Klaustur í heiðni og kristni, fræðaiðkun til forna

Fyrir viku voru það frjóar umræður um trúmál og fræðaiðkun til forna sem skildu svo margt og mikið eftir að mig langar nú til að bæta svolitlu við þann þráð.

 

Spurningin sem vaknaði er þessi, hverjar eru rætur Hávamála og allskonar fræða sem munkar í klaustrum héldu lifandi?, en einnig almenningur sem kunni þessi fræði.

 

Eins og fram kemur á Vísindavefnum var það leyfilegt í kaþólskum sið að skrifa heiðin og veraldleg rit í klaustrunum fyrir þekkingarsakir. Sennilega hefur verið hreinlega hvatt til þess. Ágústínus og Benedikt eru nefndir þeir sem tvær meginstefnur klaustra fóru eftir mjög snemma. Ég vil þó fara enn aftar og alveg til upprunans.

 

Þegar ég var um tvítugt hélt ég að skörp skil væru á milli heiðninnar og kristninnar, en eftir því sem ég hef lesið meira um þetta hefur það mér opinberazt að þau skil eru mjög óljós og ekki svo skörp nema í sumum efnum.

 

Bæði er nú það að sú kristni sem hér var lögtekin árið 1000 var allt öðruvísi en sú kristni sem við þekkjum nú og eins voru heiðnir menn margvíslegir og sumir hálfkristnir þá þegar, búnir að þekkja þá kristni sem þekkt var fyrir 1000 árum, og hálfvolgir fyrir henni.

 

Fleira kemur til. Sú hefð innan kristninnar að ræna öllu heiðnu að gera að sínu, eða snúa uppá Satan er kannski það atriði sem vegur þyngst um skyldleika kristninnar og heiðninnar. Sjálfar kirkjurnar voru oft og einatt byggðar á rústum heiðinna hörga og hofa, bæði á Norðurlöndum og sunnar í álfunni. Dýrðlingarnir fengu á sig einkenni heiðinna guða og gyðja, fengu lánuð goðsagnaminni sem bættust við atriði úr lífi þeirra sem teknir voru í dýrðlingatölu. Þannig mætti lengi telja áfram. Kirkjusiðirnir og bænirnar, margt af þessu átti sér frumheimildir innan heiðna menningarheimsins.

 

En í þessum pistli ætla ég að einbeita mér sérstaklega að klaustrunum og menningarlífinu sem þar fór fram.

 

Spurningin sem ég spurði mig fyrir löngu var þessi: Áttu klaustrin sér heiðnar fyrirmyndir. Já, hiklaust, tel ég nú.

 

Ef við förum aftur í tíma Krists, þá voru Essenar nokkurskonar munkar, sem voru fræðimenn sömuleiðis. Það sama mátti segja um fleiri trúarhópa. Nú er ekki hægt að kalla þessa trúarhópa kristna, því kristnin var ekki orðin til enn, þarna voru rætur kristindómsins. Gyðinglega fræðasamfélagið er mjög gamalt og ríkulegt, en ekki það eina sem var til þá, til forna.

 

Skekkjan í fræðaiðkuninni nú til dags byggist á því hversu lítið hefur varðveizt af öðrum trúarbrögðum en þeim stærstu sem flestir þekkja, kristni, islam, gyðingdómi, grískri goðafræði, norrænni goðafræði, hindúisma, búddisma, og nokkrum fleiri.

 

Í mörgum tilfellum var reynt að útrýma heiðnum trúarbrögðum og menningarverðmætum þeirra heiðnu. Einnig var algengt að ekkert væri skrifað niður af fornþjóðum, og svo hafa verðmæti eyðilagzt á óralöngum tíma, musteri verið lögð í rúst, styttur brotnar, steintöflur, bókrollur brenndar óviljandi eða viljandi, og margt skemmzt í vatni og undan veðrun.

 

En það sem við vitum fyllir uppí eyðurnar ótrúlega vel. Við vitum nefnilega að völvur og nornir í Ásatrú voru konur þekkingarinnar í heiðnum sið á norðurlöndum. Nari tel ég karlkynsmynd orðsins norn, karlnorn, og valvi karlkynsmynd orðins völva.

