8.1.2023 | 03:47
Um orðsifjar til grundvallar orðinu náð.
Áður en ég fer að fjalla um þetta vil ég taka undir með tveimur bloggurum, Rúnari Kristjánssyni og Arnari Loftssyni. Þessi nýjasti pistill Rúnars lýsir mjög vel hörmungum Rússlands í gegnum tíðina og átökum við Vesturlönd, og hvers vegna þetta stríð er. Hann lýsir einnig ágætri sagnfræðiþekkingu. Á sama hátt lýsir Arnar því í pistli sínum hvernig Rétttrúnaðarkirkjan er eins og eitt síðasta skipið sem er ósokkið af öllum kirkjudeildunum sem upphaflega héldu fast í bókstafinn og upphaflega boðskapinn. Ég veit að til eru fleiri þannig söfnuðir að vísu, en pistill hans er áhugaverður og vekur athygli á þessu. Það útskýrir einnig að hluta til hvers vegna Pútín hefur andúð á Vesturlöndum hvernig Rétttrúnaðarkirkjan er trú bókstafstrúnni.
Ég er ekki sáttur við að nota orð nema ég skilji þau til fulls. Ég vil vita upprunalegu merkinguna, finna hljóminn í orðinu og hvort það rímar við guðatungumálið, og þótt íslenzkan sé eitt hreinasta og upprunalegasta málið í því sambandi, hafa merkingar breyzt, orð hafa týnzt og önnur komið í staðinn.
Náð er eitt af þessum orðum sem hafa fylgt kirkjunni frá upphafi, nóg er að minnast á orðið gnade á þýzku, sem merkir það sama og er sama orðið. Í gotnesku var til orðið niþan og merkti að hjálpa. Það er áhugavert að það orð er dregið af orðinu styrkur á fortokkarísku, sem er orðið nete, og er náskylt guðaheitinu og Vanaheitinu Njörður en upphafleg kona hans var systir hans Nerða, eða Njörð.
Sögnin að gnadda gæti verið skyld þessu, úr nýíslenzku, sem merkir að mögla eða kvarta. Hún er dregin af sögninni að gnaða, skrapa eða urga, en orðið gnaddur eða naddur er smáoddur eða drenghnokki, trjákvistur. Á lettnesku er til orðið naids, sem er sama orð og neyð á íslenzku, en það merkir á lettnesku hatur. Á litháísku er hinsvegar orð þveröfugrar merkingar sem er svipað, nauda, og merkir notkun, velvild, og gæti því verið skylt íslenzka orðinu nauðsyn.
Forindóevrópska orðið net þýddi að verja eða kjósa fram yfir eitthvað annað, ginaða á fornsaxnesku þýddi það sama.
Náð þekkist ekki eða lítið úr máli heiðinni Íslendinga fyrir kristnitökuna, nema þá helzt í merkingunni friður og aðgerðaleysi, svefn og næði. Óverðskulduð gæzka, "að syndga uppá náðina", syndga í trausti þess að vera fyrirgefið, þetta er hin kristilega merking sem við þekkjum einna bezt í nútímanum, en þó er til orðtakið "að taka á sig náðir", sem sennilega á sér enn eldri rætur.
Gnáð mun vera eldri orðmynd og jafnvel genáð eða genáða. Indóevrópska forskeytið gn- er talið dregið af indóevrópskra orðinu ghen, sem þýddi að skrapa eða stinga. Þessvegna er orðsöguleg saga þessa orðs nokkuð flókin og krókaleiðakennd, að því er virðist.
Uppruni allra þessara orða getur jafnvel hafa verið dreginn af gyðjuheiti, sé því trúað að gyðjur og guðir Valhallar hafi komið með forfeður okkar og formæður fyrir þúsundum eða milljónum ára til jarðarinnar og að þá hafi gyðjuheitið Gná fyrst komið fram.
Gná merkir sú háleita eða tigna. Ennfremur tel ég að þetta orð sé náskyld sögninni að knega, know á ensku, að þekkja, skilja og vita. Gnobils á latínu er göfugmennska eða tign, eða frægð, og gnarus á latínu er fróður eða vitur, þjálfaður, hæfur.
Ásgeir Blöndal taldi að náð gæti verið dregið af ginada á fornháþýzku, að beygja sig niður, sem einnig getur þýtt náð og hylli. Þaðan er sennilega kominn sá skilningur að undirgefnin sé mikilvæg til að hljóta náð Guðs. En undarlegt er ef orðið naður er skylt þessum orðum, höggormur eða slanga.
Á ensku er notað orðið grace yfir náð. Orðsifjalega er það talið komið úr frönsku, grace, sem þýðir afsökun, miskunn, þakklæti, guðleg náð, góðvild, glæsileiki eða dyggð. Franska orðið er svo komið úr latínu, gratia, góðir eiginleikar, velvild, þakklæti, mannorð, álit. Það orð er svo komið úr indóevrópsku, gwere, að kjósa fram yfir eitthvað annað.
G í latínu svarar oft til k í okkar málum, og því kann orðið grace eða gratia að vera skylt orðinu krás á íslenzku, eða kraklegur, grannur, veiklulegur. Síðan er gracilis á latínu grannur eða smágerður, óskreyttur, venjulegur, blátt áfram.
Erfitt er að vita hvaða merking kom fyrst og hvernig elztu orðin voru eða hverrar merkingar. Náð getur hafa komið inní kirkjumálið vegna þess að þegar Íslendingar voru nýkristnir hugsuðu þeir sér náðina sem frið frá stríðum, eða grið, og einnig vegna áhrifa frá gnade á þýzku, sem merkir náð, og skyldra orða á norrænum málum og germönskum,
Náð hefur þannig margvíslegar merkingar. Orðið grace á ensku tengist einnig eldri orðum af ýmsu tagi sem hafa aðrar merkingar.
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.7.): 55
- Sl. sólarhring: 60
- Sl. viku: 557
- Frá upphafi: 152626
Annað
- Innlit í dag: 40
- Innlit sl. viku: 390
- Gestir í dag: 38
- IP-tölur í dag: 37
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.