"Elskum það sem við eigum" - Hringrásarsetur Íslands.

Það var frétt undir lokin í fréttatíma RÚV þann 14. október síðastliðinn um Alþjóðlegan dag rafrusls sem var haldinn á Kex hosteli. Mig langaði mikið að blogga um þetta, en fannst þetta mál sem fæstir myndu hafa áhuga á, þar til ég núna ákvað að láta verða af því, en kosturinn við að fréttir eru komnar á Netið að hægt er að sækja þær aftur í tímann og fá smáatriðin þannig.

Af hverju hef ég áhuga á þessu? Jú, þegar ég ólst upp hjá afa og ömmu að Digranesheiði 8, sem þá var Digranesvegur 92, þá fékk ég áhuga á því að gera við rafeindatæki án þess að hafa lært það. Ég var sjálfmenntaður þar til ég fór í Iðnskólann og var þar eina önn 1996.

Það er tvennt sem ég hef sérhæft mig í, það er að laga gamlar Apple Macintosh tölvur og að laga segulbandstæki.

Ég komst að því snemma að fólk hendir segulbandstækjum að óþörfu alltof snemma. Jafnvel Gústi í Tónborg, sem er vinur hans pabba gerði ekki það sama og ég, að létta á spennunni við drifhjól spólanna, en vildi leysa þetta með nýju gúmmísnertihjóli, sem einnig er nauðsynlegt, nema það endist ekki mjög lengi.

Nú eru þessi segulbandstæki orðin sjaldgæf, en enn vil ég frekar nota þau en geisladiskaspilara eða plötuspilara og á nóg af þeim fyrir sjálfan mig.

Annað skemmtilegt við segulbandstækin er að hægt er að breyta mögnurunum í þeim, þannig að út komi upptaka sem leggur áherzlu á öðruvísi tónjöfnun en tíðkast. Þannig hef ég breytt mínum segulbandstækjum þannig að þau taka upp í meiri bassa og diskanti, nema þá þarf að auka tónstyrkinn til jafns sem endar með meira suði, en það er smekksatriði hvernig fólk vill hafa hljóminn, og að geta ráðið hljómnum er það bezta, að kunna á þessi tæki þannig að maður geti sérhannað hljóminn sem er manni að skapi.

Rafeindatæknin snýst um viðnám, þétta og margliður, díóður og annað slíkt, og að kunna að skipta um þessa rafeindahluti þannig að það breyti hljómnum án þess að eyðileggja tækin, það tel ég mig kunna núna, og hef verið fær um það lengi, í um það bil 30 ár.

Því miður eru rafeindatæki nútímans öðruvísi, þau eru eins og símarnir, svo smágerð að ekki er hægt að breyta hljómnum í þeim, einingarnar eru hluti af flóknum margliðum, en í hverri margliðu getur verið heill örgjörvi með innþætta smára, þétta og viðnám allt í sama kubbnum. Þannig eru afleiðingarnar að láta Kínverja framleiða þetta alltsaman.

En í þessari frétt kom það fram að Kristín Vala Ragnarsdóttir vill að fólk hætti að henda raftækjum og fari að láta gera við þau meira en áður. Hún er prófessor í sjálfbærnivísindum á Íslandi.

Þetta er nú eins og með svo margt að afturför hefur orðið á þessu sviði. Eitt sinn voru fjölmörg verkstæði að þjónusta fólk sem vildi viðgerðir á raftækjum. Nú er orðið meira um að fólk hendi þeim, enda hraðinn orðinn meiri, kröfurnar meiri um að eiga það nýjasta.

Eftir að afi dó kom einn kunningi minn með þá hugmynd að ég myndi setja upp verkstæði fyrir raftæki í staðinn fyrir verkstæðið hans, en ég svo sem gerði það ekki, enda var Agnar frændi enn að vinna á verkstæðinu þá.

Málið er líka það að færri þurfa viðgerðir á þessum tækjum sem ég kann á, sem eru af eldri kynslóðinni, en ekki þessi nýjustu sem minna er hægt að gera við. Hann hélt því þó fram að margt fólk ætti ennþá gamlar Apple Macintosh tölvur sem það vildi láta gera við. Ég gat hjálpað honum með gömlu Apple Macintosh tölvuna hans, sem var SE II frá 1989. Ég gat komið harða disknum aftur í lag, og það tók marga klukkutíma langt fram á nótt, en hann pantaði pizzur og kók og loksins tókst það, eftir að ég hafði grafið upp næstum öll þau forrit sem ég fann til að ræsa ónýta eða skemmda harða diska, en gögnunum tókst þó að bjarga sem var fyrir mestu og ég fann annan harðan disk sem ég seldi honum á vægu verði. SCSI diskar eru í þessum tölvum, oft ekki nema 40MB sem þykir mjög lítið nú til dags, en þannig var tæknin á þessum tíma.

Í fréttinni var einnig viðtal við Önnu Worthington de Matos formann Hringrásarseturs Íslands, en hún talaði á ensku í fréttinni.

Þetta er enn eitt sem mætti minnast á, það eru svo ótrúlega margir sem tala bara ensku í fréttatímum, og stundum eru þessar fréttir jafnvel ótextaðar!!!

Með því að rífa verkstæðið hans afa og Agnars að Digranesheiði 8 var verið að fara gegn þessari hugsun í fréttinni, sem er hugsun framtíðarinnar, endurvinnsla og endurnýting. Afi var algjör sérfræðingur í því að halda hlutum starfandi áratugum saman. Verkstæðið hans hefði getað orðið þekkingarsetur og fræðslusetur hvernig hann gerði það, því þarna voru verkfæri sem hann smíðaði frá grunni með snilld sinni.

Svona er nú jafnaðarstefnan og svona er femínisminn, fyrirbæri sem eru sjálfseyðandi og skammsýn í grunninn.

Þekking tapast, verkfæri tapast, þegar hús eru rifin sem í var merkileg starfsemi. Eitthvað fer forgörðum sem aldrei kemur aftur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ingólfur Sigurðsson

Höfundur

Ingólfur Sigurðsson
Ingólfur Sigurðsson

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • 5
  • 4
  • 3
  • Image 004
  • Titilblað

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 170
  • Sl. sólarhring: 200
  • Sl. viku: 739
  • Frá upphafi: 127175

Annað

  • Innlit í dag: 101
  • Innlit sl. viku: 551
  • Gestir í dag: 93
  • IP-tölur í dag: 93

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Leita í fréttum mbl.is

Nýjustu myndböndin

Heilbrigðisráðherrann, helbrigðaráðherfan

Í hópnum finn ég hlýja barnatrú

Aldrei fellur auðmagnskerfið

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband