Aldrei hef ég fengið betri móttökur fyrir að spila opinberlega eins og fyrst þegar ég kom fram í Digranesskóla á Litlu jólunum í desember 1985, þá fimmtán ára. Þær viðtökur voru svo frábærar að ég ákvað að ég vildi verða tónlistarmaður og ekkert annað, nema það hefur gengið misvel í gegnum tíðina, eins og gengur, og allskyns tízkusveiflur hafa áhrif.
Þetta var mjög sérstakur viðburður og stór í mínu lífi, eftirminnilegur. Félagslega fyrir mig var þetta eitt mesta "búst" sem hægt er að fá (eða hrós - eða hvatning - hvernig sem á að þýða þetta orð).
Ef ég hefði ekki fengið svona glimrandi móttökur fyrir þetta litla lag hefði framtíð mín sennilega orðið önnur, ég hefði ekki orðið eins áhugasamur um tónlist, en að vísu er ekki það sama að vilja og að fá að verða landsþekktur eða heimsþekktur, og fólk misgott í kynningarstarfi og öllu sem því fylgir.
Allt gerðist mjög hratt í desember 1985 og eftir þennan atburð sem komu mér í einhverskonar vímu, kom annar atburður sem var gríðarlega erfiður, þegar amma dó 28. desember 1985 útaf hjartagúlp sem var óuppgötvaður vegna þess að heimilislæknirinn taldi þetta bara gigt og sendi hana í nudd sem bætti ekkert.
Á nýjársdag 1986 samdi ég svo lagið "Björgunarlag", sem síðar varð frekar þekkt með mér og ég gaf út árið 2000, á plötunni "Blóm, friður og ást", en að semja lagið var nokkurskonar leið mín útúr sársaukanum, að rifja upp það sem Árni Waag kenndi okkur um umhverfisvernd, og í textanum og laginu var þessi von, að útúr hinum verstu kringumstæðum kæmust allir með von og bjartsýni og vinnu, og að jörðin bjargaðist einnig þrátt fyrir mengunina.
En aftur að Litlu jólunum í Digranesskóla 1985. Þannig var að ég hafði verið að trúbadorast í rúmlega eitt ár, og hafði samið lög í tvö ár og texta, frá 1983, þannig að mér fannst nauðsynlegt fyrir mig að kynna mig og tónlistina, og vissi að útskrift yrði um vorið 1986, þannig að ég yrði að nota tækifærin.
Nema það að Skafti, umsjónarkennari bekkjarins, Skafti Þ. Halldórsson, var tregur til þegar ég færði þetta í tal fyrir Litlu jólin, hann sagði að enginn einn nemandi hefði verið með skemmtiatriði áður, aðeins í hóp, og taldi mig ekki færan um þetta. En þó vissi hann að ég orti góð ljóð, að flestra áliti, og hann hafði trú á mér og féllst því á þetta.
Lagið heitir "Láttu það koma - myrkrið á morgun", og í því blandast saman ástarsöngur til stelpu í bekknum og einhverskonar fyrirboði um váleg tíðindi, sem reyndist rétt þegar amma lézt.
Reyndar skil ég ekki textann til fulls enn, því hann er að hluta til bull, hraðsoðinn saman, en ljóðrænn samt. Ég kunni ekki textann og límdi blað á gítarinn sem ég las af um leið og ég söng, og ekki kunni ég nógu mikið á gítarinn. Ég söng nokkuð hátt og skýrt, en ekki er til upptaka af þessu, en ég fékk frábærar viðtölur, því þakið ætlaði að rifna af húsinu og ég gat ekki komizt út á meðal krakkanna fyrr en eftir dúk og disk, það var blístrað og hrópað þannig að maður var að missa heyrnina. En ég hafði ekkert annað aukalag, og loks kom að næsta atriði. Þetta hafði sem sagt gífurleg áhrif á mitt sálarlíf, hins feimna einstaklings sem þarna fékk gríðarlega athygli.
Einstaka sinnum á ferlinum hef ég fengið viðlíka góðar viðtökur, en aðeins brot af þessu, 1991 á Myrkramessunni í MK, þegar ég flutti lagið "Náttúran", einnig á Myrkramessunni í MK árið 1993 þegar ég frumflutti lagið "Engar umbúðir", og 1999 þegar ég söng lagið "Hvenær mun hér á Ísland rísa stjörnusambandsstöð?" Þær viðtökur voru þó bara brot af þessu, en samt góðar.
