12.2.2022 | 19:10
Sögur um þorramat frá heimili afa og ömmu
Ég hef smakkað þennan hákarl og mér finnst hann ekki góður. Þessi vel kæsti í Krónunni er hinsvegar mitt uppáhald, hann er meiriháttar og rétt unninn. Ég lærði að borða hákarl hjá afa og ömmu þegar ég var strákur.
Afi ólst upp í Trékyllisvík á Ströndum, og þar voru hákarlasjómenn miklar hetjur, og mikil list að vinna hákarl. Það var árviss viðburður á veturna í minni æsku að ættingjar og vinir að norðan gæfu afa hákarl sem hengdur var upp í kartöflugeymslunni og notaður um veturinn. Það voru beztu hákarlsbitarnir sem ég hef fengið, ótrúlega vel kæstur og ljúffengur, og maður varð sjálfur að skera bitana með stóra eldhúshnífnum. Hákarl var jafnvel notaður ofaná brauð sem viðbit.
Ég man eftir hversu stórir bitar þetta voru og skrápurinn harður sem maður gat meitt sig á. Ég lærði það í minni æsku að til er "góður" hákarl og "vondur", eftir því hvernig hann er verkaður, kæstur og unninn.
Þessir menn komu oft í heimsókn og ræddu lengi við afa. Í einum fréttatíma í vetur var tekið viðtal við börn og þau öll töldu hákarl vondan. Þannig var ég áður en mér var kennt að borða hákarl. Einn af þeim sem komu í heimsókn spurði hvort búið væri að kenna mér að borða hákarl. Það höfðu afi og amma ekki gert, því þau vissu að hann var ekki fyrir alla, og sízt hefðu börn smekk fyrir honum. Hann skipaði mér að kyngja nokkrum bitum, og sælukeimurinn kom ekki fyrren ég hafði losnað við viðbjóðinn, eftir nokkra bita. En sá sem lærir að meta þessa vöru veit hversu góð hún er, frá beztu framleiðendunum, það er að segja. Vondur hákarl verður aldrei ljúffengur, sama hversu mörgum bitum maður rennir niður.
Þorramatur var í uppáhaldi á mínu heimili.
Það var til ein saga um langafa og hvernig hann komst lífs af eftir að hafa veitt hákarl. Ég man hana ekki í smáatriðum, nema að hann lifði þetta af og það þótti merkilegt.
Hann kunni að grafa hákarlagryfjur fyrir norðan, til að kæsa hákarl í. Þessu var lýst fyrir mér. Það mun vera sérstök kúnst, alveg eins og með frönsku ostana, að misgóður var hákarlinn eftir bæjum.
Þegar ég var orðinn unglingur og tvítugur voru flestir þessir gömlu menn dánir og hættir að koma í heimsókn. Þá vildi afi fá hákarl úr Nóatúni úr kjötborðinu þar, þar sem hann var seldur beint frá þeim sem veiddu hann í stórum stykkjum. Hann var aldrei hrifinn af þessum litlu dollum, en lét sig hafa þær þessi síðustu ár sem hann lifði, sumar hverjar sem geymdu "góðan" hárkarl, eins og það var orðað.
Svo var það þetta með sviðahausana. Áður en eldsmiðjunni var breytt og kaffistofa sett þar inn eftir að amma dó var hægt að svíða sviðahausa þarna. Ég man vel eftir því þegar ættingjar eða vinafólk kom úr sveitinni með stóra poka af sviðakjömmum að svíða, og horfði á það. Við fengum eitthvað af þeim gefins líka.
Það var í þá gömlu, góðu daga.
Svo tók amma slátur, en það gerði mamma líka á sínum fyrstu búskaparárum. Ég held að konurnar á hennar aldri hafi gert það, frá 1970 til 1980. Þær komu margar saman til að hjálpast að.
En ég man að afi kvartaði sáran undan því að beztu hákarlaverkendurnir voru dánir þegar hann var kominn yfir nírætt. Afkomendur þeirra héldu þó margir áfram, nema hræðslan við að veiða hákarlinn orðin mikil, og ekki allir sem lögðu í þessar veiðar.
Enn eitt dæmi um menningu sem er í útrýmingarhættu, sem þarf að endurreisa og kjark, karlmennsku og dugnað.
Innkalla hákarl | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (10.1.): 10
- Sl. sólarhring: 64
- Sl. viku: 614
- Frá upphafi: 132067
Annað
- Innlit í dag: 10
- Innlit sl. viku: 508
- Gestir í dag: 7
- IP-tölur í dag: 7
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.