10.11.2022 | 15:29
Flóttamannamálin fyrsta frétt dag eftir dag.
Flóttamannamálin eru enn fyrsta frétt á Bakkabræðraþursinum þríhöfða, RÚV, Hringbraut og Stöð 2. Ekki endilega lýsing á brýnustu fréttum samtímans, heldur því að þarna finnst þeim helzt vera veikur punktur hjá hægrimönnum, ríkisstjórninni, hjá samvizku þeirra sem stjórna landinu, að hún sé svört og slæm, en ekki í samræmi við hvernig þetta er erlendis.
Flóttamannamálin eru uppáhaldsumfjöllun fjölmiðlanna, þannig er hægt að sýna ríkisstjórnina í neikvæðu ljósi
Eins og menn muna eftir voru Bakkabræður svo vitgrannir að þegar einn sagði einhverja vitleysu löptu hinir það upp og endurtóku. Eða þannig var þetta í sögunni um blöndukútinn. Þegar þeir fóru til fiskveiða gjörðist faðirinn þyrstur og kallaði á blöndukút (vatn til að svala þorstanum), þá sagði sá fyrsti:"Faðir vor kallar á kútinn". Síðan endurtók sá næsti setninguna án þess að skilja hana, því næst sá þriðji, og svo aftur sá sem sagði fyrst setninguna og svo koll af kolli útí hið endalausa þartil karlgeyið gaf upp öndina af þorsta.
Hvernig er hægt að rökstyðja að þetta sé mikilvægasta fréttin fyrir Íslendinga, dag eftir dag, í viku, hefðbundnar brottvísanir? Þetta vekur tilfinningaviðbrögð, en það er greinilega það sem Rúv, Hringbraut og Stöð 2 sækjast eftir. En með tímanum sljóvgast almenningur, og þessir sem eru lengst til vinstri og mótmæla mest jafnvel líka.
Einnig rataði það í fréttirnar um helgina að aldraðir eru í erfiðri stöðu margir hvað varðar þjónustu og hjúkrunarrými. Verkamenn, öryrkjar, aldraðir, fólk í lægstu stéttunum, í yfirstandandi kreppu koma þessir hópar verst út, og kjararýrnunin er mest þarna.
RÚV fjallar um þetta eins ár eftir ár, sjálfstæðismenn mæta einhverjum úr vinstriflokkunum í sjónvarpsviðtölum, en engin niðurstaða fæst eftir þau rifrildi, nema þáttastjórnendur reyna að koma þeirri skoðun inn hjá almennum áhorfenda að samvizkuleysi ríkisstjórnanna hverju sinni sé algjört, og þeirra sem bera ábyrgð í málaflokknum.
Í gær deildu Sigmar frá Viðreisn, fyrrverandi Rúv fréttamaður og altmúligmaður og Birgir Þórarinsson frá Sjálfstæðisflokki um flóttamannamálin. Sigmar reyndi að stjórna viðtalinu sem þaulvanur fréttamaður, en honum brást bogalistin, því Birgir bauð honum að koma með sér og hringja til Grikklands, sem Sigmar þáði ekki og hunzaði orð Birgis. Þar með kom það skýrt í ljós að Sigmar var ekki að leita að sannleikanum, heldur áróðri til að knekkja á andstæðingnum, ekki í samræmi við veruleikann endilega.
Kom það einnig fram í viðtalinu að Birgir, sem Sigmar reynir að útmála sem fordómafullan, hefur farið til Grikklands og kynnt sér aðstæður, en ekki Sigmar, sem notar klisjurnar.
Sigmar og félagar tala í upphrópunum. Fordómar byggja á þekkingarleysi er sagt, en "góða fólkið" notar skoðanafordóma óspart í sínum málflutningi, það reynir að útmála andstæðingana sem hið versta fólk, og notar klisjur, upphrópanir og hneykslunarorð og hneykslunarsetningar sem sín vopn.