Svo er það oftast að skvaldur og mas er ráðandi og fólk hlustar hvorki á lag eða texta, því miður, sérstaklega á pöbbum og krám.
Lagið "Láttu það koma - myrkrið á morgun" var ekki spilað af mér árum saman, en svo dró ég það aftur upp 2015, eftir að afi dó, og flutti á Melodica Festival tónleikum, sem Svavar Knútur Kristinsson sá um í samstarfi við erlenda aðila. Þá fékk þetta lag enga athygli, og kynning mín á ensku fór fyrir ofan garð og neðan, mikið var skvaldrað og lagið virðist ósköp ómerkilegt og ekki ástæða til að fagna því neitt sérstaklega. Þó hafði lagið ekki breyzt og ekki flutningurinn mikið breyzt, nema batnað með árunum.
Ég skrifaði handrit að bók árið 2017, sem er óútgefin sem ég kallaði "Leyndarmál frægðarinnar", titillinn á henni er tilvitnun í lag eftir Bubba Morthens. Þar fjalla ég um það hvernig hæfileikar eru ekki aðalatriðið í að verða vinsæll, heldur að vera rétt manneskja á réttum stað og tíma, að pólitík ráði vinsældum oftast.
Bítlarnir töluðu við samtíðina meira en aðrir skemmtikraftar, þeir voru meira grípandi, ákafari, meira í takt við tímann.
Hér er textinn að laginu, frá 6. desember 1985, en ég skírði það aftur seinna og kallaði: "Móðgun eða ekki á morgun".
Em
Þú kemur en ég fer,
G Em
ég fer ef þú móðgar mig ekki.
Am
Þú kemur en ég fer,
G Em
ég fer ef þú móðgar mig ekki.
Þú ferð en ég kem svo,
ég veit þar er móðgun á morgun.
Þú ferð en ég kem svo,
ég veit þar er móðgun á morgun.
Þú segir eitt á stút,
þú segir og hleypur frá orðum.
Þú segir eitt á stút,
þú segir og hleypur frá orðum.
Þú ræður ástin mín,
ég verð þinn langbetzti lífsdraumur.
Þú ræður ástin mín,
ég verð þinn langbetzti lífsdraumur.
Þú hleypur barni frá,
hamingjan færist í hæðir.
Þú hleypur barni frá,
hamingjan færist í hæðir.
Þú snertir en ég græt,
hún er mín drottning á hæðum.
Þú snertir en ég græt,
hún er mín drottning á hæðum.
Þú gengur inní kynþokkann,
þessvegna verð ég að krjúpa.
Þú gengur inní kynþokkann,
þessvegna verð ég að krjúpa.
Þú leggur en ég læt,
ég læt sem ég lái þér ekki,
er þú hefur uppi öskur og væl,
læt sem ég lái allsekki.
Þú ert mín drottning enn,
ó hvað ég elska þig mikið.
Þú ert mín drottning enn,
ó hvað ég elska þig mikið.
Hún er gerð úr moldinni,
upprisa mannsins í fötum.
Hún er gerð úr moldinni,
upprisa mannsins í fötum.
Kossar fljúga um loftin blá,
ég fer ef þú móðgar á morgun.
Kossar fljúga um loftin blá,
ég fer ef þú móðgar á morgun.
Drottningin, vald og dýrð,
allt þér ég gef fagra vera.
Drottningin, vald og dýrð,
allt þér ég gef fagra vera.
Þú ert allur heimurinn,
þú ert allt sem ég þrái.
Þú ert allur heimurinn,
þú ert allt sem ég þrái.
Kúla springur, gert er gert,
blómin þau brosa og hlæja.
Kúla springur, gert er gert,
blómin þau brosa og hlæja.
Þú kemur en ég fer,
ég fer ef þú móðgar mig ekki.
Þú kemur en ég fer,
ég fer ef þú móðgar mig ekki.
