30.6.2022 | 00:15
Nató-Kata og segulstöðin.
Þórarinn Eldjárn orti ljóðið "Segulstöðvarblús" einhverntímann seint á áttunda áratugnum, það er ekki í bókum hans, held ég, en hefur sennilega komið út í tímariti og þar hafa tónlistarmennirnir Bubbi Morthens og fleiri náð í það, nema þeir hafi beðið hann að yrkja þetta fyrir sig, hvort sem það var Bubbi eða Diddi fiðla sem varð fyrri til, en báðir eiga þeir lag við þetta ljóð. Nema til er upptaka frá tónleikum með Bubba árið 1979 þar sem hann flytur það, svo kannski varð hann á undan, en það er samt ekki fullljóst því ekki liggur fyrir hvenær Sigurður Rúnar, Diddi fiðla, gerði sitt lag, en það kom út 1982, á plötunni "Hvað tefur þig bróðir", með Heimavarnarliðinu, samtökum herstöðvarandstæðinga, en lag Bubba Morthens á plötunni "Plágan" frá 1981, en þess má geta að einnig hann var fasttengdur við vinstrihreyfingar og herstöðvarandstæðinga, og flutti lög sín á þeirra vettvangi oft.
En allavega, svona er ljóðið, það á vel við núna þegar Nató-Kata er í fréttum, sem segist þó herstöðvaandstæðingur ennþá og sömu skoðunar og fyrrum, en grátt er hún leikin að þurfa að tala þá gegn sannfæringu sinni, ef það er rétt hjá henni.
"Sit hér á seglinum, ungbarn,
sötrandi minn djús.
Ég sit hér og söngla
segulstöðvarblús.
Á segulinn
segulmagnaða
leita úr lofti
leikföng stórvelda.
Til hvers þá segullinn sé hér
veit sá er ekki spyr.
Til að vinir mínir í vestrinu
viti um dauðann fyrr.
Og þegar logarnir ljósu
leika um mitt hús,
skal ég sitja og söngla
segulstöðvar-blús."
Þórarinn Eldjárn orti, Bubbi Morthens gerði lag við ljóðið og Sigurður Rúnar Jónsson, Diddi fiðla.
Menn deila um hvort hafið sé nýtt kalt stríð eða hvort þetta sé heitt stríð, taugastríð, áróðursstríð eða eitthvað enn annað. Allavega, styrjaldahryllingurinn í Evrópu er enn endurvakinn eins og menn vita. Þetta kvæði á því við, því hættan á kjarnorkustríði hefur kannski aldrei verið meiri, eins og einn bloggari sagði, minnir að það hafi verið Gunnar Rögnvaldsson.
Þetta kvæði á sennilega mun betur við núna en þegar það var ort, því mikið er talað um Nató nú á dögum og ekki allir sammála, þótt opinbera stefnan sé að það veiti vernd.
En skáldið Þórarinn setur hér fram þessa skoðun sem þá hafði gengið manna á milli og valdið þrotlausri skelfingu að herstöð Bandaríkjamanna í Keflavík yki hættuna á að Ísland yrði skotmark í heimsstyrjöld, hvernig svo sem vopnum yrði þá beitt.
Nú vaknar spurningin, hvernig er þetta með Svíþjóð og Finnland? Guðjón Hreinberg hefur að minnsta kosti haldið því fram að innganga þeirra í NATÓ auki líkur á kjarnorkustyrjöld, gereyðingarstyrjöld, eða einhverskonar átökum á milli stórveldanna að minnsta kosti, og það er ekki útilokað að hann hafi rétt fyrir sér.
En þarf að túlka þetta ljóð? Skilja það ekki allir?
Það er margt snilldarlegt við þessi fáu og hnitmiðuðu orð.
Í fyrsta lagi notar Þórarinn orðfæri svartra blússöngvara, eða Bandaríkjamanna almennt, "baby" - "ungbarn", "að sötra djús", er hans túlkun á bjórmenningu þar vestra, býst ég við. Orðalagið "Leikföng stórvelda" er einnig snilldarlegt, sýnir hversu barnalegt það er og heimskulegt að standa í styrjöldum þegar gereyðingarvopn eru í vopnabúrum stórveldanna, þá má segja að styrjaldir séu orðnar úreltar, og nauðsynlegt sé að berjast öðruvísi og með andlegri eða félagslegri hætti, sem einnig er gert, að vísu, í dag, og mestmegnis, svo sem, skiljanlega.
En það bezta við ljóðið er samt hin stóíska ró sem hvílir yfir því. Skáldið segir "þegar heimsendir verður," ("þegar logarnir ljósu leika um mitt hús") ekki "hvort".
Það er bezt að skilja þetta eftir í lausu lofti til að pæla í, hvort ógnin aukist eða minnki við inngöngu í NATÓ og slíkt. Hversu líklegt er að Rússar ráðist á Ísland, til dæmis, eða Svíþjóð eða Finnland. Ég tel það ekki líklegt, því Úkraína er allt annað fyrirbæri, sem fyrrum hluti Sovétríkjanna, en það eru einhverjar líkur á að hann girnist Svíþjóð og Finnland, en ekki tel ég sennilegt að hann leggi í slíkt, vitandi að það gæti endað með heimsendi.
Því efast ég um nauðsyn þess að Svíar og Finnar gangi í NATÓ.
En, gott er að velta ljóðinu fyrir sér, eftir Þórarin Eldjárn, það er lýsir þessari skelfilegu styrjaldaógn vel, gereyðingarógn í rauninni.
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Nýjustu færslur
- Hvernig ætti að vera hægt að bjarga bandarísku þjóðinni undan...
- Er Samfylkingin lengra til hægri en Sjálfstæðisflokkurinn? Rá...
- Áfengisdrykkja tengist sjálfstæði einstaklinganna, manndómsví...
- Þeir flokkar sem nú eru í ríkisstjórn verða að hjálpa landbún...
- Í þessari frétt endurspeglast elítuviðhorf wóksins og svo frj...
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 18
- Sl. sólarhring: 137
- Sl. viku: 626
- Frá upphafi: 133097
Annað
- Innlit í dag: 8
- Innlit sl. viku: 476
- Gestir í dag: 7
- IP-tölur í dag: 7
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.