 

Dr. Helgi Pjeturss kom með þá orðsifjafræðilegu skýringu á orðinu norn sem ég aðhyllist, að það sé sú sem nærir og læknar fyrst og fremst, og upprunalega. Hin neikvæða mynd er komin úr kristninni og fordómum hins nýja siðar, að norn sé brjáluð kerling (eða ung kona) sem flýgur á kústskafti og veifar höndunum í þrumuveðri, og veldur sjúkdómum og óáran.

 

Orðsifjaleg rannsókn á orðinu völva leiðir okkur einmitt í þann sannleika að sennilega voru til klaustur í heiðinni trú, Ásatrú, til forna.

 

Hugsanlega þýðir orðið "sú sem ber töfrasprota eða seiðstaf", en Ásgeir Blöndal hélt því fram að sennilega sé upphafleg merking: "Sú sem hefst við í umgirtu, lokuðu byrgi". Slíkt umgirt og lokað byrgi hefur þá verið nokkurskonar klaustur, en hörgar og hof gætu hafa verið einhverskonar klaustur í einhverjum tilfellum, eða alltaf.

 

Ég tel að heilu ættirnar hafi lagt ákveðin kvæði á minnið. Að til að muna gríðarlega langa bálka hafi rammgert skipulag verið viðhaft og hverjum og einum skyldað að leggja rétt á minnið rétt erindi. Þetta hefur hreinlega verið mikil starfsgrein í heiðninni, að muna fræðin.

 

Sú virðing sem drúíðarnir nutu til forna er til vitnis um þetta líka. Sagt er að þeir hafi tekið þátt í stjórnun samfélaganna ekkert síður en þorpshöfðingjarnir. Þá erum við að tala um 1000 fyrir Krist jafnvel, og tímann þar í kring.

 

Þegar kaþólskan náði völdum á Íslandi um 1000 hefur því verið pottþétt miðað við svona hefðir sem hinir heiðnu notuðu til að viðhalda sinni menningu, hefðunum, fræðunum.

 

Auk þess voru klaustrin að erlendri fyrirmynd.

Fræðimenn hafa skrifað um það að sennilega hafi almenningur verið áhugalaus um trúmál á víkingatímanum. Því er það augljóst að til voru stéttir sem höfðu atvinnu af því að muna, og kannski skrifa niður rúnir, eða á pappír eða skinn, og sumir halda því fram að til hafi verið heiðnir menn sem kunnu gotneska eða latneska stafrófið. Það er vel líklegt. Miðað við öll þau ógrynni af skrifuðu kálfsskinni sem hafa eyðilagzt í gegnum aldirnar var miklu meira til hér einusinni af heimildum um þetta allt.

 

Orðið útiseta kemur úr heiðninni. Fólk sem stundaði útisetur sat oft í búddískri stellingu undir trjám og leitaði þekkingar. Það er augljóst af öllu þessu menningarsamhengi að einvera og fræðaiðkun voru svo samofin hugtök að þau héldu áfram að eiga samleið í kaþólskum sið en voru ekki búin til með kristnitökunni.

 

Það er hinsvegar kenning en ekki víst að í hörgum og hofum hafi farið fram fræðastarfsemi eins og í klaustrunum síðar, en það er ekki ósennilegt sé þetta skoðað vel í samhengi sögunnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ingólfur Sigurðsson

Höfundur

Ingólfur Sigurðsson
Ingólfur Sigurðsson

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • 5
  • 4
  • 3
  • Image 004
  • Titilblað

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 36
  • Sl. sólarhring: 125
  • Sl. viku: 644
  • Frá upphafi: 133115

Annað

  • Innlit í dag: 26
  • Innlit sl. viku: 494
  • Gestir í dag: 25
  • IP-tölur í dag: 25

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Leita í fréttum mbl.is

Nýjustu myndböndin

Heilbrigðisráðherrann, helbrigðaráðherfan

Í hópnum finn ég hlýja barnatrú

Aldrei fellur auðmagnskerfið

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband