8.8.2022 | 01:59
Bangladesh tónleikarnir 1971
DVD mynddiskar geta verið skemmtilegri en sjónvarpsdagskráin. Tónleikarnir vegna hungursneyðar í Bangladesh sem George Harrison og félagar héldu árið 1971 eru sígildir og hægt að hlusta og horfa á þá aftur og aftur. Þar kemur margt til. Þetta voru sennilega fyrstu góðgerðartónleikarnir í tónlistarsögunni, og þarna komu saman tveir af fjórum Bítlum ásamt Bob Dylan og fleiri frægum tónlistarmönnum þess tíma.
Fyrir Bob Dylan aðdáendur eru þessir tónleikar sérstakir. Þetta eru fyrstu endurkomutónleikar Bobs Dylans sem heppnuðust vel, eftir að hann tók sér frí frá skipulögðu tónleikahaldi árið 1966 og gerðist fjölskyldufaðir að aðalstarfi en tónlistarmaður þar á eftir, fram til ársins 1974.
Það er áhugavert að bera saman frammistöðu ólíkra tónlistarmanna á þessum tónleikum. Þannig er merkilegt að lagið sem Ringo Starr syngur þarna er tilþrifalítið og flatt, en trommuleikur hans prýðilegur eins og venjulega. Hann syngur um leið og hann trommar og lítið heyrist í söngnum. Það bendir til þess að þegar honum tókst vel upp í hljóðverinu og á plötum sínum hafi það verið lagfært með tæknivinnu og mörgum upptökum af sama laginu.
Leon Russell er í stuði en lögin eftir hann sjálfan eru ekkert sérlega spennandi, frekar þegar hann syngur staðlaða rokkslagara sem þetta hljómar vel hjá honum.
Aðalstjörnur þessara tónleika eru vinirnir Bob Dylan og George Harrison, enda um tvo frábæra tónlistarmenn að ræða.
Ég hef séð Bítlana á tónleikum á sjöunda áratugnum, og frammistaða sólógítarleikarans þeirra á þessum tónleikum stendur þeim tónleikum að baki. Kemur þar margt til. Bítlarnir voru bæði skemmtilegir á tónleikum og á plötum, söngurinn innlifaður, tilþrifamikill og hljóðfæraleikurinn samstilltur, en þarna er þetta faglegt en ekki gert af sérlegum áhuga.
Þar fyrir utan voru Bítlarnir misjafnir sem söngvarar. John Lennon og Paul McCartney höfðu langmesta sjarmann sem söngvarar, bæði frábærlega raddtækni, háar raddir og með vítt raddsvið en auk þess þetta óútskýranlega, stjörnutaktana, stórstjörnusjarmann sem aðeins örfáir hafa. Á tónleikum Bítlanna nær George Harrison að komast vel frá flutningi laga sinna, vegna hjálpar hinna Bítlanna, en þarna eru lögin ekki jafn áhugaverð, en samt nokkuð góð. Sérstaklega er áhugavert að sjá og heyra samspil vinanna Erics Claptons og George Harrisons, frábærlega fimi og ítarlega þjálfun og reynslu þeirra beggja þannig að engin feilnóta er slegin og lögin hljóma næstum alveg eins og á plötunum, en söngurinn er ekki alveg eins lifandi og þar.
En ég held að John Lennon og Bob Dylan hafi báðir haft sömu hæfileikana í söng, að vera færir um að blása nýju lífi í flutninginn, jafnvel uppi á sviði, og láta göml lögin hljóma á nýjan og ferskan hátt í hvert skipti.
Það verður að segjast að ákveðnir yfirburðir Bobs Dylans í flutningi á tónleikum koma þarna nokkuð vel í ljós. Ekki að rödd hans sé þýð, eða fullkomin tæknilega, heldur sjálfsöryggið og hann virkar eins og kennari, sem syngur löng lög sem allir hlusta dáleiddir á. Sú tilvitnun mun víst vera komin frá Allen Ginsberg sem hann vann með um tíma að flutningur Dylans hafi þegar bezt lét verið eins og einn samhangandi andardráttur, og meinti hann þar heilagur andardráttur, eða andardráttur Guðs, í þeirri merkingu að hann hafi verið eins og spámaður Guðs þegar hann sló í gegn, talaði máli fjöldans, kom með friðarboðskap og annað slíkt.
Einnig átti hann við þetta, að lög Dylans minna oft á langar þulur, sem meistarinn man orðrétt og flytur eins og boðorðin tíu af fjallinu í Gamla testamenintu eða Fjallræðu Krists, eitthvað slíkt sem hefur alltaf áhrif, eins og góð ræða prests sem allir hlusta á.
Þetta kann að vera tengt vinnuaðferðum Bobs Dylans. Hann er eins og Bubbi Morthens með það að vinna og semja oft lög sín og texta samhliða og læra utanað með því að þylja upp. Þannig lýsti Joan Baez vinnuaðferðum hans í viðtali árið 1973.
En þrátt fyrir allt er eins og þessir tónlistarmenn séu heima hjá sér að spila fyrir sjálfa sig þar sem þeir eru uppi á sviði. Þeir horfa hverjir á aðra frekar en áheyrendur, og flutningurinn miðast við hið tæknilega frekar en hið útblásna og innlifaða eða víxlverkaða við áheyrendur og áhorfendur.
Hljómur er þó góður og mynd. Og það er sögulegt að sjá þessa heimsfrægu tónlistarmenn á þessum yfirlætislausu tónleikum, en vel er klappað og fjölmenni í salnum.
Ringo Starr og George Harrison virðast venjulegir menn og ekki stórstjörnur. Þarna er ekki æpandi ungmeyjaskarinn sem fylgdi Bítlunum heldur er hljóð í salnum á meðan lögin eru flutt, en vel klappað á eftir.
Ef maður ætti að skilgreina stórstjörnueiginleika Bobs Dylans frekar þá tekur maður eftir því að hann er lagviss, og jafnvel þótt hann sé alltaf að breyta útsetningum á eigin lögum þá veit hann hvað hann er að gera og syngur ekki falskt, þótt brestir komi í röddina stundum.
Hann náði yfirleitt alltaf að ljá textum sínum sérstaka áherzlu á þessum árum. Á endalausa túrnum sem byrjaði 1988 og stendur enn yfir hefur hann þó að margra áliti oft sungið gjörsamlega tilbreytingarlaust, en það er annað mál, eins og gróðahyggjan sé orðin listrænum metnaði ofursterkari hjá honum, því miður.
Þessir tónleikar geta kennt tónlistarmönnum margt. Eric Clapton og George Harrison sýna snilldarlegan gítarleik, og mörg lög eftir Bítilinn George Harrison eru auk þess í hæsta gæðaflokki, eins og Bítlalögin sem hann þarna flytur. Textarnir hans Dylans eru hins vegar á við beztu ljóð sem samin hafa verið á ensku og flutningur hans einnig mjög góður.
Ef allir Bítlarnir hefðu mætt og komið saman hefðu þetta orðið enn merkilegri og betri tónleikar, þannig að fullkomnunina vantar, en skemmtilegir eru þeir samt.
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (11.1.): 49
- Sl. sólarhring: 49
- Sl. viku: 552
- Frá upphafi: 132124
Annað
- Innlit í dag: 42
- Innlit sl. viku: 444
- Gestir í dag: 38
- IP-tölur í dag: 37
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.