19.9.2021 | 01:31
Hvernig er hægt að þýða orðið sketsaþættir? Skensþættir til dæmis.
Oft er fólk að velta því fyrir sér hvernig sé bezt að þýða orðið sketsaþættir. Ég hygg að hljóðlíkasta orðið og merkingarskyldasta sem er í notkun núorðið sé skens, sem er svipaðrar merkingar, og því rétt að tala um skensþætti. Skens þýðir grín eða háðsglósur.
Óþarfi er að nota orðið sketsaþættir þar sem við eigum mörg íslenzk orð yfir grín.
Orðið skets er sletta úr ensku, en scherzo þýðir á ensku gáskafullur kafli í sónötu eða synfóníu. Síðan hefur orðið færzt yfir í mál skemmtikrafta, nema hvað það kemur upphaflega úr ítölskunni, því mikla tónlistarmáli, sem þarf ekki að koma á óvart.
Orðið skerjála á íslenzku, í merkingunni gjálíf eða ofsakát stúlka hygg ég að sé af þessum sama orðstofni, skjerta á norsku, að grínast, skertana á forngermönsku, að hoppa gleðilega og skered á frumgermönsku, að dansa eða stökkva. Skirja á íslenzku, sem merkir kvíga, ung kýr eða óstýrlát stúlka er að mati Ásgeirs Blöndals komið af sceron, fornháþýzka, að vera kátur, eða miðlágþýzku, scheren, fara, hlaupa, skunda, eða grísku, skaíró, hoppa, stökkva, dansa. Um er að ræða mörg skyld orð í nágrannamálunum.
Orðið skjarr, fælinn, styggur, er einnig skylt orð. Skérs eða skjers væri því ágætt íslenzkt orð eða nýyrði af þessum stofni, sama og orðin í nágrannamálunum.
Skens er svo aftur af öðrum stofni, komið úr dönsku, skænds.
Þeir sem eru andvígir dönskuslettum gætu því frekar kosið nýyrðið skérs eða skjers, sem væri þá svipað ævagömlu forngermönsku orði, sem kannski var til í íslenzku í einhverri mynd, en hefur ekki varðveizt þó í rituðum heimildum.
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (12.1.): 4
- Sl. sólarhring: 43
- Sl. viku: 464
- Frá upphafi: 132132
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 362
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 3
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Örlítil athugasemd. Nýyrðið skérz eða skjerz yrði þá að sjálfsögðu með zetu fyrir þá sem nota zetuna, þar sem t er stofnlægt, ef tekið er mið af norskunni, skjerta. Zetan sem notuð er í ensku útgáfu orðsins er sennilega rökstudd þannig líka. Skertana á forngermönsku hlýtur að vera notað til viðmiðunar.
Annars á meðan zetan er ekki aftur orðin lögleidd myndu fæstir nota orðið nema skérs.
Ingólfur Sigurðsson, 19.9.2021 kl. 01:56
Væri ekki einfaldast að nota gamla og góða orðið "Skrítla og Skrítlur". Skrítlur þýða stuttar gamansögur eða brandarar. Orðið gerir engan greinarmun á því hvert formið er.
Jón Steinar Ragnarsson, 19.9.2021 kl. 09:14
Mér lízt líka vel á þá tillögu. Skrítluþættir. Samkvæmt orðabókinni er orðið skrítla til bæði með yfsiloni og einföldu, en skrýtla með yfsiloni er algengara og viðurkenndara.
Þá er bara að vita hvort þeir sem vinna sem uppistandarar og grínistar núna hafi metnað til að hefja umræðu um þetta, og nota þessi orð - eða finna einhver enn önnur. Hálf lélegt að taka þetta hrátt upp úr enskunni. Það er ekki í anda okkar þjóðar sem finnur nýyrði yfir allt.
Ingólfur Sigurðsson, 19.9.2021 kl. 15:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.