Á Hringbraut í þessari viku hefur verið nokkuð vel fjallað um þetta mál. Sæmilega ítarleg er þar umfjöllunin, en einhliða, aðallega talað við "góða fólkið", og því ekki alveg rétt mynd dregin endilega upp. Þar skildist manni að Grikkir hefðu mikinn metnað í að sinna þessum málum vel, en fjármagn skorti.
Þá rifjast upp það sem Grikkland hefur gengið í gegnum eftir fjármálahrunið 2008. Það var nefnilega Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn ásamt ESB sem settu þungar klyfjar á Grikki vegna bankahrunsins, en án ESB og evrunnar hefðu þeir sennilega farið íslenzku leiðina með sínum eigin gjaldmiðli og væru mun betur staddir núna.
Píratar og Samfylkingin eru systurflokkar hvað skoðanir varðar. Nýkosin forysta Samfylkingarinnar reynir að milda þá ásýnd og gera hana líkari Vinstri grænum.
Það sem ég er að reyna að segja með þessum pistli er það, að mér finnst furðulegt að umræðunni á RÚV og Stöð 2 og Hringbraut sé stjórnað af Pírötum, Samfylkingunni og þannig flokkum, þessum sömu öflum og Grikkland var ofurselt, ESB og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.
Grikkland væri sennilega betur í stakk búið að sinna flóttamönnum ef það væri ekki í ESB.
Viðreisn vill koma okkur í ESB, og Samfylkingarfólk enn, þótt slíkt sé ekki predikað lengur í hverju einasta viðtali.
Rúv eða hinar sjónvarpsstöðvarnar benda ekki á þessa þversögn, að flokkarnir sem vilja koma okkur í ESB eru þeir flokkar sem þykjast styðja mannréttindin mest, og afleiðingin yrði minni fjármunir til að sinna flóttamannamálum, ekki krónan lengur til að gengisfella í fjármálalægðum.
Tæknin til að stjórna fólki með tilfinningasemi er velþekkt. Eins og Guðjón Hreinberg hefur fjallað um og fleiri er þetta innbyggt í skólakerfið, Frankfurt skólinn, sósíaldemókratisminn er í eðli sínu svona, þjóðfélagsverkfræði, fræðikenningin um það hvernig hægt er að kúga fólk og kalla það samfélagsbætur.
Hvað þurfa þingmenn Viðreisnar og Pírata að verða vitni að til að standa með öldruðum og öðrum láglaunahópum frekar en flóttamönnum, annaðhvort þeim sem reyna að bæta stöðu sína almennt með því að flytjast á milli landa eða flýja stjórnmálin heimafyrir? Hversu mikil þarf almenn fátækt að vera á þessu landi til þess?
Mannleg eymd er auður sem barizt er um. Það sem vakir fyrir góða fólkinu er að koma vonda fólkinu frá völdum, og fá þannig betri þjóðfélagsstöðu sjálft og hærri laun.
Annars trúi ég því að fólk sé allt eins í grunninn. Það er hvorki betra né verra sama hvað það segir eða gerir, það eru aðstæðurnar sem skapa viðbrögðin og skoðanirnar yfirleitt. Fólk er tækifærissinnað og þannig má lýsa góða fólkinu svonefnda. Þetta er allt spurning um endalaust fleiri kommúnískar byltingar undir allskonar nöfnum, þar til öll hægrimennska er dauð, en hún hefur verið að veikjast í gegnum áratugi síðustu aldar og allt til nútímans.
Þeir sem boða ómengaðan kapítalisma segja að Grikklandi myndi vegna betur án ESB. Kannski er það rétt. Kannski væri þá Grikklandi ríkara og betur fært um að sinna flóttamönnunum sem þangað flýja.
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (5.11.): 51
- Sl. sólarhring: 140
- Sl. viku: 763
- Frá upphafi: 125354
Annað
- Innlit í dag: 35
- Innlit sl. viku: 603
- Gestir í dag: 33
- IP-tölur í dag: 33
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.