7.1.2023 | 02:49
Donovan og Bob Dylan, líkir, ekki eins.
Tónlistarmaðurinn Donovan átti blómaskeið sitt á hippatímanum en í raun hefði hann átt að gefa út miklu fleiri plötur. Eftir að útgáfusamningur hans við Epic plötufyrirtækið rann út 1976 dvínuðu vinsældir hans mikið, en sú þróun hafði byrjað allan áttunda áratuginn. Hann er enn á lífi og heldur tónleika en áhugi hans á tónsmíðum virðist minni en áður, þar sem nýtt efni kemur sjaldan frá honum og þannig hefur það verið lengi.
Donovan var frumkvöðull í sýrutónlist árið 1966 með Sunshine Superman plötunni, og notkun framandi og austrænna hljóðfæra. Hann var í góðu vinfengi við Bítlana um þetta leyti, og Paul McCartney söng oft bakraddir og George Harrison samdi aukaerindi í eitt lag eftir hann, sem hann söng síðar á tónleikum. Í Indlandsferðinni frægu var hann með Bítlunum.
Sagt er að Donovan hafi verið nánari Bítlunum en aðrir í þeirri ferð. Allavega er frá því sagt á einni vefsíðu um Donovan. Áhugi hans á framandi útsetningum hafði áhrif á Lennon og McCartney, og lagasmíðar allra þessara höfunda eru í hæsta máta melódískar, þannig að kannski hafa þeir skipzt á hugmyndum að lagasmíðum á þessum tíma.
Mér finnst það eiginlega ráðgáta hversvegna Donovan hætti að vera stórstjarna.
Oft eru menn að bera saman Donovan og Bob Dylan. Báðir urðu þeir fyrir miklum áhrifum frá Woody Guthrie, sem er talinn einn helzti faðir kántrítónlistarinnar í Bandaríkjunum, þrátt fyrir að hafa veikzt af Huntingtonveikinni býsna snemma, áður en starfsævi hans varð mjög löng.
Halldór Ingi í plötubúðinni ræddi oft við kúnna sína og var mikill fróðleiksbrunnur. Ég man að hann orðaði þetta þannig eitt sinn þegar við ræddum um tónlist, að Donovan hafi ekki höndlað rokkið, eða að fara að spila með hljómsveit, en það hafi Dylan gert.
Bob Dylan hefur alltaf verið blúshundur, en sá sem fílar blúsinn í tætlur er rokkari af lífi og sál. Lagasmíðar Donovans héldu áfram að vera meira í ætt við þjóðlög en rokk og textar hans barnalegri en Dylans. Dylan varð hið dulúðuga stórskáld og óskiljanlega, en Donovan varð táknmynd hippatímans, og þegar hippatíminn leið undir lok var Donovan afskrifaður sem úreltur af mörgum.
Alltaf hefur Donovan átt sinn trygga aðdáendahóp, og hann hefur fjallað um spíritisma í textum sínum mikið á seinni árum.
Í kringum Bob Dylan er hinsvegar sértrúarsöfnuður og hann er hylltur sem spámaður, gúru og endurlausnari af sumum. Til eru þeir sem telja Bob Dylan ofmetinn, og vissulega er hann umdeildur eins og Megas og fleiri snillingar.
Af hverju er Bob Dylan talinn gúrú en ekki Donovan? Bob Dylan hefur kunnað að skapa dulúð í kringum sig, með því að gefa skít í blaðamenn og móðga og særa aðdáendur sína æ ofaní æ. Hann er ráðgáta, sem hefur aðeins aukið vinsældir hans.
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Nýjustu færslur
- Öfgar til vinstri kalla á öfga til hægri
- Það er sama hvað gerist, sjálfseyðing Vesturlanda er á sjálfs...
- Ekkert eða fátt breytt? Hlutverkaleikur? Inga Sæland í gervi ...
- Spænska veikin var af fuglaflensustofninum. Þessa sýkingu þar...
- Okkar vestræna þjóðfélag sem Nató-Kata og Nató-Þórdís Kolbrún...
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.12.): 15
- Sl. sólarhring: 92
- Sl. viku: 763
- Frá upphafi: 130048
Annað
- Innlit í dag: 14
- Innlit sl. viku: 594
- Gestir í dag: 14
- IP-tölur í dag: 14
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.