímalífi mannsins.Vantar ekki alveg gömlu trúna á æðri mátt og trúna á eitthvað æðra heldur en mátt tækninnar og vísdómsins.Er ekki betra að börnin alist upp við aga og kærleika og þurfi að hafa svolítið fyrir lífinu.Sá sem elst upp við að fá allt upp í hendurnar ætlast til þess á fullorðinsárum að þjóðfélagið sjái um allt er honum vanhagar um en sá sem þarf að vinna fyrir sínu í uppeldinu bjargar sér mun betur er á reynir. Erum við sem mannkyn farinn að treysta of mikið á vísindin og búin að missa trúna á eigin getu einstaklingsins,látum við mata okkur á því sem aðrir sjá sér mestan hagnað í með platauglýsingum um að þú getir ekki lifað án þessa eða hins hlutarins. Er blekkingin að eyðileggja sköpunina sem guð ætlaði okkur til afnota í þroska okkar til æskilegra mannlegra samskipta.Trúin á guð,gyðjur og huldufólk og náttúruna yfirleitt skapar lotningu og tillitssemi hjá mannverunni ,er ekki það sem vantar í nútímaveruna. Spyr sá sem ekki veit.
Sigurgeir Árnason, 19.1.2023 kl. 08:53
Takk fyrir mjög góðar athugasemdir. Sagt er að stundum séu stigin nokkur skref afturábak með framförum.
Sigurgeir, þú kemur inná mikilvæg atriði. Hraðinn í tækniþróun hefur orðið á kostnað góðra þátta sem mættu aftur verða vinsælli hjá fólki.
Ingólfur Sigurðsson, 19.1.2023 kl. 13:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.