9.11.2022 | 18:40
Kenningar Þorvaldar Friðrikssonar um keltneskan arf á Íslandi í tungumáli og ætterni
Þorvaldur Friðriksson fornleifafræðingur hefur haft það að keppikefli sínu lengi að sannfæra fólk um keltnesk áhrif á Íslandi og keltneskan uppruna Íslendinga, að minnsta kosti að hluta til. Nú er að koma út eftir hann bók um þetta. Bókin heitir "Keltar - áhrif á íslenska tungu og menningu", og hefur hann greinilega unnið að henni lengi.
Hann hefur fjallað um þetta mál í að minnsta kosti 40 ár, miðað við að 1982 skrifaði hann ritgerð um keltneska húsgerð sem er að finna á Íslandi.
Belja telur hann dregið af gelísku, bail, ær af oi, ýsa af iasag, hurð af urradh, spýta af spitheag, og strákur af strácair.
Uppruni Gela (Gael) sem töluðu gelísku er indó-evrópskur, þannig að um sama kynstofninn aríska er að ræða í grunnatriðum. Keltar voru víðar í Evrópu, og eiga sér langar rætur allt til daga Júlíusar Sesars og Rómaveldis, og enn aftar í söguna raunar. Þeir áttu mikið blómaskeið á bronzöldinni.
Étienne Ljóni Poisson segir í athugasemdafærslum að aðblástur sé ekki til á írsku en í gelísku, (Skotlandi), og telur að sá aðblástur geti verið tilkominn vegna áhrifa frá forníslenzku en ekki öfugt. Segir hann að aðblástur sé afgerandi og merkingargreinandi fyrirbæri á norðursamísku og öðrum samískum tungumálum sem hafa áherzlu á fyrsta atkvæði. Segir hann að sennilega hafi þetta lengi verið í samísku og íslenzku einnig.
Einn annar í athugasemdum segir rangt að tala um málskipti, að einfaldlega hafi málið þróazt svona, íslenzkan. Það finnst mér vel orðað.
Einn segir í athugasemdum: "Ekki alveg einhlítt að þessi orð séu ekki til a.m.k. í norsku, eða hvað með hyse (ýsa), hurd (lágar dyr á bjálkahúsi), og gutt-strik (strákur)."
Anna Pétursdóttir: "Svo eru það mállýzkurnar, til dæmis á Kiruna svæðinu í Norður-Svíþjóð - þar hafa þeir mörg svipuð orð og við yfir til dæmis könguló. Eða mállýzkusvæðin í Noregi."
Einn segir: "Mér sýnist þetta vera eitt af þessum málum þar sem menn gefa sér niðurstöðuna fyrst og búa svo til rökin til að styðja hana".
Þetta tengist öðru efni, eins og Anna Pétursdóttir bendir á í þessum athugasemdum, það er að segja að nýjar rannsóknir á Bretlandseyjum sýna að Danir voru komnir þangað miklu fyrr en talið hefur verið. Það er að segja, að minni eru áhrif víkinga frá 800 í erfðaefni Breta en erfðaefni Engla og Saxa, sem mestmegnis komu með bylgju árása og fólksflutninga til Bretlands um 400 eftir Krist til Bretlands, frá Danmörku að miklu leyti. Þeir vísindamenn segja víkingaöldina hafa hafizt miklu fyrr en talið var, að minnsta kosti svo snemma sem 400 eftir Krist en ekki nokkur hundruð árum seinna.
Margir sammælast þarna um að byggð hafi verið á Íslandi löngu fyrir hið eiginlega landnám, og að líkindi séu til þess að það hafi verið keltar, Írar, Skotar, eða Gelar, og jafnvel einhver blanda, bæti ég við frá Norðurlöndunum.
Þessi tengsl sem bók Þorvaldar fjallar um hafa lengi verið þekkt. Ekki er deilt um að þau eru til staðar og einhver keltnesk áhrif. Um það er deilt hversu mikil þau voru og eru.
Íslenzk erfðagreining kom með þá niðurstöðu að um helmingur erfðaefnisins kæmi frá Bretlandseyjum, keltum, og konurnar frekar en karlarnir. Síðan væri algengara að karlmennirnir hefðu verið Norðmenn, eða rúmlega helmingur þeirra. Þetta passar nokkuð vel við það sem Þorvaldur heldur fram.
Orðsifjafræðilega gæti hann þó verið á villigötum, enda segir orðsifjabók Ásgeirs Blöndal aðra sögu og kemur einatt með aðrar skýringar en hann, og Ásgeir Blöndal var vissulega sérmenntaður í orðsifjafræðum og verður að taka mark á honum, þótt vissulega hafi hann gert mistök.