Ég man að ég páraði textann í flýti án þess að skipuleggja neitt. Þetta var bara bull við laglínu sem ég var að setja saman, en ef maður skoðar hann betur þá eru þetta bara allskonar setningar um ástina og svo aðrar óskiljanlegar setningar í bland, þannig að þetta er nokkuð gott ljóð að vissu leyti.
Aldrei fékk ég jafn góðar viðtökur og þegar ég flutti þetta fyrst, í desember 1985 á Litlu jólunum. Ástæðan var hvorki að lagið væri gott eða textinn eða ég svo góður flytjandi, heldur var þetta einstakur viðburður, að nemandi þyrði að koma fram svona frekar óundirbúinn með frumsamið lag, spilandi á gítar, og kunnáttan lítil sem engin.
Já, og ég gat komizt í gegnum allt lagið án of mikillar feimni.
Ég var brautryðjandi á þessu sviði. Nú í dag eru unglingar í allskonar keppnum, tónlist og fleira, en eins og Skafti kennari sagði, þetta hafði aldrei verið áður gert svona árið 1985, að nemandi kæmi fram einn með gítarinn og frumsamið lag, það voru bara barnaleikrit, jólasálmar, hópsöngvar og aðfluttir skemmtikraftar fyrir þann tíma.
Ég man hvað tilfinningin var skrýtin, að ég skalf af feimni áður en ég kom á sviðið, en um leið og ég gekk nokkur skref eftir sviðinu og að hljóðnemanum varð ég rólegur og hætti að skjálfa af feimni, ég hugsaði að annaðhvort myndi þetta virka eða ekki og að ekki þýddi að hætta við á miðri leið, að maður yrði bara að gera sitt bezta og láta útkomuna ráðast.
Í handritinu mínu, "Leyndarmál frægðarinnar" frá 2017 fjallaði ég um það hvernig guðirnir og djöflarnir sjálfir stjórna þessu hverjir njóta frægðar. Bubbi Morthens var eftirlæti vinstrimanna og rauðsokkanna, ég var brautryðjandi á öðrum sviðum.
Vinstrimenn og jafnaðarmenn hafa stjórnað vestrænni menningu síðustu áratugina. Ég er ekki alveg inni á þeirri línu, og þar sem fólki er stjórnað, fólk er látið hylla suma listamenn en aðra ekki, því er stjórnað af öðrum hnöttum, og helstefnuhnöttum á okkar jörð, er ekki auðvelt að komast að með boðskap sem ekki er í samræmi við mafíuna.
Árið 1985 hafði femínisminn ekki eitrað Íslendinga eða heimsbyggðina, nema að mjög litlu leyti. Áhugi á trúbadorum og lifandi tónlist var gríðarlegur. Megas, Hörður Torfason, Valgeir Guðjónsson og Bubbi Morthens gerðu það gott, og margir fleiri.
Mín tónlist var furðuleg viðbót inní þessa flóru. Ég var 100% óæfður, með nýtt lag sem ég varla kunni, en klóraði mig samt í gegnum að flytja það sæmilega. Það hefði verið hægt að púa á flutninginn, en það var ekki gert. Þetta var of einlægt, of skrýtið, of mannlegt, þau sáu í mér fyrirmynd, að hafa kjark til að kynna eigin verk á þennan hátt.
Eftir þetta fór ég að syngja enn óskýrar, og ég fór að syngja enn lengri ballöður, 10 mínútur hvert lag, enginn skildi eða heyrði eitt einasta orð, það var ekki gott fyrir vinsældirnar.
Ef maður hlustar á þetta lag núna finnst manni ekkert merkilegt við það. Það er eintóna og alltof langt.
En ljóðið eða textinn hér fyrir ofan stendur alveg vel fyrir sínu, sem ljóðrænt listaverk. Lagið er líka ágætt, langt frá því að vera vinsældapopp, en svona dæmigerð þjóðlagatónlist, yfirlætislaust og rólegt.
Fyrst og fremst eru það þó minningarnar, kringumstæðurnar, hvernig flutningurinn á verkinu breytti lífi manns, og stendur uppúr á margan hátt.
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.1.): 10
- Sl. sólarhring: 158
- Sl. viku: 710
- Frá upphafi: 133256
Annað
- Innlit í dag: 7
- Innlit sl. viku: 510
- Gestir í dag: 7
- IP-tölur í dag: 7
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.