16.4.2022 | 05:58
Eigðu góðan dag?
Þorgils vinur minn er meira á móti kveðjunni "Eigðu góðan dag" en ég. Ég ætla þó að útskýra í þessum pistli hversvegna þetta er óíslenzkt orðalag. Þegar fólk notar þetta er ég sjaldan að hafa fyrir því að benda á betra orðalag, því kosturinn við þennan frasa er vingjarnlegt hugarfar sem lofa ber, en hvað er þá óíslenzkt við þetta?
Í fyrsta lagi er þetta bein þýðing úr enskunni, "have á nice day", eða "hafðu góðan dag", eða "hirtu góðan dag". Það hefur aldrei þótt góð íslenzka að þýða hrátt.
Í raun og veru er þetta ekki röng íslenzka, þetta er málfarslega rétt, nema gengur þvert á hefðina, þar sem fólk segir venjulega "njóttu dagsins" eða "hafðu það gott í dag", eða einfaldlega "góðan dag".
"Eigðu góðan dag" minnir svolítið á "eigðu þig", og hefur því margræðan blæ. En það sem kannski helzt mælir gegn þessari orðanotkun fyrir utan að þetta minnir of mikið á enskuna er að boðhátturinn þykir ruddalegur og ekki kurteislegur á íslenzku, og er sjaldan notaður í kurteislegum kveðjum nema þá í mjög nánum samskiptum. Boðhátturinn er hinsvegar oft notaður í skipandi tón þegar verkstjóri skipar undirmönnum sínum fyrir.
Þetta snýst þessvegna mikið um málhefðina íslenzku, en ofnotkun á sögninni að hafa í ensku hefur útþynnt þennan merkingarmun hjá þeim.
Boðháttur í jákvæðum orðasamböndum á íslenzku er þessvegna oft mildaður með "ég óska þér..." "megir þú/þið..." eða að sögninni er sleppt, eins og í kveðjunni algengu sem hljómar einfaldlega:"Góðan dag", sem merkir:"Ég býð þér að eiga góðan dag", eða eitthvað slíkt, eða "ég vona að þú munir eiga góðan dag".
Það er eins og unglingarnir sem byrjuðu á því að nota frasann:"Eigðu góðan dag" geri sér ekki grein fyrir þessum blæbrigðum íslenzkunnar og hafi kannski ekki umgengizt ömmur og afa sem betur þekkja málhefðina en sumir feður og mæður, eða þá að einhver jafnaldri hefur þýtt frasann úr ensku og hann síðan byrjað að ganga.
Annars er mjög margt sem er pirrandi og óþolandi bæði hvað varðar stafsetningu, málfræði og enskuslettur í nútímanum.
Menntamálaráðherra verður að vera mun virkari á þessum tímum. Sennilega hafa aldrei jafn margar hættur steðjað að íslenzkunni. Ég tel að sókn sé bezta vörnin, og þessvegna nota ég zetuna, til að sýna fram á að það sé hægt að læra hana og nota, þótt maður hafi ekki lært hana í skóla.
Ég hvet núverandi menntamálaráðherra til að lögleiða zetuna aftur.
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (11.1.): 15
- Sl. sólarhring: 28
- Sl. viku: 518
- Frá upphafi: 132090
Annað
- Innlit í dag: 10
- Innlit sl. viku: 412
- Gestir í dag: 9
- IP-tölur í dag: 9
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Er að mestu sammála. Ég fór sjálfur að nota frasann "eigðu góðan dag" t.d. í verslunarerindum, að athuguðu máli. Hafði velt þessu fyrir mér fram og aftur, þar til ég sá að pælingin að slangra þannig ætti rétt á sér. Að það komi ráðherra eitthvað við, það er sósíalismi sem ég kvitta ekki fyrir. Rétt eins og með hugtökin Skjalavald, Ríkissmiðja, Ríkisráðsmaður, Skjala[valds]röskun, Hatur[s]segð; Enginn notar þessi orð neins staðar, nema ég. Á næstu öld verða þau alþekkt. Það tók marga áratugi fyrir snilldar-hugtakið Heimspeki að festa sig í móðurmálinu, allt vegna notkunar í einu riti sem fólk bar virðingu fyrir.
Ég hef í fáin misseri strögglað við að nota Herkænska og/eða Stríðskænska fyrir enska orðið Strategy og herbrög og/eða stríðsbrögð fyrir enska orðið Tactic, en þó Íslenska sé til fyrir þessi hugtök eru þau orð óþjál. Ég hef t.d. séð blaðamenn á MBL nota slangrið strategíu.
Ég kann ekki Íslensku, langt í frá en ég hef ánægju af merkingarfræði. Í útgefnum bókum varast ég óvandað slangur en slangra grimmilega í bloggfærslum. Gunnar Dal, lét hafa eftir sér, í bókinni Að elska er að lifa, að eðlilegt sé að málvitund og málfar þróist. Kannski, kannski ekki. Ég held að það séu menn á borð við Þórberg og Egil Skallagr. sem tryggi málið, en ekki orðabækur, málnefndir og stjórnvald.
Íslensk málnefnd um tölvuorð, mælir með orðinu kóti fyrir enska orðið Code, kódi er þó þjálla. Málnefnd mælti með rápari í stað Browser, sem að mínu viti er betra en Vafri Morgunblaðsins. Þú rápar í búðir og í leit að ýmsu nothæfu og nýtilegu en kannt að rekast á vafrandi róna, þannig séð.
Afsakið lengdina.
Eigðu góðan dag :
Guðjón E. Hreinberg, 16.4.2022 kl. 17:29
Já, alltaf gaman að fá viðbrögð frá þér, sem ég ber virðingu fyrir sem snjöllum manni sem tekur ekki þátt í hrunadansi hvers sem er.
Málfar á ekki að vera hamlandi eða bannandi, rétt er það, nema við séum í feðraveldispælingum, en auðvitað er slíkt hluti af uppeldi, og við erum alltaf börn, að læra og þroskast, hvort sem við viðurkennum það eða ekki.
Menn leika sér að boðum og bönnum og sum yfirvöld komast upp með það. Ég ber virðingu fyrir öllum stigum frá fasisma yfir í stjórnleysi, nema ég vil að stjórnvöld viðurkenni hvað þau eru. Okkar vestrænu stjórnvöld viðurkenna ekki hvernig fólk er heilaþvegið og kúgað, það finnst mér óþolandi. Það kann enginn íslenzku til fulls eða önnur tungumál, það gerir skemmtilegt að fást við fyrirbærin.
Ástæðan fyrir því að ég nenni stundum að tuða yfir málfari er að þetta er hluti af menningunni, og ef við sýnum tungumálinu virðingu, með misjöfnum hætti, nennum við frekar held ég að pæla í öðrum hlutum en eiga ekki bara yfirborðsleg samskipti, sem sagt hluti af menningunni, sem við finnum báðir að er að fara til fjandans.
Ég óska þér dags með nóg af skemmtilegum stundum. Er að reyna að vera öðruvísi í málfari.
Ingólfur Sigurðsson, 17.4.2022 kl. 00:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.