Ég hef haft áhuga á svipuðum fræðum lengi og hef gert nokkrar athuganir. Rakst ég á mörg orð í gaulversku, tungumálinu sem Ástríkur gallvaski, Steinríkur og þessir kappar áttu að hafa talað fyrir Krists burð sem minna á íslenzku. Einnig eru til orð í öðrum tungumálum sem eru til í íslenzku en ekki í öðrum norrænum tungumálum. Þetta segir ekki að þetta séu tökuorð í íslenzkunni úr þessum tungumálum, heldur er um sameiginlegan arf að ræða úr frumtungumálinu, indó-evrópskunni.
Dr. Helgi Pjeturss hélt því réttilega fram að íslenzkan væri forntungumál eins og gríska, latína og sanskrít. Hann sagði að tilgangur íslenzku þjóðarinnar væri að rétta við framsókn aríska kynstofnsins, og að það ætti að gera með því meðal annars að kenna íslenzku í Svíþjóð, Noregi og Danmörku, þar sem íslenzkan væri upprunalegra og betra tungumál en hin norðurlandamálin, sem er rétt og sérfræðingar taka undir þetta.
Beygingar eins og tíðkast í Þýzkalandi og á Íslandi voru til á hinum norðurlöndunum og í Bretlandi. Þær þurfa að verða endurvaktar, sem víðast.
Við getum verið stolt af íslenzkunni, okkar merkilega tungumáli. Störf sem tengjast menningunni mættu verða fleiri, og atvinnutækifæri fleiri ætti að vera hægt að skapa í tengslum við þau. Ungt fólk ætti að nýta sér þessa sérstöðu í auknum mæli, að hafa aðgang að einu elzta norræna tungumálinu frá barnæsku, frá foreldrum sínum, ömmum og öfum. Einnig ætti þetta að hvetja kynslóðirnar á skólaaldri til að rækta tengsl sín við eldri kynslóðir. Íslenzkan má ekki deyja út, eða menning okkar, sem felst einnig í orðforða, siðum, hefðum og þekkingu.
Það er ekki slæmt að vera skyldur keltum og Gelum. Margt bendir til þess að þeir hafi jafnvel verið enn meiri hörkutól en víkingarnir, miðað við meiri áhrif þeirra á Bretlandi en áhrif víkinganna, sem þó eru heimsfræg.
Ljóst hár, blá augu og norrænt útlit kemur ekki bara frá Norðurlöndum, þannig var keltum einatt lýst, þessum þjóðflokkum sem lifðu í Frakklandi, Þýzkalandi og víðar fyrir Krists burð.
Þetta er löng og mikil saga. Sífellt verður myndin fyllri, en nútímamaðurinn stendur þessum þjóðum langt að baki hvað varðar hugrekki og afrek. Svo mikil er hnignunin í nútímanum á ýmsum sviðum að hún ógnar þeim framförum sem þó verða, og þá helzt á hátæknisviðinu. Sumir segja í mannréttindamálum líka, en um það má deila.
Ég fagna bók Þorvaldar Friðrikssonar og jafnvel þótt ekki þurfi allt að vera rétt í þeirri bók eru á þessu sviði mörg tækifæri til frekari rannsókna og uppgötvana. Þetta er langt frá því að vera allt fullunnið enn eða þekkt.
Ekki sízt ætti þessi bók að hvetja leikmenn og áhugamenn í málvísindum, orðsifjafræðum og skyldum greinum að gefa út bækur og tjá sig um þetta.
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (5.11.): 61
- Sl. sólarhring: 132
- Sl. viku: 773
- Frá upphafi: 125364
Annað
- Innlit í dag: 43
- Innlit sl. viku: 611
- Gestir í dag: 40
- IP-tölur í dag: 39
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Ég gleymdi að minnast á eitt sem má ekki gleymast og er mikilvægt, að Færeyingar geyma álíka mikið og við af leifum af forntungumálinu, hljóðum og öðru.
Ingólfur Sigurðsson, 9.11.2022 kl. 18:45
Gaman að þú skulir blogga um bók Þorvaldar Friðrikssonar Ingólfur, -hann kemur þessu svo skemmtilega frá sér.
