22.2.2022 | 23:25
Ég er ekki mjög hissa á stormum og snjóbyljum, þótt hamfarahlýnun geti verið staðreynd, sem óvíst er
Veðurfræðingar fullyrða yfirleitt ekki um hamfarahlýnun, og ekki finnst mér snjórinn sem hefur verið í vetur neitt óvenjulegur, heldur hefðbundið íslenzkt vetrarveður. Samt eru það þessar miklu, tíðu og kröppu lægðir sem vissulega sannfæra mann um hamfarahlýnun, því öfgafyllra veðurfari var búið að spá sem einkennum þeirrar hlýnunar.
Engihjallaveðrið var víst 16. og 17. febrúar 1981, en Ómar Ragnarsson minntist á óveðrið 1991 og notaði það hugtak yfir það veður. Vissulega var óveður mikið 3. febrúar 1991, Engihjallaveðrið mun þó hafa verið 1981, enda man ég vel eftir því sjálfur, þá var ég 10 ára.
Þá bjó ég með mömmu og stjúppabba og yngri bróður við Álfhólsveginn, og þá brotnaði rúða í forstofunni, en og við urðum að halda okkur inni. Það var mikið ævintýri, en hann náði að negla fyrir á meðan á óveðrinu stóð, enda mikið hraustmenni.
Við höfðum hniprað okkur saman, en þá var gott að heimilisfaðirinn var hugdjarfur og kjarkaður maður, sem var með spýtur, nagla og hamar í bílskúrnum, og hafði kjark og kraft til að negla fyrir gluggann sem brotnaði.
Það er svo langt síðan þetta gerðist að ég man ekki hvort eitthvað utanaðkomandi fauk í rúðuna, og sennilega fæst aldrei úr því skorið. Það er þó sennilegt, ég býst við að minni aðgæzla hafi verið þá í að reyra niður lausamuni.
Mesta furða að honum hafi tekizt þetta, að negla fyrir rúðuna, en ég hef þetta eftir mömmu sem man þetta betur en ég. Við vorum nálægt Engihjallanum, en engir bílar fóru um koll á planinu okkar, en mig minnir að þeir hafi hreyfzt í stæðum í götunni og orðið skakkir sumsstaðar. Daginn eftir komu svo nánari fréttir af tjóni.
Þrátt fyrir að húsið okkar að Digranesheiði 8 hafi staðið hátt og gnauðað þar mikið í óveðrum þá varð þar aldrei neitt stórtjón í óveðrum, og tel ég álfana hafa verndað í því efni, hiklaust.
Þó er til ein saga frá sjötta áratugnum, þegar Edduveðrið gekk yfir, (kennt við vélskip sem fórst). Þá var rokið svo mikið að Oldsmobíllinn sem var á verkstæðinu, var notaður til að halda stóru hurðinni lokaðri. Allt nötraði og skalf. Síðar setti afi traustari lokunarbúnað á þessa hurð, með þungu vogarafli og miklum gúmmíklossum og skrúfgangi, sem hindraði allar hreyfingar hurðarinnar, nema í lágmarki.
Einn mikill munur er á gamla tímanum og nýja tímanum. Raflínur voru loftlínur áður fyrr, og það var fastur liður að raflínur slitnuðu þá og rafmagnslaust varð. Það er miklu sjaldgæfara nú.
Því var alltaf gætt að því að kerti væru til og eldspýtur, og myrkur lýst upp með kertaljósum var hluti af minni æsku, þegar línur fóru í sundur. Afi og amma áttu líka tvo gamla lýsislampa. Þeir voru uppá punt að mestu, hluti af arfi eldri kynslóða.
Þeir sem telja hamfarahlýnun ósannaða hafa margt til síns máls, en einnig hinir sem telja hana staðreynd. Um þetta mál deila.
Bæjarbúar lögðust á eitt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (11.1.): 40
- Sl. sólarhring: 45
- Sl. viku: 543
- Frá upphafi: 132115
Annað
- Innlit í dag: 35
- Innlit sl. viku: 437
- Gestir í dag: 33
- IP-tölur í dag: 33
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.