23.10.2021 | 20:18
Ég minnist þín eftir Bob Dylan, frá 1985, þýðing og túlkun.
Þetta lag birtist á plötunni "Empire Burlesque" með Bob Dylan árið 1985. Nafnið Empire Burlesque þýðir Heimsveldið Skrípaleikur og segir það sitt um lágt álit hans á heiminum þá eins og oft, eða heimsmenningunni.
Þessi hljómplata meistara Dylans er yfirleitt ekki hátt skrifuð hjá gagnrýnendum. Ástæðan er tvíþætt í meginatriðum: Útsetningarnar eru mjög í anda "sixtís", það er að segja hljóðgervlar og trommuheilar, en ekki lifandi hljóðfæri. Í annan stað eru ástarlög mjög áberandi á plötunni en ekki þjóðfélagsgagnrýni, en oft er sagt um Dylan að hann sé orðinn "eins og hinir" þegar hann semur ástarlög en ekki þjóðfélagsgagnrýni, eða er reiður gamall maður og pirraður, fullur af ljóðrænum anda og líkingum.
Þetta er eitt af þessum ástarlögum, sem sumir kalla slepjupopp og tyggjókúluflatneskju. En hinn ágæti heimspekikennari og enskukennari David Weir hefur varpað nýju ljósi á þessa einföldustu texta Dylans á bloggsíðu á ensku þar sem hann túlkar ljóð skáldsins Bob Dylan. Fer ég að hans dæmi hér.
Þegar betur er að gáð kemur í ljós að þetta er ekki lélegur og einfaldur texti hjá Bob Dylan. Strax í nafninu vaknar spurningin: Er hann að tala um látna manneskju eða lifandi?
Svona er þýðingin:
"Ég minnist þín þótt ég gleymi öllu öðru. Við saman vorum sönn, við saman vorum bezt. Þegar um ekkert fleira er að ræða kemur þú beint að kjarna málsins skyndilegar en nokkur annar sem ég veit um. Í leyndardómnum mikla mun ég minnast þín. Ég mun minnast þín við enda slóðarinnar. Ég átti svo mörgu ólokið, ég hafði svo lítinn tíma fyrir mistök. Sumu fólki gleymir maður ekki þótt maður hafi aðeins séð það einu sinni eða tvisvar. Þegar rósirnar fölna og ég dvel í skugganum mun ég minnast þín. Reyndi ég ekki að elska þig? Reyndi ég ekki að láta mér ekki standa á sama? Svaf ég ekki og grét við hlið þér með regnið byljandi í hári þínu? Ég mun minnast þín þegar vindurinn næðir um furuskóginn. Það varst þú sem náðir til mín og það varst þú sem skildir mig. Þótt ég myndi aldrei segja að ég hafi farið eftir öllu sem þú sagðir mér, þá finnst mér þegar allt kemur til alls, kæri góði vinur að ég muni minnast þín."
Þetta er fallegur texti en það er hægt að túlka hann á margvíslegan hátt eins og margt eftir Bob Dylan.
Þetta getur verið trúarlegur texti, Bob Dylan gæti verið að syngja til þess guðs sem hann trúir á, hann getur verið að syngja til vinar eða vinkonu, eða maka. Sá eða sú sem hann syngur til gæti verið lífs eða liðin(n).
Ég held helzt að þetta sé verndarengill eða andlegur leiðbeinandi sem Bob Dylan syngur til og yrkir um í þessu kvæði.
Svipað orðalag notaði hann á Shot Of Love plötunni þegar hann var að afkristnast, til dæmis í laginu "In The Summertime" frá 1981. Þá talaði hann til æðri veru, kannski engils, eða verndarvætts, frekar en til guðs sem hann trúir á.
Í fyrsta lagi kemur það fram í textanum að hann hafi sennilega aðeins hitt þessa manneskju einu sinni eða tvisvar.
Þá getur það ekki verið Sara, fyrrverandi eiginkona hans, eða þessar konur sem hann var með á þessum tíma, sem sungu bakraddir eða eitthvað. Ekki getur þetta verið náinn ættingi, faðir eða móðir, eða vinur.
Eins og svo oft með texta Dylans lenda túlkendur og útskýrendur í vandræðum. Í textanum kemur fram að hann hafi "sofið við hlið" þess sem kveðið er um.
Getur verið að hann sé að syngja um konu sem hann svaf hjá einu sinni? Auðvitað er það ekki útilokað. Það er bara ein túlkun af mörgum og ekkert ótrúlegri en margar aðrar.
Samt passar það ekki við að viðfangið virðist hafa vakað yfir honum og verndað samkvæmt öðrum línum, eða skilið hann mjög vel.
Það er engu líkara en hann sé að yrkja um fylgju eða verndarvætt sem hafi líkamnazt einu sinni eða tvisvar og birzt honum. Getur það verið? Kannski. Fólk verður fyrir alls konar andlegum upplifunum og skynjunum.
Að minnsta kosti enn eitt ljóð eftir Bob Dylan sem bæði gleður og vekur upp spurningar, og margir vilja túlka á margvíslegan hátt.
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (20.1.): 27
- Sl. sólarhring: 61
- Sl. viku: 602
- Frá upphafi: 132933
Annað
- Innlit í dag: 21
- Innlit sl. viku: 437
- Gestir í dag: 19
- IP-tölur í dag: 19
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.