Hérna er gott viðtal Gunnars Smára við Þorvald, ef þú skyldir ekki hafa séð það.
https://www.youtube.com/watch?v=yet6isiXGl4
Magnús Sigurðsson, 9.11.2022 kl. 19:01
Góðan dag Ingólfur. Nú hef ég ekki lesið þessa bók en get samt bent á nokkur umhugsunarefni. Í fyrsta lagi eru rannsóknir á beinum fornmanna ekki ítarlegar. Margt bentir til að fyrsta bylgja landnámsmanna hafi verið víkingar ásamt fylgdarfólki úr Bretlandseyjum. En svo kom önnur bylgja úr Noregi og það var allt norrænt fólk. Gelíska/írska ásamt kristinni trú hefur því dáið út srax í annarri kynslóð. Hér varð því til alnorræn menning....fornleifarnar styðja þetta, af hverju sjáum við ekki keltneskar grafið og minjar?
Eyjan hans Ingólfs - nokkur umhugsunarefni - biggilofts.blog.is
Birgir Loftsson, 10.11.2022 kl. 08:37
Takk fyrir innlitið, bæði Magnús og Birgir. Mjög fróðlegt margt sem þið skrifið um og ég les það yfirleitt. Ég hlakka til að lesa bókina um jólin, og viðtalið á ég eftir að horfa á, en ég man eftir því hvað Þorvaldur sagði í þáttunum á Stöð 2, "Landnemarnir".
Já Birgir, mikið kapp í því sem Þorvaldur skrifar um, en það stenzt tæplega allt. Að minnsta kosti ef þetta er satt sem hann segir að "málskipti" hafi orðið í landinu og gerir ráð fyrir fjölda kelta hefur landnemahópurinn verið grimmur.
Þetta með skortinn á gröfum og minjum Gela og kelta er líka sterk sönnun þess að fornbókmenntir eins og Landnáma lýsi þessu nokkuð rétt, að paparnir hafi verið frekar fáir miðað við landnámsmennina.
En það er samt spennandi þegar menn reyna að breyta söguskoðuninni, og viðtekinni sagnfræði. Ég mun lesa bókina hans Þorvaldar af athygli.
En ég er sammála, þessu ber að taka með hæfilegri varúð.
Ingólfur Sigurðsson, 10.11.2022 kl. 14:15
Það sem mér fannst áhugaverðast við kenningar Þorvalds (vissi ekki af honum fyrr en mér var bent á þetta youtube viðtal) var hvað konur hafa átt mikinn þátt í mótun tungumálsins.
Ég held að sama hvers eðlis frumlandnámið hefur verið þá er það þannig að gelísk háhrif má finna í íslensku umfram hin norðurlandamálin, og samkvæmt sögunum þá kemur það eðlilega í gegnum kvenlegginn.
Annað sem ég hjó eftir já Þorvaldi í viðtalinu er að norræn grafkuml sem fundist hafa á Íslandi eru bundin við vissa landshluta umfram aðra. Hann tiltekur Fljótsdalshérað sértaklega, en einmitt þar hafa fundist einhver ríkmannlegustu grafkuml og þau voru kvenna, en þess getur hann reyndar ekki.
Í austfirðingasögum er greint frá ríkum konum sem komu á eigin skipum rétt eins og Auður djúpúðga í Laxdælu, nægir þar að nefna Gróu á Eyvindará. Því held ég að áhrif kvenna hafi verið mun meiri en kemur fram í Landnámu, Þorvaldur dregur það fram á áhugaverðan hátt.
Magnús Sigurðsson, 10.11.2022 kl. 16:31
Já, þetta er góður punktur Magnús. Völuspá er eitt mesta fræðikvæði þessarar menningar og það er lagt í munn konu með yfirskilvitlega hæfileika. Enn höfum við Íslendingar tröllatrú á völvum, eins og sést á Vikunni og fleiri tímaritum sem birta völvuspár um áramót.
Ég held að þú hafir rétt fyrir þér með konurnar. Kvenréttindaskörungar hafa undantekningalítið notað gyðjur sem fyrirmyndir úr heiðnum trúarbrögðum. Einn ágætur maður í Ásatrúarfélaginu sagði það við mig fyrir nokkrum árum að kristnitakan hafi verið mesta áfallið fyrir jafnréttið í landinu, sem hefði verið til staðar á hinum heiðna tíma. Hvort sem það er satt eða ekki var þetta snjallt hjá honum og hitti í mark.
Ég tel að konur hafi lært fornkvæðin utan að frekar en karlmenn á hinum heiðna tíma og því er ég viss um að þær gegndu mikilvægu hlutverki í menningunni.
Já, þetta er mjög áhugavert mál.
Ingólfur Sigurðsson, 10.11.2022 kl. 19:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.